Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
26.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Tónskáld tímabilsins
Hér að framan hefur verið talað um þau tónskáld, sem komin eru fram fyrir 1934, flest stuttu áður (bls. 228-320). Jón Laxdal var þá dáinn, Árni Thorsteinsson þagnaður, Sigfús Einarsson og Sigvaldi Kaldalóns búnir að semja sönglögin, sem frægð þeirra hvílir á fyrst og fremst, eins Markús Kristjánsson, en hann andaðist 1931, ekki orðinn þrítugur. Hin tónskáldin leggja mest af mörkum eftir 1930 og eru það mest sönglög, þótt þau hafi einnig samið verk í öðrum greinum, eins og píanólög, fiðlulög og hljómsveitarverk. Er hér átt við tónskáldin Pál Ísólfsson, Sigurð Þórðarson, Þórarinn Guðmundsson, Emil Thoroddsen, Þórarinn Jónsson og Karl Runólfsson, en sá síðastnefndi lagði þó mikla rækt við hljóðfæralist og samdi hljómsveitarverk. En það er sönglagið, sem stóð hjarta þeirra næst og allir sömdu þeir sönglög, sem þjóðin fékk mætur á.

Hljóðfæralistin átti sterkari ítök í þeim Helga Pálssyni og Jóni Leifs. Helgi samdi aðallega kammermúsíkverk, en Jón hljómsveitarverk, sum stór í sniðum.

Áhuginn á íslenskum þjóðlögum var vaknaður eftir starf Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði og fór vaxandi er frá leið. Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson raddsettu íslensk þjóðlög fallega, hvor á sína vísu. Jón Leifs raddsetti íslensk þjóðlög frumlega og markar þar spor, andi þjóðlagsins er honum leiðarljós og hann gerist postuli þess. En því má ekki gleyma, að þótt þjóðlagaraddsetningar Jóns Leifs séu sérkennilegar og rammíslenzkar, þá hafa önnur tónskáld raddsett þjóðlögin eftir öðrum principum og gert það vel, - andinn hjá þeim er einnig íslenzkur. Í þessu sambandi vil ég nefna þjóðlagaraddsetningar Helga Pálssonar og Karls O. Runólfssonar, sem eru skemmtilegar og mjög athyglisverðar. Dr. Hallgrímur Helgason hefur sýnt íslenzkum þjóðlögum mikinn áhuga, safnað þeim og raddsett, rannsakað þau vísindalega og ritað um þau. Dr. Páll Ísólfsson og Þórarinn Jónsson hafa raddsett íslensk þjóðlög og gert úr þeim sjálfstæð listaverk. Dr. Victor Urbancic raddsetti íslenzk þjóðlög, en hjá þessum snillingi vantar hið íslenzka bragð, enda er hann ekki af íslenzku bergi brotinn.

Nú verður nánar rætt um tónskáld tímabilsins, en áður er búið að tala um tónskáldin Dr. Victor Urbancic, Pál Halldórsson, Pál Pampichler Pálsson og Pál Kr. Pálsson organista, svo og önnur tónskáld, sem nefnd eru í upphafi þessarar greinar. Um tónskáldin verður rætt hér á eftir í aldursröð.

Siguringi Eiríkur Hjörleifsson er fæddur 3, apríl 1902 að Bergskoti í Grindavík. Kunnastur er hann fyrir sönglög, sem birzt hafa í söngvasöfnum eins og lögin „Syngjandi vor“ og „Sólaruppkoma“ (Söngvasafn L.B.K., 2. hefti 1958) eða sungin hafa verið opinberlega, eins og „Seinasta nóttin“ (Þorst. Erlingsson). Lögin „Vorómar“ og „Á ferð og flugi“ hafa verið gefin út, svo og 12 konsertvalsar (píanóverk). Í handriti er sinfónía, fiðlusónata, strokkvartett og kantata fyrir blandaðan kór o. fl.

Siguringi lauk prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1936, en áður hafði hann lokið tónfræðinámi við norskan bréfaskóla 1931. Hann hefur látið félagsmál tónlistarmanna mikið til sín taka, verið í stjórn Stefs, ritari Tónskáldafélags Íslands frá 1948 og er þar heiðursfélagi. Hann hefur samið bókina Fúga, Rvík, 1937, sem er kennslubók í þessari tegund tónlistar. Siguringi er kennari að menntun.

Árni Björnsson, píanóleikari og tónskáld, er fæddur 23, desember 1905 að Lóni í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu. Stundaði nám í Tónlistarakólanum í Reykjavík 1930-35. Aðalnámsgrein hans var píanóleikur. Hann hafði lært orgelleik hjá Páli Ísólfssyni áður en hann kom í skólann. Síðar stundaði hann nám við konunglega tónlistarskólann í Manchester í Englandi í flautuleik, sem var aðalnámsgrein hans.

Árni tók virkan þátt í tónlistarlífi Reykjavíkur meðan heilsan leyfði, en hann varð fyrir áfalli sumarið 1952 og hefur ekki notið sín síðan. Hann kann á mörg hljóðfæri og lék í Hljómsveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveitinni (flauta). Einnig lék hann í Lúðrasveit Reykjavíkur og um tíma var hann stjórnandi Lúðrasveitarinnar „Svanur“. Árni er góður píanóleikari og kom hér áður fyrr opinberlega fram sem slíkur á tónleikum í Reykjavík. Tónlistarstörf voru atvinna hans.

Kunnastur er Árni sem tónskáld. Prentuð hafa verið eftir hann m.a., Fimm sönglög (op, 1) og Frelsisljóð (op.10), sem er kantata fyrir hljómsveit og karlakór í tilefni af gildistöku lýðveldisins á Íslandi 1944. Verðlaunalag hans „Syng, frjálsa land“ (Hulda) frá 1944 er prentað í Nýju söngvasafni (1949). Önnur verk eftir hann eru í handritum, þar á meðal píanósónata í d-moll (op. 3), hljómsveitarsvíta (op. 4 ) o.fl.

Björn Franzson er fæddur 7. júní 1906 í Engelsviken, Onsöj, Noregi. Faðirinn norskur, en móðirin íslensk. Björn ólst upp á Íslandi frá 4. aldursári og er samkvæmt eðlilegum rökum Íslendingur, en ekki Norðmaður, þrátt fyrir fæðingarstað og faðerni.

Björn hafði á æskuárum yndi af tónlist, en átti aldrei aðgang að hljóðfæri eða nokkurri tilsögn í þeirri listgrein. Hann greip þó jafnan hvert tækifæri, sem bauðst, til að hlýða á góða tónlist, og upp úr 1930 byrjaði hann að afla sér ítarlegri þekkingar í tónfræði, lærði hljómsetningu og kontrapunkt, fyrst hjá dr. Mixa og síðan hjá dr. Urbancic. Síðar var hann við tónlistarnám í Stokkhólmi, meðal annars í Tónlistarakólanum þar. Björn hafði þó jafnan það nám í hjáverkum og lét þessar iðkanir niðurfalla langtímum saman.

Björn hefur samið einsöngslög og kórlög, ennfremur smálög fyrir píanó. Lög þessi eru enn óprentuð, en nokkur einsöngslögin hafa verið sungin opinberlega, þar á meðal „Fjallið eina“ (Jóhannes úr Kötlum).

Björn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1927 og stundaði síðan, árin 1927-31, háskólanám í eðlisfræði og stærðfræði í Þýzkalandi og Danmörku. Hann hefur samið bókina „Efnisheimurinn“, Rvík. 1938, sem er alþýðlegt fræðirit um heimsmynd vísindanna. Ennfremur eru eftir hann greinar og ritgerðir, meðal annars um listir og menningarmál. Tónlistargagnrýnandi Þjóðviljans hefur hann verið síðan 1953.

Sigursveinn Davíð Kristinsson er fæddur 24. apríl 1911 á Syðra Mói í Fljótum, Skagafirði. Hann lærði fyrst fiðluleik hjá Theodór Árnasyni 1936-37, stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1946-50, framhaldsnám í Kaupmannahöfn 1951 og síðar í Berlín 1956-57 (tónsmíði og kórstjórn).

Sigursveinn dvaldi á Ólafsfirði 1944-50 og á Siglufirði 1958-64 og fékkst við músíkkennslu og kórstjórn. Í Reykjavík dvaldi hann frá 1950-57, að undanteknum námstímanum í Kaupmannahöfn og Berlín. Hann stofnaði Söngfélag verkalýðsfélaganna Reykjavík í mars 1950 og stjórnaði því, þar til hann fluttist til Siglufjarðar 1957. Hann settist aftur að í Reykjavik 1964 og hefur búið þar síðan og rekið tónlistarskóla, sem við hann er kenndur, (Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar).

Sigursveinn beitti sér fyrir stofnun fyrstu félaga fatlaðra, Sjálfsbjörg 1958, og heftir starfað í þeim samtökum, en sjálfur hefur hann verið lamaður frá 1924.

Sigursveinn hefur samið sönglög fyrir einsöng og kór, einnig stærri verk fyrir orgel og hljómsveit, sem flutt hafa verið af Sinfóníuhljómasveit Íslands, eins og „Draumur vetrarrjúpunnar“, sem er sinfónískur þáttur um mynd Kjarvals, ennfremur svítu í rímnastíl nr. 1. Sigursveinn á nokkur frumsamin sönglög í „Íslandsljóðum“, sem er sönglagasafn útgefið af Alþýðusambandi Íslands 1940, en hann og Hallgrímur Jakobsson söfnuðu lögunum í útgáfuna.

Skúli Kristján Halldórsson er fæddur 28.apríl 1914 á Flateyri við Önundarfjörð sonur Halldórs Stefánssonar læknis þar, og síðar í Reykjavík, og konu hans Unnar Skúladóttur Thoroddsen. Skúli er náfrændi tónskáldanna Emils Thoroddsen og Jóns Leifs.

Skúli brautskráðist úr Verzlunarskóla Íslands 1932, vann fyrst hjá Tóbakseinkasölu ríkisins í Reykjavík 1932-34, síðan hjá Strætisvögnum Reykjavíkur og sem skrifstofustjóri þar frá 1944.

Jafnframt skyldustarfinu stundaði Skúli nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og tók próf í kontrapunkt, komposition, instrumentation og hljómfræði árið 1947, og próf í píanóleik frá sama skóla 1948.

Skúli hefur staðið framarlega í hagsmunamálum listamanna og verið í stjórn Tónskáldafélags Íslands og Stefs frá 1949, ennfremur í stjórn Bandalags íslenzkra listamanna frá 1961.

Skúli er góður píanóleikari og hefur verið eftirsóttur undirleikari hjá söngvurum hér í Reykjavík og á ferðum þeirra úti um landið.

Skúli hefur haft tónlistarstörfin í hjáverkum, en er þó afkastamikið tónskáld. Hann hefur samið um 100 tónverk, hljómsveitarverk, píanóverk, kórverk og einsöngslög, Af hljómsveitarverkum eru kunnust forleikurinn „Sogið“ og ballettsvítan „Dimmalimm kóngsdóttir“, sem bæði hafa verið leikin af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Flest verkin eru enn í handritum, en nokkur sönglög hafa verið gefin út, þar á meðal sjö sönglög við texta eftir Jón Thoroddsen, afa hans; eitt þeirra er „Smalastúlkan“, sem er vinsælasta sönglag höfundarins. Ríkisútvarpið veitti Skúla verðlaun fyrir lagaflokk við ástarljóð Jónasar Hallgrímssonar. „Ferðalok“, úr þeim flokki, hefur verið gefið út.

Gáfa Skúla er ljóðræn. Í sönglögum hans er fegurð og yndisþokki og handbragðið er listrænt. Á verkum hans er menningarbragur.

Dr. Hallgrímur Helgason er fæddur 3. nóvember 1914 á Eyrarbakka, sonur Helga Hallgrímssonar kennara þar, síðar fulltrúa í Hafnarskrifstofunni í Reykjavík, og konu hans Ólafar Sigurjónsdóttur. Hallgrímur varð stúdent 1933, en áður hafði hann um tveggja ára bil stundað nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík (1931-33). Framhaldsnám í tónlist stundaði hann fyrst á tónlistarskólanum og háskólanum í Kaupmannahöfn 1935, síðan í tónlistarskólanum og háskólanum í Leipzig 1936-39. Löngu síðar stundaði hann nám í tónlistarskólanum í Zürich (1948-49 ), tók kennarapróf í fiðluleik og einnig í tónfræðifögum 1949. Sama ár, 1949, varð hann dr.phil. fyrir ritverkið „Yngstu hetjuljóð Íslands síðan 1350; forsaga þeirra, bygging og flutningaháttur“.

Eftir námið í Leipzig var Hallgrímur við margvísleg tónlistarstörf í Reykjavík á árunum 1940-45 kenndi hann söng í skólum: Menntaskólanum, Kennaraskólanum og Námsflokkum Reykjavíkur. Á þeim árum var hann ennfremur söngstjóri kóra, þar á meðal Stúdentakórs Háskóla Íslands. Stúdentakórnum stjórnaði hann aftur síðar 1957-58. Alþýðukórnum stjórnaði Hallgrímur frá 1959 og þar til hann flutti til Kanada. Það var einmitt Alþýðukórinn, sem söng undir hans stjórn með undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands kantötuna „Þjóðhvöt“ eftir Jón Leifs í Þjóðleikhúsinu 30. apríl 1959. Tónleikarnir voru haldnir í tilefni sextugs afmælis höfundarins. Kantatan var þá frumflutt.

Til viðbótar því, sem sagt hefur verið um kennslustörf Hallgríms skal tekið fram, að hann kenndi tónfræði í einkatímum allt frá 1940 og um tíma við skóla FÍH (1956-59). Jafnframt kórstjórn og kennslu starfaði hann sem fiðluleikari í Hljómsveit Reykjavíkur 1939-43 og lék þar sem 1. og 2. konsertmeistari. Orgelleikari við Háskólakapelluna var hann 1941-43.

Ritstörf Hallgríms eru allmikil. Músíkdóma ritaði hann í Alþýðublaðið 1940-46 og ritstjóri tímaritsins Tónlistin var hann 1940-46. Tímaritið var vandað og fjölbreytt að efni. Í erlent músíkleksikon (MMG 1959, Kassel) ritaði hann ágæta yfirlitsgrein um íslenzka músík. Fyrirlestrar hans voru náskyldir ritstörfunum. Hana fór í fyrirlestrarferðir um Ísland 1944-45 og 1957-58, og er hann var búsettur í Erlangen í Þýzkalandi 1955-56 flutti hann fyrirlestra við menntastofnanir í Þýzkalandi, Austurríki, Sviss og Hollandi, en hér í Reykjavík hefur hann flutt fyrirlestra við Háskólann og fjölda fyrirlestra í útvarpið, eftir að hann var orðinn fastráðinn fulltrúi í tónlistardeildinni 1959, en í því starfi var hann til 1966, er hann fluttist til Kanada, þar sem hann er síðan prófessor við tónlistarskóla.

Hallgrímur er afkastamikill og hefur samið tónverk í ýmsum greinum listarinnar: hljómsveitarverk, kammermúsíkverk, píanósónótur, fiðluverk, kórlög og einsöngslög, auk þess sem hann hefur raddsett íslenzk þjóðlög. Hann hefur gott vald á pólífóníska stílnum og eru tónsmíðar hans vel samdar og formfastar. Oft eru þær hátíðlegar og alvöruþrungnar og fer vel á því, þar sem efnið krefst þess, eins og í mótettunum. Hallgrímur hefur mikinn áhuga á íslenzkum þjóðlögum, hefur ferðast um landið, safnað þeim og rannsakað vísindalega, raddsett þau og gefið út. Þjóðlögin eru stundum burðarásinn í hinum stærri tónsmíðum hans, eins og „Svíta artica“ (norræn svíta), sem samin er fyrir strokhljómsveit. Af öðrum hljómsveitarverkum eftir hann er forleikurinn „Snorri Sturluson“ (1941), og „ Íslensk rapsódía“. Af kammermúsíkverkum er „Inngangsþáttur og fúga 1951“ fyrir strokkvartett, „Romanza“ fyrir fiðlu og píanó, ennfremur tvær píanósónötur, nr,1 og 2 og Riccerare (orgelverk). Af sönglögum skal nefna háskólakantötuna „Heilög vé“, mótetturnar „Svo elskaði guð auman heim“, „Í Jesú nafni“ og „Þitt hjartans barn“. Af sönglögum hans eru þekktust „Íslands Hrafnistumenn“; „Ef engill ég væri“ og „Söknuður.“

Hallgrímur Helgason hefur verið virkur kraftur í félagsmálum tónlistarmanna og gegnt þar trúnaðarstörfum, meðal annars framkvæmdarstjóri Tónskáldafélags Íslands 1960-61, en áður hafði hann verið ritari félagsins 1945-47. Hann var meðstofnandi Stefs og formaður Hljómsveitar Félags íslenzkra hljóðfæraleikara þann tíma, sem hún starfaði.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa