Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
18.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950 – Kórsöngur

Karlakórar (framhald)
Karlakór Reykjavíkur. Kórinn er stofnaður árið 1926 af Sigurði Þórðarsyni tónskáldi, sem síðan var söngstjóri hans í næstum 40 ár. Hann var söngstjóri kórsins 1926-1965, að undanskildu árinu 1957, sem dr. Páll Ísólfsson hafði söngstjórnina á hendi. Í október 1965 tók Páll Pampichler Pálsson við af Sigurði og hefur verið söngstjóri kórsins síðan.

Undir handleiðslu Sigurðar varð kórinn á skömmum tíma öndvegiskór, og var lengi manna á meðal metingur um það, hvor kórinn væri betri, Karlakórinn „Fóstbræður“ eða Karlakór Reykjavíkur. Emil Thoroddsen, sem um tíma var listdómari Morgunblaðsins, var orðinn þreyttur á þessum sífelldu spurningum og sagði, að úr því yrði ekki skorið nema með atkvæðagreiðslu, en sú atkvæðagreiðsla fór vitanlega aldrei fram.

Meginstarf kórsins voru árlegir konsertar hér í Reykjavík. Af mörgum nafnkunnum einsöngvurum kórsins ber fyrst og fremst að nefna óperusöngvarana Stefán Íslandi, Guðmund Jónsson, Guðmund Guðjónsson og söngvarana Gunnar Pálsson og Hermann Guðmundsson. Þá skal nefna söngkonurnar Davina Sigurðsson, Guðrúnu Á Símonar og Sigurveigu Hjaltested. Aðrir nafnkunnir söngvarar hafa sungið einsöng með kórnum, eins og óperusöngvararnir Þorsteinn Hannesson og Kristinn Hallsson, en sá síðarnefndi er annars einsöngvari hjá „Fóstbræðrum“. Þá söng Kjartan Sigurjónsson frá Vík hér áður fyrr einsöng með kórnum.

Undirleikarar kórsins hafa verið píanóleikararnir Anna Pjeturs, Guðríður Guðmundsdóttir og Fritz Weisshappel sem var fastur undirleikari frá 1946.

Karlakór Reykjavíkur hefur farið í nokkur söngferðalög til útlanda eins og hér segir: Til Norðurlanda 1935, Mið-Evrópu 1937, Bandaríkja Norður Ameríku og Kanada 1946, Miðjarðarhafslanda 1953, aftur til Norðurlanda 1956 og loks til Norður Ameríku í annað sinn 1960.

Þessi söngferðalög beggja megin Atlantshafsins hafa orðið góð landkynning og kórinn fékk hvarvetna ágætar viðtökur og lofsamlega blaðadóma. Kaupmannahafnarblaðið Berlingske Tidende 9. nóv.1937 sagði: „Raddirnar hafa hinn rétta norræna hljóm, það er sterkur og frjósamur efniviður, sem hefur fengið þá fágun og sveigju, er gerir hann mjúkan og mikilúðgan eftir lögum hrynjandi hljóms.“ Um söngstjórann segir þar: „Kórinn á það hinum ágæta söngstjóra sínum Sigurði Þórðarsyni að þakka, að áhrifin urðu svo samfelld og heil. Undir hans handleiðslu mótast afköst kórsins með festu, með nákvæmni og svipmiklum blæbrigðum, sem þó aldrei þurrka burtu eðli kórsins, heldur styrkja það og draga fram.“ Mjög á sömu lund voru blaðadómar í Berlín, Leipzig, Pragh og Vínarborg, þar sem kórinn söng í þessari ferð. Á öðrum söngferðalögum sínum hefur kórinn vakið hrifningu, hvar sem hann hefur sungið.

Að öðru leyti vísast til sérstakrar greinar um, söngstjórann, Sigurð Þórðarson, hér að framan.

Karlakór iðnaðarmanna. Kórinn er, eins og nafnið bendir á, skipaður mönnum úr iðnaðarstétt. Söngstjóri kórsins fyrstu tíu árin var Páll Halldórsson (1932-1942). Eftir fyrsta samsöng kórsins líkti dr.Mixa kórnum við ótilhöggvinn stein, en síðan var steinninn meitlaður, það er að segja, kórinn agaður af söngstjóra sínum og tók miklum framförum undir hans handleiðslu. Minnisstæðir eru Bellmans-hljómleikar, sem haldnir voru í Gamla Bíó 4.febr. 1940 í tilefni af því, að hundrað ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Söngstjórinn var Páll Halldórsson og undirleikarinn Carl Billich.

Róbert Abraham tók við söngstjórn af Páli og fyrsti samsöngur kórsins undir hans stjórn var haldinn í febrúar 1944. Listdómari Morgunblaðsins, Emil Thoroddsen, segir m.a. um samsönginn „Samsöngurinn á sunnudaginn bar ljósan vott um afburða kórstjórnarhæfileika Róberts Abrahams, því að honum hefur tekist á skömmum tíma að gera úr Karlakór iðnaðarmanna kór, sem er fær um að leysa hin erfiðustu verkefni af hendi með prýði, og var þetta þó áður kór, sem virtist ekki hafa nema miðlungs þróunarmöguleika. En nú kom áheyrendum raunar hvorttveggja í senn gleðilega á óvart, hversu góð stjórnin var, og hversu söngmönnunum sjálfum virðist hafa vaxið ásmegin síðan kórinn lét heyra til sín síðast. Tónblærinn hefur allur á sér menningarbrag og heildarhljómurinn er mjög samfelldur, og bætir það upp hitt, að raddirnar eru yfirleitt ekki eins góðar né þróttmiklar og í þeim beztu karlakórum okkar, sem eiga lengri sögu að baki sér. Var þó sérstaklega eftirtektarvert, hve veikur söngur tókst vel og styrkbreytingar allar hnitmiðaðar.“

Á þessum samsöng voru sungin lög eftir Brahms, Beethoven, Schubert og Wagner. Áhrifamesta lagið var „Altsolo- Rhapsodian“ eftir Brahms, en frú Annie Þórðarson söng altröddina. „Söngur fanganna“ úr óperunni Fidelio eftir Beethoven vakti og athygli og öll meðferðin af hálfu söngstjórans. Maríus Sölvason söng einsönginn í þessu lagi, en hann hefur verið aðaleinsöngvari kórsins og sungið áður undir stjórn Páls Halldórssonar. Hann hefur ljóðræna tenórrödd.

Páll Halldórsson söngstjóri er fæddur 14. janúar 1902 í Hnífsdal. Lauk kennaraprófi 1925 og var kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík 1930-59. Nú er hann bókavörður við Borgarbókasafn. Reykjavíkur.

Tónlistarnám hans er í fáum orðum eins og hér segir: Orgelnám hjá Páli Ísólfssyni 1926-30, hljómfræði hjá Sigfúsi Einarssyni og kontrapunktur hjá dr. Urbancic. Hann stundaði framhaldsnám í Basel 1948-49.

Páll hefur verið organisti Hallgrímskirkju frá upphafi 1941. Söngstjóri Karlakórs iðnaðarmanna 1932-42, eins og áður er sagt, og söngstjóri karlakórsins Þrasta í Hafnarfirði 1927-28 og 1949-50. Ennfremur var hann söngstjóri Söngfélagsins Stefnis í Mosfellssveit 1945-51, en félagið er blandaður kór og karlakór.

Páll er tónskáld og er karlakórlagið „Hornbjarg“ (Þorst. Gíslason) eitt af lögum hans. Hann hefur ásamt Friðriki Bjarnasyni, búið til prentunar „Nýtt söngvasafn“ (1949) Skólasöngva I-II o. fl.

Karlakórinn Kátir félagar. Kórinn starfaði á árunum 1936-1934 og söng nokkrum sinnum opinberlega í Gamla Bíó undir stjórn Halls Þorleifssonar, sem var söngstjóri kórsins allan tímann. Auk þess söng kórinn við önnur tækifæri, t.d. með Hljómsveit Reykjavíkur við uppfærslu á innlendum og erlendum verkum.

Í kórnum voru allt ungir menn og söngurinn æskuléttur. Viðfangsefnin voru aðallega skandinavísk og íslenzk lög. Söngstjórinn var nákvæmur og vandvirkur.

Hallur Þorleifsson er einn af kunnustu kórsöngmönnum í Reykjavík. Hann hefur hljómmikla bassarödd og hefur sungið II bassa í„Fóstbræðrum“ frá því að kórinn var stofnaður 1916. Í Dómkirkjukórnum hefur hann sungið í marga áratugi. Hann er kvæntur Guðrúnu Ágústsdóttur sem hefur verið góður kraftur í sönglífi bæjarins og er kunn einsöngskona. Sonur þeirra er Kristinn Hallsson óperusöngvari.

Árið 1944 rann kórinn „Kátir félagar“ saman við karlakórinn „Fóstbræður“.

Karlakór verkamanna. Kórinn söng undir stjórn Hallgríms Jakobssonar í Gamla Bíó um sumarið 1936. Söngstjórinn er duglegur og alvörugefinn, en söngkraftarnir enn ekki svo góðir, að hægt sé að gera háar kröfur til söngsins.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa