Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
11.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1911-1930

Hljómsveit Reykjavíkur
Hljómsveit Reykjavíkur var stofnuð af Jóni Laxdal og Sigfúsi Einarssyni árið 1925. Er þetta merkur viðburður í söngsögu okkar. Hljómsveitin var til að byrja með fámenn og vantaði mörg hljóðfæri, sem eiga að vera í fullskipaðri hljómsveit. En hún var vísir að sinfónískri hljómsveit og að því marki var stefnt. Fyrstu alvarlegu skrefin til að mynda hljómsveit hér í Reykjavík tók Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari. Um 1920 myndaði hann hljómsveit með nemendum sínum og öðrum hljóðfæraleikurum, um 20 manns, sem hann æfði og stjórnaði. Þessi flokkur lék opinberlega í Nýja Bíó um vorið 1921, og síðan oftar eftir það. Þeir Sigfús og Laxdal stofnuðu síðan formlega Hljómsveit Reykjavíkur með þessum hljóðfæraleikurum, allt í sátt og samlyndi við Þórarinn, sem síðan lék á fiðlu sína í hljómsveitinni. „Þórarinn á heiðurinn, þótt aðrir tækju síðan að sér stjórn flokksins“. (Á.Th.)  

Sigfús Einarsson stjórnaði Hljómsveit Reykjavíkur 1925-27, Páll Ísólfsson 1928, prófessor Johannes Veldan 1929, dr, Franz Mixa 1930-38, síðan dr. Victor Urbantitsch. Undir handleiðslu þessara manna dafnaði hljómsveitin. Árið 1950 varð úr þessum kjarna Sinfóníuhljómsveitin stofnuð. Þessi þróun sýnir, að mjór er mikils vísir. 

Lúðrasveitir
Lúðrasveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1922 af Karli O. Runólfssyni og fleiri mönnum. Þá voru tvö lúðrafélög starfandi í Reykjavík, „Gígja“ og „Harpa“. Hallgrímur söngkennari Þorsteinsson stofnaði „Gígju“ og stjórnaði henni framan af. Einnig var hann aðalstofnandi „Hörpu“ ( 16. maí 1910). Reynir Gíslason píanóleikari æfði síðar „Hörpu“ og stjórnaði henni um skeið og þá tók hún miklum stakkaskiptum. Reynir fór af landi burt og varð þá flokkurinn eins og höfuðlaus her. Þá voru þessi félög sameinuð í eitt félag „Lúðrasveit Reykjavíkur“ 1922, eins og fyrr segir. Lúðrasveitin réði til sín þýzkan kennara, Otto Böttscher, og tók miklum framförum þann stutta tíma, sem hans naut við. Tók þá Páll Ísólfsson við af honum (1924).  

Lúðrasveitin Svanur er stofnuð 16. nóvember 1930. Hallgrímur Þorsteinsson stjórnaði sveitinni fyrstu 10 árin. Karl O. Runólfsson hefur stjórnað henni lengur en nokkur annar maður. Núverandi stjórnandi er Jón Sigurðsson trompetleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Lúðrasveitirnar hafa glatt borgara Reykjavíkur með tónleikum á Austurvelli og annarsstaðar. 

Kórsöngur
Á þessu tímabili setur karlakórsöngur mestan svip á sönglífið í bænum. Karlakórarnir héldu samsöngva á hverju ári, marga í senn. Framan af héldu þeir þeim gamla og góða sið að syngja úti undir berum himni bæjarbúum til skemmtunar.

Á árunum 1910-14 söng kvartettinn „Fóstbræður“ við og við í Bárunni og annarsstaðar og þótti góð skemmtun á þá að hlýða. Kvartettinn mynduðu þeir fjórmenningarnir Pétur og Jón Halldórssynir, Einar Indriðason (Viðar), frændi þeirra, og Viggó Björnsson (síðar bankastjóri í Vestmannaeyjum).

Mjög vinsæll var karlakórinn „17. júní“ undir stjórn Sigfúsar Einarssonar, sem starfaði á árunum 1912-18. Karlakór K.F.U.M., sem síðar breytti um nafn og nefndist þá „Fóstbræður“ var stofnaður 1916. Kórinn varð brátt mjög góður undir stjórn Jóns Halldórssonar. Sama er að segja um Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Sigurðar Þórðarsonar, sem var stofnaður 1926.

Karlakórinn „Þrestir“ í Hafnarfirði sungu oft á þessu tímabili í Reykjavík, fyrst undir stjórn Friðriks Bjarnasonar og síðan undir stjórn Sigurðar Þórðarsonar.

Það var því mikið um um karlakórsöng í Reykjavík á þessum árum og það skal sagt söngstjórunum til verðugs lofs, að þeir létu kórana syngja gömul og ný íslenzk lög. Þessi ræktarsemi var íslenzkum tónskáldum nokkur uppörvun.

Tveir frægir karlakórar frá Norðurlöndum heimsóttu Reykjavík á þessu tímabili. Handelstandens Sangforening frá Oslo undir stjórn Leif Halvorsen hélt marga samsöngva í Nýja Bíó í júlí 1924 og ennfremur söng kórinn í Dómkirkjunni. Þetta er bezti karlakórinn í Noregi og vakti hrifningu. Fengu Reykvíkingar þá að heyra norsk karlakórlög, sem Reykvísku kórarnir fóru síðan að spreyta sig á, eins og „Varde“ eftir Haarklou o, fl. Árið eftir kom danski stúdentakórinn frá Kaupmannahöfn. Kórinn heitir réttu nafni „Den danske Studentersangforening“ og á sér langa og merkilega sögu, eins og norski kórinn. Söngstjórinn var tónskáldið Roger Henrichsen. Kórinn söng í Nýja bíó 9.-13. júlí 1925 og einnig í Dómkirkjunni. Höfðu menn mikla ánægju af að hlýða á söng stúdentanna, sem voru ungir menn og glaðir og sungu mjög vel.

Það fór ekki fram hjá glöggvum mönnum, að íslenzki kórinn okkar, Karlakór K. F. U. M., þoldi vel samanburð við þessa frægu kóra (Karlakór Reykjavíkur var þá enn ekki stofnaður).

Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson höfðu annað kastið á hendinni blandaða kóra. Á aldarafmæli Péturs Guðjóhnsens 29. nóv. 1912 söng stór flokkur karla og kvenna og drengjakór í Dómkirkjunni undir stjórn Sigfúsar lag hans við kvæði Guðmundar Guðmundssonar, sem ort var af tilefni aldarafmælisins. Hinn 27. maí 1927 eru hljómleikar í Dómkirkjunni, þar sem m. a. blandaður kór syngur klassísk lög undir stjórn Sigfúsar. Það var Sigfús, sem æfði og stjórnaði söngflokki karla og kvenna, sem söng á norrænu söngmóti í Kaupmannahöfn 1929 og þótti einhver bezti kórinn á því móti.

Eftir að Páll Ísólfsson var kominn heim frá Leipzig stjórnaði hann nokkrum sinnum blönduðum kórum, sem sungu kirkjulegar tónsmíðar. Í febrúar 1923 söng 60 manna blandaður kór í Dómkirkjunni undir hans stjórn. Þetta var óvenjulega stór kór á íslenzkan mælikvarða. Meðal laganna, sem sungin voru, er „Hve fagrir eru þínir bústaðir“ úr „Requiem“ eftir Brahms, „Eja mater“ (úr „Stabat mater“) eftir Dvorak og „Halleluja“ Händels úr „Messias“. Í febr. 1926 hélt Páll kirkjuhljómleika í Fríkirkjunni, og enn aftur árið 1927, bæði um vorið og haustið. Hér eru ekki taldir allir hljómleikar með blönduðum kór, sem þeir Sigfús og Páll héldu. Annars kvað mest að Páli sem orgelsnillingi og hélt hann marga orgelhljómleika á þessum árum. 

Samkvæmt framansögðu er karlakórsöngur árlegur viðburður í sönglífi bæjarins. Eftir 1926 eru karlakórarnir orðnir tveir, og þriðji kórinn, „Þrestir“ í Hafnarfirði, lætur til sín heyra. Blandaður kór er ekki til sem sérstakt félag á þessum árum og blandaður kórsöngur heyrist ekki í Reykjavík við guðþjónustur í kirkjunum. Á þessu verður breyting á næsta tímabili. 


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa