Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
25.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Íslensk tónlist
Upp úr 1930 fór íslenzk tónlist smám saman inn á nýjar brautir og verður fjölbreyttari en áður. Fram að þessu höfðu íslenzk tónskáld einskorðað sig við sönglagið, en lítið sinnt öðrum greinum listarinnar. En með nýrri tónskáldakynslóð, sem nú fer að láta að sér kveða, verður breyting á þessu. Áhuginn beinist nú að hljóðfæralist, því að þessi unga kynslóð hafði haft kynni af hljómsveit og allskonar hljóðfæraleik. Fyrstu tilraunirnar voru sumar fálmkenndar og tónsmíðarnar minntu á skólastíla, en með vaxandi tökum á efninu urðu til tónsmíðar fyrir hljóðfæraleik, sem eru íslenzkri tónlist til sóma.

Það er að vísu of fast að orði kveðið, að íslenzk tónskáld hafi ekki samið hljóðfæralög fyrir 1930. Sveinbjörn Sveinbjörnsson var þegar fyrir aldamótin búinn að semja píanólög, fiðlulög og hljómsveitarverk. Sönglögin urðu samt mikill meiri hluti af tónsmíðum hans. Jón Leifs var búinn að semja sín fyrstu hljómsveitarverk fyrir 1930 og Þórarinn Jónsson sitt fræga fiðluverk „Prelúdía og tvöföld fúga um nafnið BACH“. En þetta eru undantekningar. Íslenzk tónskáld fram að 1930 eru öll, að Jóni Leifs undanteknum, fyrst og fremst söngvatónskáld. Sum þessi söngvatónskáld sömdu þó síðar einstaka hljómsveitarverk.

Áður en þessu tímabili lýkur (1950) er þjóðin orðin auðugri að allskonar hljóðfæraverkum, fyrsta píanósónatan (Hallgr. Helgason) var þá fyrir löngu samin, sömuleiðis strokkvartett (Helgi Pálsson) og hljómsveitarverk (Karl 0. Runólfsson o. fl.). Þjóðin hafði eignast íslenzka óperettu („Í álögum“ eftir Sigurð Þórðarson, 1944); en íslenzk ópera og íslenzk sinfónía voru þá enn ósamdar. Þessi verk komu síðar, óperan 1963 (Þorkell Sigurbjörnsson) og sinfónían sama ár (Leifur Þórarinsson).

Hér eru ekki tök á að gera viðhlítandi skil öllum þeim íslenzku tónverkum, sem flutt voru opinberlega í Reykjavík á þessu tímabili. Kórarnir, bæði karlakórar og blandaðir kórar, sungu ávallt mikið íslenzk lög, mörg ný. Minnst hefur áður verið á óratóríu Björgvins Guðmundssonar og kantötuna hans „Íslands þúsund ár“, svo og á Alþingishátíðarkantötu Páls Ísólfssonar og kantötu Karls 0. Runólfssonar („Vökumaður, hvað líður nóttunni“).

Ennfremur skal þess getið, að í Gamla Bíó 18. apríl 1940 var haldið tónsmíðakvöld Karls O. Runólfssonar. Sungin voru lög eftir tónskáldið. „Kátir félagar“ sungu undir stjórn hljómsveitarstjórans dr. Victors Urbancic. Frú Guðrún Ágústsdóttir og Sigurður Markan sungu einsöng. Sama ár var haldinn konsert í Gamla Bíó með íslenzkum verkum. Aðalviðburðurinn voru tvö ný hljómsveitarverk: „Íslenzk svíta“ eftir Árna Björnsson og svítan „Á krossgötum“ eftir Karl 0. Runólfsson. Hljómsveit Reykjavíkur lék undir stjórn dr. Victors Urbancic.

Hallgrímur Helgason hélt tónsmíðakvöld með eigin verkum í Gamla Bíó 18. janúar 1940. Emil Thoroddsen ritaði um tónleikana í Morgunblaðið og segir meðal annars:

Það leyndi sér ekki, að hér er á ferðinni maður, sem vinnur markvíst að tónlistinni og hefur auk þess talsvert meiri kunnáttu til að bera en títt er um íslenzk tónskáld yfirleitt. Hann er auðsjáanlega ekki hræddur við að færast mikið í fang, og setja sér fyrir erfið polyfónverkefni. Og það má segja, að hin stærri viðfangsefni hans séu að forminu mjög vel af hendi leyst.

Árni Thorsteinsson ritaði einnig um tónleikana og sagði, að „Íslenzkur dans“ hafi verið frumlegur og; með nýtízku sniði, en „Íslenzk svíta“ hafi verið perla tónleikanna.

Hallgrímur, sem var þá ungur maður, (fæddur 1914), lék á tónleikunum píanósónötu sína, sem áður er minnst á. Sónatan hefur síðan verið gefin út sem Opus 1. Er hún gott verk æskumanns.

Listamannavikan 1942
Á Hátíðartónleikum listamannavikunnar í Gamla Bíó 22. nóv. 1942 var leikin Introduktion og Passacaglia í f-moll eftir Pál Ísólfsson. Þetta er sama verkið og uppfært var á norrænni tónlistarhátíð í Kaupmannahöfn árið 1938 og veigamesta hljómsveitarverkið, sem fram kom á listamannavikunni. „Fjórir dansar“ eftir Jón Leifs var fyrsta verkið á efnisskránni. Þetta eru íslenzk rímnalög í hljómsveitarbúningi. Þjóðdansarnir eru alkunnir og orðnir hjá okkur nærri klassískir. „Tilbrigði um íslenzkt sálmalag“ eftir Árna Björnsson er viðkunnanlegt verk og aðgengilegt. „Tilbrigði um forníslenzkt sálmalag“ eftir Hallgrím Helgason er mikið hljómsveitarverk og mjög svo eftirtektarvert. Þjóðlagaútsetningar Karls O. Runólfssonar voru frumlegar og skemmtilegar. Hann hefur gott lag á að skrifa fyrir hljómsveit.

Á þessum tónleikum sungu frú Guðrún Ágústsdóttir og Pétur Á. Jónsson nokkur lög. Frúin söng lög eftir Þórarinn Jónsson, en Pétur söng lög eftir Markús Kristjánsson, þar á meðal „Bikarinn“. Dr. Victor Urbancic stjórnaði Hljómsveit Reykjavíkur, sem flutti verkin.

Kammermúsíkkvöld listamannavikunnar var haldið í Háskólanum 25. nóvember 1942. Fyrst lék ungfrú Guðríður Guðmundsdóttir, kennari við Tónlistarskólann, einkar skilmerkilega tilbrigði um lagið „Stóð ég úti í tunglsljósi“ eftir Björgvin Guðmundsson. Þetta er allmikið píanóverk og sýndi tónskáldið á sér nýja hlið með laginu, en hann er fram að þessu aðallega kunnur fyrir sönglög sín. Hann virðist sterkari á svellinu í sönglögunum, ekki sízt kórlögunum. Strokkvartettskafli eftir Emil Thoroddsen var leikinn þarna. Er þetta fallegur kafli, handbragðið listfengt og hljómarnir ferskir. Mesta athygli vakti „Stef með tilbrigðum fyrir fiðlu og píanó“ eftir Helga Pálsson. Þetta verk var líka mjög vel flutt af þeim Árna Kristjánssyni og Birni Ólafssyni. Helgi hafði áður vakið eftirtekt með fiðluverkum sínum, sem höfðu verið flutt á háskólatónleikum og í útvarpinu. Athyglin hefur beinst að þeim einkum fyrir það, hve músíkin er fögur og lifandi og lögin vel samin. Þetta verk hlaut mikið lof erlendra listdómara, þegar það var flutt á norrænu tónlistarmóti, svo og fleiri verk eftir hann. Kristján Kristjánsson söngvari söng nokkur lög eftir Bjarna Þorsteinsson, Árna Thorsteinsson og Emil Thoroddsen með undirleik síðastnefnda tónskáldsins.

Listamannavikan gaf gott yfirlit um það, á hvaða stigi íslenzk tónlist stóð á þessum tíma. Sönglögin voru yfirleitt undir áhrifum rómantísku stefnu 19. aldarinnar, en meðal þeirra voru nokkrar hreinar söngperlur. Hljómsveitarverkin voru ungur gróður sem var stutt á veg kominn en þó höfðu komið fram þroskuð verk, sem spáðu góðu um framahaldið.

Tónleikar listamannaþingsins 1945
Þessir tónleikar voru haldnir í Tjarnarbíó 27. maí 1945. Þeir vöktu athygli fyrir það, að þar voru færð upp íslenzk nútímatónlist í fyllstu merkingu orðsins, því að öll voru verkin ný af nálinni, og auk þess á sviði hljóðfæralistar. Þarna voru engin verk eftir eldri kynslóðina, heldur eingöngu verk eftir yngri kynslóðina, sem lagt hafði lönd undir fót á slóðum, þangað sem gömlu tónskáldin okkar hættu sér örsjaldan eða aldrei. Hér birtizt vel gerður strokkvartett, fyrsta íslenzka fiðlusónatan, svíta og önnur hljóðfæraverk. Það mátti að sjálfsögðu benda á ýms bernskubrek í sumum þessara tónsmíða, en meira skipti það, að allir þessir höfundar áttu það sameiginlegt, að 19. aldar menn vilja þeir ekki vera. Þeir sækja fram, vilja ekki lengur hjakka í sama farinu og gömlu tónskáldin, og birta hræringar samtíðarinnar í tónsmíðum sínum, hver með sínum hætti. Það er grózka í íslenzkri tónlist eftir þessum tónsmíðum að dæma.

Strengjasveit Tónlistarskólans lék fyrst „Sex íslenzk þjóðlög fyrir strokhljómsveit“ eftir Hallgrím Helgason. Tónskáldin okkar hafa lagt rækt við þjóðlagaraddsetningar, allt frá Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Sigfúsi Einarssyni, sem raddsetti þau vel að gömlum hætti. En eftir að Jón Leifs birti þjóðlagaraddsetningar sínar, þá hefur hann varpað nýrri birtu yfir þjóðlögin og beint og óbeint haft áhrif á önnur íslenzk tónskáld, sem við þau hafa fengist. Þjóðlagaraddsetningar Karls O. Runólfssonar eru athyglisverðar og frumlegar, og þjóðlagaraddsetningar Hallgríms Helgasonar eru sérkennilegar og bera menntun hans glöggt vitni. Sumum mun þykja svipurinn heldur þungbúinn og alvörugefinn hjá svo ungum manni, en ekkert verður um það fullyrt, hvort þetta eru skapgerðareinkenni eða tímabundið fyrirbrigði, en það mun tíminn leiða í ljós. Árni Kristjánsson og Björn Ólafsson léku fyrstu íslenzku fiðlusónötuna og er, hún eftir Karl O. Runólfsson. Karl fer sem endranær sína eigin götu, en sónatan ber merki þess, að um frumtilraun er að ræða í þessum stíl. Jón Nordal var þá ungur maður, innan tvítugsaldurs. Átti hann þarna verk fyrir fiðlu og píanó, er hann nefndi „Systurnar í Garðshorni“, en þær heita Ása, Signý og Helga: Ennfremur lék strengjasveit eftir hann tvo dansa. Jón er kunnáttumaður góður, þótt ungur væri, og bera þessi verk vitni um fágaðan smekk, eru með ljóðrænu ívafi, sem, gera þau heillandi. Mun vart jafn ungur maður hafa farið eins myndarlega af stað sem tónskáld hjá okkur. Helgi Pálsson átti á þessum tónleikum athyglisverðan strengjakvartett, sem samin er sem stef með tilbrigðum og fúgu. Helgi hefur tæknina í lagi og skrifar engar línur í verk sín án tilefnis eða út í bláinn. Eru verk hans þaulhugsuð og vel byggð, í þeim er ljóðræn fegurð, heiðríkja og hógvær andi.

Strengjasveit Tónlistarskólans uppfærði hljómsveitarverkin undir stjórn dr. Victors Urbancic, strengjakvartett skólans lék kvartettinn eftir Helga Pálsson, en þeir Árni Kristjánsson og Björn Ólafsson léku „Systurnar í Garðshorni“, eins og áður er sagt.


Listamannaþing 1950
Listmannaþingið var helgað vígslu Þjóðleikhússins og voru þá flutt verk eftir, Jón Leifs, Pál Ísólfsson og dr. Urbancic, en höfundarnir stjórnuðu þeim sjálfir. Ennfremur voru fluttir tveir kaflar úr píanókonsert eftir Jón Nordal sem höfundurinn lék, en dr. Urbancic stjórnaði hljómsveitinni. Loks var fluttur forleikur að Fjalla Eyvindi eftir Karl O. Runólfsson, en Róbert Abraham stjórnaði hljómsveitinni.

Þá skal minnst á tónleika í Þjóðleikhúsinu 5. maí 1950, þar sem flutt voru íslenzk verk. Leikin var klarínettsónata eftir Jón Þórarinsson, Gunnar Egilsson lék á klarínettinn með undirleik Rögnvalds Sigurjónssonar. Karlakórinn „Fóstbræður“ söng þjóðlög í raddsetningum Þórarins Jónssonar, Þuríður Pálsdóttir söng lög eftir föður sinn, Pál Ísólfsson, með undirleik Jórunnar Viðar, Magnús Jónsson söng tvö lög eftir Björn Franzson og Guðmundur Jónsson söng tvö lög eftir Helga Helgason. Þá var flutt Þjóðlagasamstæða ( fiðluverk) eftir Helga Pálsson.

Það skal tekið fram, að nær allir tónleikar í Reykjavík á þessu tímabili, ef undan eru teknir samsöngvar karlakóra og blandaðra kóra, en þó ekki alltaf, voru fluttir á vegum Tónlistarfélagsins. Þetta á jafnt við um tónleika erlendra sem íslenzkra listamanna, uppfærslur á stórum söngverkum með. hljómsveitarundirleik, svo og tónleika Hljómsveitar Reykjavíkur, kammermúsíktónleika o.fl. Þessir tónleikar voru ávallt auglýstir sem tónleikar Tónlistarfélagsins.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa