Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
17.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Hljómsveit Reykjavíkur
Forsagan er áður sögð. Þar var sagt frá stofnun hljómsveitarinnar 1925, skýrt frá aðdraganda og getið um fyrstu hljómsveitarstjórana. Árið 1930 er Dr. Franz Mixa ráðinn aðalhljómsveitarstjóri og er hér á eftir nánar sagt frá störfum hans.

Dr. Franz Mixa er fæddur í Vínarborg árið 1902. Hann lauk stúdentsprófi 19 ára. Fór þá strax sama árið á músíkháskólann og var aðalfag hans tónvísindi samhliða heimspeki og sálarfræði. Jafnframt músíknáminu stundaði hann í tvö ár nám við Vínarháskólann og eitt ár í viðbót eftir að hann hafði lokið prófi við músíkháskólann. Doktorsritgerð sína „Die Klarinette beim Mozart“ varði hann við háskólann 1928.

Hingað til lands kom dr. Mixa um haustið 1929. Réði Sigfús Einarsson hann hingað til að æfa hljómsveitina fyrir Alþingishátíðina 1930, en hátíðarnefndin hafði sett það skilyrði, að hljómsveitinni yrði fenginn vanur stjórnandi og kennari frá útlöndum. Hann reyndist bráðsnjall og ötull í öllum störfum.

Þegar Tónlistarskólinn tók til starfa haustið 1930, var dr. Mixa ráðinn kennari við skólann í píanóleik og tónfræði. Hann var góður kennari og vinsæll, og kunni þá list að gera tónfræðina, sem hjá mörgum kennurum verður þur og strembin, lifandi og aðlaðandi.

Jafnframt var dr. Mixa. ráðinn stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur. Tónlistarfélagið rak hvorttveggja, Tónlistarskólann og hljómsveitina, og var skólinn stofnaður fyrst og fremst með það fyrir augum að veita hljómsveitar meðlimunum tilsögn.

Dr. Mixa var mikill leiðandi kraftur í tónlistarlífi Reykjavíkur, meðan hann dvaldi hér, og stjórnaði fjölmörgum tónleikum, sem allir voru haldnir á vegum Tónlistarfélagsins. Af mörgum tónleikum Hljómsveitar Reykjavíkur sem hann stjórnaði, skal nefna tónleika í Gamla Bíó í febrúar 1933. Þá leikur Björn Ólafsson, nemandi í Tónlistarskólanum, fiðlukonsert eftir Vivaldi, og Helga Laxnes, einnig nemandi skólans, píanókonsert í d-moll eftir Mozart. Þá skal ennfremur nefna Mozart tónleika í Gamla Bíó í febrúar 1935. Þá leikur Katrín Dalhoff, nemandi skólans, áðurnefndan píanókonsert eftir Mozart. Í marz sama ár heldur hljómsveitin í Gamla Bíó Bach-Händel tónleika. Loks skal nefna tónleika í Gamla Bíó 15. des. 1937, sem eru eftirtektarverðir fyrir það, að þá er flutt Messan í g-dúr eftir Schubert í heild, í fyrsta sinn hér á landi.

Dr. Mixa átti frumkvæði að hinum vinsælu óperettusýningum, sem á sínum tíma settu mikinn svip á tónlistarlífið í Reykjavík. Sjálfur stjórnaði hann þremur fyrstu óperettunum, en þær eru þessar: „Meyjaskemman“ eftir Schubert, frumsýnd 1. febr. 1934. (Var aftur flutt árið 1938 og þá undir stjórn dr. Victors Urbancic), „Systirin frá Prag“ eftir Wenzel Müller, frumsýnd 30. marz 1937 (þetta er talin vera komisk ópera) og „Bláa. kápan“ eftir Walter Kollo, frumsýnd 2. febr. 1938. Allar óperettunnar voru sýndar í Iðnó. Dr. Mixa reið einnig á vaðið með flutning stórra kórverka með hljómsveitarundirleik, (Messan í g-dúr eftir Schubert), sem síðar urðu mikill liður í starfi hljómsveitarinnar.

Dr. Franz Mixa hvarf af landi brott á árinu 1938 og tók þá dr. Victor Urbancic við störfum hans hjá Tónlistarfélaginu.

Dr. Victor Urbancic (1903-1958). Hann hélt lengi hinum þýzka rithætti á nafni sínu (Urbantschitsch), en tók síðar upp annan rithátt til hægðarauka fyrir Íslendinga og ritaði þá nafn sitt Dr. Victor Urbancic.

Dr. Victor Urbancic er einhver fjölgáfaðasti og bezt menntaði tónlistarmaður, sem starfað hefur í tónlistarlífi Reykjavíkur. Hann var mikill starfsmaður og hverjum vanda vaxinn, svo að segja má með sanni, að allt léki í höndum hans, sem hann snerti á, enda urðu afrek hans mikil og góð, eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Dr. Victor Urbancic var fæddur í Vínarborg 9. ágúst 1903 og var faðir hans prófessor í læknisfræði við háskólann þar. Ættin er af júgóslavneskum stofni. Hann lærði tónlistarfræði við háskólann í Vínarborg hjá hinum víðkunna fræðimanni og rithöfundi Guido Adler, og tónfræði og tónsmíði (Komposition) hjá Josep Marx. Píanóleik lærði hann hjá dr. Paul Weingartner, hljómsveitarstjórn hjá Clemens Kraus, sem er frægur stjórnandi hljómsveita og söngleika í Vínarborg og víðar.

Áður en dr. Urbancic kom hingað til 1ands hafði hann á hendi hljómsveitarstjórn í Max Reinhards-leikhúsinu í Vínarborg (1923-26), og síðan í óperuleikhúsinu í Mainz í Þýzkalandi í sjö ár (1926-33). Um veturinn 1934 stjórnaði hann sem gestur óperum í þjóðleikhúsinu í Belgrad. Um haustið var hann ráðinn varaskólastjóri óperu- og tónlistarskólans í Graz í Austurríki, og jafnframt kennari í píanó- og orgelleik við skólann. Einnig gegndi hann með þessum störfum lektorsstöðu í tónvísindum við háskólann í Graz og var jafnframt stjórnandi hljómsveitar háskólans. Í Graz var hann til haustsins 1938, en þá fór hann til Íslands.

Árið 1925 varð hann dr. phil. fyrir ritgerð um sónötuform Brahms og hefur sú ritgerð verið gefin út. Hann var þá ekki nema 22 ára gamall, en doktorsritgerðin þykir svo merkileg, að hennar er getið meðal helztu heimildarrita um tónskáldið í Asehhaugs Musikleksikon, sem gefið var út í tveim bindum í Kaupmannahöfn 1957.

Dr. Victor Urbancic hefur samið mörg tónverk og hafa ýms verið prentuð. Eru þetta verk fyrir hljómsveit, píanó, kammermúsíkverk, kantata fyrir kór og hljómsveit, sem flutt var í (Graz við ágætar viðtökur). Sönglög hans hafa oft verið sungin í Þýskalandi. Urbancic er ágætur píanóleikari, og hélt víða erlendis píanótónleika, áður en hann fluttist til Íslands, meðal annars í Vínarborg, Budapest, Amsterdam og fleiri borgum. Hér í Reykjavík var dr. Urbancic mikið eftirsóttur undirleikari hjá söngvurum og fiðluleikurum. Einnig kom hann fram sem orgelleikari.

Eins og áður er sagt var dr. Urbancic ráðinn eftirmaður dr. Mixa hjá Tónlistarfélaginu. Hann tók þá við kennslustörfunum í píanóleik og tónfræði í Tónlistarskólanum og jafnframt við hljómsveitarstjórastarfinu. Ekki verður hér getið um einstaka tónleika Hljómsveitar Reykjavíkur aðra en þá, þar sem flutt eru stór kórverk, en dr. Urbancic flutti hér fyrstur óratoríur og önnur skyld stór kórverk meistaranna, og tók þar upp þráðinn af dr. Mixa , sem flutti Messuna í g-dúr eftir Schubert árið 1937, eins og áður hefur verið sagt frá. Helztu kórverkin eru þessi: „Messías“ eftir Händel (1940 og 1948), „Judas Makkabeus“ eftir sama höfund (1947), „Requiem“ eftir Mozart (1942 og 1949), „Jóhannesarpassían“ eftir Bach (1943) og „Jólaóratóríu“ eftir sama höfund (1947). Loks skal nefna „Stabat mater“ eftir Rossini (1951) og „Davíð konung“ eftir Honegger, sem flutt voru í Þjóðleikhúsinu. Flutningur þessara verka þótti ávallt mikill tónlistarviðburður.

Þjóðleikhúsið tók til starfa vorið 1950 og var dr. Urbancic þá ráðinn þar hljómsveitarstjóri og söngstjóri og gegndi þeim störfum fram að andláti sínu. Hann var áður stjórnandi við óperuhús erlendis og vanur starfinu, og nú varð hann brautryðjandi í óperuflutningi á Íslandi. Leikstjórnina hafði annar maður á hendi, oft útlendur, en sönglega hliðin var í hans hendi. Áður hafði hann stjórnað hér óperettunni „Brosandi land“ eftir Lehar í Iðnó árið 1940. Í Þjóðleikhúsinu hafði hann á hendi söngstjórn og hljómsveitarstjórn í eftirtöldum óperum og óperettum: „Káta ekkjan“ eftir Lehar (1956), „Sumar í Tyrol“ eftir Benatsky (1957), hvorttveggja óperettur, og óperunum „Rigoletto“ (1951), „Traviata“ (1953), báðar eftir Verdi, „Cavelleria rusticana“ eftir Mascagni og „Pagliacci“ eftir Leancovallo, báðar sýndar á sama kveldi (1954). Ennfremur „Tosca“ eftir Puccini (1957) og „Töfraflautan“ eftir Mozart (1956). Loks skal þess getið að hann var söngstjóri í „Úlla Winblad“ eftir Carl Zuckmayer, en leikritið er um Bellman, sýnt 1958, en dr. Urbancic andaðist á því ári.

Í kaflanum. um kórsöng hér á eftir verður nánar talað um afskipti dr. Urbancic af kórsöng, en hann var söngstjóri Tónlistarfélagskórsins og síðar Þjóðleikhúskórsins. Ennfremur verður þá minnst á kórstjórn hans í Landakotskirkjunni, en hann var kaþólskur og organisti og söngstjóri kirkjunnar.

Dr. Urbancic var fæddur Austurríkismaður, en öðlaðist íslenzkan ríkisborgararétt. Hann var sannur Íslandsvinur og hafði áhuga á íslenzkum þjóðlögum, safnaði þeim og raddsetti fyrir kóra. Hann var hámenntaður listamaður, en ljúfur og vinsæll af þeim, sem þekktu hann og lutu hans stjórn í listinni. Minningarsjóðurinn, sem Þjóðleikhúskórinn stofnaði um hann, ber vott um þá ást og virðingu, er hann naut.

Á árinu 1948 var svo komið hljómsveitarmálunum, að Hljómsveit Reykjavíkur var hætt störfum vegna ýmislegra erfiðleika, en í sambandi við Tónlistarskólann starfaði strengjasveit og voru kennarar skólans máttarstoðir hennar. Félag íslenzkra hljóðfæraleikara hafði sett saman hljómsveit, sem varð mjög skammlíf. Hún hélt tónleika í Tjarnarbíó í maí 1944 undir stjórn Róberts Abrahams og er síðan úr sögunni. Síðan stofnuðu hljóðfæraleikararnir Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur, en hér var þó í raun og veru ekki um nýja hljómsveit að ræða, heldur nýtt nafn á Hljómsveit Reykjavíkur. Hljómsveitin hélt meðal annars tónleika í Austurbæjarbíó 2.janúar 1948 undir stjórn dr. Urbancic og aftur á sama stað 9. marz sama ár, Mozarttónleika undir stjórn Róberts Abrahams. Enn hélt hljómsveitin tónleika á sama stað 8.desember 1949 undir stjórn dr. Páls Ísólfssonar. Einnig þessi hljómsveit virtist naumast geta átt langt líf fyrir höndum. Hingað til höfðu hljóðfæraleikararnir í hljómsveitinni unnið kauplaust, en þeir voru flestir atvinnuspilarar og eðlilegt að þeir vildu fá vinnu sína borgaða. Það varð því að finna traustan fjárhagsgrundvöll fyrir rekstri hljómsveitar. Þá var Sinfóníuhljómsveitin stofnuð, sem nú er rekin með styrk frá Ríkinu, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpinu og Þjóðleikhúsinu. Hinn 9. marz 1950 hélt hin nýja Sinfóníuhljómsveit fyrstu tónleika sína, og við þann dag miðar hún aldur sinn.

Saga Sinfóníuhljómsveitarinnar tilheyrir næsta tímabili og verður þar sögð, en geta verður hér þeirra manna, sem mest og bezt hafa unnið að hljómsveitarmálunum fram að þessu, en það eru forystumenn Tónlistarfélagsins, sem rak hljómsveitina og skólann. Páll Ísólfsson hefur alltaf átt mestan þátt í marka stefnuna og sér við hlið hefur hann haft ötula framkvæmdamenn, þá Ragnar Jónsson forstjóra í Smára og Björn Jónsson, fyrrverandi kaupmann, og síðar framkvæmdastjóra Tónlistarfálagsins. En hér verður einnig að nefna Björn Ólafsson fiðluleikara. Hann hvarf hingað heim frá framhaldsnámi í Vínarborg skömmu fyrir 1940 og hefur síðan verið meginstoð alls hljómsveitarstarfs í Reykjavík og kennari allra yngri fiðluleikara.

Af merkum tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrsta starfsárið eru Sibeliusartónleikar í Þjóðleikhúsinu 27. júní 1950. Þá lék hljómsveitin undir stjórn Jussi Jalas meðal annars Finlandia, Valse triste, þætti úr svítunni „Pelleas og Melisande“. Ennfremur sinfóníu nr. 2 í d-dúr. Jussi Jalas er hljómsveitarstjóri í Helsingfors, fæddur 1908. Hann er tengdasonur Sibeliusar.

Annar merkur tónlistarviðburður er flutningur óperunnar „Brúðkaup Figaros“ eftir Mozart í Þjóðleikhúsinu í júní 1950. Söngvararnir voru frá konunglegu óperunni í Stokkhólmi, en hljómsveitarstjórinn var Kurt Bendix. Söngvarar voru m.a. Joel Berglund (barítónn), forstjóri kgl. leikhússins í Stokkhólmi. Hann söng Figaró. Hjördís Schymberg (sópran) söng Susönnu, Helga Görlin (sópran) söng greifafrúna Sigurd Björling (barítónn) söng greifann. Öll eru þau hirðsöngvarar að nafnbót og víðfræg enda var söngurinn frábær.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa