Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
13.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Erlendir fiðluleikarar
Hér á eftir verður talað um erlenda fiðluleikara, sem heimsóttu landið og léku í Reykjavík á þessu tímabili.

Adolf Busch (1891-1952). Adolf Busch hélt marga tónleika í Gamla Bíó í ágúst 1945. Tónlistarunnendur höfðu beðið vikum saman með eftirvæntingu eftir þessum tónleikum því að Adolf Busch hafði þá í þrjá áratugi ómótmælanlega verið viðurkenndur fremsti fiðlusnillingur Þýzkalands. Hann er fæddur í Siegen í Westfalen, stundaði nám í Köln og Bonn og starfa í nokkur ár sem konsertmeistari og kennari í Vínarborg. Árið 1918 varð hann eftirmaður Henry Marteau meistaradeildina við ríkisháskólann í Berlín, en þessi fiðlusnillingur lék í Reykjavík árið 1930 (sjá bls. 222-223)og er franskur. Þegar Nazistar tóku völdin, yfirgaf Adolf Busch föðurland sitt (1933) og settist að í Sviss. Hann varð svissneskur ríkisborgari 1935. Hann var búsettur í Bandaríkjunum frá 1940 til dauðadags.

Adolf Busch hefur farið víða um lönd og haldið tónleika með píanósnillingnum Rudolf Serkin, og með hinum fræga  kvartett, sem við hann er kenndur (Busch-kvartettinn), og síðar verður minnst á.

Á tónleikunum hér í Reykjavík lék Busch verk eftir Bach, Beethoven, Dvorak, ungverska dansa eftir Brahms og margt fleira. Árni Kristjánsson aðstoðaði hann, og varð hann að taks að sér það hlutverk með stuttum fyrirvara, en stóð sig með prýði.

Robert Abraham segir um þessa tónleika í Morgunblaðinu: „Svipur hans (Þ.e. Buschs) er yfirlætislaus og hlýr-og yfirlætislaus og hlýr er leikur hans. Busch hefur aldrei látið hina meistaralegu tækni sína skipa öndvegissess í flutningi tónverkanna. Engin glæsimennska hvílir yfir leikni hans og hinum karlmannlega, safamikla hljómi fiðlunnar. En sannari, djúptækari túlkun á verkum stórskáldanna mun varla finnast hjá fiðlusnillingum okkar tíma.“

sErnst Drucker. Pólskur fiðlusnillingur, sem lék hér í febrúar 1938. Hann hélt hér sjálfstæða tónleika með aðstoð Árna Kristjánssonar og lék einnig á kammermúsíktónleikum í Gamla Bio. Þá léku Þeir Drucker, dr. Edelstein og Árni Kristjánsson m.a. Tríó fyrir klaver, fiðlu og celló, op. 50, eftir Tschaikowsky, eitthvert fegursts verk í sinni röð.

Ernst Drucker er mikill snillingur. Leiknin er geysimikil og að því er virðist fyrirhafnarlaus, en tónninn er bjartur og fagur, enda fiðlan kostagripur.Hann var 28 ára að aldri, Þegar hann lék hér. Ernst Drucker kom aftur til Reykjavíkur sumarið 1947 og var þá einn af spilurunum í Busch-kvartettinum.

Nánar verður rætt um dr. Edelstein hér á eftir, í kaflanum um cellóleikara.

Robert Soëtens. Franskur fiðlusnillingur, fæddur 1897, sem haldið hefur tónleika í öllum heimsálfunum. Hann lék hér tvisvar í Gamla Bíó í október 1938 við mikla aðsókn og hrifningu. Suzanne Rosehe aðstoðaði. Soëtens hefur verið kallaður „Charmören blandt Evropas Violinister“ (Tidens tegn). Merkustu verkin, sem hann lék, voru Chaconne eftir Bach og fiðlusónatan eftir Cesar Franck. Ennfremur lék hann verk eftir impressionistana frönsku, Debussy og Ravel. Í list Soëtens birtast þeir kostir, sem frönsk menning er rómuð fyrir, andríkið, glæsimennskan, skýr og skilmerkileg framsetning.

Emil Telemanyi. Þetta var í þriðja sinn sem þessi ungverski fiðlusnillingur kemur til Reykjavíkur. Nú hélt hann nokkra tónleika í Tripolíleikhúsinu með aðstoð seinni konu sinnar, píanóleikarans Anette Schiöler. Áður hafði hann komið hingað árin 1925 og 1939, en tónleikar þeir, sem hér er átt við voru haldnir 1946. Telemanyi lék nú sem fyrr á hina óviðjafnanlegu Amati fiðlu sína og enn var fjörið og skapið það sama og áður, en í list hans leynir sér ekki hinn ungverski uppruni hans. Þeir Páll Ísólfsson

og Telemanyi héldu kirkjutónleika í Dómkirkjunni í desember sama ár (1946). Emil Telemanyi er vafalaust með beztu fiðluleikurum heimsins, og með sérstæður og persónulegum einkennum.

Ibolyka Zilzer. Ungverskur fiðluleikari, fædd 1908. Hún lék í Gamla Bíó í október 1946 með aðstoð dr. Victors Urbancic. Hún er víðkunn og hefur haldið tónleika víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Kaupmannahafnarbúar þekkja hana vel, því hún bjó þar öll stríðsárin. Hún lærði hjá Hubay í Budapest og Carl Flesch í Berlín. Síðan var hún aðstoðarkennari Carl Flesch við Curtistónlistarskólann í Fíladelfíu. Hún vann Mendelssohnsverðlaunin 1930 og fór síðar með sigur af hólmi í alþjóðasamkeppni í fiðluleik í Vínarborg 1936, þá 28 ára gömul. Hún var 38 ára gömul, þegar hún lék hér í Gamla Bíó 1946. Það er óþarft að taka það fram, að gott þótti að hlýða á list hennar.

Wandy Tworek. Danskur fiðluleikari, sem lék í Gamla Bíó í nóvember 1946 með aðstoð ungfrú Esther Vagning. Hann hefur mikla leikni og valdi sér mörg viðfangsefnin með „virtúósinn“ í huga eins og fiðlukonsertinn eftir Tschaikowsky. En hann er einnig góður músíkant. Mesta athygli vakti fiðlukonsertinn eftir Brahms, og mun hann þá hafa heyrst í fyrsta sinn hér í Reykjavík. Wandy Tworek er fæddur í Kaupmannahöfn árið 1913 af pólskum foreldrum og hefur ferðast um og haldið tónleika m.a. í Englandi, París og Bandaríkjunum.

Esther Vagning aðstoðaði fiðluleikarann og leysti vandasamt hlutverk vel af hendi. Ennfremur kom hún fram á þessum tónleikum sem einleikari og var leikur hennar tilþrifamikill og fallegur. Hún er vel þekkt og hefur haldið píanótónleika utan Danmerkur, í Noregi, Svíþjóð, Hollandi, Frakklandi og Englandi, en fyrstu tónleikar hennar voru í Tívolí í Kaup­mannahöfn 1928. Hún hefur verið kennari við konunglega tónlistarskólann í Kaupmannahöfn síðan 1960.

Henry Holst. Merkur danskur fiðluleikari og kennari, fæddur í Kaupmannahöfn 1899. Hann lék í Austurbæjarbíó í maí 1950 með undirleik W. Lanzky Ottó, sem er afburða waldhornisti, en einnig góður píanóisti. Henry Holst lék tónsmíðar eftir Beethoven, Schubert, Mendelssohn, Prokoifev o.fl.

Listamannsferill hans er í fáum orðum þannig: Eftir nám í konunglega tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn lærði hann hjá Telemanyi. Lék í fyrsta sinn opinberlega 1918 og þá í Kaupmannahöfn. Var síðan í konunglegu hljómsveitinni 1922-23, konsertmeistari Fílharmónísku hljómsveitarinnar í Berlín í 8 ár (1923-31), prófessor við konunglega tónlistarskólann í Manchester 1931-45 og eftir það prófessor við konunglega tónlistarskólann í London 1946-54. Eftir það búsettur í Kaupmannahöfn og hefur verið prófessor við Konunglega tónlistarskólann þar í borg síðan 1955. Jafnframt kennslustarfinu hefur hann verið konsertmeistari í Tívolíhljómsveitinni. Hann hefur farið í konsertferðalög víða um lönd, England, Þýzkaland, Holland, Ítalíu og Skandinavíu.

Henry Holst er ágætur fiðluleikari, fágaður og stílhreinn, laus við yfirborðsgljáa, en traustur og sannur. Hann hefur mikið orð á sér sem kennari og hefur gefið út „Metode til skalastudium“.

I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa