Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
15.11.2010
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Emil Thoroddssen
Emil Thoroddsen

III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1911-1930 – Tónskáld tómabilsins

Emil Thoroddsen (1898 - 1944)
Þegar Emil Thoroddsen féll frá fyrir aldur fram sumarið 1944, þá orðinn hálf fimmtugur, var hann fyrir löngu orðinn þjóðkunnur fyrir margvísleg störf á sviði listanna, en hann var fjölgáfaður maður: tónskáld, píanóleikari, listmálari, leikritahöfundur og tónlistargagnrýnandi. Í öllum þessum greinum var hann meira en meðalmaður og er það sjaldgæft um svo margskipta menn.

Emil Thoroddsen er fæddur í Keflavík 16. júní 1898, sonur hjónanna Þórðar Thoroddsen, sem þá var þar héraðslæknir, og konu hans Önnu, dóttur Péturs Guðjohnsens organista og Guðrúnar konu hans. Það skal tekið fram vegna þess, sem sagt verður hér á eftir, að Guðrún var dóttir Lars Mikaels Knudsen kaupmanns í Reykjavík. Þórður, faðir Emils, er sonur skáldsins Jóns Thoroddsen. Margt manna er út af Jóni Thoroddsen komið, og hafa fylgt því kyni óvenjulegir hæfileikar og sterkt ættarmót. Í Thoroddsensættinni er skáldgáfan og einnig tónlistargáfan. Ná frændur Emils í þessa ætt eru tónskáldin Jón Leifs, Skúli Halldórsson, Bjarni Böðvarsson og Þorvaldur Blöndal.

Þá er það alkunnugt, að tónlistargáfan er í Guðjóhnsenættinni og skal þar fyrstan frægan telja sjálfan ættföðurinn Pétur Guðjohnsen. Auk Emils hafa aðrir dætrasynir Péturs Guðjohnsens orðið kunnir í tónlistarlífinu, eins og bræðurnir Jón söngstjóri og Pétur borgarstjóri og bóksali, sem eru synir Halldórs bankagjaldkera Jónssonar og Kristjönu konu hans, dóttur Péturs Guðjohnsens. Pétur var góður söngmaður, - bassabarítónn. Bróðir þeirra, Halldór bankastjóri á Ísafirði, lék fallega á píanó, og þá eigi síður Hólmfríður, systir þeirra, sem var á sínum yngri árum með beztu píanóleikurum í Reykjavík. Hún er gift Jósefi Jónssyni prófasti á Setbergi. Þá skal nefna Einar Viðar, son Indriða Einarssonar rithöfundar og Mörtu konu hans. Marta var dóttir Péturs Guðjohnsens. Einar Viðar var söngglaður, hafði sérkennilega og blæfagra tenórrödd og söng opinberlega við ýms tækifæri. Dóttir hans er tónskáldið og píanóleikarinn frú Jórunn Viðar. Af öðrum dætrabörnum Péturs Guðjohnsens skal nefna Pétur nótnasetjara Lárusson og Valgerði systur hans. Pétur var um tíma organisti við Fríkirkjuna í Reykjavík og gaf út nótnabækur. Valgerður var fyrri kona séra Þorsteins Briem á Akranesi. Hún samdi sönglög. Þau eru börn Lárusar fríkirkjuprests Halldórssonar í Reykjavík og konu hans Kirstínar Katrínar, dóttur Péturs Guðjohnsens.

Tónlistargáfan er einnig í Knudsensættinni. Framantaldir niðjar Péturs Guðjohnsens eru einnig af þeirri ætt, því Guðrún, kona Péturs, var dóttir Lars Mikaels Knudsens kaupmanns, eins og áður er sagt.

Af nafnkunnum niðjum Lars M. Knudsens, sem koma við tónlist og eru ekki af Guðjohnsensættinni, ber fyrst að nefna höfund þjóðsöngsins, Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Hann er sonur Þórðar dómstjóra Sveinbjörnssonar og konu hans Kirstínar, dóttur margnefnds Knudsens kaupmanns. Af öðru tónlistarmönnum í Knudsensættinni skal nefna frú Ástu Einarson, konu Magnúsar dýralæknis Einarssonar. Hún var um árabil einn helzti píanóleikarinn í Reykjavík. Lárus dómstjóri Sveinbjörnsson, faðir hennar, og Sveinbjörn tónskáld voru hálfbræður, sammæðra. Af yngri kynslóð er frú Anna S. Björnsdóttir, kona Ólafs verkfræðings Pálssonar, Einarssonar hæstaréttardómara. Hún lærði í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hefur komið fram opinberlega sem píanóleikari. Amma hennar er Jóhanna Andrea Lúðvíksdóttir Knudsen, bókhaldara í Reykjavík, gift Þorgrími héraðslækni Þórðarsyni í Keflavík.

Hér að framan hafa verið taldir nokkrir nafnkunnir tónlistarmenn í Thoroddsenssættinni, Guðjohnsensættinni og Knudsensættinni. Í þessar Þrjár ættir sækir Emil músíkgáfuna.

Emil lærði snemma að leika á píanó, fyrst hjá móður sinni og síðan hjá frú Kristrúnu Benediktsson. Hún var dóttir Tómasar læknis Hallgrímssonar og konu hans, Ástu Júlíu Thorgrímsen, verzlunarstjóra á Eyrarbakka. Kristrún giftist Árna Benediktssyni kaupmanni og kallaði sig eftir það Benediktsson, en áður hafði hún notað ættarnafnið Hallgrímsson. Hún var um skeið einn helzti píanóleikarinn í Reykjavík og lék oft opinberlega, ýmist einleik eða undirleik, einkum á árunum 1900 – 1910.  

Emil varð stúdent 1917. Á Menntaskólaárunum lék hann svo vel á píanó, að orð fór af. Þá var hann þegar farinn að semja sönglög. Hann stofnaði karlakór með skólapiltum og stjórnaði honum sjálfur. Kórinn setti svip á skólalífið og gerði það skemmtilegra.

Að loknu stúdentsprófi fór Emil til Kaupmannahafnar og lagði stund á listsögu við háskólann 1917-20, en lagði einnig stund á málaralist og tónlist. Hann varð cand. phil. árið I918. Emil hafði teiknað og málað frá því hann var barn að aldri og lært sem ungur piltur hjá Ásgrími Jónssyni. Myndir Emils höfðu þann þokka, sem honum var eiginlegur, og náði hann það langt, að hann fékk myndir eftir sig teknar á sýningu í Charlottenborg. En tónlistin keppti við málaralistina um hylli hans og hún sigraði. Þá fór hann frá Höfn I920, eftir þriggja ára nám þar, til Þýzkalands og fékkst þar eingöngu við tónlistarnám í Leipzig og Dresden næstu fjögur árin. Eftir það dvaldi hann í Reykjavík til æviloka.

Í Reykjavík fór strax að kveða að honum í tónlistarlífinu. Hann hélt píanótónleika í Bárunni haustið 1923, þá enn við nám, og aftur í Nýja Bíó um vorið 1924, að námi loknu. Eftir það var hann í mörg ár helzti undirleikarinn í Reykjavík, bæði hjá íslenzkum og erlendum listamönnum. Hann var hljómsveitarstjóri Leikfélags Reykjavíkur 1925-1930. Þegar Ríkisútvarpið tók ti1 starfa, var hann ráðinn aðalpíanóleikari þess. 

Píanóleikur Emils var heillandi og gáfulegur og var hann eftirsóttur undirleikari. Söngvarar sögðu, að þeim væri mikill styrkur að hafa hann sem undirleikara, hann ýtti þeim og lyfti. Þórarinn Guðmundsson, fiðluleikari, sem var samstarfsmaður hans í Ríkísútvarpinu, segir í bókinni „Strokið um strengi“: „Þá var Emil einn allra flinkasti píanisti, sem ég hef unnið með“.

Fyrstu árin eftir að Emil var kominn heim, var hann ávallt kallaður Emil Thoroddsen píanóleikari. Hann var þá kunnastur fyrir píanóleikinn. En er árin liðu fékk hann ósjálfrátt annan titil. Nú var hann jafnan nefndur Emil Thoroddsen tónskáld. Hann var þá orðinn þjóðkunnur fyrir tónsmíðar sínar. Fyrst vakti hann á sér athygli sem tónskáld, er hann fékk önnur verðlaun fyrir Alþingishátíðarkantötuna 1930. Kantata þessi er eitt fegursta verk sinnar tegundar, sem samið hefur verið hér á landi, og lét Carl Nielsen, mesta tónskáld Dana fyrr og síðar, svo um mælt, að kantata Emils væri bæði fögur og frumleg. Þetta glæsilega og stórbrotna verk lá í þagnargildi í nær 28 ár, þar til það var flutt í Þjóðleikhúsinu um vorið 1954 af Þjóðleikhúskórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn dr. Victors Urbancic. Það var Tónskáldafélag Íslands, sem átti frumkvæðið. 

Næst vakti Emil á sér þjóðarathygli sem tónskáld, er hann fékk 1. verðlaun fyrir sjómannasönginn Íslands Hrafnistumenn 1939. Og enn hlaut hann sigur í sönglagakeppni í sambandi við lýðveldishátíðina 1944 með laginu Hver á sér fegra föðurland. Þetta lag var sungið í fyrsta skipti á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum, þremur vikum áður en hann andaðist. Emil hafði lokið svanasöng sínum.

Emil samdi um það bil 40 einsöngslög og kórlög, meðal þeirra eru þjóðalagaútsetningar og lögin í „Pilti og stúlku.“ Strokkvartett samdi hann í Þýzkalandi 1923, alveg óþekkt verk og með öllu glatað. Frá árinu 1925 eru tveir forleikir, annar að „Dansinum í Hruna“, en hinn að „Munkunum á Möðruvöllum.“ Háskólakantötu fyrir karlakór og hljómsveit samdi hann og var hún flutt við vígslu hinnar nýju háskólabyggingar 1940. Loks skal nefna „Andante in memoriam“ fyrir strengi, sem hann samdi við fráfall móður sinnar 1939. Lagið var leikið við útför hennar.

Tónsmíðar Emils eru ljóðrænar og tilheyra rómantísku stefnunni. Þótt Emil træði ekki nýjar brautir, þá eru þó tónsmíðar hans með ferskum hljómum. Sýnir hann víða hugkvæmni í hljómasamböndum og er kunnáttan og smekkvísin órbrigðul. Einsöngslögin eru með haglega gerðum undirleik og fallegum millispilum. Á tónsmíðum hans er mikill menningarbragur.

Eins og áður er sagt gerðist Emil starfsmaður Ríkisútvarpsins, þegar það tók til starfa árið 1930. Hann vann ómetanlegt verk fyrir þá stofnun þau árin, sem heilsan leyfði. Hann var aðalpíanóleikari útvarpsins, en auk Þess tók hann saman þjóðlagasyrpurnar, útsetti lögin fyrir hljómsveit, og er það stofnuninni mikill styrkur að eiga þessi lagasöfn. Emil var mikilvirkur með afbrigðum þegar því var að skipta, og efnið var honum hugleikið - Þá lék það í höndum hans.

Emil hafði snjallan penna og ritaði töluvert. Hann var ritstjóri vikublaðsins „Freyju“ 1927-28 og hann var gagnrýnandi Morgunblaðsins um málaralist 1926-33 og síðar um tónlist. Hann þýddi og staðfærði leikrit, sem leikin voru í Reykjavík og víðar, og samdi skopleiki í samvinnu við aðra. Lögin í þeim samdi hann sum sjálfur, en önnur voru erlend lög sem hann útsetti fyrir hljóðfæri. Skáldsögur afa síns, „Mann og konu“ og „Pilt og stúlku“ færði hann í leikritsbúning og frumsamdi lögin í því síðarnefnda.

Í minningargrein um Emil Thoroddsen látinn segir Valtýr Stefánsson ritstjóri:

Og skopleiki samdi hann hvern af öðrum. Þeir báru annan blæ en menn eiga að venjast. þar voru skoplegu hliðar manna og þjóðlífsins leiddar í ljós án smásmugulegrar meinfýsi. Yfir öllu, sem hann lét frá sér fara, var hin sama háttvísi sem yfir allri framkomu mannsins. Hann leit á mannlífið og samferðafólkið af sjónarhóli hins víðsýna gáfumanns. En honum var áberandi í nöp við þá menn, sem reyndu að sýnast meiri en þeir voru, reyndu að tildra sér hærra en hæfileikarnir leyfðu þeim, á kostnað annara. Þetta var honum andstyggð, enda var það ákaflega fjarri allri skapgerð hans.

Emil var þríkvæntur. Fyrsta konan, Elisabeth Brühl, var þýsk. Þau giftust 1925, en skildu síðar. Hann kvæntist aftur 1932 Guðrúnu Bryndísi Skúladóttur. Hún andaðist 37 ára gömul í júní 1938. Þriðja konan er Áslaug Árnadóttir, verkamanns í Reykjavík. Þau giftust 1941 og lifir hún mann sinn.

Með fjölþættu starfi sínu átti Emil Thoroddsen mikinn þátt í gera líf þjóðarinnar ríkara. Íslenzk menning missti góðan liðsmann, þegar þessi fjölgáfaði snillingur féll frá fyrir aldur fram 7. júlí 1944.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa