Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
15.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Strokkvartettar
Tveir víðfrægir strokkvartettar léku í Reykjavík á þessu tímabili, Pragkvertettinn og Buschkvartettinn. Var heimsókn þeirra mikill tónlistarviðburður, sem lengi mun í minnum hafður.

Pragkvertettinn hélt sex tónleika hér í júnímánuði 1936, alla fyrir fullu húsi. Lögin voru eftir Debussy, Borodin, Grieg, Schubert og tékknesku tónskáldin Smetana, Dvorak, Schulhoff og Zach. Hljóðfæraleikararnir voru L. Cerny (primarius og lífið og sálin í kvartettinum), H. Bergér W. Schweifa og J. Vectornor. Þetta var eins og stórblaðið Figaro hefur sagt um þá: “Framúrskarandi listamenn, sem hafa það vald yfir hljóðfærunum, sem Bæheimsmenn einir hafa. Djúpur og skáldlegur skilningur einkennir list þeirra, svo og litskrúð.”

Strokkvarettar eru söngelskum mönnum mikil nautn. Þess vegna sáust mörg sömu andlitin á öllum tónleikunum.

Busch-kvartettinn hélt sex tónleika í Gamla Bíó í júnímánuði 1947, alla fyrir fullu húsi, og lék kvartetta eftir Schubert. og Beethoven. Þetta. er talinn einn bezti strokkvartett heimsins á klassíska tónlist. Adolf Busch stofnaði kvartettinn árið 1919 með sjálfan sig sem primarius. Hljóðfæraleikararnir voru Adolf Busch, Ernst Drucker, Hugo Gottesman og Hermann Busch, sem er yngri bróðir þeirra , Adolfs og Fritz Busch. Hermann er fæddur 1897 og hefur leikið í strokkvartettinum sem cellisti síðan 1933. Adolf Busch og Hugo Gottesman. hafa leikið í kvartettinum frá byrjun. Fiðluleikarinn Ernst Drucker var áður Reykvíkingum góðkunnur.

Á næsta tímabili léku nokkrir strokkvartettar hér í Reykjavík: Flensborgarkvartettinn ( 1953), Smetanakvartettinn (1957), Juilliard-kvartettinn (1958), Komitaskvartettinn frá Sovét-Armeníu (1959), að ógleymdum strokkvartett Björns Ólafssonar.

Meira um kammermúsík
Íslendingar létu ekki útlendinga eina um kammermúsík í Reykjavík á þessum árum. Þeir iðkuðu sjálfir þessa list af áhuga og léku opinberlega. Ber fyrst að nefna svokallaða Háskólatónleika þeirra Björns Ólafssonar og Árna Kristjánssonar, sem haldnir voru árum saman, allt frá 1940, og settu svip á tónlistarlífið. Kammermúsíkkúbburinn var stofnaður 1945. Klúbburinn hélt Sibelíusartónleika í hátíðarsal Háskólans í desember 1945, í tilefni af 80 ára afmæli tónskáldsins. Þá lék strengjasveit Tónlistarskólans undir stjórn dr. Victors Urbancic meðal annars „Vals triste“, eitt af kunnustu lögum tónskáldsins, og ennfremur svítuna „Rakastava“ (Elskhuginn). Björn Ólafsson og Árni Kristjánsson léku fiðlusónatínu í e-dúr, op. 80, og barítónsöngvarinn Roy Hickman söng þrjú sönglög eftir Sibelíus. Þess skal ennfremur getið, að Kammermúsíkklúbburinn hélt hljómleika í hátíðarsal Menntaskólans árið 1949 og var þá flutt Tríó fyrir óbó, klarinett og horn eftir Jón Nordal.

Á kammermúsíktónleikum Tónlistarfélagsins, sem haldinn var dagana 28. og 29. janúar 1946, var leikinn kvintett í A-dúr eftir Mozarts fyrir klarinett og strokhljóðfæri. Klarinetthlutverkið lék Vilhiálmur Guðjónsson. Á þeim tónleikum var einnig leikinn svonefndur Silunga kvintett eftir Schubert og lék Árni Kristjánsson píanóhlutverkið. Strokkvartett Tónlistarskólans lék í báðum verkunum. Tvennt er eftirtektarvert við þessa tónleika. Í fyrsta lagi, að hér kemur fram nýstofnaður strokkvartett, en í honum eru kennarar Tónlistarskólans og er Björn Ólafsson aðalmaðurinn og sannkallaður „primus motor“ í þessari starfsemi. Hitt er það, að hér koma tveir nýir listamenn fram, annar er Vilhjálmur Guðjónsson klarinettleikari, sem lék klarinetthlutverkið í Mozarts kvintettinum mjög fallega en hinn er Einar B. Waage kontrabassisti og einn af hljóðfæraleikurunum í strokkvertettinum. Báðir voru þeir nýkomnir frá námi í Ameríku.

Á tónleikum Tónlistarfélagsins í Tripólileikhúsinu í marz 1947 leikur m. a. strengjasveit, þjálfuð af Birni Ólafssyni. Þetta voru fjölbreyttir tónleikar. Þar var leikinn Brandenborgarkonsert eftir Bach, verk eftir Mozart o.fl.

Á þessum árum er annar íslenzkur strokkvartett starfandi, sem nefndist Stengjasveitin Fjarkinn. Í honum eru hljóðfæraleikararnir Þorvaldur Steingrímsson. Óskar Cortes, Sveinn Ólafsson og Jóhannes Eggertsson. Þessi kvartett lék á tónleikum í hátíðarsal Háskólans 9. maí 1949 píanókvintett eftir Schumann, en Rögnvaldur Sigurjónsson lék píanóhlutverkið. Ennfremur lék þá klarinettleikarinn Egill Jónsson Phantasiestück eftir sama höfund með undirleik Rögnvalds.

Á sama stað voru haldnir Chopintónleikar 30. okt. 1949 til minningar um hundruðustu ártíð tónskáldsins (Chopin dó 17. okt. 1949). Þá lék Jórunn Viðar píanólög, Einar Vigfússon cellósónötu, Björn Ólafsson; Einar Vigfússon og Jórunn Viðar léku Tríó, öll lögin eftir Chopin.

Fleiri slíka tónleika mætti telja, en þetta verður að nægja.

Mandolínhljómsveit Reykjavíkur
Hljómsveitin hélt næstum árlega konserta á árunum 1945-50, marga í senn, og við góða aðsókn. Hljóðfæraleikararnir eru um 20, flestir nemendur Sigurðar Briem, sem er kunnur kennari á þetta hljóðfæri. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Haraldur K. Guðmundsson. Viðfangsefnin voru yfirleitt létt klassisk tónlist og lög enn léttari tegundar, sem ekki rista djúpt, en eru samt góð lög og skemmtileg.

Mandolín, gítarar, mandóla eða mandora eru af lútu-tegundinni, og má rekja sögu þessara hljóðfæra langt aftur í aldir til Austurlanda. Márarnir komu með gítarinn til Evrópu og er hann vinsælt hljóðfæri á Spáni enn í dag.

Oft hefur verið gripið til gítarsins, þegar mansöngvar voru fluttir. Mozart lætur Don Juan 1eika undir á gítar, er hann syngur mansönginn fræga í samnefndri óperu, og hinn kunni mansöngur í „Bajazzo“ eftir Leancovallo byrjar með þessum orðum: „Ak, Columbine, hörer du Gitarens Klang“ En það eru fleiri hræringar sálarlífsins, sem þessi hljóðfæri eru látin túlka. Spánska tónskáldið Manuel de Falla (1876-1946) samdi fyrir gítarleik sorgarlagið „Við gröf Debussy.“

Frægir tónsnillingar voru góðir gítarleikarar, eins og Paganini og Berlioz. Danska tónskáldið Henrik Rung lék vel á þetta hljóðfæri.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa