Norrænir músíkdagar á Íslandi

25. sept. - 1. okt. 1996

Þessi grein birtist á ensku í Nordic Sounds


Ísland hefur löngum verið áningarstaður í menningarlegri þjóðbraut tónlistamanna á ferð sinni milli Evrópu og Ameríku. Reykjavík, menningarborgin sem liggur að sumra mati upp undir þaki heimsins, hefur lokkað til sín allt frá því um miðja öldina marga tónlistarmenn sem lengst hafa náð á listabrautinni í hinum vestræna heimi.

Tónleikahald þessa fólks á Íslandi hefur gefið íbúum þessarar ægifögru eyjar í norður-Atlantshafinu, sem í dag telja um 260.000 sálir, hugmyndir um þann tind sem stefnt skyldi á í uppbyggingu tónlistarlífisins í sínu einig landi, sem er mjög ungt, en að sama skapi frjótt. Þar á ekki minnst þátt sú staðreynd að íslenskir tónlistarmenn hafa sótt menntu sína, að undangengnu "konservatorí" námi á Íslandi, til nánast allra ríkja Evrópu og einnig í marga háskóla í Bandaríkjanna. Hefur þetta verið viðgengin venja alla tíð. Finna má í dag íslenska tónlistarmenn í nánast öllum þessum löndum, bæði við nám og störf.

Það eru liðin yfir eitt hundrað ár síðan hin fyrsta "Stóra Norræna Tónlistarhátíð" ein og hún hét þá, var haldin í Kaupmannahöfn - nánar tiltekið árið 1888. Síðan voru þessar hátíðir haldnar á fjögurra ára fresti fram til ársins 1938, en þar eftir annað hvert ár, þó með 9 ára hléi vegna stríðsins í Evrópu. Á hátíðinni í Kaupmannahöfn árið 1938 áttu Íslendingar fyrst fulltrúa með íslenskri hljómsveitartónlist. Í dag er einn þeirra að endurfæðast/fæðast sem tónskáld - Jón Leifs. Áhugi á verkum hans fer stórum vaxandi á þessum árum vegna m.a. vegna frumleika, stórleika og sérkenna verkanna sem endurspegla í tónsmáli sínu nánast allt það sem Ísland stendur fyrir í hugum margra; sögu og náttúru. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa gert um hann stórkostlega kvikmynd, og sænska útgáfufyrirtækið BIS er að hefja heildarútgáfu á verkum hans á geisladiskum.

Um miðja öldina eignuðust Íslendingar sinfóníuhljómsveit, sem í dag að sumra mati getur talist í hópi hinna bestu í Evrópu; 90 tónlistarskólar starfa í dag sem hýsa um 12.000 nemendur; margar tónlistarhátíðir hafa verið haldnar, innlendar sem alþjóðlegar; einsöngvarar, hljóðfæraleikarar og samspilshópar standa á sviði helstu tónleikasala heimsins; tónskáld sem eiga verk á tónleikaskrám um allan heim. Einnig á þessum tíma hefur komið til ný tegund tónlistar sem þykir sjálfsögðu á slíkum hátíðum - elektró-akústísk tónlist - einnig á Íslandi.

Norræna Tónskáldaráðið, sem stofnað var árið 1946, hefur það að markmiði að vinna að aukinni framþróun tónlistar, við það m.a. að auka flutning hennar í hverju hinna norrænu landa fyrir sig. Hafa þessar hátíðir verið haldnar annað hvert ár frá stríðslokum. Tilgangur þeirra hefur alla tíð verið, að kynna þá norrænu tónlist sem er ný hverju sinni. Að sjálfsögðu breytist tónlistin í rás tímans. Viðhorf og stefnur, bæði heima fyrir og í öðrum löndum, setja mark sitt á tónlistina. Hátíðin er einskonar yfirlit yfir þessa þróun. Áhugi um allan heim fer stórum vaksandi á norrænni list, bæði myndlist, bókmenntum og tónlist. Áður fyrr var tónlist norðurlandanna sett í einn kassa undir samheitinu Skandinavísk tónlist. En í dag eru menn smátt og smátt að gera sér grein fyrir sérkennum hvers lands fyrir sig, og á sama tíma að leita að sameiginlegum einkennum - einhverjum nordisma.. Er að þessu sinni boðið til leitunar á þessum einkennum í Íslensku umhverfi sem státar af stórbrotinni náttúru og sögu, í umhverfi sem þar sem rætur norrænnar menningar hafa varðveist; í íslenskri tungu.

"Hátíðar" - formið verður hefðbundið, segir Árni Harðarson, formaður Tónskáldafélags Íslands, þó svo yfirbragð tónlistarinnar breytist". Að þessu sinni valdi norræn dómnefnd verk úr öllum innsendum verkum í stað forvals í hverju landi fyrir sig. "Það sem lagt var til grundvallar í vinnu nefndarinnar, segir Árni Harðarson, var að velja eingöngu góð verk, sem gætu staðið vel saman í prógrammi. Engin sérstök lína var valin, né gengið út frá neinum "extra-musical" forsendum". Síðan er það verkefni hinnar íslensku hátíðarnefndar að skapa verkunum "lokkandi" umhverfi á hverjum tónleikum. "Bæði verður um að ræða sinfóníu- og kammertónleika í hefbundnu formi, og tónleika, þar sem reynt verður að skapa stemningu með ljósum og myndum. Landið okkar, Ísland, er fagurt og við vitum, að erlendir gestir kunna að meta ýmislegt, sem það hefur upp á að bjóða. Við viljum reyna að spila svolítið á landið, láta það leika sitt hlutverk". Árni bendir einnig á, að hátíð sem þessi verði varla sú sama og annarsstaðar vegna sérkenna landsins og legu þess, þó "tónlistin verði alltaf norræn á Norrænum Músíkdögum".

Ljóst er, að hátíð sem þessi verður í ýmsu fjárfrekari en á hinum Norðurlöndunum vegna legu landsins. NOMUS styrkir Norræna Músíkdaga um c.a. 20% af kostnaðaráætlun, og vonir eru uppi um að Norðulöndin, hvert fyrir sig, standi undir ferðakostnaði þeirra flytjenda sem koma þaðan. Að öðru leyti koma til opinberir styrkir frá Íslandi og að auki kemur til fjármagn frá hinum frjálsa markaði. "Það segir sig sjálft, að Norrænir músíkdagar eru stór biti að kyngja fyrir fámenna þjóð, en við eru bjartsýn, því dagskráin er spennandi".

Sinfoníuhljómsveit Íslands mun leika undir stjórn Anne Manson á tvennum krefjandi tónleikum. Á þeim fyrri leikur danski trompetleikarinn Martin Schuster einleik í verki Bent Lorentzen, Regnbogen, (1992). Einnig verða flutt verk eftir Hauk Tómasson og John Speight (I), og Pär Lindgren (S). Á síðari hljómsveitartónleikunum verða flutt verk eftir Karin Rehnqvist (S) Jon Øivind Ness (N) og Jukka Tiensuu (F). Á þeim tónleikum verðu einnig flutt verkið Bells of Earth eftir Þorstein Hauksson (I), f. hljómsveit og tölvuhljóð, verk sem vakti mikla athygli á ICMC hátíðinni i Árósum haustið 1994.

Til að nefna samspilshópa á hátíðinni, þá kemur norski saxafónkvartettinn Saxofon Concentus sem heillað hefur áheyrendur og gagnrýnendur fyrir samhæfðan leik sinn, já svo samhæfðan, að, eins og einn gagnrýnandi komst að orðið að "ætla mætti að þeir hefðu sameiginlegt taugakerfi ("...one would think that they had a common nervous system"). Einnig mun koma framá sömu tónleikum íslenski brasskvintettinn Corretto.

Caput -hópurinn íslenski, sem til varð á skyndibitastað í Reykjavík á sér merka sögu. Ungir og metnaðafullir hljóðfæranemendur hittast til að leika samtímatónlist. Að undangenginni sigurbraut á Íslandi barst leikurinn til Evrópu árið 1992 þar sem gagnrýnendur komast allir að sömu niðurstöðu - frábær flutningur. Í umsögn um geisladisk með leik hópsins á tónlist íslenska tónskáldsins Hauks Tómassonar kemst Anders Bayer ritstjóri Nordic Sounds svo að orði:

...leikur CAPUT-hópsins er í fyllsta samræmi vað það orðspor sem af honum fer sem einhverjum besta hljóðfæraflokki á Norðurlöndum þegar talið berst að túlkun og flutningi samtímatónlistar.

Íslensk/sænski hópurinn Trio Nordica, var stofnaður árið 1993. Allar þrjár, Auður Hafsteinsdóttir (fiðla), Bryndís Halla Gylfadóttir (selló) og Mona Sandström (píanó) hafa unnið til stórra viðurkenninga hver um sig, og einnig hefur hópurinn sem heild vakið mikla athygli á tónlistarhátíðum, bæði í Evrópu og Ameríku.

Af einstökum hljóðfæraleikurum skal benda á finnska harmónikkusnillinginn Matti Rantanen. Hann hefur haldið tónleika um alla Evrópu, Bandaríkin og Kanada. Í bæklingi sem fylgir geisladiski með leik hans má lesa:

It is clear as you will hear from this recording - that in his hands the accordion i above all a wind instrument. The bellows are for Matti Rantanen what the bow is to Rostropovich og Juri Bashmet: a sensitive interpreter of inner voices.

Einnig verða áhugaverðir slagverkstónleikar, kórtónleika, kirkjutónleika og síðast en ekki síst, tvennir elektró-akústískir tónleikar.

Það má að framansögðu sjá, að Norrænir Músíkdagar byggja á gamalli hefð þar sem reynt hefur verið að flytja það besta sem gert er í norrænni tónsköpun, með bestu fáanlegu tónlistarfólki hverju sinni. Umgjörð hverrar hátíðar er alltaf til umræðu, menningarleg séreinkenni hvers lands og áhersluatriði hverrar framkvæmdanefndar koma fram við skipulag hverrar hátíðar. Þær verða alltaf margbreytilegar eins og ljós norðursins.

 

Hátíðin hefur fengið heimasíðu á alnetinu:

http://xanadu.centrum.is/nmd96/



Heim

20. janúar 1997

© Bjarki Sveinbjörnsson