Tónlistarsaga Reykjavíkur, tímabilið 1800 - 1900: Bjarni Þorsteinsson (1861 - 1938)
  EfnisyfirlitVefur sr. BjarnaÍslenzk þjóðlög —>  

Söngur skólapilta

Bjarni Þorsteinsson kemur fyrst við sögu í sönglífi Reykjavíkur síðasta veturinn, sem hann er í Latínuskólanum, 1882-83, en þá er hann söngstjóri stúdenta-og skólapilta-kórsins. Þá var mikið sönglíf í skólanum og söngglaðir skólapiltar létu sér ekki nægja að syngja í söngtímum hjá hinum snjalla söngkennara skólans, Steingrími Johnsen, heldur sungu þeir einnig í hinum sameiginlega söngflokki stúdenta og skólapilta og söngstjórinn var ávallt einn úr þeirra hóp. Og meira að segja, þá létu ekki allir sér þetta nægja, og sungu einnig með "Hörpu" undir stjórn Jónasar Helgasonar.

Söngur skólapilta á Langaloftinu hafði verið með helztu viðburðum í hinu fábreytta skemmtanalífi bæjarbúa, allt frá því að þeir héldu þar hina fyrstu opinberu söngskemmtun, sem haldin hefur verið á Íslandi, 2. apríl 1854, undir stjórn söngkennara skólans, Péturs Guðjóhnsens. Þá voru fjórrödduð karlakórlög í fyrsta sinn sungin opinberlega hér á landi. Hjá skólapiltum Latínuskólans er hann upprunninn og þeir urðu fyrstir til að syngja "hinn nýja söng" hjá okkur, lögin eftir Bellman, Wennerberg, Otto Lindblad, Franz Abt og fleiri þekkt tónskáld.

Söngfélag skólapilta efndi oftast til söngskemmtunar í skólanum um páskaleytið og buðu bæjarbúum að hlusta á. Aðgangur var ókeypis. Þótti þetta jafnan hin bezta skemmtun.

Þá var útisöngur skólapilta á skólatröppunum ávallt skemmtileg tilbreyting í bæjarlífinu. Flestir bæjarbúa bjuggu þá í kvosinni milli Þingholtsins og Grjótaþorpsins. Í lognkyrrðinni hljómaði söngurinn um bæinn og vegfarendur staðnæmdust og margir skunduðu að til að hlusta. Halldór Jónasson frá Eiðum hefur lýst þessu þannig í eftirmælum sínum um Bjarna Þorsteinsson: "Fyrr á dögum, þegar listin var í bernsku, var hér sannnefnt tónlistarhungur allra söngvina; þá þyrsti í söng og tóna. Ef einhversstaðar heyrðist ómur af söng eða hljóðfæraslætti, létu menn allt annað kyrrt liggja og þutu til úr öllum áttum til að hlýða á."

Þetta er rétt lýsing á þeim músíkþorsta, sem þá var hjá fólki. "Harpa" undir stjórn Jónasar Helgasonar söng einnig við og við úti undir beru lofti bæjarbúum til skemmtunar. Tilefnið var ekki annað en góða veðrið. Þegar komið var á söngæfingu, lokkaði góða veðrið söngmennina út og þeir vissu, að söngurinn var vel þeginn af þeim, sem á hlýddu. Þessi siður hélzt hjá karlakórum í Reykjavík út öldina og miklu lengur, en nú heyrist ekki karlakór syngja úti nema á þjóðhátíðardaginn og við önnur slík tækifæri. Bærinn er ekki lengur eins og ein stór fjölskylda eins og hann var í gamla daga.

Einn af söngstjórum söngflokks skólapilta og stúdenta var Árni Beinteinn Gíslason (1869-1897). Hann var fæddur í Reykjavík, sonur Gísla Magnússonar, kennara við Latínuskólann, og Ingibjargar Schulesen, ekkju Sigfúsar Schulesen, sýslumanns í Þingeyjarsýslu. Árni Beinteinn varð stúdent 1886 með bezta vitnisburði, þá enn ekki orðinn 18 ára, og var það sjaldgæft í þá daga, að svo ungur stúdent útskrifaðist. Hann sigldi til Hafnar, las lögfræði við Háskólann, en lauk ekki prófi, því að margt annað heillaði hugann, einkum tónlist. Hann andaðist þar 27 ára gamall.

Árni Beinteinn var stjórnandi söngflokks skólapilta og stúdenta 1884-86. Ólafur Davíðsson segir um hann: "Og er sönglist talin hafa þá verið í mestum blóma undir forustu hans. Átti hann mikinn þátt í því, að ýmsir skólapiltar, sem síðar hafa orðið gæðasöngmenn, lærðu að beita hljóðum sínum." Árni Thorsteinson, sem var skólabróðir hans, telur hann afbragðs söngstjóra og segir: "Var Það löngu síðar mál margra, sem gott skynbragð báru á söng og smekkvísa söngstjórn, að aldrei síðar hefðu þeir heyrt betri kórsöng en undir hans stjórn, jafnvel ekki í Kaupmannahöfn, er þeir heyrðu þar sænska stúdenta syngja."

Ennfremur segir Árni Thorsteinson: "Þessi sönghópur hafði þá á að skipa tveimur ágætum einsöngvurum. Voru það þeir Geir Sæmundsson, síðar vígslubiskup, og Björn Gunnlaugur Blöndal, sem ég hef áður minnst. Geir var framúrskarandi raddmaður, tenór. Var rödd hans svo fögur og hrífandi í þá daga, að áheyrendum flestum vöknaði um augu, er hann söng einsöng með kórnum, t.d. í lagi eftir Ole Bull, "Paa solen jeg ser", "Du gamla, du fria" og fleiri lögum, sem sungin voru á samsöngum félagsins, en þeir voru jafnan haldnir í skólahúsinu og bæjarbúum boðið til þeirra. Björn G. Blöndal var fyrirtaks bassbarytón, röddin sterk, karlmannleg og hljómmikil."

Árni Beinteinn samdi um 20 sönglög. Af þeim hafa aðeins tvö verið prentuð: "Árræði, dirfska og orka og kraftur", sem íslenzkir stúdentar í Kaupmannahöfn sungu á fimmtíu ára afmæli endurreisnar AlÞingis. Textinn er eftir Þorstein Gíslason. Lagið er prentað í Sunnanfara 1895. Hitt lagið er "Vindarnir þjóta með snarhvini snarpa", prentað í Íslenzku söngvasafni II, nr. 129, og í Söngvasafni L. B. K. 1954, 2. hefti, nr. 14, þar raddsett fyrir blandaðan kór, en lagið er upphaflega samið sem karlakórlag. Textinn er lauslega þýddur af Guðmundi Guðmundssyni.

Í eftirmælum eftir Árna Beintein Gíslason í Sunnanfara 1897 segir Ólafur Davíðsson, að það hafi verið ætlun Árna Beinteins "að semja íslenzka söngsögu og greiða úr því, hver af þessum lögum, sem nótusett eru í íslenzkum handritum, eru íslenzk". Af þessu tilefni segir Bjarni Þorsteinsson í íslenzkum þjóðlögum, bls. 502: "Svo mikið er víst, að hann var mjög stutt kominn á veg í þessu mikla verki; hann hafði eftir eftirlátnum blöðum hans að dæma, er ég kynnti mér 1899, aðeins skrifað upp fáein lög úr tveimur handritum í Árnasafni. En þar er ég fullkomlega á sama máli og Ólafur Davíðsson, að vér höfum misst mikið, þar sem Árni Beinteinn var, bæði að því er snertir rannsókn íslenzkra Þjóðlaga í handritum og ekki síður tilbúning nýrra laga (komposition), því í þeirri grein hafði hann hina beztu hæfilegleika."

Bjarni Þorsteinsson tók stúdentspróf vorið 1883 með 1. einkunn og var þriðji hæstur á prófinu. Í sagnfræði fékk hann ágætis einkunn og hefur sú fræðigrein orðið honum snemma hugleikin. Næstu þrjú árin var hann við skrifstofu- og kennslustörf í Reykjavík, en veturinn 1885-86 var hann heimiliskennari og sýsluskrifari hjá Lárusi Blöndal á Kornsá í Vatnsdal, þar sem hann kynntist konuefni sínu, Sigríði, dóttur sýslumannsins. Bjarni var latínumaður góður og var honum falin stundakennsla í því fagi í Latínuskólanum 1884-85 í fyrsta og öðrum bekk. Bjarni afréð svo að fara í Prestaskólann haustið 1886 og lauk þaðan embættisprófi 24. ágúst 1888. Um haustið vígðist hann til Hvanneyrarprestakalls í Siglufirði og þjónaði því kalli fram á sumar 1935, er hann fékk lausn frá embætti.

Meðan Bjarni var í Prestaskólanum, stjórnaði hann söngflokki skólapilta og stúdenta. Hann var því tvívegis söngstjóri kórsins og jafnframt sá síðasti, því eftir það varð aðskilnaður, þannig að skólapiltar höfðu sérstakan söngflokk fyrir sig.

Kristján Kristjánsson (1870-1927), síðar læknir á Seyðisfirði, tók við söngstjórninni af Bjarna Þorsteinssyni og stjórnaði skólapilta kórnum tvö síðustu skólaár sín, 1888-90. Árni Thorsteinson var bekkjarbróðir hans. Hann segir, að Kristján hafi verið söngmaður af lífi og sál og hafi stjórnað kórnum með mestu prýði. Kistján samdi nokkur sönglög, sem flest eru óprentuð, kunnustu eru "Yfir kaldan eyðisand" og "Hafaldan háa", sem bæði eru í Íslenzku söngvasafni II og fyrrnefnda lagið er auk Þess í Organtónum I.

Skólapiltakórarnir lágu niðri á köflum. Sá sem þetta ritar, minnist þess, að Emil Thoroddsen æfði sérstakan skólapiltakór og stjórnaði honum á árunum 1914-17.


EfnisyfirlitVefur sr. BjarnaÍslenzk þjóðlög —> 
Vefstjóri21. júlí 2001 © Músa