Tónlistarsaga Reykjavíkur, tímabilið 1800 - 1900: Bjarni Þorsteinsson (1861 - 1938)
  <— Tvísöngslögin / Rímnalögin Efnisyfirlit 

Tónskáldið

Á tónskáldinu Bjarna Þorsteinssyni eru tvær hliðar, önnur snýr að kirkjusöngnum, en hin að hinum verzlega söng. Það er einmitt sem tónskáld, að hann komst fyrst í snertingu við þjóðina.

Íslenzkur hátíðasöngur - víxlsöngur milli prests og safnaðar á stórhátíðum kirkjunnar - er fyrsta frumsamda tónsmíðin eftir hann, sem prentuð er. Hátíðarsöngvarnir eru prentaðir í Kaupmannahöfn 1899. Ný útgáfa kom út 1926, en þá höfðu þeir lengi verið uppseldir. Í Hátíðarsöngvunum er lyfting og sérkennilegur helgiblær, sem hefur sett svip á stórhátíðir kirkjunnar hjá okkur - á jólanótt, nýársnótt og föstudaginn langa. Þeir hafa verið sungnir í kirkjum landsins í hart nær 70 ár og er það sönnun þess, að þeir eru að skapi þjóðarinnar.

Aðeins tvö sálmalög eftir séra Bjarna hefi ég séð, og eru þau bæði í Viðbætinum við sálmasöngsbók hans. Lögin eru þessi: "Konungur lífsins kemur hér til sala" og "Ó, blessa guð vort feðra frón." Hér ber að nefna inngangslagið að sálmasöngsbók hans frá 1903: "Sælir eru þeir, sem heyra guðs orð og varðveita það" (Lúk. XI.28).

Meðal kirkjulegra tónsmíða eftir hann er Prelúdía í e-moll, sem birtizt í Organtónum II og ætluð er til notkunar við jarðarfarir. Þetta er lítið lag, en hnitmiðað.

Bjarni Þorsteinsson bjó til prentunar Íslenzka sálmasöngsbók (Rvík,1903). Viðbætir við hana kom út 1912. Þetta verk var honum falið að vinna, því þá var orðin brýn þörf á nýrri kóralbók. Þá var í prentun ný sálmabók, þar af margir sálmar með bragarháttum, sem ekki höfðu verið notaðir áður, og því nauðsynlegt að fá ný lög. Mörg af hinum nýju lögum í viðbætinum hafa síðan verið sérstaklega mikið sungin. Meðal þeirra eru hinir frægu kvöld- og morgunsöngvar eftir Weyse, sem áður voru komnir inn í danskar kóralbækur, þótt þessir andlegu söngvar séu strangt tekið ekki eiginleg sálmalög hvað stílinn snertir. Nokkur fleiri lög hefur hann tekið í sálmasöngsbækurnar, sem ekki eru sálmalög og hafa ekki kirkjulegan tón, þar á meðal óperulög, eins og "Hátt ég kalla" eftir Weber, sem er úr óperunni Freyschütz, og "Í dag er glatt í döprum hjörtum", sem er úr óperunni Töfraflautunni eftir Mozart. Séra Bjarna þótti kirkjusöngurinn helzt til þunglamalegur og fjörlaus og það vakti fyrir honum að gera hann léttari og líflegri. Að því stefndi hann með lagavalinu.

Bjarni Þorsteinsson hefur nær eingöngu samið sönglög. Hann er söngvaskáld. Gáfa hans er ljóðræn og lögin eru blæfögur. Þótt hann hafi þekkt svo vel þjóðlögin okkar með miðaldasniðinu, rímnalögin og tvísöngslögin í lydisku tóntegundinni, þá gætir þess lítið í list hans. Hins vegar eru það hin fögru útlendu sönglög, sem hann var vakinn og sofinn í alla sína skóla- og stúdentstíð, að hans eigin sögn, sem hafa áhrif á hann sem tónskáld. Það er rómantíkin, tíðarandinn sem litar hin ljóðrænu sönglög hans. Og áhrifin koma aðallega frá skandinaviskum sönglögum, því þau þekkti hann bezt. Og þó er andinn íslenzkur. Það væri varla hægt að hugsa sér, að annar en íslenzkur maður hafi getað samið sönglög eins og t.d. "Eitt er landið ægi girt" eða "Fjalladrottning móðir mín". Það er einhver hjartans hlýja og heiðríkja í þessum lögum.

Árið 1904 kom út eftir Bjarna Þorsteinsson Tíu sönglög með píanóundirleik. Þessi sönglög gerðu höfundinn strax þjóðkunnan og á þeim hefur tónskálda frægð hans fyrst og fremst hvílt síðan, ásamt Hátíðasöngvunum, sem komnir voru út áður. Í heftinu eru meðal annars þessi lög: "Sólsetursljóð", "Gissur ríður góðum fáki", "Hann hraustur var sem dauðinn", "Kirkjuhvoll", "Systkinin", "Taktu sorg mína", "Vor og haust" (Í fögrum lundi).

Prentuð sönglög, frumsamin, eftir séra Bjarna Þorsteinsson eru 42 að tölu, öll samin á árunum 1894-1910, að þremur undanteknum, sem eru tækfærisverk. Mörg lögin hafa verið mikið sungin, bæði einsöngslögin og karlakórslögin, og nokkur hafa verið tekin í skólasöngbækur og íslenzk söngvasöfn.

"Fjalladrottning móðir mín" (Blessuð sértu sveitin mín) er eitt af vinsælustu sönglögunum. Er ég, ungur guðfræðikandidat, var kennari við alþýðuskólann á Eiðum, kom höfundur textans, Sigurður Jónsson frá Arnarvatni, þangað, og hélt erindi í skólanum og las upp frumsamin ljóð. Hann þótti góður gestur. Ég minntist á lagið við hann. Hann kvaðst hafa sent séra Bjarna kvæðið með tilmælum um að semja við það lag. Hann vildi fá íslenzkt lag við kvæðið um sveitina sína. Og séra Bjarni fann rétta tóninn. Það lag er að skapi íslenzkrar alþýðu. Kaldalóns, sem annars hafði gott lag á að fá þjóðina til að hlusta á sig, hefur samið lag við þetta kvæði, en þjóðin syngur ekki annað en lagið hans Bjarna Þorsteinssonar við kvæðið.

Nú heyrast sönglög Bjarna Þorsteinssonar ekki eins oft sungin og áður fyrr. Hin ljóðrænu sönglög, sem til skamms tíma voru svo mikill þáttur í sönglífi heimilanna, eiga ekki eins vel við nú á tímum og áður. En staðreynd er, að allmörg sönglögin eru í söng þjóðarinnar enn í dag og er það sannfæring mín, að beztu lögin séu úr þeim málmi gerð, að þau muni enn lengi verða sungin á Íslandi og standa sem óbrotgjarn minnisvarði um höfundinn.

Æviatriði Bjarna Þorsteinssonar eru á fáum orðum þessi: Hann er fæddur á Mel í Hraunhreppi á Mýrum 14. okt. 1861, sonur Þorsteins Helgasonar bónda þar og síðast í Bakkabúð í Reykjavík, og konu hans Guðnýjar Bjarnadóttur bónda og skipasmiðs Einarssonar í Straumfirði. Bjarni varð stúdent í Reykjavík 1883 og cand. theol frá Prestaskólanum 1888. Settur sóknarprestur á Hvanneyrarprestakalli í Siglufirði 28. sept. 1888 og veitt það kall 18. marz 1889. Lausn frá embætti frá 1. júní 1935, eftir 47 ára þjónustu. Andaðist í Reykjavík 2. ágúst 1938. Hann fékk riddarakross íslenzku fálkaorðunnar 1930 og var sama ár gerður að heiðursprófessor. Heiðursborgari Siglufjarðarkauptaðar var hann gerður 1936.

Hann kvæntist Sigríði (f. 11. apríl 1865, d. 25. febr. 1929) Lárusdóttur Blöndals sýslumanns á Kornsá í Vatnsdal 26. ágúst 1892. Hún var glæsileg kona og fríð sýnum, hafði undurfagra söngrödd og stjórnaði kirkjusöngnum og lék á orgelið í Siglufjarðarkirkju. Þeim varð fimm barna auðið. Sonarsonur þeirra hjóna er píanóleikarinn Ásgeir Beinteinsson (f. 30, sept. 1929), sonur Beinteins Bjarnasonar, útgerðarmanns í Hafnarfirði. Beinteinn hét fullu nafni Árni Beinteinn og er heitinn eftir æskuvini og skólabróður föður hans, tónskáldinu Árna Beinteini Gíslasyni, sem minnst hefur verið á hér að framan.

Með þessari grein hefur tónlistarstörfum Bjarna Þorsteinssonar ekki verið gerð viðhlítandi skil, enda kemur hann ekki við söngsögu Reykjavíkur eftir að hann er seztur að á Siglufirði nema óbeint. Það er því tilgangurinn með þessari grein að ræða um þjóðlagasafnið og þjóðlögin, sem þar eru, "gömlu lögin", tvísöngslögin og rímnalögin, því að þessi lög voru snar þáttur í sönglífi þjóðarinnar á 19. öld, og þá einnig í sönglífi Reykjavíkinga.

Að öðru leyti vísast til bókarinnar "Ómar frá tónskáldaævi", sem Siglufjarðarkaupstaður gaf út á aldarafmæli tónskáldsins 1961. Bókin er tekin saman af Ingólfi Kristjánssyni rithöfundi. Þar er ýtarlega ritað um Bjarna Þorsteinsson, ætt hans og uppruna, skólanám, prestinn, fræðimanninn, latínumanninn og latínuskáldið, og hin opinberu störf hans í þágu Siglufjarðar. Í bókinni er ritgerð eftir þann, sem þetta ritar, b1s. 203-240, um þjóðlagasöfnun Bjarna Þorsteinssonar, áhrif þjóðlagasafnsins á íslenzka tónlist, tónskáldið og skrá yfir prentuð sönglög frumsamin. Í formálanum hefur láðst að geta þess, að þessi kafli bókarinnar er ritaður af Baldri Andréssyni.


<— Tvísöngslögin / RímnalöginVefur sr. BjarnaEfnisyfirlit
Vefstjóri21. júlí 2001 © Músa