Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
27.11.2010
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Grallari frá 1691
Forsíða Grallara frá 1691
I  Inngangur: frá fornöld til 1800 – Lúterski kirkjusöngurinn (framhald 2)

Prófessor Angul Hammerich, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan, hefur samið merka bók um sönglistina við hirð Kristjáns IV, og er sú bók doktorsritgerð hans (Musikken ved Christians IV Hof).

Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum, gaf út Hólabókina (Guðbrandsbók) 1589, sem er hin fyrsta íslenska sálmabók með nótum, eins og áður hefur verið sagt. Önnur  útgáfa kom út 1619 og eru í henni  nokkur lög, sem ekki eru í þeirri fyrri. Hólabækurnar eru þó fremur sálmabækur en  kóralbækur, því að mikið vantar á, að nótur séu við alla  sálmana í þeim. Guðbrandur biskup bætti hér úr brýnni þörf og gaf fyrstur manna út íslenzka sálmasöngsbók. Þessi kóralbók er Grallarinn. Af Grallaranum komu út 19 útgáfur, ýmist á Hólum eða í Skálholti, sú fyrsta 1594 og sú síðasta 1779, og var hann hér á landi eina kirkjusöngsbókin í 207 ár. Á þessu tímabili voru tvisvar sinnum gerðar talsverðar breytingar á honum, á 6. útgáfunni (1691 ) og á 11 , útgáfunni (1730), og þá bætt inn í hann nokkrum lögum, sem flest voru þó gömul.

Nafnið Grallari er til orðið af latneska orðinu Graduale eða Responsorium Graduale, en svo var svarsöngur (kórsöngur) nefndur, sem sunginn er í kaþólskri guðsþjónustu, á eftir pistlinum; graduale fékk nafn sitt af þrepunum upp að altarinu, sem kórinn stóð á, meðan hann söng svarsönginn, eins og áður hefur verið sagt; gradus = þrep. Liber gradualisvar sú bók kölluð, sem innihélt alla söngva í kaþólskri guðsþjónustu. Í munni manna var bókin venjulega kölluð blátt áfram Graduale og á íslenzku Grallari.

Grallarinn okkar inniheldur bæði messusöngva og sálmalög til safnaðarsöngs. Í fyrstu útgáfunni 1594 er að finna helgisiðaformið, sem er hið fyrsta form íslenzku kirkjunnar í lútherskum sið, sem við þekkjum og vitum, að hefur verið fylgt fram. Er það ýmsu leyti sniðið eftir Jespersöns Graduale, sem gefinn var út í Kaupmannahöfn 1573, en sú bók innihélt bæði messusöngva og safnaðarsálmalög. Niels Jesperssön var biskup á Fjóni.

Gömlu Grallaralögin okkar eru flest þýzk að uppruna. Þetta eru elztu lútersku sálmalögin, sem rætt hefur verið um hér að framan, og sungin hvarvetna í söfnuðum, þar sem Lúthers kenning breiddist út, fyrst í Þýskalandi og síðan í öðrum löndum Norðurálfunnar. Guðbrandur biskup valdi með aðstoð söngfróðra presta í Hólabiskupsdæmi lögin úr þeim þýzkum söngbókum, sem komu út á 16. öldinni, en nokkur lög tók hann úr hinni elztu dönsku sálmabók, sem kennd er við prestinn og skáldið Hans Thomissön. Sú bók kom út 1569 og var í gildi í dönsku kirkjunni í 130 ár. Í henni eru 286 sálmar og 260 sálmalög, flest þýzk, en nokkur dönsk. Guðbrandur tók danska sálmalagið „Herra guð í himnaríki“ úr þessari bók og ennfremur sálmalagið „Dagur í austri öllum upprennandi nú skín“, en það er hið alkunna greftrunarlag „Allt eins og blómstrið eina.“ Í 6. útgáfu Grallarans 1691 er lagið komið í lydiska tóntegund og er þar rytmískt, en í kóralbókum okkar frá seinni tímum er það hreint dúr-lag. Sennilega er þetta eitt af þeim sálmalögum, sem Páll Melsted sagnfræðingur söng fyrir danska tónskáldið Weyse, þegar það var að ganga frá kóralbók handa Íslandi, en „rentukammerið“ hafði falið Weyse það verk fyrir 200 ríkisdala þóknun. „Weyse handritið“ er hin fyrsta margraddaða kóralbók, sem útbúin hefur verið handa Íslandi.

Páll Melsted segir í „Endurminningum“ sínum: „Það kom fyrir mig fyrsta eða annað árið við Universitetið, að einn af kunningjum mínum, mig minnir stúdent sama árið og ég; J. C. Hansen, fékk mig til að koma með sér til prófessors Weyse, kompónistans mikla, og láta hann heyra íslenzk sálmalög. Weyse var þá að búa til kóralbókina handa Reykjavíkur dómkirkju. Ég gerði þetta og söng fyrir Weyse öll þau sálmalög sem ég kunni og eins og ég hafði heyrt þau sungin í föðurhúsum og á Bessastöðum. Ég var hjá honum allan daginn og hann var mér eins og faðir minn.“

Frumritað af handritinu er glatað en í afriti Péturs Guðjohnsens er það í Landsbókasafninu. Af 60 númerum, sem Weyse skilaði, vantar 5 í afritið. Weyse hefur að sjálfsögðu skráð lögin eins og þau voru lögð fyrir hann, og sennilega hefur hann lagað sum lögin með nokkrum pennadráttum eftir sínum smekk, en hann var snillingur. Pétur Guðjohnsen tók um 16 lög úr Weyse handritinu í sálmasöngsbók sína, svo að segja óbreytt. Eitt af þeim er lagið „Allt eins og blómstrið eina.“

Í kóralbók norsku kirkjunnar, sem nú er í gildi, er sálmalagið „Allt eins og blómstrið eina“ í fallegri raddsetningu, sem er ólík þeirri, sem er í kóralbók okkar. Norska þýðingin á sálminum er eftir Anders Hovden og er þannig:

Som fagre blomen yder

og veks pa grornæm grunn

og upp mot soli bryder

í tidlig morgonstund,

fyrr en dagen endest

vert hastigt slegen av,

so mannelivet vendest,

me hastar mot var grav.

Hólabókin 1619

Borinn er sveinn í Betlehem
úr Hólabókinni frá 1919

Lögin í Hólabókinni (Guðbrandsbók) 1589 voru síðan tekin inn í Grallarann. Grallaralögin eru hin fegurstu sálmalög, sungin og dáð af kynslóð eftir kynslóð í lútersku kirkjunni. En þó heyrast stundum hér á landi raddir í fyrirlitningartón um grallarasönginn. Ekki er þó ástæða til að lasta lögin, því þau eru falleg, en öðru máli var að gegna með sönginn, því hann var oft lélegur, enda beindust aðfinnslur Magnúsar Stephensens kornferenzráðs að því hvernig sungið var, en ekki lögunum, sem sungin voru. Ekkert tónskáld hefur lagt meiri rækt við elztu lútersku sálmalögin en Bach og ekkert tónskáld hefur sýnt þeim meiri sóma en hann, því í passionum hans og kantötum skipa þau mikið og veglegt sæti.

Á grallaratímanum var söngur kenndur í skólunum á Hólum og í Skálholti. Söngkennslan fór fram hljóðfærislaust og sungin voru grallaralög og sennilega lög við andleg og veraldleg kvæði. Aftan við 6. útgáfu Grallarans (1691) er söngfræði eftir Þórð biskup Þorláksson. Þetta er örstutt ágrip, aðeins 7 bls. og eru þar leiðbeiningar í því að syngja eftir nótum. Þetta er fyrsta söngfræðin, sem prentuð er hér á landi og, var síðan prentuð aftan við allar síðari útgáfur Grallarans. Íslendingar höfðu ekki við annað að styðjast í meira en öld, þar til söngfræðiágrip Magnúsar Stephensen kom út aftan við sálmabókina 1801, sem kölluð var Aldamótabókin.

Oddur biskup Einarsson tekur það fram í formálanum fyrir 1. útgáfu Grallarans (1594), að þeir einir skulu syngja í kirkjunni, „sem þar hafa góða hljóðagrein til, svo söngurinn verði góður og fallegur, en ekki svo sem drukkinna manna hróp og kall eða hrinur, þá sitt syngur hver.“ Þessar leiðbeiningar eru sjálfsagt ekki gefnar að ástæðulausu, en þó eru þar ekki aðrar en þær sem söngkennarar í skólum nú á dögum gefa nemendum sínum, en þeir krefjast þess að sungið sé samtaka og fallega og enginn skeri sig úr og raski jafnvæginu.

Tveimur öldum síðar ræðir Magnús Stephensen um hið sönglega ástand hér á landi og er ekki myrkur í máli. Magnús var söngmaður góður, eins og svo margir niðjar Stefáns Ólafssonar í Vallarnesi, lék á langspil, flautu og orgel, og var tónlistin honum hjartfólgin. Hann harmar það, hve kirkjusöngurinn sé taktlaus og lélegur og hefur vafalaust mikið til síns máls, því þá var söngurinn hjá okkur kominn á sitt lakasta stig. Í Vinagleðinni 1797 kveðst hann hafa verið að hugsa um að láta nótur fylgja nýjum bragarháttum í bókinni, en segist þó hafa hætt við það, og bætir svo þessu við; „en þegar Grallararnir sýna, að vor fánýti söngur þekkir engan takt, án hvers hljóð verða óhljóð og dýrðlegir lofsöngvar grenjast fram, fari þá vel öll sönglist og allur íslenskur sálmasöngur !“. Við sama tón kveður hjá honum í formálanum fyrir sálmabókinni 1801 og segir hann, að það komi því miður fyrir, „að hver gauli í belg og keppist máta- og aðgreiningarlaust, sumir að grípa hver fram fyrir annan, og sumir að draga seiminn hver öðrum lengur .“ Ennfremur finnur hann að því, að mönnum hætti við að syngja alltof sterkt, svo „æðarnar verði upp blásnar á höfði og öllu andliti af ofsanum.“

Þessi orð hins merka brautryðjanda upplýsingarstefnunnar hér á landi eru töluð af heilagri vandlætingu og vissulega er lýsing hans á söngnum í lok grallaratímabilsins ekki fögur, en sem betur fer, átti hún ekki alls staðar við. Kirkjusöngurinn hefur verið, eins og gefur að skilja, harla misjafn, eftir því hvort forsöngvari og prestur voru smekkmenn á söng eða ekki.

Ólafur Davíðsson segir í riti sínu „Íslenzkar skemmtanir“ (Khvn. 1888-1892), að Íslendingar hafi aldrei rist djúpt í söng. Bjarni Þorsteinsson er á annari skoðun og bendir á gagnmerka heimild eftir Arngrím Jónsson lærða (í Anatome Belfkiana, útg, Hólum 1612), en þar segir svo: „Að því er sönglist snertir og lagfræði, hafa landar mínir ekki verið svo illa að sér, að þeir hafi ekki getað búið til hljóðfæri upp á eigin spýtur, og tekist vel. Og lagfræðina hafa þeir þekkt allt fram á þennan dag. Sumir hugsa jafnvel upp lög með fjórum, fimm eða fleiri röddum og syngja þau all laglega.“ Síðan segir Bjarni Þorsteinsson: „Þetta segir Arngrímur, og er ekki fært að rengja það, þar sem hann var vitur maður, allra manna lærðastur og hafði hið bezta skyn einmitt á þessum hlutum.“ Arngrímur tekur það skýrt fram, að Íslendingar hafi samið og sungið margrödduð lög um hans daga. Slík lög eru til í handritum. Í sönglagahandritinu „Melodía“, sem er frá um 1650, er lagið nr. 115 (Heyr oss himnum á) kanónn í tvísöng, samansettur af 4 pörtum og syngja raddirnar þessa sömu parta á víxl. Ennfremur eru í því handriti lögin nr. 197 (Ad cantus letice) og nr. 200 ( Ó, Jesú, sjálfur Guðs son) kanónar í tvísöng. Lögin eru prentuð með öðrum lögum úr handritinu í þjóðlagasafni séra Bjarna Bjarni Þorsteinsson bendir ennfremur á eftirfarandi orð Gísla sýslumanns Magnússonar á Hlíðarenda (1621-96), sem var hinn lærðasti maður sinnar tíðar, - kallaður „Vísi-Gísli“ - í riti hans Relatio de Islandia (1647): „Fyrr meir var list þessi tíðkuð og mikilsmetin og lagði því fjöldi manna hina mestu stund á hana, en nú er hún nær því gleymd og engir hugsa um hana.“ Þessi síðustu orð benda á það, að þá hefur afturförin verið byrjuð og hefur hún haldið, áfram, þar til söngurinn var kominn á sitt lakasta stig um og eftir 1800. Þess skal getið hér, að „Vísi-Gísli“ stakk upp á því í ritgerð sinni um viðreisn Íslands, að stofna söngskóla á Þingvöllum og ráða til skólans erlenda söngkennara, Til er lýsing erlends manns á söngnum hjá okkur í lok grallaratímabilsins. Svíinn Uno von Troil lýsir söng okkar Íslendinga í ferðabréfum sínum frá Íslandi, en hann kom hingað til lands með leiðangri Josephs Banks sumarið 1772. Hann segir þar svo: „Þá er að minnast á rímnalesturinn, þar sem kvæði eru þulin og stundum sungin herfilega illa . Á mannfundum skemmta þeir sér ennfremur við vikivaka, karlar og konur takast í hendur og syngja viðeigandi víxlsöng hvort til annars, en kór tekur stundum undir. Ekki þykir útlendingum þessi leikur ýkja skemmtilegur, því Íslendingar syngja flestir ákaflega illa, hljóðfallslaust og leiðinlega, og hafa ekki minnstu hugmynd um unað hinnar nýrri tónlistar“. (Uni von Troil: Bréf frá Íslandi, ísl. Þýðing, bls. 66, Rvík. 1961).

Lýsing hins sænska menntamanns fer í sömu átt og lýsing Magnúsar Stephensens á söngnum hjá okkur tæpum 30 árum síðar. Það kemur engum á óvart, þótt útlendingar átti sig ekki á íslenzkum rímnakveðskap og er það svo enn í dag. Margir kannast við það , sem haft var eftir sjómönnum á útlenzkum fiskiskipum hér við land, sem lögðu það í vana sinn að hlusta á Reykjavíkurútvarpið. Þegar þeir heyrðu rímur kveðnar, sögðu þeir, að nú væri „vitlausi maðurinn“ kominn í útvarpið.

Uno von Troil var merkur maður og velviljaður Íslendingum og segir ekki annað en það, sem hann veit sannast og réttast, og verða því ekki þau ummæli hans vefengd, að flestir Íslendingar syngi ákaflega illa. En í þessum ummælum felst þó, að hann gerir undantekningu frá reglunni, enda á liðnum öldum verið uppi á Íslandi góðir söngmenn, sem orð fór af. Einn þeirra er Friðrik prestur Thorarensen á Breiðabólstað í Vesturhópi (d. 1817). Páll amtmaður Melsteð heyrði séra Friðrik eitt sinn syngja í kirkju og kvaðst aldrei áður hafa heyrt önnur eins hljóð, og svo var röddin sterk, að Páll fann bekkina titra undir sér þegar séra Friðrik fór sem dýpst niður eða í „undirbassann“. En til er önnur lýsing á söng séra Friðriks, sem sýnir að hann hafði fleira sér til ágætis en mikil og fögur hljóð, því sagt er að í söngmannaveizlu hjá Geir biskupi Vídalín í Reykjavík, hafi söngur séra Friðriks hrifið menn svo mjög, að tárin komu í augu sumra þeirra, sem viðstaddir voru. Það er ekki minna vert um þessa lýsingu, því að hún sýnir, að séra Friðrik hefur sungið af sál og tilfinningu.

Séra Friðrik var bróðir Vigfúsar sýslumanns Thorarensens á Hlíðarenda (d. 1819), sem var söngmaður góður, eftir því sem Espólín segir. Sonur hans, þjóðskáldið Bjarni Thorarensen, var ágætur söngmaður og gleðimaður eins og sjá má af þessari vísu, sem hann orti um sig á efri árum sínum:

Ungur þótti ég með söng

yndi vekja í sveina glaumi.

Þótt Íslendingar hafi oft og tíðum sungið illa og af lítilli kunnáttu, þá hafa þeir þó ávallt sungið, því að þeir eru söngglaðir og hafa fögur hljóð, eins og aðrar fjallaþjóðir. Einangrun landsins olli því, að hér gætti ekki mikilla tónlistaráhrifa frá útlöndum, þar sem listin var háþróuð. Hljóðfæraskorturinn olli því, að hér ríkti einhliða söngmenning, og, skorturinn á útlendum nótnabókum, að þjóðin söng lög, sem hún bjó til sjálf. Lítið af þeim fjölda þjóðlaga hefur varðveizt, því þau voru aldrei sett á nótur; þau lifðu aðeins á vörum fólksins, en þau lög, sem varðveizt hafa, eru sérkennileg og ólík lögum annarra landa.

Það er talið áreiðanlegt, að söngur og söngþekking hafi verið mikil hjá okkur í kaþólskri tíð og fram yfir siðaskiptin. Kaþólsku klerkarnir lærðu ósköpin öll af tíðasöng og það var ofætlun hverjum manni að kunna það allt utanbókar. Þeir lærðu því að syngja eftir nótum og urðu margir prestar og biskupar mæta vel að sér í söng, auk þess sem margir voru góðir söngmenn. Frá prestunum breiddist svo söngleg þekking út til fólksins. Bjarna Þorsteinsson segir, að gullaldartímabil söngsins hjá okkur, aðallega kirkjusöngsins, hafi verið á síðustu öldum pápískunnar og fyrst eftir siðaskiptin, en afturförin byrjað á 17. öld og á sitt lakasta stig hafi kirkjusöngurinn verið kominn frá því að hætt var við Grallarasönginn almennt, um og eftir 1800, og þar til viðreisnartímabilið hófst um miðja 19. öld með Pétri Guðjohnsen.

Á Grallaratímanum reyndu menn að bæta sér upp nótnaskortinn með skrifuðum sálmalagasöfnum og bendir það á mikinn sönglegan áhuga hjá þeim, sem það gerðu. Þessi sálmalagasöfn innihéldu lög, sem ekki voru í prentuðum bókum, mörg sennilega íslenzk, auk laga úr Grallaranum og öðrum sálmabókum. Þetta má sjá af eftirmálanum, sem Hálfdán Einarsson, skólameistari á Hólum (1732-1785) ritaði við Höfuðgreinabókina, en sálmabókin er prentuð á Hólum 1772 og eru í henni 40 lög með nótum. Í eftirmálanum segir skólameistarinn meðal annars svo: „Nokkrir af sálmum, hverrar lög að miklu leyti taka að ganga almenningi úr minni, finnast hér nóteraðir, annaðhvort eftir sálmabók herra Guðbrands, eða eftir því, sem þá hefi in manuscriptis fyrirfundið, hvar til mér hefur ei litla liðsemd veitt æruverðugur guðsmaður síra Guðmundur Högnason í Vestmannaeyjum.“ Tvö íslenzk sönglagahandrit eru í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar: „Melodia“ og „Hymnodia Sacra.“

Handritið „Melodia“ er geymt í háskólasafninu í Kaupmannahöfn (Handritasafn Rasks No. 98, 8vo). Það er frá 17. öld og ritað af Jóni nokkrum Ólafssyni, sem Bjarni Þorsteinsson og Jón  Þorkelsson þjóðskjalavörður halda, að sé sonur Ólafs Jónssonar á Söndum (d. 1627), en Jón Helgason prófessor telur, að hér muni átt við Jón Ólafsson Indíafara. Sönglögin í handritinu eru 226 að tölu, allt einrödduð lög, að undanteknum nokkrum tvísöngslögum. Þetta er lang stærsta söngvasafn, sem við eigum frá liðnum öldum. Það er skoðun Bjarna Þorsteinssonar og Jóns Þorkelssonar, að 92 fyrstu lögin séu frumsamin af nefndum Jóni Ólafssyni og er sú skoðun byggð á því, að eftir 93 laginu stendur: „Allt hingað til Jóns Ólafssonar tónar, nema það síðasta.“ Þessi orð verða varla skilin á annan veg en að Jón Ólafsson hafi samið þessi lög; segir Bjarni Þorsteinsson. Þá eru í handritinu lög við mörg kvæði eftir Ólaf á Söndum og við útleggingar Odds „gamla“ á Reynivöllum á Davíðssálmum, og eru sennilega mörg lögin frumsamin af þeim.

Jón Ólafsson setur þessa fyrirsögn við síðasta kaflann í „Melodia“: Lög úr sálmabókinni. Hann á við Grallarann. Með þessari fyrirsögn gerir hann skýran greinarmun á þeim lögum í handritinu, sem sennilega eru íslenzk, og þeim útlendu, sem eru í Grallaranum og öðrum söngbókum.

Á fremstu blaðsíðu handritsins stendur að vísu: Nokkrir útlendir tónar með íslenzkum skáldskap. Bjarni Þorsteinsson bendir á, að þessi ummæli samrýmist illa því, sem stendur á eftir 93 laginu: „allt hingað til Jóns Ólafssonar tónar, nema það síðasta“, og síðan færir hann sterk rök fyrir því, að lögin séu flest íslenzk, en um það má lesa nánar í þjóðlagasafni hans. Loks bendir hann á, og það er ekki þýðingarminnst, að eftirmáli handritsins byrjar þannig: „Ísland hefur mikið af ágætum lögum og töluvert af þeim hefur verið sett í þessa bók.“

„Melodia“ inniheldur að langmestu leyti andleg 1jóð og sálma, en í handritinu eru einnig veraldleg kvæði um glens og gaman, amorsvísur o.fl. Bjarni Þorsteinsson segir um lögin: „Það er ætlun mín, að mikill hluti laganna sé innlend lög, og þau lög, sem ef til vill geta talist útlend, þegar handritið var skrifað, eru orðin innlend nú, bæði af því að þau hafa dvalið vor á meðal undir 300 ár, eða lengri tíma, og af því að þau hafa ekki fundist í útlendum bókum; þau verða að minnsta kosti talin innlend, þangað til annað sannast um uppruna þeirra.“

Hann bendir þó á erlendan uppruna nokkurra laga í athugasemdum við þau í þjóðlagasafni sínu - lögin eru þarúr moll í lydiska tóntegund - en telur þau sjálfsagt orðin íslenzk við þessa breytingu. Mörg hinna svokölluðu „gömlu laga“ urðu til á þennan hátt, en ástæðan fyrir breytingunni var sú, að söngur fór þá yfirleitt fram hljóðfærislaust, en lydiska tóntegundin átti sérstaklega vel við tvísöng; sem þjóðin iðkaði mikið, og sú tóntegund var hjá okkur fyrr svo algeng, að dr. Hammerich sagði að með réttu mætti kalla hana íslenzka tóntegund.

Þá get ég bent á, að lag nr. 166 í „Melodia“ (Lávarður vor) er ekki íslenzkt. Þetta er frægt sálmalag, eignað sálmatónskáldinu franska Claude Goudimel (1505-1572), sem var með réttu eða röngu grunaður um að vera Hugenotti og myrtur í París 1572 í blóðbaðinu í Bartolomeusarnóttinni. Þetta 1ag er í kirkjusöng lútersku kirkjunnar enn í dag. Sennilega mætti finna fleiri útlend. lög í „Melodia“ ef vel væri leitað.

Þótt lögin í „Melodia“ flest hafi ekki átt erindi nema til sinnar samtíðar, þá er líklegt að þar megi finna perlur, sem endurvekja mætti til lífsins og syngja inn í þjóðina, eins og tókst með passíusálmalagið gamla: „Víst ert þú, Jesús, kóngur klár“ í raddsetningu Páls Ísólfssonar. Mörg lögin eru falleg og sérkennileg.

Hymnodia Sacra“ er merkilegt sönglagahandrit frá miðri 18. öld, sem presturinn Guðmundur Högnason í Vestmannaeyjum hefur skrifaði og dagsett 1742. „Hymnodia sacra“ inniheldur 110 andleg lög, þar af hafa 87 lög hvergi fundist í nótnabókum og hefur Bjarni Þorsteinsson tekið þau í þjóðlagasafn sitt, því að hann telur lögin innlend, að minnsta kosti þar til annað sannast. Eitt af þessum lögum er þó áreiðanlega útlenzkt, en það er lagið „Einn herra ég bezt ætti“, sem er gamalt kaþólskt lag, að líkindum danskt. Það kemur fyrst fyrir hjá Hans Thomissön 1569 og hjá okkur í Hólabókinni 1589, en í Grallaranum er það ekki. Upphaflegi lagboðinn er: „Ég vil eina jómfrú lofa“, gamall kaþólskur lofsöngur um Maríu mey. Þessar upplýsingar um lagið gefur Jónas alþingishúsvörður Jónsson í Passíusálmum sínum (Rvík. 1906-07) og birtir þar lagið við 6. sálminn.

„Hymnodia sacra“ er fyrst og fremst sálmasafn og er hver sálmur skrifaður í heild sinni, og eru margir þeirra mjög langir, enda er handritið, 467 blaðsíður. „Melodia“ er aftur á móti eingöngu sönglagasafn og þar er aðeins fyrsta erindið með nótum, svo sem algengt er í söngbókum, en öðrum erindum sleppt. Séra Guðmundur Högnason hefur sjálfsagt verið söngfróður maður, en safnið ber það með sér, að honum er mest annt um sálmana, sem margir eru dýrt kveðnir, enda fer hann í formálanum mörgum orðum um nytsemi þeirra. Hann tekur þó fram, að hann telji handritinu það til gildis, að í því séu þau sönglög, sem ekki eru í hinni almennu messusöngsbók, þ.e. í Grallaranum.

Leirárgörðum 1801, Aldamótabókin svonefnda, sem einnig var uppnefnd „Leirgerður“. Sú bók var þó aldrei fyrirskipuð, heldur var notkun hennar leyfð, en hún fól í sér breytingu á messusöngnum, auk þess sem í henni voru nýir sálmar og breytingar á gömlum sálmum, Grallaralögin munu yfirleitt ekki hafa verið rétt sungin eftir nótunum, því fáir kunnu að lesa þær, svo að lögin smám saman afbökuðust í munni fólksins og fengu breytta mynd, sem í mörgum tilfellum hefur sjálfstætt gildi. Þannig urðu hin svonefndu „gömlu lög“ til, sem þjóðin hafði miklar mætur á. Þótt ný sálma- og messusöngsbók væri tekin til notkunar í kirkjunni, héldu menn fast við gamla grallarasönginn langt fram eftir 19. öldinni, enda átti Aldamótabókin litlum vinsældum að fagna meðal presta, og enn minni hjá söfnuðunum.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>


© Músa