Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
03.04.2008
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar
I  Inngangur: frá fornöld –Gregorianski söngurinn

Kristnin var lögtekin hér á landi árið 1000 og hefst þá saga íslenzkrar kirkjutónlistar. Gregorianski söngurinn var þá lögboðinn í kaþólsku kirkjunni og verður nánar minnst á hann síðar.

Fyrstu áratugina, þar til biskupsstóll var settur í Skálholti, voru hér erlendir biskupar, en um þá er lítið vitað. Þessir menn voru trúboðar, sem tekið höfðu biskupsvígslu til að geta framkvæmt þau embættisverk, sem biskupum einum var heimilt að vinna, jafnframt trúboðsstarfinu. Ekki er vitað, að þeir hafi gert nokkuð til að koma fastri skipan á málefni kirkjunnar. Bernharður hinn bókvísi Vilráðsson dvaldi hér í fimm ár (1016-1021). Hann var hirðbiskup Ólafs helga og enskur að uppruna. Eftir hann kom Norðmaðurinn Kolur, sem andaðist hér á landi, sennilega árið 1025, og er grafinn í Skálholti fyrstur biskupa. Þá kom hingað Róðólfur biskup, enskur að uppruna, sem sagan segir, að hafi sett á stofn klaustur í Bæ í Borgarfirði. Hann dvaldist hér í 19 ár (1030-1049). Eftir það varð hann ábóti í Abingdonklaustri nálægt Oxford og andaðist árið 1052. Íslendingabók nefnir, auk Kols, þrjá aðra slíka biskupa, Jón írska, Bjarnharð hinn saxlenska og Hinrik. Jón írski var hér í fjögur ár, en fór þá til Mechlenburg í Norður Þýzkalandi og var þar drepinn árið 1066. Jón írski er sennilega sami maður og Jóhannes Scotus, sem Aðalbert erkibiskup – eftir sögn Adams í Brimum – á að hafa sent til „hinnar norðlægu eyju“ (Jón biskup Helgason: Almenn kristnisaga, II, bindi, bls. 174). Bjarnharður hinn saxlenski kom hingað 1047 og dvaldist hér í tvo áratugi. Hann bjó norður í Vatnsdal. Hann varð síðar biskup í Selju og eftir það biskup í Björgvin. Hinrik dvaldist hér í tvö ár, en varð síðar biskup í Lundi og andaðist af afleiðingum drykkjuskapar.

Magnús Már Lárusson prófessor segir í vandaðri ritgerð um þróun íslenzkrar kirkjutónlistar, eftir að hann er búinn að telja upp framangreinda trúboðsbiskupa: „Þessi upptalning biskupa sýnir, að Ísland hefur verið hluti af hinum stóra heimi, en yzt á takmörkun hans. Straumar hafi legið hingað, frá Englandi, Saxlandi, Skotlandi og Írlandi, Róm og ef til vill Armeníu“. (Hann var búinn að geta þess, að hér hafi á þessu tímabili verið á ferð „einhverjir dularfullir útlendingar, sem álitið er að hafi verið ermskir og fylgjandi sértrúarflokki Pálikana.“)

Eftir kristnitökuna var farið að reisa kirkjur á ýmsum stöðum. Kennimenn hétu því, „að maður skyldi jafnmörgum mönnum eiga heimilt rúm í himnaríki, sem standa mættu í kirkju þeirri, sem hann léti gera.“ Þetta fyrirheit hefur vafalaust hvatt margan manninn til kirkjugerðar. Í fyrstu var ekki aðra presta að fá en útlendinga, þýzka, enska og írska, en þeir voru fáir. Preststaðan var enn ekki orðin eins eftirsóknarverð fyrir Íslendinga og síðar varð, því launin voru lítil og leigupresturinn reyndar ekki annað en andlegur húskarl á heimili kirkjueigenda. Höfðingjarnir gengu þá stundum sjálfir í prestlega stöðu og varð þá prestembættið ekkert annað en aukastarf líkt og í heiðnum sið, þegar þeir voru í senn veraldlegir höfðingjar og hofgoðar.

Enginn gat orðið prestur, nema hann gæti framkvæmt tíðasöng, tónað og sungið. Söngurinn var hinn gregorianski kirkjusöngur og textinn var á latínu. Það var Því þetta tvennt, söngur og latína, sem prestar þurftu að kunna. Fyrstu hálfa öldina eftir kristnitökuna var menntun presta, bæði útlendra og innlendra, mjög ófullkomin. Á þessu varð ekki breyting til batnaðar fyrr en kirkjan fékk sína fyrstu innlendu biskupa og skólar fyrir prestaefni stofnaðir við biskupsstólana.

Árið 1056 varð Ísleifur Gissurarson fyrstur innlendra manna biskup á Íslandi. Hann hafði lært sín prestlegu fræði í klausturskóla í Westfalen. Hann setti á stofn skóla fyrir prestaefni við biskupstólinn í Skálholti. Hann þótti framúrskarandi kennimaður og mikill lærdómsmaður. Í þessum skóla, sem almennt er talinn hinn fyrsti menntaskóli hér á landi, hefur að sjálfsögðu verið lögð mikil áherzla á söng og latínu, því hin kaþólska guðþjónusta var öll prýdd með söng.

Í þessum skóla var Jón Ögmundsson, sem varð fyrstur biskup á Hólum. Eru þjóðkunn eftirfarandi ummæli hans um Ísleif biskup, og oft vitnað til þeirra, þegar rætt er um góða menn og vitra: „Svo var Ísleifur fóstri minn; hann var manna vænstur, manna hagastur, allra manna beztur. – Þá kemur hann mér í hug, er ég heyri góðs manns getið; hann reyndi ég svo að öllum hlutum.“

Gissur Ísleifsson (1081-1118) varð, biskup í Skálholti eftir föður sinn og er líklegt, að hann hafi haldið þar skóla, eða skólinn í Haukadal, sem Teitur bróðir hans hélt, hafi staðið í sambandi við biskupsstólinn í Skálholti, Gissur hafði stundað nám í Þýzkalandi og tekið þar prestsvígslu, eins og faðir hans, og koma með þeim feðgum þýzku áhrifin hingað til lands.

Jón Ögmundsson, fyrsti biskupinn á Hólum (1106-1121) var söngmaður mikill. Eftir að hann kom úr skóla Ísleifs biskups í Skálholti, fór hann utan til frekara náms, fyrst til Noregs og Danmerkur, og síðan til Rómaborgar og Parísar. Hann lék á hörpu og lærði þá list erlendis. Sagan segir, að hann hafi í draumi heyrt Davíð konung leika á hörpu og eftir það hafi hann lagt stund á þetta hljóðfæri. Eftirfarandi saga er um það, hve mikil og fögur söngrödd hans var. Þegar Jón kom sem biskupsefni til Lundar stóð svo á, að Össur erkibiskup flutti aftansöng þar í kirkjunni. Jón fór til kirkjunnar með mönnum sínum, og þegar hann hóf upp raust sína í kirkjunni, varð erkibiskupi hverft við og varð litið aftur og fram í kirkjuna, til að sjá hver hefði slíka rödd, en hann hafði stranglega bannað klerkum sínum að líta fram í kirkjuna, meðan á tíðagerð stæði. Eftir aftansönginn spurðu klerkar erkibiskupinn, því hann hefði sjálfur brotið þau lög, sem hann hafði sett. Erkibiskup afsakaði sig með því, að þvílíka rödd hefði hann aldrei fyrr heyrt af nokkurs manns barka út ganga, og væri hún líkari englaröddum en manna.

Eitt fyrsta verk Jóns biskups var að láta rífa kirkjuna á Hólum og reisa þar nýja og veglega dómkirkju. Hann setti á stofn hjá sér skóla, til að kenna mönnum klerklegar listir og vandaði allt sem bezt til hans. Hann réði svo til sín útlenda lærimeistara, Gísla Finnsson af Gautlandi, til að kenna latínu og veita skólanum forstöðu, og franzkan prest, Ríkini að nafni, til að kenna söng og ljóðagerð, og galt þeim ríflegt kaup, en sjálfur hafði hann eftirlit með kennslunni. Ríkini var svo vel að sér, að hann kunni utanbókar allan þann söng, sem notaður er árið um kring í kaþólskri tíðagerð.

Með Jóni Ögmundssyni berst sú stefna til Íslands, sem kennd er við klaustrið í Klúný. Þetta klaustur er nálægt landamærum Burgunds og tilheyrir Benediktsreglunni. Mikilhæfum ábótum klaustursins var það að þakka, að klaustrið varð brátt allra klaustra frægast á Vesturlöndum og hratt af stað umbótahreyfingu á klausturlífinu. Strangur agi og meinlæti ríkti þar og munkunum var skylt að forðast allt málæði, svo þeir gerðu sig skiljanlega með bendingum og fingramáli. Merkasti ábótinn er Odo (927-943). Hann var strangur og siðavandur og herti enn á klausturaganum. Hans er getið í söngsögunni sem söngkennara og kirkjutónskálds, en þó sérstaklega sem tónfræðings. Ritgerðin „Dialogus de musica“, sem fjallar um kirkjutóntegundirnar, er eignuð honum. Klúný–stefnan krafðist sjálfsafneitunar og hreinleika í líferni manna, en gerði allt til að fegra guðþjónustuna og prýða, og lagði áherzlu á veglegar og skrautlegar kirkjubyggingar, sem prýddar voru listaverkum, og góðan kirkjusöng.

Jón Ögmundsson, sem var hinn ágætasti og vitrasti maður, var snortinn af þessari stefnu. Eins og áður er sagt, lét hann reisa veglega dómkirkju á Hólum, hélt söng- og latínuskóla – „lærðan skóla“ – svo prestar úr þeim skóla væru færir um að flytja hinn viðhafnarmikla kaþólska kirkjusöng. En hitt er þó merkilegra, að hann fyrstur manna hélt uppi alla sína tíð nokkurs konar alþýðufræðslu í stórum stíl, nokkuð í áttina, sem nú eru lýðháskólar í öðrum löndum, og alþýðuskólar hér á landi. „Hvergi í öðrum löndum, svo kunnugt sé, gerðist kirkjan þannig frumkvöðull og leiðtogi alþýðlegrar fræðslu og þjóðlegrar menningar – nema hjá Keltum á fyrstu tímum kristninnar“ (Jón J. Aðils: Íslenzkt þjóðerni, Rvík. 1922, bls. 88).

Jón Ögmundsson efldi mjög kristnihald og góða siðu í biskupsdæmi sínu og var hann í senn andlegur faðir og leiðtogi bæði höfðingja og alþýðu í Norðlendingafjórðungi. Með aldrinum hneigðist hann meir og meir að óbrotnum lífsvenjum og var alþýðan farin að líta á hann sem helgan mann, meðan hann var á lífi, og eftir andlátið varð hann dýrlingur Norðlendinga, þótt aldrei yrði hann löglega tekinn í helgra manna tölu.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>


© Músa