Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
27.04.2012
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Sigfús Einarsson (1877 - 1939)
Sigfús ungur

III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1911-1930 – Tónskáld tómabilsins

Sigfús Einarsson (1877 - 1939)
Haustið 1906 settist Sigfús Einarsson að í Reykjavík og bjó þar eftir það til æviloka. Hér vann hann sitt merkilega brautryðjandastarf og er óhætt að segja, að saga hans sé þróunarsaga íslenzkrar tónlistar á þessu tímabili. Sigfús er frumlegt tónskáld og þjóðlegur í list sinni. Þó raddsetti hann lögin hvorki í gömlum tóntegundum né samstígum kvintum, enda hvorugt einhlítt til að tónsmíð verði þjóðleg, því hér er það andinn, sem ræður - hann er aðalatriðið. Sigfús samdi úr stuttum, þjóðlegum stefjum meistaraverk, sum við stökur, eins og lögin „Ofan gefur snjó á snjó“ og „Þó að kali heitur kver“, og úr þjóðlagastefi er kórlagið „Fjallkonan“ samið.

Sigfús Einarsson er fæddur á Eyrarbakka 30. janúar 1877 og var orðinn 62 ára gamall, er hann lézt snögglega af hjartaslagi hér í Reykjavík 10. maí 1939. Foreldrar hans eru Einar kaupmaður Jónsson á Eyrarbakka og bústýra hans Guðrún Jónsdóttir frá Undirhamri í Hafnarfirði.  

Sigfús var í föðurætt af hinni nafnkunnu Bergsætt, en í þessari ætt eru góðir söngmenn og forsöngvarar mann fram af manni. Ættin er kennd við Berg Sturlaugsson í Brattholti, sem var fæddur 1682 og lifði fram yfir 1762. Hann var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi, hygginn og gætinn, en slóttugur nokkuð og eru af honum margar sagnir. Bergur var mikill söngmaður og forsöngvari í Stokkseyrarkirkju. Af niðjum hans, sem eru nafnkunnir tónlistarmenn, skal nefna þá bræður Bjarna og Ísólf Pálssyni, sem báðir sömdu sönglög, og bróðir þeirra Jón Pálsson bankagjaldkera, sem var organisti á Stokkseyri og síðar við Fríkirkjuna í Reykjavík. Sonur Bjarna er Friðrik tónskáld og organisti í Hafnarfirði, og synir Ísólfs eru þeir dr. Páll dómkirkjuorganisti og Sigurður Fríkirkjuorganisti í Reykjavík.

Margt fleira tónlistarmanna eru í ættinni og af þeim skal nefna Árna Beintein Gíslason cand. phil., höfund lagsins „Vindarnir þjóta með snarhvini snarpa“ og séra Halldór Jónsson á Reynivöllum, sem samið hefur fjölda sönglaga.

Sigfús settist í 1. bekk Latínuskólans haustið 1892. Sama árið hafði karlakórinn „14, janúar“ verið stofnaður undir stjórn Steingríms Johnsens. Sigfús gekk strax í það söngfélag og söng þar meðan kórinn starfaði. Hann lét sér þetta ekki nægja, heldur hélt hann sjálfur uppi söngfélagi í skólanum og stjórnaði því. Þar mun hann hafa fyrst æfst í söngstjórn, sem hann síðan fékkst mikið við um ævina.  

Að loknu stúdentsprófi 1898 sigldi Sigfús til Kaupmannahafnar til að lesa lög. Auðvitað varð hann að gefa sér tóm til að sinna hugðarefni sínu, tónlistinni, en að sjálfsögðu átti lögfræðin að sitja í fyrirrúmi, því markið var að taka próf og verða embættismaður.

Á Hafnarárunum æfði Sigfús og stjórnaði íslenzkum stúdentakór. Grænlandsfarinn Mylius Erichsen var upphafsmaðurinn að kórnum. Sem formaður ferðafélagsins danska vildi hann kynna þjóðinni „nýlendurnar“ svokölluðu, Ísland og Færeyjar, menningu þeirra og annað, sem þjóðlegt var. Veturinn 1901-02 efndi hann til mikillar hátíðar - Færröisk-Íslandsk Fest - í „stóra salnum“ í Oddfellowhöllinni. Sjálfur ætlaði hann að halda fyrirlestur, Færeyingar áttu að stíga þjóðdansa, en Íslendingum var ætlað að syngja. Hann fékk Sigfús til að raddsetja íslenzk þjóðlög og mynda kór meðal íslenzkra stúdenta, en kórinn skyldi syngja á hátíðinni. Þetta varð til þess að Sigfús fór að kynna sér íslenzk þjóðlög og raddsetja þau, en hvorki á Eyrarbakka eða á skólaárunum í Reykjavík hafði hann litið við þeim fremur en aðrir á þeim tíma, ef undan er tekinn Bjarni Þorsteinsson, sem sat norður á Siglufirði og vann þar að þjóðlagasafninu. Í Hörpuhljómum eru lögin, sem þessi stúdentakór söng,- þó ekki öll -, þjóðlögin „Bára blá“, „Ólafur liljurós“ „Svíalín og hrafninn“ o.fl og ennfremur frumsamin lög eftir hann sjálfan og önnur íslenzk tónskáld. Kórinn söng síðan á hátíðinni og fékk mikið lof. Síðan hélt þessi íslenzki stúdentakór  áfram að starfa í 4 ár, söng oft opinberlega og jafnvel ströngustu listdómarar blaðanna luku hann lofsorði. En svo kom að því, að meðlimirnir, sem voru um 50, tvístruðust og héldu heimleiðis. 

Sigfús hafði tekið heimspekispróf á réttum tíma og lesið lög, en jafnframt sinnt sönglistinni. Þegar líður á Hafnarárin er sönglistin orðin sterkari. Hann fékk styrk hjá Alþingi og eftir það gaf hann sig allan við sönglistinni.

Hann lærði að syngja hjá Valdemar Lincke óperusöngvara, sem þá var hættur að syngja og orðinn söngkennari við kgl. tónlistarskólann, og kenndi auk þess söng í einkatímum. Hljómfræði hafði Sigfús fyrst lesið tilsagnarlaust, en síðar hjá August Enna, nafnkunnu óperutónskáldi af ítölskum ættum.

Á Hafnarárunum var Sigfús farinn að semja lög. Árið 1903 komu út hjá Wilhelm Hansen 12 karlakórlög eftir hann, sem síðan urðu alkunn, eins og „Allt fram streymir endalaust“, „Gröfin“, „Á sprengisandi“ o, fl. Á þessum árum samdi hann 4 einsöngslög með píanóundirleik, sem komu út hjá sama forlagi, en þau eru „Gígjan“, „Ó, leyf mig þig að leiða“, „Sofnar lóa“ og „Augun bláu“. Þessi lög; eru sérstæð meðal sönglaga hans, hvað stílinn snertir. Eftir að hann var seztur að hér heima, mótar andi þjóðlaganna æ meir og meir list hans og verður hann rammíslenzkur í síðari sönglögum sínum.

Á Þessum árum var vakning í þjóðlífinu og þjóðin háði sjálfstæðisbaráttuna. Skáldin yrkja um ættjörðina og var þá ekkert eðlilegra en að þessi frelsishugur kæmi fram hjá tónskáldunum. Þessar hræringar tímans má merkja hjá Sigfúsi, sérstaklega í lögunum „Þú álfu vorrar yngsta land“, „Rís þú unga Íslands merki“ og „Sjá, hin ungborna tíð“.

Sumarið 1904 dvaldi Sigfús hér, í Reykjavík og hélt þá kirkjuhljómleika í félagi við Brynjólf Þorláksson. Sumarið eftir kom hann heim aftur og með honum dönsk söngkona frk. Valborg Hellemann og héldu þau samsöngva í Bárunni, fóru svo um haustið til Noregs og sungu þar víða opinberlega og eins í Kaupmannahöfn, er þau komu úr Noregsförinni. Vorið eftir, 1906, giftust þau í Kaupmannahöfn, en um sumarið ferðuðust þau hér kring um land og héldu söngskemmtanir á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Um haustið settust þau að hér í Reykjavík, þar sem þau áttu heima eftir það, meðan Sigfús lifði. Frú Valborg Inger Elisabeth, kona Sigfúsar, er dóttir Alfreds Hellemanns cand. polyt. í Kaupmannahöfn, fædd 2. maí 1883. Söng og píanóleik lærði hún á kgl. tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn.

Þau hjón lögðu fyrir sig söngkennslu og lifðu framan af við þröngan kost, því að hér var ekki feitan gölt að flá. Á þessum árum kenndi Sigfús um 50 tíma á viku í ýmsum skólum og var þá lítill tími til tónsmíða. Í ársbyrjun 1913 tók hann við dómkirkjuorganistastarfinu af Brynjólfi Þorlákssyni, sem þá fluttizt til Vesturheims, og þá tók hann einnig við söngkennslu í Menntaskólanum af Brynjólfi. Báðum þessum störfum gegndi hann til æviloka. Söng í Kennaraskólanum hafði hann kennt frá stofnun skólans 1908. Batnaði nú hagur Sigfúsar. Auk framangreindra starfa kenndi hann guðfræðistúdentum tón og sálmasöng á árunum 1911-1929.

Söngflokkur Sigfúsar Einarssonar
Söngflokkur sem Sigfús stjórnaði á undan 17. júní
Smella á myndina til að sjá nöfn
Söngstjórn var mikill þáttur í starfi Sigfúsar. Áður hefur verið sagt frá skólapiltakórnum á námsárum hans í Reykjavík, íslenzka stúdentakórnum í Kaupmannahöfn og blönduðum kórsöng undir hans stjórn í Dómkirkjunni í Reykjavík sumarið 1904. Þegar Friðrik VIII konungur kom hingað til lands sumarið 1907 var einn liður móttökunnar ferðalag austur um sveitir. Móttökunefndin fékk Sigfús til að æfa 10 manna karlakór, sem ferðaðist með konungi og fylgdarliði hans og  söng á Þingvöllum, Geysi og fleiri áningarstöðum, „Kátir piltar“ undir stjórn Brynjólfs Þorlákssonar sungu í aðalveizlunni á Þingvöllum, en héldu síðan aftur til Reykjavíkur. Upp úr þessum 10 manna söngflokki var síðan karlakórinn „17. júní“ stofnaður, sem söng undir stjórn Sigfúsar allt til ársins 1918, er hann var lagður niður. Ennfremur stjórnaði Sigfús 50 manna söngflokki karla og kvenna, sem söng á norrænu söngmóti í Kaupmannahöfn 1929 við mikinn orðstír. Síðustu árin stjórnaði hann söngflokknum „Heimir“ ( bl. kór), sem lagði sérstaklega fyrir sig að syngja gömul klassísk tónverk.

Sigfús stjórnaði Hljómsveit Reykjavíkur fyrstu árin, sem hún starfaði (1925-27). Annarsstaðar hefur verið sagt frá aðdragandanum að stofnun hljómsveitarinnar, en þeir Sigfús og Jón Laxdal stofnuðu hana formlega árið 1925.

Loks skal þess getið, að á Alþingishátíðinni 1930 var Sigfús skipaður allsherjar söngmálastjóri og mun það ekki sízt honum að þakka, hve allur söngur fór þá vel úr hendi.

Sigfús hefur lagt mikinn skerf til kirkjusöngsins. Umbætti hann kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar og gaf hana út 1906, svo mikið breytta, að með réttu hefði mátt kenna hana við Sigfús. Þegar bókin var gefin út að nýju 1919, þá var hún kennd við hann. Hann bjó undir prentun með Páli Ísólfssyni Sálmasöngsbókina frá 1936 og er margt í þeirri bók til bóta. Messusöngva, sem nú eru notaðir í íslensku kirkjunni var honum falið að semja. Ennfremur sálmalög og önnur andleg lög.

Sigfús lét sér annt um alþýðusönginn í landinu. þeir Sigfús og Halldór Jónasson frá Eiðum söfnuðu og bjuggu til prentunar „Íslenzkt söngvasafn I-II“, sem inniheldur 300 sönglög. Þessi bók mun hafa verið til á hverju heimili í landinu, þar sem iðkaður er söngur og hljóðfærasláttur. Alkunn eru Alþýðusönglög I-III, með íslenzkum þjóðlögum og frumsömdum lögum eftir hann sjálfan. Þá hefur hann samið og gefið út 22 vísnalög, með íslenzkum og dönskum textum. Mörg lögin eru með því bezta, sem tónskáldið samdi, en því miður alltof lítið þekkt af þjóðinni. 

Þá er að minnast á tónskáldið. Páll Ísólfsson hefur sagt um Sigfús frænda sinn: „Það lætur að líkindum, að maður, sem haft hefur öðrum eins mörgum störfum að sinna og Sigfús Einarsson, hafi ekki haft mikinn tíma til að hlýða hinni eiginlegu köllun sinni sem tónskáld að Guðs náð - en það er Sigfús með réttu“. Ennfremur segir Páll: „Sigfús er frumlegt tónskáld. Í mörgum af verkum hans er ósvikinn norrænn andi, og finnst mér sá andi gera meira vart við sig í hinum síðari verkum höfundarins, og vil ég aðeins nefna sem dæmi lagið „Ísland“, sem hann samdi í tilefni af Nordisk Sangerfest 1929, og er eitt hið tilkomumesta tónverk, sem við eigum. Þá er sá þáttur í list hans, sem vert er að minnast sérstaklega á, en það er, hversu lipra hönd hann hefur við að raddsetja íslenzk þjóðlög. Eru margar af raddsetningum hans snilldarlegar og svo smekklega gerðar, að hvergi er á hrukka.“

Og Emíl Thoroddsen hefur sagt um Sigfús sem tónskáld: „Annað atriði (hann er búinn að ræða um þjóðlagaraddsetningar Sigfúsar ), sem einkennir verk Sigfúsar, er látleysið í yfirbragði þeirra, hin eðlilega og svikalausa framsetning, hjáróma fjálgleikur og innantómar aflraunir eiga sér hvergi stað. Þó skortir Sigfús hvorki kraft né viðkvæmni; hinn óbilandi norræni kraftur lýsir sér einna bezt í laginu „Ísland“, og viðkvæmnin í ótal smálögum, sem sum eru hreinar perlur, og mörg alltof lítið kunn."

Sigfús hafði sér við hlið konu, sem unni tónlistinni engu minna en hann. Þau hjón, Sigfús og Valborg, eignuðust tvö börn, sem bæði tóku tónlistina í arf frá foreldrunum. Dóttirin er hin kunna söngkona Elsa Sigfúss, fædd 19. nóvember 1908. Hún hefur samið nokkur sönglög. Sonurinn, Einar Sigfússon, fæddur 9. desember 1909, er fiðluleikari í sinfóníuhljómsveit í Árósum og kennari við tónlistarskólann þar í borginni. Hann hefur komið opinberlega fram sem einleikari þar í landi og hér í Reykjavík.

Sigfús Einarsson var gáfaður maður, dulur í skapi og lítið gefinn fyrir að trana sér fram. Hann var alvörumaður, en þó gæddur húmor, iðjumaður mikill og vandvirkur. Hann var virtur og vinsæll af öllum, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var einn af merkisberum íslenzkrar menningar og áhrifamikill brautryðjandi í íslenzkri tónlist. Með tónum sínum hefur hann sungið sig inn í huga og hjarta þjóðarinnar.

Hér á eftir eru helztu sönglagaúgáfur Sigfúsar taldar og önnur rit eftir hann:

Íslenzk sönglög fyrir fjórar karlmannaraddir, Kmhfh. 1903, Lofgjörð úr Davíðssálmum, Rvík. 1904, Fjögur einsöngslög með píanóundirleik (Gígjan o. fl. ), Íslenzk sönglög fyrir fjórar karlmannaraddir (Hörpuhljómar), Rvík. 1905, Til fánans, Rvík. 1906 Að Lögbergi, Rvík. 1907, „Jónas Hallgrímsson“, Rvík,1907, Alþýðusönglög I-III, Rvík. 1911, 1912, 1914. Fjögur íslenzk þjóðlög í tilefni af söngmóti í Kaupmannahöfn 1929, Kmhfn. 1929, 22 vísnalög með íslenzkum og dönskum textum, Kmhfn.1931. Auk þess, sem að framan er talið, hefur hann gefið út smásöngbækur fyrir barnaskóla, 3 hefti.

Almenn söngfræði handa byrjendum, Rvík. 1909, Stutt kennslubók í hljómfræði, Rvík. 1910, Söngkennslubók, Rvík. 1924. Kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar endurskoðuð, Rvík. 1906.

Kirkjusöngsbók Sigfúsar Einarssonar, Rvík. 1919, Sálmasöngsbók Sigfúsar Einarssonar og Páls Ísólfssonar, Rvík. 1936, Messusöngvar, útgefandi Prestafélag Íslands, Rvík, 1934. 


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa