Tímamót í ævi tónskálds

Þessi afmælisgrein birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst 1995.


Hljótt hefur farið í opinberum fjölmiðlum um stór tímamóta í ævi eins helsta frumherja svokallaðar nútímatónlistar á Íslandi. Langar mig því að gera fátæklega tilraun til að bæta þar um.

Magnús Blöndal Jóhannsson er fæddur á Skálum á Langanesi 8. september árið 1925 og er hann því ný orðinn 70 ára. Er hann sonur hjónanna Jóhanns Kristjánssonar og Þorgerðar Magnúsdóttur. Til er í endurminningum Sigurðar Thoroddsen skemmtileg lýsing á Magnúsi sem barni en þar segir m.a.:

Meðan ég dvaldi að Skálum bjó ég hjá Jóhanni Kristjánssyni. Þar bjuggu þá í stóra húsinu hann og kona hans, sonur þeirra Magnús Blöndal og Marínó Kristjánsson bróðir Jóhanns..... húsgögn voru þar af skornum skammti, aðeins hið nauðsynlegasta. Þó var þar gott píanó, grammófónn og hlaði af hljómplötum. Magnús Blöndal var þá á þriðja ári, og benti allt til þess að hann væri undrabarn að því er laut að söng og tónmennt, enda varð hann tónsmiður síðar meir. Hann spilaði algeng lög á píanóið eftir eyranu, notaði við það sína smáu putta og báðar hendur. Annað var þó engu ómerkara að hann ólæs lék hvaða plötu úr hlaðanum, sem hann var beðinn um að setja á glymskrattann, og brást aldrei að hann veldi þá réttu.

Það er eins og örlög hans hafi verið ráðin þarna strax í byrjun hvað varðar tónlistina. Bæði píanóið og svo hin nýja tækni á þessum árum, grammófónninn. Það tæki, og síðar segulbandið, og enn síðar tölvan áttu eftir að gegna stóru hlutverki í tónsköpun hans. 6 ára gamall var hann farinn að semja lög á píanóið og 10 ára gamall, þá fluttur til Reykjavíkur með foreldrum sínum, innritaðist hann í Tónlistarskólann í Reykjavík sem þá hafði aðeins starfað í 3 ár, og hóf nám undir handleiðslu Dr. Franz Mixa, og síðar hjá Dr. Urbancic. Rúmlega tvítugur sigldi Magnús, ásamt foreldrum sínum með bandarísku herflutningaskipi til New York þar sem hann átti eftir að búa og nema næstu átta árin.Stundaði hann þar nám í Julliard School of Music í hljómsveitarstjórn, tónsmíðum og píanóleik, eða fram til ársins 1954.

Magnús fluttist til Íslands árið 1954 og hóf störf á tónlistardeild Ríkisútvarpsins. Átti hann eftir að starfa þar næstu mörg árin. Árið 1959 hóf nútíminn innreið sína af alvöru í tónsköpun Magnúsar og áttu næstu 10 árin í tónsmíðaferli Magnúsar eftir að vera þau ár sem mest hefur verið, og mest mun verða fjallað um í tónsmíðaferli hans - einn róttækasti frumherji íslenskrar nútímatónlistar.

Á tónleikum Musica Nova, sem stofnað var árið 1960 en Magnús var meðal stofnenda þess, voru fyrstu "nútíma" verk Magnúsar flutt. Áttu þau eftir eftir að ýta all hressilega við fastmótuðum skoðunum fólks á því hvað væri tónlist. Og hvernig var nú öllu þessu "moderniteti" tekið af gagnrýnendum? Mér sýnist á heimildum frá þessum tíma að Magnúsi hafi tekist að víkka tónlistaráru þeirra sem höfðu fyrirfram mótaðar skoðanir á því hvað væri tónlist í nýja átt - þ.e. að þessu sinni niður til skrattans Um verkið Punktar, frá árinu 1962 má lesa m.a. í bæjarblöðunum:

Það er rúið flestum þeim eiginleikum, sem að almennu mati - og ekki endilega íhaldssömu - gera muninn á músík og venjulegum hávaða.

Einnig má lesa eftirfarandi:

Punktar Magnúsar Bl. Jóhannssonar standa vel undir sínu nafni, nema hvað mikið skortir á samhengi þeirra á milli. Höfundur aðhyllist auðheyrilega þau elektronisku áhrif, sem nú hertaka yngri kynslóðina. Er þarna um að ræða samsetningu - hljóma - hljóða og óhljóða, þar sem segulbandið gegnir feiknarhlutverki og það eitt að stjórna því jaðrar við "virtuoseri".

Einnig má lesa á prenti frá þessum tíma um verk hans:

En þeir, sem heyrðu hin elektrónísku "tónverk" þessa kvölds, - hljóta þeir ekki flest allir að gera sér þess grein, að hér með er öfugþróun listarinnar komin á leiðarenda? Héðan af á hún ekki nema um tvennt að velja: Lokaskrefið út í tómið kalt og dimmt og dautt eða afurhvarf að hinum lifandi uppsprettulindum allrar sannrar listsköpunar.

Með öðrum orðum; allt á hraðri leið niður til andskotans!

En það voru ekki bara elektrónísk verk sem Magnús samdi. Í Birtingi 1-4 hefti árið 1964 má lesa mjög góða umfjöllun eftir Atla Heimi Sveinsson um verkið Sonorities, sem Atli flutti ásamt verki sínu Fönsun á tónleikum Musica Nova í febrúar 1965. Má hér til gamans nefna að þessi tvö verk eru þau fyrstu á Íslandi þar sem notuð er svokölluð grafísk nótnaskrift - þ.e. ekki nótur heldur grafík til að leika eftir. Eru slíkir partítúrar oft hinar glæsilegustu teikningar og má þess geta að í tengslum við flutning verkanna var haldin á kaffihúsinu Mokka sérstök sýning á grafískri nótnaskrift af verkum eftir þá Magnús og Atla, ásamt verkum nokkurra erlendra tónskálda. Sagði mér maður sem þekkir vel til fyrir stuttu að þessi sýning hefði að hans mati verið meðal þeirra bestu sem á Mokka hafa verið.

Komið var af fullum kraft inn í íslenska tónlistarlífið hið margupplifaða þema mankynssögunnar frá upphafi; barátta góðs og ills. Fyrir mörgum voru allir þessir Musica Nova menn af hinu versta sauðahúsi í list sinni, og var Magnús þeirra verstur í upphafi. Um áðurnefnda tónleika þar sem verkin eftir Atla Heimi og Magnús voru flutt, og tengdust sýningunni á Mokka, má lesa í Morgunblaðinu frá þessum tíma:

...Hljóðin er sumir hljóðfæraleikararnir náðu úr hljóðfærum sínum voru hreint og beint hrollvekjandi og líkast sem verið væri að ákalla illa vætti. Nótnaskriftin var samansafn af alls konar galdratáknum og í fyrstu gat maður haldið að þetta væri eftirprentun af Gráskinnu.

Sem betur fer komust þessir fordómar í verki ekki lengra en á prent og liggja þeir nú láréttir í bókahillum fyrir komandi kynslóðir að kynna sér. Geta menn því til samanburðar kynnt sér síðari tíma fordómalausa umfjöllun um verk Magnúsar.

En eitt er ljóst að þó svo beinin í Magnúsi séu hvorki sver né löng, þá hafa þau bæði mátt og fengið að þola ýmislegt. Kannske sjógusan sem hann fékk inn um kýraugað á herflutningaskipinu á leiðinni yfir hafið upp úr stríðinu hafi hert bæði bein og sál gegn þessu brimroki íslenska menningargeirans og öðrum áföllum í lífinu. Við nánari skoðun á verkum Magnúsar stenst að mínu mati þessi gagnrýni engann veginn og er verkið Constellation frá árinu 1960 meðal þeirra íslensku elektrónísku verka sem hvað oftast og víðasta hafa verið flutt, ef það er þá ekki bara í 1. sæti hvað það varðar. Verk Magnúsar frá árunum 1960 - 1970 hafa einnig mikið sögulegt gildi fyrir íslenska tónlistarsögu. Hann var fyrstur með marga hluti og meðal þeirra fyrstu með aðra. Fyrstur með serialismann í Abstaktionir frá árinu 1951; fyrstur með verk fyrir segulband og hljóðfæri (Elektronísk stúdía, 1959); fyrstur með verk fyrir segulband (Constellation, 1960); fyrstur með aleatoriska músík; fyrstur með verk fyrir segulband og hljómsveit (Punktar, 1962) og ýmislegt annað.

Það sem gerði Magnúsi kleift að semja tónlist fyrir segulband var að hann var starfsmaður Ríkisútvarpsins til fjölda ára. Það var ekki á færi nema stofnana að eignast slík tæki á þeim árum og fékk Magnús leyfi til að vinna að sköpun sinni að loknum vinnudegi hjá Útvarpinu. Verður þessi nánast tilviljun í íslenskri tónlistarsögu lengi í minnum höfð.

Það eru rúmlega 2 ár síðan ég hitti Magnús fyrst og höfum við síðan átt mörg persónuleg samtöl og skrifast á. Eru þeir margir kaffibollarnir og mörg vínarbrauðin sem við höfum notið saman á þessum tíma við að vinna úr handritum hans á heimili hans. Ég tel það til sérréttinda að fá tækifæri til að kynnst og komast svo nálægt tónsköpun tónskálds sem ég hef fengið að njóta frá hendi Magnúsar. Vil ég nota hér tækifærið og þakka þér Magnús innilega fyrir gefandi samverustundir síðastliðin 2 ár og megi þær verða sem flestar á komandi árum.

Það eru ótal hlutir sem ekki hefur verið minnst hér á og má þar m.a. nefna þáttöku Magnúsar í Svifflugfélagi Íslands, kaflann úr sögu hans sem ljósmyndara, flugmanns, skútusiglara, leikhússmanns, hljómsveitarstjóra,píanóleikara, á kvikmyndatónlistina né leikhústónlistina, svo nokkuð sé nefnt. Ekki hefur heldur verið minnst á persónuleg áföll í lífi hans sem manneskju né baráttuna við þröskuld gleðinnar. Ég hef valið að benda á nokkur atriði sem snúa að tónlistinni og þá aðallega þátt hans í því að innleiða nútímatónlist inn í landið. Á tímabilinu 1970 - 1980 samdi Magnús enga tónlist, en verkið Adagio frá árinu 1980 kom honum af stað aftur og fylgdu mörg verk fast á eftir. Er þar um að ræða eins konar nýrómantískar tónsmíðar, mjög rólegar og dreymandi og höfða til fjölda fólks.

Ekki er hægt að ljúka þessari upprifjun án þess að minnast á lagið Sveitin milli sanda úr samnefndri kvikmynd frá árinu 1962 . Varð það lag til í bíltúr í miðjum Hvalfirði og hripaði Magnús það niður á blað í snarhasti í einni beygjunni. Hefur þetta lag yljað þúsundum Íslendinga til fjölda ára í gullfallegri meðferð Ellýar Vilhjálms.

Ég vil að lokum vitna í áðurnefnda grein Atla Heimis Sveinssonar í Birtingi frá árinu 1964 en þar segir m.a.:

Núna er það jafn nauðsynlegt tónskáldum og þeim sem fást við raunvísindi að fylgjast vel með í sínu fagi og láta ekkert fara fram hjá sér. Magnús varð fyrstur allra íslenzkra tónskálda að fást við mörg þau vandamál sem efst hafa verið á baugi seinustu ár. Hann varð fyrstur hérlendra manna að vinna á grundvelli seríutækninnar, beizla tilviljunina, nota rúmið sem formeigind, og hefur auk þess verið brautryðjandi í sköpun elektróniskrar tónlistar hér á landi, sem hann hefur unnið að við frumstæð skilyrði og erfiðar aðstæður.

Megi verkin hans Magnúsar, bæði "hlý" og "köld" gleðja okkur um ókomna framtíð. Til hamingju með tímamótin Magnús Blöndal Jóhannsson.



Heim

20. janúar 1997

© Bjarki Sveinbjörnsson