Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
06.04.2008
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

I  Inngangur: frá fornöld til 1800 – Gregorianski söngurinn (framhald 2)

Hér að framan hefur þróun kirkjutónlistar verið stuttlega lýst og verður nú vikið að kaþólska kirkjusöngnum hér á landi. Heimildir um hann eru: hið mikla og merka rit Bjarna Þorsteinssonar „Íslensk þjóðlög“, Kbhvn. 1906-1909; Studier over islandsk musik, Kbhvn. 1900, eftir dr. Angul Hammerich; grein um þróun íslenzkrar kirkjutónlistar eftir próf. Magnús Má Lárusson í Kirkjuritinu, Rvík. 1954; og grein um Sönglist Íslendinga eftir Jón lækni Jónsson í tímaritinu Vöku, Rvík. 1929.

Aðalverkið, sem varðveizt hefur frá kaþólska tímanum er Þorlákstíðir. Þorlákur Þórhallsson hinn helgi var biskup í Skálholti 1177-1193. Fimm árum eftir andlát hans (1198) var lögtekið á alþingi að heita mætti á Þorlák biskup sem helgan mann og skipaðar tvær hátíðir til heiðurs honum, dánardægur hans 23. desember (Þorláksmessa) og dagurinn, sem tekinn var upp helgur dómur hans, 20. júlí (Þorláksmessa á sumri). Á Þorláki biskupi helga var hér fyrrum mikill átrúnaður, og eru til um hann mörg kvæði og lesmál. Langmerkast af öllu því er tíðasöngurinn á Þorláksmessu eða hinar svonefndu Þorlákstíðir. Tíðasöngurinn er varðveittur í skinnhandriti í Árnasafni, og er það messubók frá dómkirkjunni í Skálholti. Textinn er allur á latínu og rímaður, en söngurinn er einraddaður og allur með nótum. Tíðasöngurinn er allur prentaður í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar. Bjarni Þorsteinsson segir:

Söngur þessi er mjög merkilegur, ekki aðeins fyrir það, hve gamall hann er, heldur einkum fyrir hitt, að hann er orktur á Íslandi, eftir íslenzkum rímreglum og undir íslenzkum bragarháttum. Virðist því mjög líklegt, að lagið við tíðasöng þennan sé íslenzkt, tilbúið af einhverjum hinna kaþólsku klerka, og það því fremur, sem hvorki hefur tekist að finna textann né lagið í nokkrum útlendum nótnabókum frá þeim tíma.

Þó skal því ekki neitað, að söngur þessi er byggður á útlendum grundvelli, hér ráða hinar gömlu grísku tóntegundir og söngurinn er allur í anda Gregors páfa; fyrirmyndin er útlend, hér eru hásöngvar og lágsöngvar á víxl, laudate, magnificat, reponsarium, antifona, sequentia, versus et psalmi. En allt innihald söngsins bendir að öðru leyti til þess, að tíðasöngur þessi sé al-íslenzkur og mun því verða haldið fram unz hið mótsetta verður sannað.

Þetta segir Bjarni Þorsteinsson um þennan tíðasöng. Robert Abraham Ottósson dr. phil. rannsakaði síðar Þorlákstíðir og fann fyrirmyndir að söngnum í messusöng Dóminikanakirknanna. Þar með er sannað, að söngurinn er af útlendum uppruna, en vinzað úr nótunum og þeim vikið við, svo söngurinn félli betur að hinum latneska texta, sem er eftir íslenzkan mann og með íslenzkum bragarháttum. Tilgáta Bjarna Þorsteinssonar um að tíðasöngurinn sé saminn af íslenzkum manni hefur því ekki staðist. Robert Abraham Ottósson sýndi ennfremur fram á, að tíðasöngurinn er nokkru yngri en Bjarni Þorsteinsson hafði ætlað.

Bjarni Þorsteinsson birtir í „Íslenzkum þjóðlögum“ sínum nótnaritin í þeim handritum, sem geymd eru í Árnasafni, Konungsbókasafninu í Stokkhólmi og Landsbókasafninu í Reykjavík. Af handritum frá kaþólska tímabilinu hefur eitt sérstöðu og er það handritið frá Munkaþverá.

Þetta handrit er merkilegt fyrir það, að það er elzta íslenzka handritið, þar sem tvísöngur er nóteraður. Það er komið frá klaustrinu á Munkaþverá og skrifað árið 1473. Það er álitið, að Jón Þorláksson, sem lengi var í Bolungarvík, hafi skrifað handritið. Það er sagt um hann, að hann hafi verið bezti skrifari á öllu Vesturlandi og hafi skrifað flestallar kirkjusöngsbækur í þeim landsfjórðungi. Ennfremur er þess getið um Jón, að þá er hann var dáinn, stirðnuðu ekki þrír fingur á hægri hendinni; var þá pennastöng með penna látin milli fingranna, og skrifuðu þá fingurnir þessi orð úr Ave Maria: „Gratia plena, Dominus tecum“.

Í handritinu frá Munkaþverá, sem er úr gamalli messusöngsbók, eru nótur af Agnus dei og Credo in unum deum, en hvorugt lagið heilt. Þessi lög hefur Bjarni Þorsteinsson tekið upp í þjóðlagasafn sitt og ennfremur hefur dr. Angul Hammerich tekiðþetta Credo upp í ritgerð sína: Studier over islandsk musik. Í þessu Credo koma fyrir fleiri tónbil en í tvísöng 18. og 19. aldarinnar, en kvintarnir koma þó langoftast fyrir og eru aðaltónbilið.

Þetta handrit er sönnun þess, að tvísöngur var kominn inn í íslenzkan kirkjusöng seint á 15. öld. Saga Lárentíusar Kálfssonar, biskups á Hólum (1323-30), gefur ástæðu til að ætla, að tvísöngur hafi miklu fyrr verið kominn inn í kirkjusönginn hjá okkur. Lárentius var íslenzkur bóndasonur, söngmaður góður og mikill lærdómsmaður. Hann lét sér annt um skólahald á biskupssetrinu og sönginn í kirkjunni. Í sögu hans er farið þessum orðum um stjórn hans á biskupsstólnum:

Lét hann jafnan, meðan hann var biskup, skóla halda merkilegan; gengu til skóla jafnan fimmtán eða fleiri; Síra Valþjóf skipaði hann rectorem chori, skyldi hann skipa, hvað hver skyldi syngja; lét hann og saman kalla presta og djákna og alla klerka fyrir stærstu hátíðir, jól og páska og Maríumessur. Öllum festum söng hann sjálfur fyrir, og söng messu og prédikaði sjálfur.– Stóð síra Valþjófr jafnan hjá honum og var hann capellanus.– Eftir messuna, sem hann kom í skrúðhúsið, ásakaði hann stundum djákna og klerka fyrir það, sem honum þótti órækilega fara í lestri eða söng eða öðrum hlutum. Hvorki vildi hann láta tripla eða tvísyngja, kallandi það leikaraskap, heldur syngja „sléttan söng“, eftir því sem tónað vari í kórbókum.

Með orðinu að „tvísyngja“ er bersýnilega átt við tvísönginn eða kvintsönginn, sem var farinn að smeygja sér inn í sjálfan kirkjusönginn og hefur sennilega frá fyrstu tíð átt sterk tök í þjóðinni, sem kallaði latínusöng klerkanna „sætan söng“. Tvísöngurinn þótti bragðmeiri. Með að „tripla“ er sennilega átt við Diskantsöng, sem tók við af organum eða kvintsöngnum, þar sem báðar raddirnar eru sama lagið. Diskantsöngurinn var í fyrstu tvíraddaður og var efri röddin kölluð diskant. Þó var diskantsöngurinn talsvert öðruvísi en hinn forni kvintsöngur. Síðar var þriðju röddinni bætt við ofan við diskantinn og var sú rödd kölluð triplum. Efri raddirnar voru frjálsari en neðsta röddin, sem var sjálft lagið (cantus firmus) og höfðu söngmennirnir oft efri raddirnar eins og andinn blés þeim inn. Þetta kallaði Lárentius biskup leikaraskap og fyrirskipaði klerkum að syngja hinn einraddaða gregorianska söng, eins og hann er skráður í kórbækur.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>


© Músa