Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
11.03.2008
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Vantar mynd
I  Inngangur: frá fornöld til 1800 – Lúterski kirkjusöngurinn (framhald 1)

Áður en rætt verður um lúterska kirkjusönginn hér á landi verður aðdragandi siðbótarinnar rifjaður upp með nokkrum orðum.

Þegar komið er fram yfir 1500 er  kirkjuvaldið orðið svo voldugt og sterkt, að konungsvaldinu stendur stuggur af. Bæði stefndu undir niðri að einu og sama takmarki: óskertum yfirráðum yfir landi og lýð. Í þessari valdabaráttu stóð konungsvaldið höllum fæti, þar til því barst óvænt hjálp upp í hendurnar með trúarbragðahreyfingu Lúthers í Þýzkalandi, en sú hreyfing barst óðfluga land úr landi. Kristján III Danakonungur var einn af þeim þjóðhöfðingjum, sem höfðu lag á að færa sér siðaskiptabyltinguna í nyt. Kirkjuskipun sú, sem hann setti í Danmörku árið 1537 var dauðadómur kaþólsku kirkjunnar þar í landi. Hún sópaði burt kirkjuvaldinu og konungsvaldið kom í staðinn. Konungur sjálfur fór úr því með æðstu stjórn allra kirkjumála.

Þegar Kristján III var búinn að brjóta alla mótspyrnu á bak aftur í Danmörku, fór hann að snúa athygli sinni að Íslandi. Hann sendi vorið 1541 Kristófer Hvítfeld með tveimur herskipum til Íslands og undir niðri var sá tilgangurinn, að Hvítfeld skyldi kúga íslendinga til hlýðni við konungsvaldið og hina nýju kirkjuskipun. Kirkjuskipun Kristjáns III var svo lögtekin á Alþingi fyrir Skálholtsbiskupsdæmi árið 1541.

Áratug síðar sendi konungur lið til Norðurlands með tveimur herskipum til að handtaka Jón biskup Arason og syni hans og kúga Norðlendinga til hlýðni við sig og taka Lúterstrú. Jón Arason og synir hans voru þá fallnir frá - líflátnir í Skálholti 7. nóv. 1550 - en það vissi konungur ekki. Norðlendingar sóru konungi eiða sína 15. júní 1551 á Oddeyri við Eyjafjörð. Um þetta segir í gömlum vísuparti:

Herra Christian

herskip send

tvö í Eyiafjörð

með trú hreina.

Mjög voru menn tregir, að taka við hinum nýja sið, enda hafði hinni mestu harðneskju verið beitt og margt gert, sem særði trúartilfinningu sannkaþólskra manna; krossar brenndir og myndir helgra manna brotnar. En þó var siðbótin - „hin hreina trú“, sem Christian sendi hingað - sá aflvaki, sem færði líf og fjör í íslenzkt menntalíf og íslenzkar bókmenntir, en deyfð og drungi hafði ríkt í þessum efnum fyrri hluta aldarinnar eins og á öldinni á undan. Skólar voru settir á stofn, annar á Hólum (1552), en hinn í Skálholti (1553) og var þá fyrst lagður grundvöllur til reglulegs menntalífs í landinu.

Á siðbótaröldinni var mikið gert til að útbreiða hina ungu trú og gróðursetja hana í hjörtum mannanna. Flestar bækur, sem komu út á Hólum og í Skálholti, voru því guðrækilegs efnis, enda réðu biskupar því einir hvað prentað var. Þetta voru hugvekjur, sálmar, fræðilegar bækur, eftir ýmsa höfunda, allt þýtt á íslenzka tungu og ætlað til söngs og lesturs í heimahúsum. Að sjálfsögðu var sjálf ritningin þar í fararbroddi og varð Oddur lögmaður Gottskálksson (d. 1556), eins og kunnugt er, fyrstur til að þýða Nýja testamenntið á íslenzku (Hróarskelda 1540). Hann þýddi og Korvinspostillu (Rostock 1546). Síðan lögðu margir aðrir hönd á plóginn og fjölgaði postillum og öðrum guðsorðabókum, þegar leið á 17; öldina, og þá eignaðist þjóðin nafnkunn sálmaskáld. Mikilvirkastur og áhrifamestur í þessu starfi var Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum (1542-1627) sem lét þýða á íslenzka tungu fjölda guðsorðabóka og lagði þar sjálfur iðna hönd á verkið.

Hólabókin svonefnda er fyrsta íslenzka sálmabókin með nótum. Guðbrandur biskup gaf þá bók út á Hólum 1589. Á undan henni voru komnar út þrjár lúterskar sálmabækur: Sálmakver Marteins biskups Einarssonar, prentað í Kaupmannahöfn 1555, sem notað var við guðsþjónustur í Skálholtsstifti, Sálmabók Gísla biskups Jónssonar, prentað í Kaupmannahöfn 1588, og Sálmabók Ólafs biskups Hjaltasonar, prentað á Breiðabólstað 1562, fyrir Hólastifti. Í Marteinskveri eru aðeins 35 sálmar og allir þýzkir að uppruna. Formálann skrifaði þáverandi Sjálandsbiskup Petrus Palladius.

Áður en rætt verður um grallarasönginn verður hér stuttlega minnst á helztu sálmaskáldin á 17.öld. Á þrengingartímum á þessari lökustu öld í þjóðarævi Íslendinga beindist hugur alþýðunnar einkum að andlegum efnum og skáldin veittu huggun og snertu strengi í hjörtum mannanna. Fyrst skal nefna Sigurð Jónsson, prest á Presthólum (1590-1660), sem var gott og andríkt sálmaskáld. Enn í dag eru sálmar eftir hann sungnir í kirkjum landsins. Einar Sigurðsson prestur að Heydölum (1539-1626), var skáld í miklum metum hjá alþýðu manna. Eftir hann er fjöldi sálma og kvæða í vísnabók. Guðbrandar biskups (Hólum 1612). Í sálmabókinni frá 1945 er eftir hann sálmurinn: „Þá kvöldmálstími kominn var“.  Jón Þorsteinsson píslarvott (d. 1627), svonefndur af því að hann var veginn af Tyrkjum, er þeir rændu Vestmannaeyjar 1627. Hann sneri Davíðssálmum (saltara) í sálmaljóð og kvað Genesissálma út af 1. Mósebók. Þessir sálmar voru í langan aldur mikils metnir af alþýðu, sem lærði þá utan að, og söng þá sér til dægrastyttingar, allt fram undir síðustu aldamót. Aðal snillingur og ljós aldarinnar var Hallgrímur Pétursson(1614-1674), prestur að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Passíusálmarnir hafa verið prentaðir oftar en nokkur önnur bók hér á landi, svo oft, að engin önnur bók kemst þar nærri, enda hefur íslenzk alþýða ekkert skáld skilið betur. Annað mikið trúarskáld þjóðarinnar, Matthías Jochumsson, hefur ort um Hallgrím mikið kvæði og lýkur því, eins og kunnugt er, með þessu erindi:

Trúarskáld, þér titrar helg og klökk

tveggja alda gróin ástarþökk

Niðjar Íslands munu minnast þín,

meðan sól á kaldan jökul skín.

Þá skal nefna séra Ólaf Jónsson á Söndum (d. 1627) Um kvæðasafn hans segir dr. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður: „Kvæðasafn þetta hefur inni að halda andleg ljóð og nokkra sálma með mjög sjaldgæfum og einkennilegum lögum, sem höfundurinn hefur sjálfur samið.“ (Digtningen paa Island, bls. 45) Kvæðasafnið er til í pappírshandriti frá 1693, sem Hjalti prófastur Þorsteinsson hefur skrifað eftir annari eldri bók. Lögin eru 21 að tölu. Þessi ummæli eru eftirtektarverð, því sagt er berum orðum, að séra Ólafur á Söndum hafi samið sönglög, og er hann og Oddur Oddsson, prestur að Reynivöllum, sem dó mjög gamall 1649, fyrstu íslenzku tónskáldin, sem við kunnum að nafngreina. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður segir um Odd „gamla“, eins og hann er kallaður, að hann hafi snúið Davíðssálmum úr frumtextanum í íslenska sálma og nóterað þá undir áður óþekktum lögum. Það liggur næst að skilja þessi ummæli þannig, að séra Oddur hafi sjálfur samið lög við Davíðssálma. Þessi lög voru að skoðun fræðimanna talin týnd, en Bjarni Þorsteinsson hyggur, að um 20 af þessum útleggingum á lögum séra Odds séu að finna í sönglagahandritinu „Melodía“, sem er frá því um 1650, en lögin í því handriti, um 200 að tölu, eru prentuð í hinu mikla þjóðlagasafni séra Bjarna. Í því sönglagahandriti eru einnig mörg kvæði eftir séra Ólaf á Söndum og er sennilegt, að lögin við þau séu flest eftir hann.

Hinn alkunni sálmur: „Vors herra Jesú verndin blíð“ er eftir séra Ólaf, en með þessa fyrirbæn fara prestar iðulega af stólnum, eins og kunnugt er. Séra Ólafur á Söndum orti margt snilldarlega undir einkennilegum og fallegum bragarháttum. Um hann var eftirfarandi vísa ort:

Séra Ólafur á Söndum

sálma og vísur kvað;

margt gott hefur með höndum

hver sem iðkar það;

skýrleiks andagipt;

mig hafa ljóð þess listamanns

langseminni svipt,

Fáir fara lengra,

þótt fýsi að yrkja þrengra.

Loks skal nefna skáldið Stefán Ólafsson, prófast í Vallanesi (1619-1688). Kvæði hans skiptast í tvo meginflokka, eins og reyndar má segja um önnur skáld, sem honum voru samtíða. Annarsvegar eru trúarljóð og sálmar, en hinsvegar veraldlegur kveðskapur. Í sálmabókum okkar frá 1909 og 1945 eru aðeins þrír sálmar eftir hann: „Kær Jesú Kristi“, „Himna rós, leið og ljós“ og „Heyr þú, Jesú, hátt ég kalla“. Eftir hann eru meðal annars Píslarsálmar frumortir og Vikusálmar Kingos þýddir. Í tímaritinu Hljómlistin árið 1913 segir ritstjórinn, Jónas alþinghúsvörður Jónsson, meðal annars þetta um séra Stefán: „þeir, sem ritað hafa æfisögu séra Stefáns Ólafssonar í Vallanesi, minnast lítið á sönglist hans, en geta þess, að hann hafi verið fyrirtaks söngmaður, raddmaður mikill og hafi innleitt mörg fögur lög útlend og sett nokkur saman sjálfur, þ.e. kompónerað. Af lögum þeim, sem eftir hann eru, þekkjum vér fá, en þó eru til tvö af vorum fallegustu sálmalögum, sem kölluð eru melódíur hans, og mun þá með réttu mega eigna honum þau, enda eru þau ekki til í eldri íslenzkum bókum, og í útlendum bókum hafa þau ekki fundist. Þessi lög eru: „Herra, þér skal heiður og lotning greiða“ og „Kær Jesú Kristi“. Fyrra 1agið er frumlegt, en „Kær Jesú Kristi“ er búið til upp úr gömlu útlendu lagi frá 14, öld: „Laus tibi, Christe“.

Mikið tekur lag séra Stefáns fram gamla laginu, og, eins og það er sungið nú, er það hið fegursta fagnaðar og lofsöngslag, sem til er íslenzkt, og stendur í engu að baki lögum dr. Ph. Nicolai: „Vakna, Síons verðir kalla“ og „Gæzkuríkasti græðari minn“ ( „Sjá, morgunstjarnan blikar blíð“), sem kölluð eru konungur og drottning sálmalaganna.“ Þetta eru eftirtektarverðar upplýsingar um tónskáldið í Vallanesi, sem Jónas hefur gefið okkur. Jónas var merkur maður og mjög vel að, sér í íslenzkum kirkjusöng að fornu og nýju. Þess skal getið, að lagið „Sjá, morgunstjarnan blikar blíð“ er nú talið vera þýzkt þjóðlag, en ekki eftir textahöfundinn, prestinn Philipp Nicolai (1556-1608), eins og lengi var álitið.

Eins og áður er sagt hefur Stefán innleitt fjöldamörg útlend kvæðalög og sálmalög, sem fólkið hefur 1ært og sungið. Það er ekki ósennilegt, að sum þjóðlögin okkar, sem sungin hafa verið við texta eftir hann, séu eftir hann sjálfan, eða séu breytingar hans á eldri lögum, sem ekki þekkjast nú, en um það verður ekki sagt með vissu, en fróðir menn hafa bent á, að bragarhættirnir eru nýir og finnast hvergi annarsstaðar en í kvæðum Stefáns. Alkunn eru íslenzku þjóðlögin við kvæði eftir hann: „Björt mey og hrein“, „Ég veit eina baugalínu“ og „Stássmey sat í sorgum“. Við vitum, að lagið „Björt mey og hrein“ er upphaflega pólskt þjóðlag. Tónskáldið Joh. Herman Schein tók það upp í sálmalagasafn sitt 1627. Með ofurlítilli breytingu er lagið orðið þjóðlag hjá okkur, hvort sem séra Stefán hefur gert þá breytingu eða einhver annar eða lagið hefur orðið þannig smám saman í meðferð þjóðarinnar. Íslenzka þjóðlagið „Ég veit eina baugalínu“ við kvæði Stefáns telur Páll Melsteð í endurminningum sínum meðal þeirra laga, sem sungin voru í tvísöng á skólaárum hans á Bessastöðum 1828-1832. Í þeim búningi hefur lagið haft fornlegri blæ en það hefur nú í söngbókum okkar. Hvort lagið er eftir Stefán sjálfan eins og textinn er vitanlega ekkert hægt að segja með vissu.

Það er sennilegt, að séra Stefán hafi kynnst þeim nýjum lögum, sem hann innleiddi hér, á námsárum sínum í Kaupmannahöfn 1643-1648. Þá var söngöld mikil í Danmörku, og Kristján konungur IV, sem unni mjög söng og fögrum listum, fékk erlenda listamenn að hirð sinni. Merkastur þeirra er Heinrich Schüts (1585-1672), eitthvert mesta tónskáld á þeirri öld og nefndur hefur verið „faðir þýzkrar tónlistar“. Schutz var söngstjóri og hljóðfærameistari við hirðina í Dresden, en kjörfurstinn léði Kristjáni IV Danakonungi tvívegis þennan snilling. Schüts var í fyrrra skiptið í Kaupmannahöfn 1634-1635 (til vorsins) og í síðara skiptið 1642-1645, en þá var Stefán þar í borg. Schutz kom til Kaupmannahafnar með hina suðrænu óperutónlist, en í kirkjutónlist er hann einn af merkustu fyrirrennurum Bachs og Handels. Auk hljómsveitarinnar hélt Kristján IV launaðan söngflokk, en í honum voru eingöngu lærðir söngvarar.

Það má gera ráð fyrir því, að jafn söngelskur maður og séra Stefán í Vallanesi hafi ekki látið ónotuð tækifærin til að hlýða á hina fögru músík þar í borg, en söngflokknum var fyrst og fremst ætlað það hlutverk að syngja í kirkjum borgarinnar.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>


© Músa