Og allt skilar þetta sér! -

Lokapróf frá Síbelíusarakademíunni.

Þessi grein birtist í Lesbók Morgunblaðsins 15. okt. 1994.



Inngangur

Einum frambjóðanda varð á orði þegar ég kom á kjörstað í fámennu sveitarfélagi einni mínútu fyrir lokun .... og allt skilar þetta sér! Hann hefur sjálfsagt vonað að sá flokkur sem hann reiknaði með að ég kysi, fengi ekki fleiri atkvæði í þeim kosningum.

Margir íslenskir tónlistarmenn hafa á örstuttu skeiði íslenskrar tónlistarsögu dvalið erlendis í lengri eða skemmri tíma við bæði nám og störf. Í ofurlitlu úrtaki má nefna Sigfús Einarsson sem lærði í Kaupmannahöfn, Jón Leifs, Pál Ísólfsson og Atla Heimi Sveinsson sem námu í þýskalandi. Í Sviss dvöldu Hallgrímur Helgason, Gísli Magnússon og Jón Nordal, í Englandi Þorsteinn Hannesson, Kristinn Hallsson og Fjölnir Stefánsson, á Ítalíu Þuríður Pálsdóttir og Magnús Jónsson, í Ameríku Magnús Blöndal Jóhannsson, Þorkell Sigurbjörnsson, Karólína Eiríksdóttir og svona mætti lengi telja, Holland, Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Frakkland, Spánn, Kanada. Nefnið þið bara landið, það má nánast teljast öruggt að íslenskur tónlistarmaður hefur dvalist þar við nám eða störf í lengri eða skemmri tíma. Það væri verðugt rannsóknarefni að skoða hvort einhverjur íslenskur skóli eða sérstíll á eftir að koma út úr þessu breiða umhverfi, því "allir hafa þeir skilað sér".

Eitt er það land sem mjög fáir íslenskir tónlistarmenn hafa stundað nám í og er það Finnland. Það má líklega telja á fingrum annarrar handar þá Íslendinga sem stundað hafa tónlistarnám þar. Um þessar mundir er einn Íslendingur að ljúka svokallaðri Licentiates gráðu (annað heiti yfir doktorsgráðu) frá tónsmíðadeild Síbelíusarakademíunnar í Helsinki og er hann um leið fyrsti einstaklingurinn sem lýkur svo hárri gráðu frá þessari deild. Það er tónsmiðurinn og ekki síður tölvuforritssmiðurinn Kjartan Ólafsson, en stór hluti af hans gráðu er hönnun og þróun tónsmíðaforritsins CALMUS sem hann einn á heiðurinn að svo og nokkur tónverk sem hann hefur samið með aðstoð forritsins.

Síbelíusarakademían

En víkjum fyrst að Síbelíusarakademíunni. Finnar hafa heiðrað minningu síns elskaða tónskálds, Jean Sibeliusar m.a. með því að nefna æðstu tónlistarstofnun lands síns eftir honum. Þar í landi hafa menn áttað sig á því að tónlistarmenn, bæði sem tónskáld og flytjendur hafa "selt" landið. Þeir hafa verið landinu slík auglýsing að fátt eitt annað getur orðið til samanburðar. Það gæti verið kominn tími til að fleiri þjóðir áttuðu sig á þessu. Tónlistaráhugi í Finnlandi er geysilega mikill og er músíkalskt starf meðal þjóðarinnar ríkt. Síbelíusarakademían í Finnlandi er stærsta stofnunin þar í landi fyrir æðra tónlistarnám, með um 2000 nemendur. Um 50 þessara nemenda stunda tónsmíðanám og er þeir svo fáir því í hæsta lagi eru teknir inn 5 nemendur á ári í þetta nám, sum árin enginn. Er stofnunin ríkisstyrkt og er aðbúnaður nemenda með því besta sem gerist.

Nám í tölvutónsmíðum við Síbelíusarakademíuna.

Fyrsta elektró-akústíska tónlistarstúdíóið sem byggt var í Finnlandi var í Tónvísindadeild Háskólans í Helsinki í lok 7. áratugarins undir stjórn tónskáldsins Erkki Kurenniemi. Á 8. áratugnum byggði finnska ríkisútvarpið (YLE) tilraunastúdíó og hefur stærstur hluti finnskrar elektrónískrar tónlistar verið saminn þar. Tveimur öðrum stúdíóum var svo komið á laggirnar árið 1990, en það voru CARTES (tölvulistarstofnunin í Espoo) sem leggur áherslu á hið svokallaða "multimedia" og tölvutónlistarstúdíó Síbelíusarakademíunnar (SACMUS) sem ætlað er til kennslu og tónsmíða nemenda tónsmíðadeildarinnar. Má segja að hlutverk deildarinnar sé þrískipt, kennsla, rannsóknir og sköpun. Með kennslu er átt við að tónsmiðum er kennt að nota tæki stúdíósins og nýta þau til tónsmíðavinnu. Rannsóknarþátturinn snýst um skilning á nýjum hugmyndum og kerfum og beinist að því að mynda lifandi og skapandi rannsóknarumhverfi innan stúdíósins. Með sköpun er átt við að nemendur geti búið við hinar bestu aðstæður til samninga verka sinna.

Hug- og vélbúnaður stúdíósins er með því besta sem til er á markaðnum í dag. Þó ýmislegt megi endurnýja, er það stór spurning hvernær endurnýja beri svo dýr tæki sem þessi, þar sem þróunin er svo hröð og erfitt fyrir stofnanir af þessu tagi að fjármagna slíkar endurnýjanir. Einnig spyr maður sjálfan sig í sumum tilfellum um tilganginn því oft snýst það um hvað gaman væri að hafa og hvað maður þarf. Með þeim tækjum sem stofnunin hefur yfir að ráða er hægt að nálgast tónlistina allt niður á míkróplan sem er minnsta einingu hljóðsins, sínustóninn . Með tækjunum þessum má búa til þau hljóð sem óskað er alveg á sama hátt og myndlistarmaðurinn blandar liti. Þessi hljóð, sem á hefðbundnum hljóðfærum eru einstakur tónn þeirra, má síðan í tölvum eftir tónsmíðalegum aðferðum og reglum setja í músíkalskt samhengi - semja tónverk. Ef við hugsum okkur hljómplötu eða segulband þá eru þau ekkert annað en geymslustaður fyrir hljóð.

Með tilkomu segulbandsins opnuðust fleiri möguleikar hvað varðar geymslu og vinnslu með hljóðið. Í dag hafa menn með aðstoð tölvu nánast fullkomið vald yfir sjálfu hljóðinu og þó svo að segulbandið sé ennþá notað sem geymslutæki fyrir hljóð þá eru gæði þess og þeirra tækja sem þau tengjast orðin miklu betri. Í hug- og vélbúnaði stúdíósins má gera margt. Búa til sín eigin hljóð geyma þau, annað hvort sem tölvuupplýsingar í sjálfri tölvunni eða sem tölvuupplýsingar á háþróuðum böndum, sem líta út eins og myndbönd, og nota þau í verkum sínum Einnig hefur maður með tölvunni aðgang að ógrynni hljóða sem liggja inni á svokölluðum netsvæðum sem eru samtengd út um allan heim. Hljóðin eru óendanlega mörg og erfitt að hugsa sér einhvern takmarkaðan fjölda þeirra, eða eins og séra Jakob Jónsson orðaði það við smiðinn í kapellu Hallgrímskirkju fyrir mörgum árum. Smiðurinn hafði á orði við hann hvort ekki færi bráðum að vera fullt á himnum þar sem vilji þeirra prestanna væri að senda alla þangað. Séra Jakbobi varð sem snöggvast litið á manninn, bað hann að koma með sér upp að veggnum þar sem stóð lítið píanó. "Sérðu þetta litla hljóðfæri og þetta litla hljómborð. Getur þú ímyndað þér hversu mörg lög má spila á það".

Kennslu í elektrónískri- og tölvutónlist er tveggja ára nám og er námið að miklu leyti einstaklingnám. Þó eru hóptímar í akústík og teoríu. Námið byggir á "synthesis" tækni, en "syntetisk" hljóðmyndun má skilja þannig að um sé að ræða sameiningu smáatriða í heild - búa til hljóð. Kennslu á stúíótæki, þ.e. þau forrit, tölvur og tæki sem stúíóið hefur yfir að ráða svo og allt það sem viðkemur tónsmíðum.

Síbelíusarakademían býr yfir kammermúsíksal sem sérstaklega er hannaður til flutnings á elektrónískri tónlist (eitthvað sem menn hafa vonandi ekki gleymt í hönnun væntanlegs tónlistarhúss í Reykjavík). Er salurinn innréttaður með 96 hátölurum sem eru byggðir á tölvustýrðum veltieiningum bæði á veggjum og í lofti. Er þessum hátölurum deilt niður á 32 rásir sem hver um sig hefur sérstakan magnara.

Kjartan Ólafsson.

Hinn mikli áhugi ungra tónskálda á Íslandi í dag á sjálfu hljóðinu við tónsköpun og notkun hinnar miklu tölvutækni við tónsköpun má eflaust að hluta til rekja til poppsins. Flestir þessara ungu manna eiga bakgrunn í popptónlistinni en þar snýst umhverfið ekki eingöngu um sjálfa tónlistina heldur einnig "græjur" og "sound". Mýmörg dæmi eru um það að unglingar sem verða helteknir popptónlistinni, byrja á því einfalda, verða smátt og smátt kröfuharðari og byrja að hlusta á vandað popp stefni alltaf hærra og enda jafnvel sem Mahler og Wagner aðdáendur. Mörgum nægir það ekki, heldur vilja þeir vera virkir þátttakendur og verða tónsmiðir. Kjartan Ólafsson er eitt þeirra tónskálda með heilmikinn bakgrunn í popptónlistinni. Þeim bakgrunni er ekki fyrir að fara í hans tónsköpun nema að litlu leyti þó er má segja að áhugi hans á "soundinu" komi þaðan. Kjartan er í dag mjög vel menntaður tónlistarmaður með tæplega 20 ára tónlistarnám að baki. Á Íslandi hefur hann stundað píanónám hjá Kristni Gestssyni og Halldóri Haraldssyni, tónfræði og tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni og Atla Heimi Sveinssyni og lauk því námi með BM (Bachelor of Music)prófi frá Tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1984. Í framhaldi af því dvaldi Kjartan á árunum 1984-1986 í Hollandi og stundaði raftónsmíðar og raftónlist við Utrecht Conservatory og Instituut voor Sonologi. Frá árin 1986 lærði Kjartan almennar tónsmíðar við Síbelíusarakademíuna undir handleiðslu prófessors Einojuhani Rautavaara og síðan á árunum 1988 - 1992 almennar tónsmíðar og tölvutónsmíðar hja Paavo Heininen við sömu stofnun. Árið 1989 lauk Kjartan kandidatsprófi frá Síbelíusarakademiunni en frá árinu 1988 hefur hann unnið að þróun tónsmíðaforritsins Calmus sem nú er stór þáttur í Lic. gráður hans við sömu stofnun.

Eins og ég sagði í upphafi er Kjartan Ólafsson um þessar mundir að ljúka námi sínu við stofnunina. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að vera með Kjartani og fylgjast með honum að störfum í vikunni fyrir hinu opinberu tónleika sem krafist er við slík lokapróf og hlusta á fyrirlestur er hann hélt í Síbelíusarakademíunni, og sem einnig er hluti lokaverkefnis hans. Áður fyrr var það mjög mikilvægt fyrir tónskáld að þau hefðu sérstaka tæknimenn, eða fræðinga, sér til aðstoðar við tækin. Með tilkomu tölvunnar og þeirrar tækni sem henni fylgir þá hafa tónskáldin tekið við báðum þessum hlutverkum. Bæði vegna þess að vinnuumhverfið er miklu þægilegra og svörin úr tækjunum fást í flestum tilfellum samstundis, en ekki daginn eftir eins og oft vildi koma fyrir. Tölvuverið í Síbelíusarakademíunni er byggt í hring eins og maður sér í James Bond kvikmyndum og situr Dr.NO í bólstruðm ergónómískt byggðum stól og getur teygt sig í takka og tól á mjög þægilegan hátt, enda eins gott því mörgu þarf að fylgjast með. Kjartan var að vinna að nýju tónverki sem hann hefur í sumar samið sérstaklega fyrir þennan kammermúsíksal sem nefndur er hér að framan. Er verkið samið með notkunarmöguleika salarins í huga og á þann hátt má skapa verk með margar víddir, verk sem lifir bæði í tíma og rúmi. Einnig var hann að vinna að úmis konar hljóðblöndun. Í öðrum verkum sínum og þá sérstaklega á verkinu Tvíhljóð frá árinu 1993 má heyra undurfagra tóna gítarsins í höndum Péturs Jónassonar þeytast í kringum sig í salnum. Fyrirlesturinn byggði Kjartan fyrst og fremst á að kynna tónsmíðaforritið sitt CALMUS og hugmyndafræðina og tæknina þar að baki. Þar inn fléttaði hann síðan nokkrum tónverkum sem hann hefur samið með aðstoð forritsins og flutti af segulbandi til að sýna fram á þá möguleika sem forritið býður upp á.

 

Grunnhugmyndin á bak við notkun CALMUS forritsins í tónsmíðum er sú að því er ætlað að vera eins konar millistykki milli einfaldrar tónhugmyndar og fullbúins tónverks. Forritið vinnur út frá svokölluðum algrímskum reikniaðferðum sem geta verið ákaflega margvíslegar alveg eftir því á hvern hátt maður nálgast þær. Aðferðin er ekki óþekkt og má þar til nefna D'Arezzo nokkurn sem uppi var um árið 1000 og samdi ákveðnar reikniformúlur til að tengja saman mismunandi tónhæðir við sérhljóða texta. Ekki ólíkt finnur maður í síðasta verki Bachs, Die Kunst der Fuge, þar sem hann notar bókstafina í nafni sínu, BACH, til að byggja upp stef. Við þetta má bæta tónskáldinu Liszt og hinni stóru orgelfantasíu hans, verkinu Rebus eftir Nils Gade og seinustu kvartetta Beethovens. Enn ein aðferðin er samband talna og tóna og eru þá gjarnan nefndir til sögunnar fulltrúar hins svokallaðs annars Vínarskóla, Schönberg og nemendur hans Alban Berg, Anton Webern að ógleymdum Hauer. Einnig má nefna hið svokallaða Pitch Class Set sem kennt er við Allan Forte. John Cage notaði Random Choice eða Chance Theory í sumum af sínum verkum, Xenakis yfirfærði notkun á Markov keðjum við tónsmíðar og Conlon Nancarrow notaði einnig stærðfræðilegar formúlur við samningu sumra verka sinna. Það er einmitt þessi aðferð, hin algrímska, sem forritið vinnur út frá.

& ;msan efnivið má nota í tónsmíðum. Má þar nefna að hin tónala tónlist byggir nær eingöngu á þríhljómnum sem grunneiningu. Margir nota að auki ákveðna laghendingu eða hrynbrot sem grunn. Einnig má nefna notkun Bach á sínu eigin nafni, svo og notkun margra annarra tónskálda á sama nafni í tónsmíðum. Við byggingu tónverks gengur maður út frá ákveðinni eða ákveðnum sellum. B-A-C-H getur t.d. verið sella og er hún sett inn í forritið og síðan hjálpar það eftir ákveðnum forsendum, sem tónsmiðurinn sjálfur velur sér. Sama má segja um hljómana. Maður ákveður einn hljóm sem verður að stýrihljómi og athugar þá tölvan hvaða möguleikar eru fyrir hendi við notkun hans. Tónsmiðurinn ákveður sjálfur bæði hversu marga möguleika hann vill láta tölvuna athuga og velja. Á þennan hátt má búa til safn tónhugmynda sem geta orðið að ákveðnu mynstri í tónsköpun, jafnvel í fleiri en einu verki, og verður á þann hátt smátt og smátt til hugmyndabanki sem tónskáldið getur notfært sér í tónsmíðum.

Þau verk sem Kjartan lék fyrir gesti voru fyrsta verkið sem hann samdi með forritinu, verkið Calculus frá árinu 1991. Var verkið samið fyrir Manuelu Wisler að beiðni Tónskáldafélags Íslands. Á því ári var Kjartan ennþá að vinna að þróun forritsins, en var þó kominn það langt að geta nýtt sér það út frá þeim forsendum sem hann gaf sér.

Annað verk sem hann samdi með aðstoð forritsins var Útstrok frá árinu 1992 fyrir hljómsveit og stafrænan tóngjafa. Verk sem hefur ákveðið íslenskt yfirbragð sem minnir á vissan hátt á tónlist Jóns Leifs. Við frumflutning verksins á Íslandi 4. nóvember 1993 þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék hljómsveitarþátt verksins var ákveðnum elektrónískum aðferðum beitt. M.a. var upptaka Ríkisútvarpsins af verkinu leikin beint í gegnum 20.000 Watta hljóðkerfi sem var til staðar og heyrðu menn þá í fyrsta sinni "almennilega í hljómsveitinni". Við þær aðstæður sem verkið var leikið á fyrirlestri Kjartans í Finnlandi var verkið einnig mjög áhrifamikið . Það var eins og að sitja meðal hljóðfæraleikaranna.

Þriðja verkið var Tvíhljóð frá árinu 1993 sem var frumflutt á Myrkum músíkdögum í Reykjavík í febrúar 1993. Er verkið skrifað fyrir gítar (Pétur Jónasson) og "tölvuhljómsveit" (Kjartan Ólafsson). Var verkið ákveðið tæknilegt tilraunaverk frá höfundi - sem á engan hátt rýrir tónlistarlegt gildi þess - þar sem það var flutt "lifandi". Kjartan hafði unnið töluvert með hljóðblöndun á þessu verki nú í Finnlandi og m.a. flutt það yfir á 8 rásir svo það fengi notið sín í þessum sérbyggða kammermúsíksal.

Fjórða verkið sem leikið var var verkið Þríþraut frá árinu 1993 og var frumflutt sama ár í júnímánuði af CHALAMEUOX klarínettutríóinu sem Kjartan Óskarsson, Sigurður E. Snorrason og Óskar Ingólfsson skipa. Á þeim tíma hafði Kjartan þróað forrit sitt það mikið að það réði orðið við þá kanóníska raddfærslu sem notuð er í verkinu. Hér er gott dæmi um notkun tölvu við tónsmíðar. Engin tölvuhljóð heyrast í verkinu heldur er tölvan notuð sem hjálpartæki við samningu verksins. Í þessu tilfelli má segja að tölvan dragi sig í hlé, inn í músíkalskan bakgrunn sem er til staðar en kemur ekki fram við flutning tónverksins.

Fimmta verkið sem Kjartan lék af bandi fyrir áheyrendur var samið nú í sumar og ber nafnið Summary (Samantekt) Er það sérstaklega samið til að súna þá möguleika sem kammersalur Síbelíusarakademiunnar hefur upp á að bjóða. Eins og nafnið ber með sér er hér um ákveðna samantekt eða uppgjör að ræða. Í verkinu notast Kjartan við allan þann concrète efnivið sem hann notaði í þeim tónverkum sem til urðu á námsárunum við Síbelíusarakademíuna. Eru það verk af ýmsum toga, m.a. verk fyrir gítar og elektróníska hljómsveit, strengjakvartett, sópran rödd og píanó, klarínettutríó og fleiri verk. Voru menn sammála um það að tónleikunum loknum að vel hefði tekist til bæði fagurfræðilega og tæknilega, og hafði einn kennari stofnunarinnar á orði hvort þeir mættu ekki halda eftir afriti af verkinu til að geta leyft fólki að heyra þá möguleika sem salurinn býður uppá.

Það er stórkostleg upplifun að heyra tölvutónlist flutta í þessum sal þar sem hljóðið berst úr úr öllum áttum. Með þessari tækni má skapa sérstakt hljóðumhverfi og láta tónverkið ekki eingöngu lifa í tíma heldur einnig í rúmi.

Eftirmáli.

Það er alveg ljóst að menn verða að kunna sína teoríu vel til að geta nýtt sér forrit Kjartans við tónsköpun. Fræðilega er þó hægt að búa til "eitthvað" með forritinu og senda frá sér sem tónsmíð. Það er þó hætt við að slík vinnubrögð standist ekki dóm manna. & ;msir sem ekki hafa velt fyrir sér tónsmíðaaðferðum eiga oft erfitt með að skilja í raun og veru um hvað hlutirnir fjalla. Til er hugtak sem heitir form og notað er við sköpun, í arkitektúr, myndlist, ljóðlist, tónlist og svo mætti lengi telja. Það er erfitt að hugsa sér hlut án forms. Form í tónlist er ákaflega stór þáttur í sköpun verksins og geta verið margvísleg. Þeirra hlutverk er að sjá um heild verksins og jafnframt að skapa ákveðna andstæðu. Þrátt fyrir marga efasemdamenn meðal tónlistarmanna og margra annarra gagnvart notkunar tölvu við tónsmíðar og tónlistarflutning þá er það alveg ljóst að eyra tónskáldsins hefur síðasta orðið í sambandi við niðurstöður í tónsköpun. Sannur tónsmiður semur ekki bara eitthvað. Líkt og auga myndlistarmannsins segir honum hvenær verkinu er lokið eða hér beri að hætta notar tónskáldið notar eyrað til hins sama. Það er einn kosturinn við notkun tölvu við tónsmíðar að maður getur heyrt niðurstöðurnar samstundis. Ekki þarf að bíða eftir að stór hljómsveit æfi verkið og þá fyrst fái tónskáldið vísbendingu um hvort vel eða illa hafi til tekist. Sumir tónlistarmenn hafa það vel þjálfað innra eyra að geta heyrt það sem stendur á blaðinu en ekki allir.

Notkun tölvu í tónsköpun í dag getur verið margvísleg. M.a. geta menn skrifað raddskrá sína inn í tölvu og látið hana síðan leika verkið. Það er hægt að leika verk inn á svokallað sequenserforrit í gegnum midi-tengt hljómborð og hlustað síðan á það. Þetta verk má þá opna í nótnaskriftarforriti og prenta þaðan út. Meðal þess sem unnið er að í dag er að eins og hægt er með með prentaðann texta, að skanna prentaðar nótur inn á tölvu og láta tölvuna síðan leika verkið. Hér í Danmörku vinna menn t.d. að því að skanna inn gömul nótnahandrit, og þá helst frá miðöldum, og láta tölvu breyta þeim yfir í nútíma nótnasetningu. Einnig má nefna tölvur í sambandi við nótnaútgáfu. Nú er t.d. unnið að því að skrifa öll verk Nils W. Gades inn á tölvu með heildarútgáfu í huga og er það verk vel á veg komið. Enn stærra verkefni er að fara í gang, þ.e. heildarútgáfa á verkum Carl Nilsen en þau verða einnig öll sett í tölvutækt form (eru menn farnir að huga að heildarútgáfum á verkum íslenskra tónskálda og setja þau í tölvutækt form?). Í Hollandi og víðar vinna menn með rannsóknir á því hvernig mannaeskjan heyrir tónlist og hefur verið búinn til svokallaður dansskór sem bregst við upplýsingum frá tölvu sem "heyrir" leikna tónlist og síðan gefur eftir algrímskum reikniaðferðum skónum til kynna hljóðfallið í tónlistinni. Ógerningur er að telja upp þá hluti er tengjast tölvum og tónlist en fátt eitt er eftir þar sem tölvan kemur ekki einhversstaðar nálægt.

Fram að þessu hafa menn verið að þróa þá möguleika sem notkun tölvu býður upp á, ekki bara í tónlist heldur á nánast öllum sviðum. Með góðum tölvum hafa menn getað leyst ýmis vandamál á örstuttum tíma sem áður tók langan tíma. Að mínu mati er tölvan smátt og smátt að læðast inn um bakdyrnar í lífi okkar og minni og minni ástæða að ræða um niðurstöður sem fengnar eru með aðstoð tölvur sem einhverjar sérstakar tölvuniðurstöður. Ef við tökum til dæmis hönnun á mannvirkjum nú til dags, eins og brúnni yfir Stórabelti í Danmörku eða göngin undir það, eða væntanlega brú yfir Eyrarsund. Öll þróunar- og hönnunarvinna er þar unnin með aðstoð tölvu. Ég hef engan heyrt tala sérstaklega um tölvubrýr eða tölvugöng. Sama má segja með tónlistina. Ég trúi því að þegar "bakraddirnar" átti sig á því að tónverk er listaverk sem búið er til úr hljóði þá hætti menn að tala um hvaða vinnuaðferðum hafi verið beitt við samningu tónverksins. Einstakur tónn leikinn á píanó eða fiðlu hefur ekkert með tónlist að gera. Það hefur heldur ekki háa C-ið hjá söngvaranum. Þetta eru bara einstök hljóð. Þau hafa fyrst tónlistarlegt gildi þegar þau eru sett í músíkalskt samhengi og þá er spurning eftir. Eru hljóð hinna hefðbundnu hljóðfæra eða raddarinnar þau einu sem eiga rétt á sér við tónsköpun. Ef tónlistarmaður vill segja eitthvað sem listamaður þá á hann rétt á að velja sér þann miðil sem honum hentar og á það bæði við um hvernig einstakt hljóð er myndað og í hvaða samhengi það er lagt. Það er svo eyrað sem segir tónsmiðnum hvenær sagt hefur verið það sem segja skal.


Efnisyfirlit

1. desember 1998

© Bjarki Sveinbjörnsson