Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
05.11.2010
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Sveinbjörn Sveinbjörnsson

II Tímabilið 1800 – 1900: Íslenzki þjóðsöngurinn – Grein eftir Birgi Thorlacius

Frægur maður sagði þegar hann gekk um kirkjugarð: Einu sinni hélt þetta fólk, að heimurinn gæti ekki án sín verið.

Maður kemur í manns stað. Lífið heldur áfram, þótt einstaklingurinn hverfi, en margir lifa þó áfram í verkum sínum og verða þýðingarmikill þáttur í líf margra kynslóða. Við skulum staðnæmast við nöfn tveggja slíkra manna, höfunda ljóðs og lags íslenzka þjóðsöngsins, séra Matthíasar Jochumssonar og Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, tónskálds. Þeir voru skólabræður og vinir, urðu báðir guðfræðingar, og nöfn þeirra beggja koma okkur í hug þegar við heyrum þjóðsönginn sunginn eða leikinn.

Þótt svo hafi farið, að ljóðið og lagið „Ó, guð vors lands“ hafi orðið þjóðsöngur Íslendinga, þá er ekkert sem fyrirskipar slíkt, ekkert lagaboð eða önnur fyrirmæli um að svo skuli vera, heldur hefur hér orðið frjáls þróun á nokkuð löngum tíma. Meira að segja var svo um skeið, löngu eftir að „Ó, guð vors lands“ hafði hlotið almenna viðurkenningu sem þjóðsöngur, að farið var að nota annað ljóð og annað lag sem einskonar þjóðsöng og sýndu menn því þá virðingu allvíða að rísa úr sætum þegar það var leikið eða sungið, þótt það hyrfi úr notkun aftur á þennan hátt, enda hlaut það aldrei almenna viðurkenningu. Þetta var „Ísland ögrum skorið“ eftir Eggert Ólafsson við lag Sigvalda Kaldalóns.

Tildrög þess, að „Ó, guð vors lands“ var ort og lagið samið, voru sem hér segir: Árið 1874 var haldin þjóðhátíð í minning þess, að þá voru liðin eitt þúsund ár frá því að fyrsti landnámsmaðurinn settist að á Íslandi. Konungurinn, Kristján IX, kom þá til Íslands, og varð fyrstur ríkjandi konunga til þess að sækja landið heim. Hinn 5. janúar sama ár hafði landið fengið stjórnarskrá, sem veitti Alþingi löggjafarvald, en þingið hafði einungis verið ráðgefandi frá því er það var endurreist með konunglegri tilskipun 8. marz 1843 og kom það saman í fyrsta sinn í því formi árið 1845. Það hefur því oft verið efnt til hátíðar á Íslandi af minna tilefni en árið 1874.

Í auglýsingu kirkju- og kennslumálastjórnarinnar 10. september 1873 var skýrt frá því, að í konungsúrskurði frá 8. sama mánaðar hefði verið ákveðið, að fram skyldu fara guðsþjónustur í öllum kirkjum Íslands í lok júlí eða byrjun ágúst til að minnast þúsund ára landnámsafmælisins. Skyldi guðsþjónusta fara fram á þeim sunnudegi, er biskup segði til um og einnig skyldi hann ákveða ræðutexta dagsins. Biskupinn, sem þá var, dr. Pétur Pétursson, ákvað sunnudaginn 2. ágúst sem messudag og ræðutextann 90. sálm Davíðs, 1. - 4. og 12. - 17. vers, er þannig hljóðuðu:

Drottinn, þú varst vort athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og þú tilbjóst jörðina og heiminn, já, frá eilífð til eilífðar ertu guð. Þú gjörðir manninn að dufti og segir: Komið aftur, þér mannanna börn, því þúsund ár eru fyrir þínum augum sem dagurinn í gær, þá hann er liðinn, og eins og næturvaka. Kenn oss svo að telja vora daga, að vér verðum forsjálir. Snú þér til vor drottinn. Aumkastu yfir þína þjóna. Metta oss skjótt með þinni miskunn, svo munum vér fagna og gleðja oss alla daga vors lífs. Gleð oss nú eins marga daga og þú hefur oss beygt, eins mörg ár og vér höfum séð ógæfuna. Lát þína þjóna sjá þitt verk og þeirra börn þína dýrð. Drottins, vors guðs, góðgirni veri yfir oss og staðfesti verk vorra handa, já, lát þér þóknast að staðfesta verkin vorra handa.

Um þetta leyti átti Sveinbjörn Sveinbjörnsson heima í London Street 15 í Edinborg. Stundaði hann söngkennslu og vann að tónsmíðum. Séra Matthías Jochumsson hafði verið sóknarprestur að Móum á Kjalarnesi, en hætti prestskap í bili um þessar mundir og dvaldi um hríð hjá Sveinbirni í Edinborg og þar orti hann fyrsta erindið af sálminum eða lofsöngnum „Ó, guð vors lands“, en hin tvö erindin orti hann síðar í London. Bað sr. Matthías Sveinbjörn að semja lag við ljóðið, en Sveinbjörn var lengi tregur til, en lauk þó samningu lagins svo snemma, að ljóð og lag komst til Íslands fyrir þjóðhátíðina 2. ágúst 1874.

Í dómkirkjunni í Reykjavík voru fluttar þrjár messur sunnudaginn 2. ágúst, kl. 8 að morgni, kl. 10,30 og kl. 13,00 og var „Ó, guð vors lands“, ljóð og lag, flutt við miðmessuna. Var þetta í fyrsta sinn sem hinn verðandi þjóðsöngur var fluttur opinberlega. Við messu þessa var konungurinn viðstaddur. Ljóð og lag var gefið út og nefndist „Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára“, prentað í Reykjavík 1874, prentari Einar Þórðarson.

Það hefur löngum verið siður á Íslandi að biðja skáld að yrkja í sambandi við stórhátíðir og orti sr. Matthías mörg ljóð að beiðni þjóðhátíðarnefndar. En „Ó, guð vors lands“ var ekki ort eftir pöntun, heldur af eigin hvötum skáldsins.

Að framansögðu er ljóst, að Edinborg (og London) er fæðingarstaður íslenzka þjóðsöngsins, bæði ljóðs og lags, og áður en „Ó, guð vors lands“ vann sér hefð sem þjóðsöngur mátti segja að „Eldgamla Ísafold“ eftir Bjarna Thorarensen væri einskonar þjóðsöngur, en það ljóð var sungið undir laginu við þjóðsöng Breta, „God save the Queen“.

Það var ekki fyrr en á árinu 1948 að íslenzka ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu við þjóðsönginn og að ljóðinu ekki fyrr en árið 1949. Er saga þessa máls sú, að 15. september 1948 ritaði menntamálaráðuneytið sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn og bað það að kanna, hvort rétt væri, að Wilhelm Hansen Musik-Forlag í Kaupmannahöfn ætti útgáfu- og flutningrétt að íslenzka þjóðsöngnum, laginu, og ef svo væri, hvort ráðuneytið gæti ekki fengið þessi réttindi keypt og við hvaða verði. Með bréfi 19. nóvember sama ár skýrði sendiráðið frá því, að bréfaskipti og viðræður við forlagið hefðu leitt í ljós, að Wilhelm Hansen eigi umrædd réttindi þangað til 50 ár séu liðin frá láti tónskáldsins, þ.e. til 23. febrúar 1977. Jafnframt gaf Wilhelm Hansen kost á að selja ráðuneytinu réttindin og felst tilboð um það í bréfi forlagsins frá 8. nóvember 1948. Er þar um tvennt að velja:

1) að selja öll réttindin varðandi forlagið fyrir tvö þúsund danskar krónur í eitt skipti fyrir öll. Wilhelm Hansen fái að selja það sem efti sé af útgáfum lagsins og fái áfram rétt til að prenta það í vissum útgáfum, svo sem „Danmarks Melodiebog“ og öðrum slíkum útgáfum, sem forlagið hafði þegar hafið útgáfu á. Hinsvegar gildi þetta ekki um rit eða útgáfur, sem forlagið kynni að efna til eftir að kaup hefðu farið fram -, eða 2) að selja ráðuneytinu prentréttinn gegn 10% greiðslu af hverju eintaki, en öll réttindi yrðu áfram í eigu Wilhelm Hansen. Allar útgáfur þjóðsöngsins áttu þá að ber með sér, að Wilhelm Hansen Musik-Forlag ætti útgáfuréttinn síðan 1910.

Forlagið sagðist hafa keypt öll réttindin varðandi lagið „Ó, guð vors lands“ árið 1910, en hafa á síðari árum vegna mistaka reiknað erfingjum tónskáldsins 15% þóknun af hverju eintaki.

Þá fór forlagið fram á samtímis, að leyfi fengist hjá gjaldeyrisyfirvöldum til þess að yfirfæra í dönskum gjaldeyri inneignir forlagsins á Íslandi, samtals danskar krónur 12.092.11 frá fjórum viðskiptamönnum þess í Reykjavík.

Þegar þetta tilboð forlagsins lá fyrir, ákvað menntamálaráðuneytið að taka fyrra tilboðinu, þ.e. kaupa öll réttindi varðandi lagið fyrir tvö þúsund danskar krónur og jafnframt skyldu inneignir forlagsins verða yfirfærðar í dönskum gjaldeyri. Samþykkti ríkisstjórnin þessar ráðstafanir á ráðherrafundi 4. desember 1948, og 9. sama mánaðar undirritaði Wilhelm Hansen forstjóri Wilhelm Hansen Musik-Forlag í Kaupmannahöfn afsal til menntamálaráðuneytisins fyrir öllum réttindum að laginu við „Ó, guð vors lands“, en þáverandi sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Jakob Möller, ritaði á afsalið fyrir hönd menntamálaráðuneytisins.

Frétt var send frá menntamálaráðuneytinu til blaða og útvarps 25. janúar 1949 um þessi kaup og þóttu það góð tíðindi, að höfundarréttur að laginu við þjóðsönginn væri ekki lengur í eigu erlendra manna.

Útgáfufélag í Reykjavík sagðist hafa reynt að fá höfundarréttinn keyptan og í bréfi 17. júní 1949 frá frú Eleanor Sveinbjörnsson, ekkju tónskáldsins, búsettri í Calgaryborg í Alberta í Kanada, segir hún, að tilgreint félag hafi nýlega snúið sér til sín og farið fram á að hún gerði við sig samning um útgáfu á tónsmíðum eiginmanns síns, en áður en hún svaraði þessari málaleitan vilji hún ráðgast við íslenzku ríkisstjórnina. Í svarbréfi til frúarinnar var frá því skýrt, að ríkið hefði keypt öll réttindi að laginu „Ó, guð vors lands“ og væri í undirbúningi útgáfa á þjóðsöngnum, en ráðuneytið hefði að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, að frúin semdi við hvern sem væri um útgáfu á öðrum tónsmíðum skáldsins. Að fengnu þessu bréfi svaraði frúin því, að ef hún kynni að eiga einhver réttindi til lagsins, þá vildi hún gefa Íslandi þau og með bréfi, dagsettu 24. júlí 1954, bauðst frúin til að gefa íslenzku þjóðinni handritin að tónverkum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar til ævarandi vörzlu í Landsbókasafni, þar sem þau höfðu þá verið í geymslu um hríð. Var þessi góða gjöf vitanlega þegin með þökkum. Kom ávallt í ljós í öllum samskiptum frú Eleanor Sveibjörnsson við ráðuneytið einlæg og óeigingjörn vinátta hennar í garð Íslands. Á níræðisafmæli hennar sendi ríkisstjórnin henni afmælisgjöf. Frú Eleanor er nú 98 ára.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson, tónskáld, var fæddur að Nesi við Seltjörn 23. júní 1847, sonur Þórðar dómstjóra við Landsyfirréttinn Sveinbjörnssonar, og seinni konu hans Kirstín Cathrine Lárusdóttur Knudsen, kaupmanns í Reykjavík. Hann varð stúdent í Reykjavík 1866 og útskrifaðist úr Prestaskólanum tveimur árum síðar, aðeins 21 árs að aldri. Hann stundaði síðan tónlistarnám í fimm ár í Kaupmannahöfn, Leipzig og Edinborg. Hann var sæmdur gullheiðurspeningi Kristjáns konungs IX fyrir lagið „Ó, guð vors lands“ árið 1874, riddari af Dannebrog varð hann 12. apríl 1907 og hlaut stórriddarakross Fálkaorðunnar 1. desember 1923. Prófessorsnafnbót var hann sæmdur árið 1911. Kona Sveinbjörns, Eleanor var fædd 7. febrúar 1870, dóttir John Christie, lögfræðings frá Banff og konu hans Williamina Peterson frá Aberdeen. Þau gengu í hjónaband 1890 og bjuggu í 29 ár í Edinborg, en fluttu til Winnipeg 1919 með börnum sínum tveimur, Helen Mc-Leod og Þórði John Wilhelm. Haustið 1922 fluttust þau hjónin til Reykjavíkur, en árið 1924 til Kaupmannahafnar. Börn þeirra urðu eftir vestra.

Sveinbjörn andaðist 23. febrúar 1927 í Kaupmannahöfn. Hneig örendur fram á píanóið í miðju lagi. Hann var jarðsettur í kirkugarðinum við Suðurgögu í Reykjavík. Útförin var gerð frá dómkirkjunni með mikilli viðhöfn. Meðal þeirra, sem vottuðu minningu tónskáldsins virðingu sína, voru fimmtíu konur í skautbúningi, er komu til kirkjunnar í einni fylkingu. Í dómkirkjunni hafði þjóðsöngurinn hljómað í fyrsta sinn og nú var hann leikinn og sunginn þar við útför tónskáldsins.

Árið 1953 lét menntamálaráðuneytið reisa legstein á leiði Sveinbjörns. Er það stuðlabergssúla og felld í hana ofarlega vangamynd, sem hinn landskunni listamaður, Ríkharður Jónsson, gerði af tónskáldinu 1919. Þar fyrir neðan er letrað: „Sveinbjörn Sveinbjörnsson, tónskáld. Ríkisstjórn Íslands reisti honum stein þenna.“

Matthías Jochumsson
Matthías Jochumsson
Þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson, höfundur ljóðsins „Ó, guð vors lands“, var fæddur 13. nóvember 1835 að Skógum í Þorskafirði, sonur Jochums Magnússonar og konu hans Þóru Einarsdóttur. Hann varð stúdent í Reykjavík 1863 og lauk prestaskólanámi tveimur árum síðar. Hann er eins og allir vita eitt af ástsælustu ljóðskáldum Íslendinga og var mikilvirkur þýðandi erlendra bókmennta á íslenzka tungu. Honum var veitt ýmiskonar viðurkenning. Varð riddari af Dannebrog 30. nóvember 1899, dannebrogsmaður 1. maí 1906, heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands 1920 og heiðursborgari á Akureyri 11. nóvember 1920. Hann var þríkvæntur: 1) Elín Sigríður Diðriksdóttir Knudsen, 2) Ingveldur Ólafsdóttir Johnsen, 3) Guðrún Runólfsdóttir. Séra Matthías andaðist 18. nóvember 1920.

Árið 1949 keypti menntamálaráðuneytið af erfingjum Matthíasar Jochumssonar öll réttindi að ljóðinu „Ó, guð vors lands“ fyrir tvö þúsund krónur. Afsalið er undirritað í Reykjavík 15. ágúst af Magnúsi Matthíassyni fyrir hönd erfingjanna. Fór sú sala ekki fram í fjáraflaskyni. Þar með hafði ráðuneytið eignast óskoraðan höfundarrétt að þjóðsöngnum, bæði lagi og ljóði.

Árið 1957 gaf ráðuneytið út vandaða útgáfu af þjóðsöngnum. Sáu þeir dr. Steingrímur J. Þorsteinsson, prófessor, og dr. Páll Ísólfsson, tónskáld, um útgáfuna í samráði við ráðuneytið og ritaði dr. Steingrímur formála, sem þýddur er á dönsku af Erik Sönderholm, á ensku af Heimi Áskelssyni, á frönsku af Magnúsi G. Jónssyni og á þýzku af Ute Jacobshagen. Þá er fyrsta erindi ljóðsins birt í þýðingu á dönsku (Guðmundur Kamban), þýzku (Edzard Koch), norsku (Hans Hylen), finnsku (M. Korpilathi) og sænksu (Áke Ström).

Útgáfan er raunar þrennskonar. Í einni er lagið raddsett fyrir blandaðan kór (og píanó) og fyrir karlakór, í annari fyrir hljómsveit og í þriðju gerðinni eru þessar raddsetningar allar. Tónskáldið hefur sjálft raddskráð allar gerðirnar. Útgáfa þessi er mjög smekkleg og gerði Halldór Pétursson, listmálari, káputeikninguna.

Gísli Jónsson, ritsjóri í Winnipeg, skrifaði mjög fróðlegan þátt um Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem birtist í Tímariti Þjóðræknisfélagsins og síðar í ritsafni hans, „Haugaeldar“. Baldur Andrésson, cand. theol., ritaði um Sveinbjörn í Árbók Landsbókasafnsins 1953-4 og Jón Þórarinsson tónskáld, hefur nú í smíðum bók um Sveibjörn og mun hún væntanlega koma út fyrir næstu jól.

11. marz 1968
Birgir Thorlacius
(Lögberg-Heimskringla, 28, marz 1968, Winnipeg)


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa