Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
26.03.2008
<< Til bakaForsíðaHeimildaskrá>>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Tónskáld tímabilsins (framhald)

Jón Þórarinsson er fæddur 13. sept. 1917 í Gilsárteigi í Eiðaþinghá, Suður-Múlasýslu, sonur Þórarins Benediktssonar hreppstjóra og alþingismanns og konu hans Önnu Maríu Jónsdóttur. Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1937. hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Á árunum 1944-46 stundaði hann tónlistarnám við Yale háskólann í Bandaríkjunum undir handleiðslu Pauls Hindemith og lauk þar prófum í tónfræði og tónsmíði. Um sumarið 1945 hafði hann ennfremur stundað nám í Juilliardtónlistarskólanum í New York. Löngu síðar, 1954-55, fór hann til námsdvalar í Austurríki og Þýzkalandi.

Jón Þórarinsson kom heim frá tónlistarnáminu í Ameríku á árinu 1947 og tók þá við fulltrúastarfi í tónlistardeild Ríkisútvarpsins, en starfsmaður stofnunarinnar hafði hann verið nær óslitið síðan 1938. Hann var nú orðinn náinn samstarfsmaður tónlistarstjórans, Páls Ísólfssonar. Þeir unnu báðir að því að koma hljómsveitarmálunum í hagkvæmara horf, en að því var stefnt að sameina hljómsveitirnar í bænum í eina fullkomna sinfóniska hljómsveit. Það lá í augum uppi, að Þjóðleikhúsið yrði aðili að slíkri hljómsveit, en komið var að því að það tæki til starfa. Fyrir ábendingu Páls Ísólfssonar var Jón ráðinn tónlistarráðunautur Þjóðleikhússins. Sinfóníuhljómsveitin tók til starfa 9. marz 1950 og var þá Jón stjórnarformaður hennar 1950-51. Þegar hljómsveitin var endurskipulögð 1. mars 1956 og nefndist úr því Sinfóníuhljómsveit Íslands, var Jón ráðinn framkvæmdarstjóri hennar og sleppti hann þá fulltrúastöðunni hjá útvarpinu. Árið 1961 tók Ríkisútvarpið við rekstri hljómsveitarinnar og lét Jón þá af framkvæmdarstjórastarfinu.

Eftir að Jón var kominn heim frá Ameríku 1947 var hann ráðinn yfirkennari við Tónlistarskólann í tónfræði og tónsmíði og hefur gegnt því starfi síðan með öðrum störfum sínum. Er Jón Halldórsson lét af söngstjórastarfinu hjá „Fóstbræður“ árið 1950 tók Jón Þórarinsson við og var söngstjóri karlakórsins árin 1950-54.

Jón er í fremstu röð íslenzkra tónskálda. Tónsmíðar hans eru með traustu handbragði, gætir á þeim áhrifa frá Hindemith, kennara hana, jafnframt því sem þær sverja sig í ættina til síns íslenska uppruna. Meðal þeirra er sónata fyrir klarínett og píanó, ennfremur orgelmúsík, hvorttveggja prentað. Einnig hafa sönglög eftir hann verið prentuð, þar á meðal einsöngslagið „Fuglinn í fjörunni“, sem er vinsælasta lagið. Kórlagið „Í skógi“, sem birt er í Söngvasafni L.B.K. 1948, gerði hann fyrst kunnan. Meðal óprentaðra tónsmíða er sónata fyrir píanó, sónata fyrir fiðlu og píanó, kantatan „Kubla Kahn“ fyrir baritón, kór og hljómsveit og lagaflokkurinn „Of Love and Death“ fyrir barítón og hljómsveit. Auk þess eru í handritum hljómsveitarverk, píanólög, kórlög, einsöngslög o.fl.

Jón hefur ritað allmikið um músíkmál og var um tíma tónlistargagnrýnandi við Alþýðublaðið (1948-50) og um árabil við Morgunblaðið (frá 1962 ). Eftir hann eru Þessi rit: Stafróf tónfræðinnar, kennslubók-handbók, Rvík. 1962 (2. pr. 1963), Páll Ísólfsson, Rvík. 1963. Þýðing á Beethoven (Eric Valentin), Rvík. 1962 og ævisaga Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar (frumsamin), Rvík. 1969. Jón var meðritstjóri Sohlmans Musiklexikon I-IV, Stkh. 1948-52, og ritaði í það tugi greina um tónlist og tónlistarmenn.

Jón hefur staðið framarlega í félagsmálum tónlistarmann, gegnt stjórnarstörfum í ýmsum samtökum þeirra og verið forseti Bandalags íslenzkra listamanna frá 1963.

Jórunn Viðar (f. 17. des. 1918). Í kaflanum um píanóleikara hér að fram hefur verið ritað um hana sem píanóleikara (sjá bls. 356). Þar var tekið fram, að hún hefði músík í æðum, enda er hún í föðurætt af Guðjohnsensættinni og móðir hennar og móðurbróðir (Jón Norðmann) bæði píanóleikarar. Í kaflanum hér að framan er minnst á píanótónleika hennar fram að 1950, en eftir að Sinfóníuhljómsveitin tók til starfa 1950, hefur hún nokkrum sinnum leikið píanókonserta með hljómsveitinni. Á Listamannaþinginu 1950 vakti Jórunn Viðar á sér athygli sem tónskáld fyrir músíkina við ballettinn „Eldinn“ eftir Sigríði Ármann, sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi. Félagið sýndi tveimur árum síðar ballettinn „Ólafur Liljurós“ eftir Jórunni Viðar, en dansana í ballettinum (kóreografi) sem er í einum þætti, hafði Sigríður Ármann samið, að undanteknum sólódansi, sem Guðný Pétursdóttir hafði samið. Leikfélagið sýndi ballettinn í samvinnu við Félag ísl. listdansara. Þótt þessi stutti ballett léti ekki mikið yfir sér, þá var hér um merkilega byrjun að ræða, því það er ljóst, að fornir dansar og þjóðkvæði geta orðið þessari listgrein auðug uppspretta.

Það var sagt um Jórunni Viðar sem píanóleikara hér að framan, að gáfa hennar væri ljóðræn. Það sama er að segja um hana sem tónskáld. Tónsmíðar hennar eru ljóðrænar og með þjóðlegu ívafi, eins og glöggt má kenna í vísnalögunum og tilbrigðunum fyrir celló og píanó.

Magnús Blöndal Jóhannsson er fæddur 8. sept. 1924 á Skálum á Langanesi. Foreldrar hans eru Jóhann M. Kristjánsson, stórkaupmaður, og kona hana Þorgerður Magnúsdóttir. Faðir hennar, Magnús Bl. Jónsson prestur í Vallanesi var tvíkvæntur. Seinni konan var Guðríður Ólafsdóttir Hjaltesteds í Reykjavík. Þorgerður er af seinna hjónabandi.

Magnús Bl. Jóhannsson stundaði tónlistarnám í Juilliard-tónlistarskólanum í New York 1946-53. Hann hefur lengi verið starfsmaður ríkisútvarpsins.

Magnús er einn elzti fulltrúi elektrónískrar tónlistar hér á landi. Hljómsveitarverkið „Punktar“ eftir hann er af þessari tegund. Það hefur verið leikið af Sinfóníuhljómsveit Íslands og auk þess í útvarpinu og er vel þekkt. Eins og nafnið bendir á, þá eru tónarnir í elektrónískri tónlist framleiddir með rafmagni, þeir eru án yfirtóna og tónblæinn vantar. Margt fleira kemur til, sem hér verður ekki talið, og geta þeir, sem áhuga hafa á þessari tónlist, lesið um hana í músíklexikonum. Þessi list lýtur sínum lögmálum og er enn á tilraunastigi, enda vart meira en 20 ár síðan hún fór að ryðja sér til rúms.

Magnús samdi fyrst tónsmíðar í hefðbundnum stíl, en hneigðist síðar að elektrónískri tónlist. Þessi tónlist hljómar illa í eyrum hinnar eldri kynslóðar, sem alin er upp við rammklassíska hefð, en unga kynslóðin er opin fyrir því sem er nýtt af nálinni og meðal hennar eru margir, sem hafa áhuga á þessari tónlist.

Jón Nordal, tónskáld og píanóleikari, er fæddur 6. marz 1926 í Reykjavík. Hann er sonur Sigurðar Nordals prófessors og konu hans Ólafar Jónsdóttur. Ólöf er dóttir Jóns yfirdómara Jenssonar rektors Sigurðssonar prests á Rafnseyri Jónssonar. Jens Sigurðsson var mikilsmetinn rektor Lærða skólans, sem hann starfaði við frá því skólinn fluttist til Reykjavíkur frá Bessastöðum. Jens rektor var albróðir Jóns Sigurðssonar forseta.

Jón Nordal stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi í píanóleik 1943 og í tónsmíðum 1949. Framhaldsnám stundaði hann hjá W. Buckhard í tónlistarskólanum í Zürich 1949-51. Árin 1955-57 dvaldi hann við tónlistarnám í París og Róm.

Jón hefur starfað við Tónlistarskólann í Reykjavík, fyrst sem kennari frá 1951, að undanteknum námsárunum í París og Róm, og sem skólastjóri frá 1959.

Jón vakti fyrst athygli á sér sem tónskáld með fiðluverkinu „Systurnar í Garðshorni“, sem flutt var á listamannaþinginu 1945. Síðan með hljómsveitarverkinu „Concerto grosso“ (1950). Ennfremur með konsert fyrir píanó og hljómsveit, sem flutt var í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu 10. des. 1957, og lék þá höfundurinn sjálfur píanóhlutverkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem Wilhelm Schleuning, ríkishljómsveitarstjóri í Dresden stjórnaði sem gestur. Píanókonsertinn er frábrugðinn píanókonsertum í klassískum stíl að því leyti, að mjög er dregið úr forustuhlutverki einleikshljóðfærisins. Konsertinn er í einum þætti og er veigamikið tónverk. Af öðrum tónsmíðum eftir hann, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt, er „Sinfonietta seriosa“ (Bjarkamál), ennfremur konsert fyrir píanó og hljómsveit í einum kafla (Brotaspil) og Adagio fyrir flautur, hörpu og strengjasveit. Karlakórlög eftir Jón, sem „Fóstbræður“ hafa sungið, hafa vakið verðskuldaða athygli. Í stuttu máli, þá hefur Jón samið hljómsveitarverk, kammermúsíkverk, einleiksverk fyrir píanó, fiðlu, karlakórlög og einsöngslög. Sem tónskáld er hann sjálfstæður og sérkennilegur, er í snertingu við þær hræringar sem eru í nútímanum og hefur fullkomið vald á tónsmíðatækni. Jón Nordal er eitt eftirtektarverðasta tónskáldið af hinni yngri kynslóð.

Jón er góður píanóleikari og hefur komið opinberlega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í verkum eftir sjálfan sig og önnur tónskáld.

Herbert Hriberscheck Ágústsson er fæddur 3. ágúst 1926. Lærði hornleik og aðrar greinar tónlistarinnar í Graz í Austurríki. Meðal kennara hans voru dr. Mixa og prófessor A. Michl. Herbert útskrifaðist árið 1944 og næstu sjö árin var hann fyrsti hornleikari fílharmonisku hljómsveitarinnar í Graz. Árið 1952 var hann ráðinn hingað til Íslands sem fyrsti hornleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar og hefur gegnt því starfi síðan, auk annara starfa, svo sem kennslu og kórstjórnar. Hann hefur einnig kveðið sér hljóðs sem tónskáld og margar tónsmíðar hans, stórar og smáar, hafa heyrst á tónleikum og í útvarpi. Meðal þeirra er „Forspil og þrír Davíðssálmar“ (op. 20), sem flutt var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 20. sept. 1969. Guðmundur Jónsson söng einsöng í því verki.

Jón Ásgeirsson er fæddur 11. okt. 1928 á Ísafirði. Hann brautskráðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1955 og voru kennarar hans þar þeir Árni Kristjánsson og dr. Urbancic. Síðan stundaði hann framhaldsnám í Glasgow 1955-56. Söngkennarapróf tók hann 1961. Jón hefur starfað við söngkennslu, kórstjórn og stjórn lúðraflokka í Reykjavík og Hafnarfirði. Hann var söngstjóri karlakórsins „Þrasta“ í Hafnarfirði 1959-61, en hér í Reykjavík er hann kunnastur sem söngstjóri Liljukórsins, sem oft lét til sín heyra í útvarpinu undir hans stjórn. Lúðrasveit verkalýðsfélaganna í Reykjavík stjórnaði hann 1953-55 og Lúðrasveit Hafnarfjarðar frá 1960.

Á síðari árum hefur hann vakið á sér athygli sem tónskáld, fyrir sönglög og kórlög, og síðast fyrir rapsódíu fyrir hljómsveit.

Rit: Hljóðfall og tónar, vinnubók 1.-3. hefti. Keðjusöngur, 1. hefti I962, 2. hefti 1966.

Fjölnir Stefánsson er fæddur 1930. Hann stundaði nám hjá Jóni Þórarinssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk burtfararprófi í tónsmíðum 1954. Að loknu prófi hélt Fjölnir til Englands til framhaldsnáms og dvaldi þar um fjögurra ára skeið og naut tilsagnar hins merka tónskálds og kennara Mátýas Seiber, sem er ungverskur, en starfaði í Englandi frá 1935. Fjölnir starfar sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Fjölnir er kunnur fyrir sönglög, þar á meðal við kvæði eftir Stein Steinar úr „Tíminn og vatnið“. Ennfremur hefur hann getið sér gott orð fyrir þjóðvísnaútsetningar og fimm skitzur fyrir píanó.

Leifur Þórarinsson er fæddur 13. ágúst 1934 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Þórarinn Kristjánsson símritari og kona hans Alda Möller leikkona. Þórarinn er sonur Kristjáns læknis Kristjánssonar á Seyðisfirði, sem var tónskáld, og er Þórarinn bróðir Kristjáns söngvara.

Leifur stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðan í Vínarborg hjá Jelinek og í New York h já Wallingfjord Riegger og Gunther Schuller.

Leifur hefur verið tónlistargagnrýnandi fyrir dagblöðin Vísir og Þjóðviljann. Hann starfar sem þulur hjá Ríkisútvarpinu.

Leifur hefur m.a. samið kammermúsíkverk og hljómsveitarverk. Í fyrstu verkunum er hann eindreginn áhangandi tólftónastefnunnar, eins og í „Mosaik“ fyrir fiðlu og píanó (1960), „Tríó fyrir blásara“, „Trió fyrir fiðlu celló og píanó“ (1961) og hljómsveitarverkinu „Epitaph“ (1961). Í síðari verkum er hann frjálsari og semur meira tónalt, eins og í „Fiðlukonsertinum“ (1969), strengjakvartettnum (1969) og Sinfóníunni (1963), sem er í þremur þáttum. Er þetta fyrsta íslenzka sinfónían og verður hún frumflutt 23. janúar 1964 af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn bandaríska tónskáldsins Gunther Schuller, sem stjórnaði hljómsveitinni sem gestur. Sinfónían var aftur flutt hér í Reykjavík á Tónlistarhátíð Norðurlanda 20. sept. 1967 og stjórnaði þá pólski hljómsveitaratjórinn Bohadan Wodiczko hljómsveitinni. Leifur hefur ennfremur samið músík fyrir leikrit, t.d. „Dúfnaveizlan“ eftir Laxness og kvikmynd.

Sinfónían, svo og aðrar tónsmíðar eftir Leif, hafa verið fluttar erlendis, m.a. í Skandinavíu, Englandi og Ameríku.

Þorkell Sigurbjörnsson er fæddur 16. júlí 1938 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Sigurbjörn Einarsson biskup og kona hans Magnea Þorkelsdóttir. Þorkell varð stúdent 1957 og lauk einnig námi við Tónlistarskólann í Reykjavík. Síðan lagði hann stund á hljómfræði og tónsmíði við tvo háskóla í Bandaríkjunum, annan í Minnesota og tók þar BA-próf 1959, en hinn í Illinois og tók þar MM próf 1960. Ennfremur tók Þorkell próf í hljómsveitarstjórn frá Académie Internationale de Musique, Nizza, Frakklandi um sumarið 1959.

Eftir heimkomuna varð Þorkell kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 1961 og þar til um haustið 1966, en þá varð hann fulltrúi í tónlistardeild Ríkisútvarpsins og gegndi því stafi til ársloka 1968. Hann hvarf þá aftur að kennslustarfinu í Tónlistarskólanum og kennir þar píanóleik, tónfræði og tónlistarsögu. Einnig hefur Þorkell kennt við Barnamúsíkskóla Reykjavíkur.

Þorkell ritaði músíkdóma í dagblaðið Vísi 1964-66 og í Morgunblaðið frá því um haustið 1966.

Þótt Þorkell sé ungur maður, rúmlega þrítugur, hefur hann engu að síður látið mikið að sér kveða í tónlistarlífinu. Hann var stjórnandi Liljukórsins 1965 og Samkórs Tónlistarskólans frá 1966 og hefur unnið þar gott starf í þágu íslenzkra tónskálda. Hann hefur stjórnað allmörgum tónlistarþáttum í útvarpinu og sjónvarpinu, stjórnaði flutningi tónverka, leikið sjálfur á píanó og hafa tónverk eftir hann verið flutt í útvarpi og víðar. Þess skal ennfremur getið, að hann annaðist tónlistarhald á vegum Musica Nova 1961-66.

Hässelby-höllin í Svíþjóð, skammt frá Stokkhólmi, er mikil lista- og menningarmiðstöð, svo sem kunnugt er, og standa að henni höfuðborgirnar á Norðurlöndum, þar á meðal Reykjavík. Stofnunin leitaði til Þorkels Sigurbjörnssonar, að hann semdi kammermúsíkverk, sem frumflutt yrði í höllinni. Var þetta í sambandi við 50 ára afmæli sænska tónskáldafélagsins, en afmælistónleikarnir voru haldnir í Stokkhólmi í september 1968. Leitað var til eins tónskálds á hverju Norðurlandanna um að semja tónverk í þessu skyni. Þorkell varð við beiðninni og samdi strokkvartett, sem síðan var frumfluttur í Hässelbyhöll um haustið 1968, að höfundinum viðstöddum.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann samdi tónverk eftir beiðni erlendis frá. Áður hafði hann samið fjórhent píanóverk eftir beiðni frá Kaliforníu og hefur verkið verið flutt vestan hafs. Hér heima samdi hann barnaóperuna „Apaspil“ að beiðni Stefáns Edelsteins, skólastjóra Barnamúsíkskólans, og var óperan flutt af hinum ungu nemendum skólans.

Tónsmíðar Þorkels af ýmsu tagi hafa verið fluttar hér heima og erlendis. Eitt þeirra er „Flökt“, sem Sinóníuhljómsveit Íslands hefur leikið. Um það verk segir dr. Hallgrímur Helgason í bókinni „Var tids musik i Norden“: „Þorkell Sigurbjörnsson leitar nútímalegs tjáningarforms í „Flökti“, sem ritað er í frjálsum atonalstíl.“

Atli Heimir Sveinsson er fæddur 21. september 1938 í Reykjavík. Foreldrar hans eru þau Kristín Guðmundsdóttir frá Flatey á Breiðafirði og Sveinn Þórðarson, fyrrv. aðalféhirðir Búnaðarbanka Íslands. Atli Heimir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi í píanóleik vorið 1957, og var aðalkennari hans Rögnvaldur Sigurjónsson. Jafnframt tónlistinni stundaði Atli Heimir nám við Menntaskólann í Reykjavík, og lauk þaðan stúdentsprófi 1958. Vorið 1959 lauk hann prófi í forspjallavísindum við Háskóla Íslands og fór þá um sumarið til Þýzkalands. Að loknu inntökuprófi innritaðist hann í Tónlistarháskólann í Köln, þar sem hann lagði fyrst  og fremst  stund á tónsmíði. Kennari hans fyrst í stað var hið þekkta tónskáld Günther Raphael, en eftir lát hans tónskáldið Rudolf Petzhold. Jafnframt tónsmíðanáminu lagði Atli Heimir stund á hljómsveitarstjórn hjá Wolfgang von Nahmer og ennfremur píanóleik hjá prófessor Karl Hermann Pillney, sem er kunnur píanisti og cembalisti, og síðar hjá prófessor Ottó Schmidt. Atli Heimir lauk lokaprófi í tónsmíðum og tónfæði, ásamt aukagreinum, árið 1962.

Auk skyldunámsins í Tónlistarháskólanum í Köln sótti Atli Heimir á þessum árum sumarnámskeið fyrir nýja tónlist, sem haldin voru í Darmstadt, og ennfremur sótti hann árið 1963 námskeið í nýrri tónlist, sem haldið var í Köln („Kölner kurse für neue Musik“) undur leiðsögn tónskáldsins Karlheinz Stockhausen, sem er einn af kunnustu merkisberum elektronískrar tónlistar og púnktatónlistar. Sama ár stundaði hann einnig nám við Reinische Musikschule. Loks sótti hann námskeið í elektronískri tónlist í Hollandi árið 1964 hjá Michael Koenig og Jaap Virik, en hinn fyrrnefndi hafði kennt honum í einkatímum í Köln.

Atli Heimir er tónlistarkennari við Menntaskólann í Reykjavík og Tónlistarskólann.

Atli Heimir gerðist fljótlega róttækur í list sinni, en áður hafði hann samið snotur sönglög í hefðbundnum stíl, sem sum voru sungin í útvarpi. En eftir að hann var kominn til Kölnar, gekk hann hinni „Nýju tónlist“ á hönd og semur eftir það tónsmíðar í þeim stíl. Þær heita sérkennilegum nöfnum: Hlými (fyrir kammerhljómsveit), Fönsum I (fyrir kammerhljómsveit), Fönsum II (fyrir fiðlu, 2 cello, kontrabassa og píanó fjórhent), Fönsun III (fyrir celló, gítar, básúnur, alt-saxófón, tvö píanó, tónband, leikara og söngvara), Fönsum IV (fyrir einleiksfagott), Mengi (fyrir 1-10 píanó, 2 fiðlur, fagott, 2 básúnur, STAB (sólista), rafmagnsorgel,hörpu, tónband og slagverk), Hjakk (fyrir hljómsveit), Tengsl (fyrir hljómsveit), Klif (fyrir flautu, klarínett og celló). Ennfremur hefur hann samið leikhúsmúsík og útsett íslenzk þjóðlög (passíusálmalög) úr safni Bjarna Þorsteinssonar.

Tónsmíðin „Impressionen 1961“ eftir Atla Heimi var flutt á háskólatónleikum í Köln og var skrifað mjög viðurkennandi um verkið í dagblöðum borgarinnar. Á tónlistarhátíð Norðurlanda, sem haldin ver hér í Reykjavík í september 1967, lék Sinfóníuhljómsveit Íslands tónverkið „Hlými“, sem áður er nefnt, undir stjórn höfundarins . Um tónlistarhátíðina ritaði tónskáldið Flemming Weiss, formaður Tónskáldafélagsins danska, kjallaragrein í Politiken 30. sept. 1967, sem hann nefnir „Toner fra Norden“, og segir m.a.: „ - Vejen gik fra den 74- årige forhenværende domorganist í Reykjavík Páll Ísólfsson solide ståsted på den klassiske Chaconnes grund til den ganske unge Atli Heimir Sveinsons Klangkomposition „Hlými“. Titelen betyder „lyd“ giver et billede af værkets forløb, hvor der med gnistrende talent blev spillet virtuost på allehånde instrumentale muligheder og med den mest virkningsfulde anvendelse af afbrydelsen, det klanglige tomrums psykiske spænding, jeg endnu har oplevtet. Men han bør lære sig begrænsingens kunst. Der forekom gentagelser, der svækkede hinanden...“

Dr. Jón S Jónsson, sem nú er kennari við tónlistarskóla í Bandaríkjunum, hlaut í Chicago doktorstitil fyrir tónsmíðar. Eftir hann er meðal annars Fiðlusónata.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaHeimildaskrá >>


© Músa