Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
18.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950 – Kórsöngur

Erlendir kórar
Stockholms Studentssängarförbund“.  „Sænsk vika“ var haldin hér í borginni í júnímánuði 1936. Meðal þeirra mörgu sænsku gesta, sem heimsóttu land vort í tilefni vikunnar var ofannefndur karlakór, sem hér var kallaður „sænski stúdentakórinn.“ Kórinn vakti mikla hrifningu meðal bæjarbúa, en hann hélt 4 samsöngva í Gamla Bíó, við húsfylli í hvert sinn. Auk Þess sungu Svíarnir í porti Austurbæjarbarnaskólans, fyrir framan Menntaskólann við Lækjargötu og í útvarp. Á Þingvöllum sungu þeir, ásamt Karlakór Reykjavíkur og Karlakór  K. F. U.M.  Söng þar hver kór fyrir sig, en að lokum allir kórarnir saman undir stjórn allra söngstjóranna. Var þann dag mikill mannfjöldi saman kominn á hinum fornhelga stað og hlustuðu menn á söng kóranna í Almannagjá.

„Stockholms Studentssängarforbund“ var snilldarvel þjálfaður kór: Hér var aðeins úrval kórsins á ferðinni, 26 manns. Einar Ralf stjórnaði söngnum. Hann er gæddur óvenjulegum stjórnar hæfileikum, og er ágætt tónskáld. Flest lögin voru sænsk og alkunn hér á landi. Var gaman að heyra „gömlu kunningjana“ svo vel sungna. Einsöngvari kórsins var barítónsöngvarinn Sigurd Björling, hetjurödd. Hann er nú heimsfrægur óperusöngvari. Mun mörgum minnistæð meðferð hans á „Sten Sture “, hinu tilkomumikla kórlagi Augusts Körling.

„Sænska vikan“ setti svip á bæjarlífið og mikið var um útisöng karlakóranna. Við burtför Svíanna frá hafnarbakkanum voru þeir kvaddir með söng (Karlakór K.F.U.M.) og sungu sjálfir óspart, þá er skipið lagði frá landi, en mikill mannfjöldi var þar saman kominn til að hlýða á sönginn og kveðja hinu sænsku gesti. Þannig lauk hinni sænsku viku með söng og gleði.

Söngfélagið Orphei Drängar. Annar merkur söngviðburður er heimsókn stúdentakórsins í Uppsölum, sem í Svíþjóð er venjulega kallaður O.D. (Orphei Drängar). Kórinn dvaldi hér 10-16 júní 1956 og söng í Þjóðleikhúsinu. Þetta er einn frægasti karlakórinn á Norðurlöndum, og einn sá elzti, (stofnaður 1853) og hefur unnið margan söngsigurinn utan Svíþjóðar, allt frá því Uppsalastúdentakórinn vann l. verðlaun í söngkeppni á heimssýningunni í París 1867, og er sú för enn í dag í minnum höfð. Söngur kórsins hér í Reykjavík tilheyrir að vísu næsta tímabili en þó verður hér stuttlega minnst á hann.

Í hvert sinn sem kórinn söng hér í Þjóðleikhúsinu, söng hann fyrst, á undan lögunum á söngskránni, Bellmanskvæðið, sem nafn kórsins er sótt í:

Hör, I Orphei drängar
stämmen edra stränger.

Kórinn stendur á gömlum merg, fastmótaður af aldargömlum sænskum söngvenjum, hljómurinn norrænn og svipurinn sænskur. Í kórnum ríkir hinn akademiski andi og kúltúr. Meiri hluti laganna var sænskur. Tvö íslenzk lög voru sungin: „Ár vas alda“ eftir Þórarinn Jónsson og „Brennið þið vitar“ eftir Pál Ísólfsson.

Söngur sænsku kóranna var til fyrirmyndar og í alla staði sæmandi hinni miklu söngþjóð.

Söngmót íslenzkra karlakóra. Samband íslenzkra karlakóra var stofnað 1928. Á vegum þess var haldið söngmót - landsmót - í Reykjavík og á Þingvöllum árið 1930, með þátttöku 6 kóra: Karlakór K.F.U.M., Karlakór Reykjavíkur, Söngfélag stúdenta, allir úr Reykjavík, Söngfélagið „Geysir“ á Akureyri, Karlakórinn „Vísir“ á Siglufirði og Karlakór Ísafjarðar.

Árið 1934 var aftur haldið söngmót í Reykjavík með þátttöku sjö kóra, hinna sömu og árið 1930, að öðru leyti en því, að nú mætti ekki Söngfélag stúdenta, en tveir nýir kórar höfðu bæzt við, Karlakórinn Bragi á Seyðisfirði og Karlakór iðnaðarmanna í Reykjavík.

Árið 1950 var enn haldið söngmót í Reykjavík. Þá mættu þessir kórar: Karlakór Akureyrar, Karlakórinn Fóstbræður, Reykjavík, Karlakórinn Geysir, Akureyri, Karlakór Reykjavíkur, Karlakórinn Svanir, Akranesi, Karlakórinn Vísir, Siglufirði og Karlakórinn Þrestir, Hafnarfirði.

Söngmót hafa mikla þýðingu og eru nauðsynleg til að vekja samhug og áhuga á söngstarfinu. Starfsemi, karlakóra er mjög þýðingarmikill þáttur í tónlistarlífi þjóðarinnar.

Söngkennarar S.Í.K. Það má ekki skilja svo við kaflann um karlakórsöng, að ekki sé getið um söngkennara kóranna. Samband íslenzkra karlakóra réð Sigurð Birkis árið 1929 til að kenna karlakórsöngmönnunum og var hann í þjónustu karlakórasambandsins allt til þess tíma, að hann var skipaður söngmálastjóri þjóðkirkjunnar 1941. Sigurður ferðaðist um landið milli kóranna og var þetta mikið starf og þreytandi. Nemendum hans fannst mikið til um áhuga hans og elju við starfið og átti hann vináttu þeirra. Eftirsprnin eftir söngkennslu varð svo mikil næstu árin, að ekki varð hjá því komst að ráða söngkennara til aðstoðar og var þá Þórður Kristleifsson, söngkennari á Laugarvatni, ráðinn og fékk söngkennsla hans einnig einróma lof þeirra, sem reyndu.

Söngkennslan er einn merkasti þátturinn í því að bæta og fegra sönginn og algjört skilyrði þess, að kórsöngur geti orðið listrænn og með menningarbrag.

Sigurður Eyjólfsson Birkis er fæddur á Kvisthóli í Skagafirði 9. ágúst 1893. Foreldrar hans voru Eyjólfur Einarsson bóndi á Reykjum í Tungusveit, og kona hans Margrét Þórarinsdóttir.

Eins og kunnugt er, þá gengur sönggáfan í ættir. Sigurður Birkis hlaut sönggáfuna í arf frá foreldrunum og er hægt að rekja hana langt aftur í ættlegginn. Sjálfur hefur hann sagt þannig frá: „Ég er fæddur Skagfirðingur. Faðir minn, Eyjólfur Einarsson, var frábær söngmaður á sinni tíð og getur séra Bjarni Þorsteinsson prófessor hans í hinni miklu bók sinni „Íslenzk Þjóðlög“ sem ágætis söngmanns. Hann var ekki eldri en 16 ára, þegar hann var orðinn forsöngvari í Mælifellskirkju, og til marks um það, hve góður raddmaður hann hefur verið, er það, að séra Jón Magnússon, faðir Magnúsar Jónssonar prófessors, sagði að sér hefði þótt vænt um þegar Eyjólfur byrjaði lögin of hátt, því að þá varð hann að syngja þau einn, en hann hafði óvenjulega háan og mjúkan tenór. Hann gat sungið upp á e (fyrir ofan „háa-c“), og er það fádæma há tenórrödd“. Móðir Birkis hafði mjúka og fallega sópranrödd og eru sönghneigðir menn í þeirri ætt.

Sigurður Birkis stundaði nám í verzlunarskóla í Kaupmannahöfn 1918-19 og lauk prófi úr skólanum. Aldrei varð neitt úr því, að hann gerði verzlunarfræðina að hagnýtum lið í lífi sínu. Verzlun og viðskipti voru ekki að hans skapi, en sönglistin lét hann ekki í friði. Hann fór því í annað sinn til Kaupmannahafnar haustið 1920 og stundaði söngnám í konunglega tónlistarskólanum og lauk þaðan prófi 1923. Á þessum árum söng hann í hinum nafnkunna karlakór „Bel Canto“ og fór með kórnum í söngferðalag til Prag og fleiri borga og er söngferðin mikið rómuð. Birkis hefur skrifað um hana grein í söngmálablaðið „Heimir“ (eldri) 1925.

Árið 1926 stundaði hann framhaldsnám í söng í Ítalíu, settist árið eftir að í Reykjavík og stundaði söngkennslu sem aðalstarf. Hann söng þá opinberlega við og við og hélt nemendatónleika.

Sigurður Birkis var skipaður söngmálastjóri íslenzku þjóðkirkjunnar 1941, stofnaði marga kirkjukóra og vann þar mikið verk. Hann andaðist árið 1960.

Um Þórð Kristleifsson, sem ráðinn var Sigurði Birkis til aðstoðar, er talað áður (sjá bls. 207). Þar er þess getið, að hann hafi gefið út „Ljóð og lög“ í sjö heftum. Þessi hefti bættu úr brýnni þörf til að viðhalda þjóðlegu sönglífi, og eru í heftunum mörg íslenzk lög, bæði gömul og ný, þar á meðal lög, sem hvergi annarsstaðar hafa birzt. Þórður hefur þýtt marga söngtexta undir erlendum lögum. Árið 1956 birtizt „Vetrarferðin“ eftir Wilhelm Müller í þýðingu hans, en við þennan kvæðaflokk samdi Schubert lögin. Árið 1957 birtust „Íslenzkuð söngljóð“ eftir hann, en þetta eru þýðingar á söngtextum við lög eftir Schubert, Schumann og aðra meistara sönglagsins. Ljóðþýðingar Þórðar eru vandaðar og mjög vel gerðar.

Einar Sturluson söngvari hefur ennfremur kennt karlakórsmönnum söng á vegum S.I.K.  Um hann hefur verið talað áður.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa