Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
28.03.2014
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

MA-kvartettinn
MA-kvartettin – stofnaður 1932: Þorgeir Gestsson,
Jakob Hafstein, Steinþór Gestsson
og Jón frá Ljárskógum

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950 – Kórsöngur

Karlakórar (framhald)
M.A.-kvartettinn. Söngkvartettinn kennir sig við Menntaskóla Akureyrar enda eru fjórmenningarnir, sem í honum syngja, allir gamlir nemendur skólans, en þeir eru: Þorgeir og Steinþór Gestssynir frá Hæli, Jakob Hafstein frá Húsavík og Jón Jónsson frá Ljárskógum.

Kvartettinn söng hér í Reykjavík á árunum 1932-42 við mikla aðsókn. Raddirnar voru blæfagrar og vel samstilltar, söngurinn prýðilega æfður og vel sungið. Lögin voru við alþýðuskap, hæfilega skipt milli alvöru- og gamanlaga, og víða gætti glettni í kvæðunum, sem kvartettinn kunni vel að leiða í ljós í söngnum, stundum einnig með leik á söngpallinum. En raddmagnið var alveg niðri við það lágmark, sem bjóða má í stórum söngsal, eins og Gamla Bíó, þar sem kvartettinn söng oft, en líf og fjör þeirra félaga í söngnum bætti það upp. Lögin voru yfirleitt af léttara taginu, jafnvel dægurlög, en þau voru sniðug og gátu verið vandsungin, eins og menn á þeim tíma þekktu vel af söng Comedian Harmonists, sem M.A.- kvartettinn tók sér til fyrirmyndar.

Bjarni Þórðarson var undirleikari kvartettsins og fórst það smekklega úr hendi.

Utanbæjarkórar
Karlakór Akureyrar. Kórinn söng hér í Reykjavík í marz 1938 undir stjórn Áskells Snorrasonar. Kórinn er stofnaður 1929. Á söngskránni voru 30 lög, þar af 16 íslenzk, þar af 5 eftir söngstjórann. Erlendu lögin voru öll alþekkt hér á landi og öll með íslenzkum textum. Söngurinn var hreinn og vel æfður.

Áskell Snorrason (f.1888) var söngstjóri kórsins árin 1929-42. Hann vakti nú athygli á sér sem tónskáld með ljóðrænum og fallegum sönglögum, en síðan er hann orðinn kunnari fyrir sönglög sín, sem hafa verið prentuð í sönglagasöfnum (Samhljómum, Ljóðum og lögum, Nýju söngvasafni, Íslandsljóðum og víðar): Hann hefur einnig samið orgelverk.

Áskell Jónsson (f. 1911) tók við söngstjórn kórsins árið 1943 og undir hans stjórn söng kórinn á söngmóti Sambands íslenzkra karlakóra í júnímánuði 1950 hér í Reykjavík.

Karlakórinn Geysir frá Akureyri. Kórinn söng hér í júní 1941 undir stjórn Ingimundar Árnasonar. Áður hafði kórinn sungið hér í Reykjavík á söngmótum Sambands íslenzkra karlakóra árin 1930 og 1934, og enn söng kórinn á slíku söngmóti hér árið 1950. Mikið orð hefur farið af kórnum og hefur hann verið talin í fremstu röð, með beztu Reykjavíkurkórunum. Kórinn mun hafa verið stofnaður um 1923 og var Ingimundur Árnason söngstjórinn frá byrjun og stjórnaði honum óslitið í 35 ár. Ingimundur var snjall söngstjóri og kunni þá list að láta söngmennina syngja af hjartans lyst. Sönggleðin einkenndi kórinn. Styrkur Ingimars var í því fólginn, hversu vel honum tókst að túlka efni og blæbrigði textans og var söngurinn ávallt með menningarbrag.

Ingimundur Árnason var fulltrúi hjá Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri og gekk þar næstur framkvæmdarstjóranum að völdum. Hann hætti söngstjórn 1950 og tók þá Árni sonur hans við kórnum. Ingimundur andaðist fyrir nokkrum árum.

Karlakórinn Vísir á Siglufirði. Kórinn söng hér í Reykjavík í apríl 1937 og aftur í júní 1944. Ennfremur söng hann hér á söngmótum íslenzkra karlakóra árin 1930, 1934 og 1950. Söngmennirnir eru um 40, margir góðir raddmenn og var söngurinn drengilegur og lýsti sönggleðin. Söngstjóri kórsins var Þormóður Eyjólfsson konsúll og hefur stjórnað kórnum frá byrjun, en kórinn er stofnaður árið 1924. Kórinn söng aftur hér 1944, eins og áður er sagt, og hafði þá tekið miklum framförum, Söngskráin var svipuð og hjá öðrum íslenzkum karlakórum á þessum árum, skandinavísk og íslenzk lög.

Karlakórinn Þrestir í Hafnarfirði. „Þrestir“ er fyrsti utanbæjarkórinn, sem syngur í Reykjavík, en langt er orðið síðan Friðrik Bjarnason stofnaði kórinn árið 1912 og stjórnaði honum lengi. Undir hans stjórn söng kórinn hér í Reykjavík á árunum 1922 og 1923, en síðan tók Sigurður Þórðarson við og undir hans stjórn söng kórinn hér á árunum 1924 og 1925. Páll Halldórsson var söngstjóri kórsins 1927-28 og aftur löngu síðar, 1949-50. Einsöngvari kórsins í söngstjóratíð Friðriks og Sigurðar var Sveinn Þorkelsson, sem þá var kaupmaður í Hafnarfirði, en síðan í Reykjavík.

„Þrestir“ sungu í „Gamla Bíó“ í apríl 1937 undir stjórn Jóns Ísleifssonar. Starfsemi kórsins hafði þá legið niðri um skeið, þangað til fyrir einu eða tveimur árum, að Jón tók við stjórn hans. Hann var áhugasamur og duglegur söngstjóri og leiddi kappa sína fram til sigurs á söngpallinum, en þeir voru flestir ungir menn - gömlu söngmennirnir flestir þagnaðir. Söngstjórinn sýndi Friðriki Bjarnasyni, stofnanda kórsins og merka tónskáldi þann sóma, að láta kórinn syngja lög eftir hann. („Hafnarfjörður“ og „Huldur“). Það var einmitt þessi kór, sem innleiddi á sínum tíma hið ágæta lag Friðriks, „Héladans“. Séra Garðar Þorsteinsson, þjóðkirkjuprestur í Hafnarfirði, var einsöngvari kórsins, en hann var á þessum árum einnig einsöngvari hjá „Fóstbræðrum“ í Reykjavík.

„Þrestir“ munu hafa sungið oftar í Reykjavíkur en hér að framan er getið um, enda ekki langt að fara, því stutt er vegarlengdin milli bæjanna.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa