Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Þjóðleikhúsið og óperuflutningur
Samskipti Útvarpsins og Þjóðleikhússins við stofnun hljómsveitar

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 113 - 124

Þjóðleikhúsið og óperuflutningur

Nokkrar byggingar á Íslandi eiga sér fræga byggingarsögu fyrir það, hversu langan tíma það hefur tekið að byggja þær. Nýjustu dæmin eru Hallgrímskirkja sem tók 40 ár að byggja, og Þjóðarbókhlaðan sem einnig á sér langa byggingarsögu. Þriðja þessara bygginga er þjóðleikhúsið. Fyrsta hugmynd að Þjóðleikhúsi á Íslandi var sett fram árið 1873 af Indriða Einarssyni leikritaskáldi. Það var þó ekki fyrr en 1925 að Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins hóf að vinna að teikningum að húsinu og árið 1929 var grafið fyrir grunninum. Í fyrstu gekk vel með byggingu hússins og árið 1931 var það orðið fokhelt. Þannig stóð það í 10 ár, að hluta vegna þess að ríkissjóður tók til sín svokallaðan skemmtanaskatt er hafði runnið í byggingarsjóðinn, og auk þess dróst bygging hússins vegna stríðsins. Breski herinn lagði það undir sig á árunum 1941-45. Að stríðinu loknu var byggingu þess haldið áfram og tók Þjóðleikhúsið til starfa á sumardaginn fyrsta árið 1950. Tilkoma þessa húss gjörbreytti öllum aðstæðum til flutnings á hvers kyns verkum, bæði leiknum og sungnum fyrir þjóðina. Vilhjálmur Þ. Gíslason formaður þjóðleikhúsráðs skrifaði grein í Morgunblaðið um hlutverk Þjóðleikhússins. Þar segir m.a.:

    Hlutverk Þjóðleikhússins er markað í stórum dráttum í lögunum um rekstur þess. Það er efling hverskonar leiklistar. Þjóðleikhúsið verður fyrst og fremst leikhús, dramatískt leikhús, þó að væntanlega verði þar einnig fluttir söngleikir og dansleikir. Leiklistin er fjölþætt og fögur list og þarf oft að taka í þjónustu sína eða vinna með öðrum listgreinum, tónlist, danslist, málaralist og vissri byggingarlist.

og síðar í sömu grein skrifar hann:

    Íslensk tónskáld ættu einnig að geta fengið verk sín flutt þar, í söng eða á annan hátt. (155)

Það er greinilegt að menn hafa ekki hugsað Þjóðleikhúsið frá upphafi sem neina tónleikahöll eða sem nýtt tónlistarhús. En þær væntingar manna að í Þjóðleikhúsinu yrðu settar upp allar tegundir sviðsverka, þar á meðal óperur og söngleikir, krafðist mikils samstarfs við hljóðfæraleikara og tónlistarmenn. Það fór einnig svo að strax frá upphafi var Þjóðleikhúsið nýtt til tónlistarflutnings af ýmsu tagi. Aðstandendur nýstofnaðrar Sinfoníuhljómsveitar börðust einnig fyrir því að Þjóðleikhúsið gerðist rekstraraðili að hljómsveitinni .

Allt frá upphafi flutti Þjóðleikhúsið þó nokkrar óperur og óperettur. Leikhúsið fór glæsilega af stað með sýningu á óperunni Rigoletto 3. júní 1951 sem flutt var af íslenskum söngvurum í öllum hlutverkum að einu undanskildu. Söngkonan Else Mühl var fengin frá Austurríki til að syngja hlutverk Gildu. Rigoletto var þó ekki fyrsta óperan sem flutt var í húsinu. Ári áður, nánar tiltekið 12. júní 1950, tók Þjóðleikhúsið á móti listamönnum frá Konunglega leikhúsinu í Stokkhólmi sem fluttu óperuna Brúðkaup Figarós.


135 Morgunblaðið: 20. apríl 1950.


114

Þó svo flutningur þessara ópera marki tímamót í óperuflutningi á Íslandi, voru þær ekki fyrstu óperurnar sem fluttar voru á Íslandi. Í Morgunblaðinu árið 1957 skrifar Jóhann Bernhard grein sem hann kallar "Nokkrar hugleiðingar í tilefni af 20 ára afmæli íslenzkrar óperustarfsemi". Þar bendir hann á að fyrsta óperan hafi verið flutt í Reykjavík 8. mars 1937 og var það "Systirin frá Prag" eftir Wenzel Müller. Hann bendir einnig á að þessa atburðar hafi verið getið í "Öldinni okkar" sem "fyrstu óperusýningar á Íslandi". Aðalhlutverkið í þessari sýningu var sungið af Pétri Á. Jónssyni og önnur aðalhlutverk voru sungin af Sigrúnu Magnúsdóttur, Arnóri Halldórssyni, Ragnari T. Árnasyni (útvarpsþul) og Hermanni Guðmundssyni. Söngstjóri var Franz Mixa, leikstjóri Bjarni Guðmundsson (blaðafulltrúi) og þýðandi Björn Franzson. Jóhann Bernhard segir í greininni:

    Eins og vænta mátti voru það Tónlistarfélagið og Hljómsveit Reykjavíkur, sem stóðu að þessari fyrstu óperusýningu á Íslandi, en 3 árum áður höfðu þessir sömu aðilar sýnt hér óperettuna "Meyjarskemmuna" og þar með rutt þessari skemmtilegu listgrein braut hér á landi. Er þó rétt að geta þess, að Leikfélag Reykjavíkur gerði ófullkomna tilraun til óperettustarfsemi 1932 ("Lagleg stúlka gefins") eða fyrir réttum 25 árum. (156)

Óperuáhugamenn bundu miklar vonir við Þjóðleikhúsið og voru þar fluttar nokkrar óperur á fyrstu árum þess. Leikhúsmenn höfðu áhyggjur af því að slík starfsemi tæki tíma frá leiklistinni og að ekki yrði hægt að leggja rækt við bæði þessi listform sem skyldi. Einnig voru menn smeykir við kostnaðarhliðina, aðallega þjóðleikhússtjóri, Guðlaugur Rósinkranz. En staðreyndin var samt sú að óperusýningar voru geysilega vel sóttar.

Í ræðu Ragnhildar Helgadóttur á Alþingi 30. janúar 1957 vegna þingsályktunartillögu um stofnun 5-10 manna óperuflokks við Þjóðleikhúsið kemur fram að meðalfjöldi gesta á óperusýningar í Þjóðleikhúsinu, sem tók 661 í sæti, hafi verið eftirfarandi: "Rigoletto: 641, Leðurblakan: 567, Auturbotnverjar: 476, La Traviata: 527, I Paliacci: 579, Cavalleria Rusticana: 579 og Káta ekkjan: 653". Einnig kemur fram í ræðunni að meðalaðsókn á leikritum sýndum í Þjóðleikhúsinu á 5 fyrstu starfsárum þess hafi verið 462 gestir. Söngleikirnir voru því best sóttu sýningar Þjóðleikhússins á þessum árum og var a.m.k. af sumum þeirra verulegur hagnaður. Á fyrstu 7 starfsárum Þjóðleikhússins voru að meðaltali flutt ein ópera eða óperetta á ári (þar af 4 óperur). Að mati tónlistarfólksvar þetta allof lítið. Á sama tíma voru það aðrir aðilar en starfsmenn Þjóðleikhússins er settu á svið óperur. Ég vitna aftur í grein Jóhanns Bernhard:

    Eðlilegt er að margir hafi orðið fyrir vonbrigðum yfir þessari alltof hægfara þróun, sem bezt má sjá af því, að árið 1955 léku nokkrir áhugamenn sér að því að sýna hvorki meira né minna en 3 óperur á 6-7 mánaða tímabili – á meðan Þjóðleikhúsið sýndi alls enga! Hefur kveðið svo rammt að þessu að sl. 5 ár hafa samtals 6 aðilar: Leikfélag Reykjavíkur, Tónlistarfélagið, Félag Ísl. einsöngvara, Leikhús Heimdallar, Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitin, fundið hjá sér hvöt til að sinna því hlutverki sem


156 Morgunblaðið: 1. nóvember 1957.


115

    Þjóðleikhúsið var farið að vanrækja svo mjög, með þeim athyglisverða árangri að færa upp 5 óperur, sem eingöngu voru skipaðar íslenzkum söngkröftum. Er þetta einni óperu fleira en sjálft Þjóðleikhúsið flutti á sama tíma! (157)

Á fimmta áratugnum átti Ísland orðið á að skipa nokkuð stórum hópi fólks er hafið verið í söngnámi, bæði á Íslandi og erlendis, og hafði orðið þó nokkra reynslu af óperuflutningi. Það voru ekki mörg tækifæri sem þetta fólk fékk til þess að vinna að list sinni hér heima.

Þörfin var mikil og áhuginn ódrepandi meðal óperuáhugafólks í landinu, en óperumálin komust þó ekki í "viðunandi" horf fyrr en stofnuð var Íslenska óperan árið 1981.

Árið 1974 var fyrsta alíslenska óperan í fullri lengd frumflutt. Það er Þrymskviða eftir Jón Ásgeirsson tónskáld og var hún flutt af atvinnufólki, bæði söngvurum og hljóðfæraleikurum. Þó gerðist það miklu fyrr, eða í mars 1964, að Þrymskviða var flutt í óperubúningi á árshátíð Kennaraskólans. Var hún flutt af nemendum skólans og var tónlistin þá einnig eftir Jón Ásgeirsson. Dansa hafði samið Sigríður Valgeirsdóttir og stjórnaði hún einnig sviðsetningu. Ólafur H. Jóhannsson fór með hlutverk Þórs og Hákon Óskarsson með hlutverk Þyrms. Til aðstoðar einsöngvurum og kór var 9 manna hljómsveit, sem Jón Ásgeirsson stjórnaði.

Áhugi á að semja óperu á Íslandi hefur blundað með tónskáldum í mörg ár. Hinn fyrsti íslenski óperutexti – eftir því sem komist verður næst –var saminn af Guðmundi Daníelssyni árið 1952. Það var tónskáldið Árni Björnsson er óskaði eftir þessum texta frá Guðmundi. Hét textinn "Gunnlaugur Ormstunga" var sóttur, eins og nafnið bendir til, í Gunnlaugs sögu Ormstungu. Ekki mun Árni nokkru sinni hafa skrifað tónlistina við þennan texta. Ennig finnst í handriti óperan Sigurður Fáfnisbani eftir Sigurð Þórðarson við texta Jakob Jóh. Smára. Þessi ópera hefur enn ekki verið flutt. Þá er til óperutexti eftir Einar Benediktsson sem tónskáldið Sveinbjörns Sveinbjörnsson var byrjaður að semja tónlist við. Sum þessara handrita eru varðveitt í Handritadeild Landsbókasafns Íslands.

Samskipti Útvarpsins og Þjóðleikhússins við stofnun hljómsveitar

Ekki verður skilið við þennan kafla öðruvísi en að rekja dálítið viðhorf Þjóðleikhússmanna til hljómsveitarmanna, því ég álít að þeir hafi verið gerðir á margan hátt sökudólgar að ósekju í þessari opinberu umræðu.

Í Þjóðleikhúsráði sem samkvæmt 3. gr. laga nr. 86, 5. júní 1947 var skipað með bréfi menntamálaráðherra 20. nóvember 1948, sátu eftirtaldir menn: Guðlaugur Rósinkranz að tillögu Framsóknarflokksins, Halldór Kiljan Laxnes að tillögu Sameiningarflokks alþýðu -


157 Morgunblaðið: 5. nóvember 1957.


116

Sósíalistaflokksins, Haraldur Björnsson að tillögu Félags íslenskra leikara, Hörður Bjarnason að tillögu Sjálfstæðisflokksins og Ingimar Jónsson að tillögu Alþýðuflokksins. Þarna voru fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum.

Á þriðja fundi ráðsins, 19. janúar 1949, það er meira en ári áður en Þjóðleikhúsið var opnað, má sjá að formaður þjóðleikhúsráðs, Guðlaugur Rónsinkranz, var kallaður á fund menntamálaráðherra, ásamt ráðamönnum Ríkisútvarpsins og Tónlistarskólans til að ræða stofnun og starfrækslu symfóníuhljómsveitar. Sáu menn helstan flöt á því máli að Þjóðleikhúsið greiddi ákveðið gjald á hverju ári til þessarar stofnunar. Ég vitna í þessa fundargerð:

    Þjóðleikhúsráð telur að sjálfsögðu stofnun symfóníuhljómsveitar mjög þýðingarmikla fyrir starfsemi Þjóðleikhússins og er reiðubúið til, þegar það telur sér fjárhagslega fært og heimilt að stuðla að stofnun og rekstri slíkrar hljómsveitar. En þar sem starfsemi Þjóðleihússins er ekki hafin og ekki hægt að gera sér grein fyrir tekjum né útgjöldum telur ráðið ekki að svo stöddu fært að ákveða árlegar greiðslur í þessu skyni (undirstrikun mín). (158)

Þarna kemur fram jákvæður vilji þjóðleikhúsráðs að taka þátt í stofnun slíkrar hljómsveitar, en koma þurfti í ljós hvort því væri "heimilt" og "fjárhagslega fært" að taka þátt í slíku framtaki. Áhuginn á Þjóðleikhúsinu jókst, ekki aðeins frá fjárhagslegu sjónarmiði sem liður í stofnun hljómsveitar, heldur komu tilboð erlendis frá um að flytja óperur í húsinu. Haustið 1949 er m.a. rætt á leikhúsráðsfundi um að óperan í Köln sé tilbúin að koma og flytja óperu í leikhúsinu ef aðeins fáist greiddur kostnaður af ferð hópsins til Íslands. (159)

Eins og bent hefur verið á, var ekki gert ráð fyrir tónlistarráðunauti í Þjóðleihúsinu og óskaði því Þjóðleihússtjóri heimildar til að leita til Jóns Þórarinssonar um að veita leiðbeiningar í tónlistarmálum leikhússins. Jón vann t.d. strax í upphafi kostnaðaráætlun um flutning tónlistar við leikrit, (160) sem hann taldi 3.240 (161) fyrir hverja leiksýningu, og 5.400 krónur við óperusýningu. (162) Þessi kostnaðaráætlun var að sjálfsögðu nauðsynleg til að átta sig á hvort leikhúsið hefði fjárhagslegt bolmagn til að styrkja hina endurnýjuðu hljómsveit. Í gerðabók má lesa:

    ...en allir [eru] sammála um að æskilegt væri að styrkja hljómsveitina og stuðla að stofnun hennar, en hinsvegar ekki á þessu stigi málsins hægt að leggja fram mikið fje til stuðnings öðrum listgreinum meðan óvíst er um hag Þjóðleikhússins sjálfs... að hin nýja hljómsveit taki að sjer


158 Gerðabók Þjóðleikhússráðs: 3. fundur, 19. janúar 1949.
159 Sama, 10. fundur, 10. sept. 1949.
160 Þetta átti eftir að verða ákveðið deilumál. Sum leikritaskáldin óskuðu eftir því að flutt yrði tónlist við verk sín, en á sama tíma jók það svo mjög kostnaðinn við hverja sýningu.
161 Hafði hann þá til viðmiðunar sýningar á leikritinu Nýjársnóttin (tónlist eftir Árna Björnsson).
161 Var þá ekki meðtalin kostnaður vegna hljómsveitarstjóra.


117

    tónlistina í Nýjársnóttinni og í óperu ef hún yrði flutt. Ennfremur að ræða möguleika á því að hljómsveitin haldi nokkra tónleika á vegum Þjóðleikhússins.... (163)

Hér má benda á, að strax í upphafi, áður en sjálft leikhúsið var opnað var mjög jákvætt viðhorf í garð hljómsveitarinnar, en jafnframt erfitt fyrir leikhúsráð að taka mikilvægar ákvarðanir fyrir stofnunina löngu áður en rekstur hæfist. Ekki var ljóst ennþá hvor hún fengi áfram til síns reksturs þann hluta skemmtanaskattsins sem hafði verið tekinn af og stöðvað allar framkvæmdir á árum áður (fékk nú 40% ). Það mátti trúa öllu á ríkisvaldið á þeim árum sem oftar.

Umræður héldu áfram milli forráðamanna hljómsveitarinnar og þjóðleihússstjóra því að mörgu þurfti að hyggja. Nú var búið að stofna STEF og gekk Jón Leifs hart eftir því að leikhúsið virti höfundarréttinn og greiddi rétt gjöld til STEFs. Átti það ekki aðeins við um tónlist, heldur einnig ýmis leikverk sem STEF hafði fengið umboð til að gæta hagsmuna fyrir. Má þar til nefna leikritið Fjalla Eyvind, (164) en það var eitt af þeim leikverkum sem taka þurfti afstöðu til hvort ætti að hafa tónlist við eða ekki.

Nú kom til kasta tónlistaráðunautsins. Hann hafði skrifað greinargerð um tónlist Karls Ó. Runólfssonar við leikritið Fjalla- Eyvindur. Í framhaldi af því hafnaði Þjóðleikhússtjóri að tónlist yrði flutt við leikritið, bæði vegna "of mikils kostnaðar og vegna þess að ekki væri þörf á tónleikum (165) (undirstrikun mín) við þetta leikrit." (166)

Mikill taugatitringur var í hljómsveitarmönnum í byrjun árs 1950. Börðust þeir af hörku til að fá ríkisvaldið, Reykjavíkurborg og Þjóðleihúsið með sér, þ.e. Útvarpið, til að tryggja fjárhagslegan grunndvöll hljómsveitarinnar. Komst sá orðrómur á kreik að Þjóðleikhúsið "hefði lofað" að leggja fé í þessa stofnun (eins og bent hefur verið á hér að framan). En eins og fram hefur komið hér, þá voru viðhorfin á þeim bæ, að leihúsið vildi "kaupa" þá tónlist sem það þyrfti að nota, en gæti að öðru leyti ekki verið með. Þetta viðhorf átti eftir að koma oft fram á næstu árum.

Nú styttist í opnun Þjóðleikhússins. Með bréfi dagsettu 15. febrúar 1950 barst leikhúsinu tilboð frá Kungliga Teatern í Stokkhólmi að koma til Íslands og flytja óperuna Brúðkaup Fígarós þá um sumarið. Jafnframt myndi óperuflokkurinn koma með allan útbúnað annan en hljómsveitina, en hana þyrftu Íslendingar að útvega.

Þjóðleikhúsið var tekið í notkun á sumardaginn fyrsta (í lok apríl) árið 1950, og Symfóníuhljómsveitin var einnig komin af stað. Þjóðleikhússtjóri hafði mikinn áhuga á að


163 13. fundur, 10. október 1949.
164 Við tónlist Karls O. Runólfssonar.
165 Það er dálítið undarlegt að ekki skuli bókmenntaráðunautur nefndur í þessu sambandi. Ég spyr sjálfan mig líka að því hvað var stuðst við þegar þessi ákvörðun var tekin. Var gengið út frá leikritinu eða var umsögnin um tónlistina höfð til viðmiðunar?
166 21. fundur, 12. desember 1949.


118

sett yrði upp óperusýning og hafði hann því samband við sér fróðari menn um það mál. Það voru Stefán Íslandi, Einar Kristjánsson og svo tónlistarráðunautur Þjóðleikhússins, Jón Þórarinsson. Í fundargerð (167) kemur fram að Stefán Íslandi legði til að óperan Tosca yrði tekin til flutnings og það sem mælti með því verki var að textinn var til í íslenskri þýðingu. Það var þó önnur hindrun í veginum fyrir uppfærslu óperunnar á þeim tíma. Íslenska þjóðin var að eignast söngvara sem tekið gátu að sér slík stórhlutverk, en þó aðallega í karlahlutverkin. Guðrún Á. Símonar söngkona taldi sig ekki á þessari stundu hafa nægilegan þroska í aðalhlutverk. María Markan var orðin stórstjarna á þessum tíma en hún bjó í Bandaríkjunum og mikill kostnaður því samfara að fá hana til Íslands og syngja í þessari óperu, enda gat hún ekki á þeirri stundu tekið þá ákvörðun að koma heim til Íslands. Því var hugmyndin um Tosca lögð til hliðar að sinni og snúið sér að annarri óperu. Óperan Tosca var þó ekki alveg horfin úr myndinni og átti hún eftir að kosta sitt nokkrum árum síðar.

Fyrsta hugmyndin sem upp kom um aðra óperu var Cavalleria rusticana. Til að sýna aðeins viðhorf þjóðleikhússtjóra til tónlistarflutnings í Þjóðleikhúsinu má benda á að hann vakti máls á því á stjórnarfundi hvort ekki mætti nýta Þjóðleikhússkjallarann til tónlistarflutnings þegar hann væri fullgerður. Það mætti t.d. hafa kammermúsíkkvöld og þá í samvinnu við Ríkisútvarpið og Symfóníuhljómsveitina. Ekki var þá séð fyrir endann á því að þar yrði veitingastarfsemi og einnig yrði að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem þar myndu ráða.

Í ársbyrjun 1951 hófst aftur umræðan um óperuflutning. Tónlistarráðunautur lagði fram skýrslu þar sem hann benti á að líklega yrði óperan Rigoletto hentug til flutnings þar sem Cavalleria Rusticana væri of stutt en Tosca í sinni upphaflegu mynd of viðamikil til að flytja hana óstytta. Einnig benti hann á að íslenskir söngvarar myndu geta tekið að sér öll hlutverkin nema aðalkvenhlutverkið. Undirbúningur hófst að verkinu Rigoletto. Þjóðleikhússtjóri leitaði álits tónlistarráðunautsins og Páls Ísólfssonar og voru þeir samdóma um að þetta gæti orðið sú ópera sem til greina kæmi að flytja. Stefán Íslandi hafði þegið boðið um að syngja í óperunni og jafnframt bent á erlenda söngkonu til að syngja aðalhlutverkið. Verkið var ekki til í íslenskri þýðingu, en ekki voru hefðir fyrir því erlendis að óperur væru þýddar úr frummálinu. Óperan Rigoletto var svo flutt á miðju sumri 1951 við mikla aðsókn.

Mikill áhugi var frá hendi Þjóðleikhússins að þar færi fram einhver tónlistarstarfsemi og þjóðleikhússtjóri hélt áfram að leita þeirri hugmynd fylgis að útvarpið notaði leikhússkjallarann til tónlistarflutnings sem jafnframt væri útvarpað. Frá hendi útvarpsins unnu Páll Ísólfsson og Sigurður Bjarnason að því máli. Umræðan um þátttöku Þjóðleikhússins í rekstri sinfóníuhljómsveitarinnar hélt áfram.

Mikill þrýstingur var frá opinberri hálfu að gæta ýtrustu varkárni í fjármálum Þjóðleikhússins og að kostnaði yrði haldið niðri eftir mætti. Þó svo komið hafi í ljós að


167 44. fundur, 27. nóvember 1950.


119

óperan Rigoletto hafi gefið af sér kr. 160.000 í hreinar tekjur þá var mönnum hljómsveitarkostnaðurinn mikill þyrnir í augum í öðrum verkum. Einnig blasti við leikhússmönnum sú staðreynd að í þeim almennu leiksýningum þar sem flutt var tónlist, var aðsóknin miklu betri.

    Deila mætti að sjálfsögðu um það, að hve miklu leyti ætti að hafa hljómsveitir við venjulega leiksýningu, en aðsóknin sýndi það, að fólk vildi fremur sækja sum þau leikrit er hljómsveit væri við og þeim peningum væri ekki á glæ kastað í lang flestum tilfellum. (168)

Ákveðið var að taka nýja óperettu, Leðurblökuna, til flutnings. Í fundargerð þjóðleikhússráðs í lok árins 1951 má lesa:

    Rætt um samstarf við Hljómsveit Reykjavíkur [undirstrikun mín] út af flutningi óperettunnar og um annan hljómlistarflutning. Var þess óskað að Jón Þórarinsson útvegaði tilboð frá hljómsveitinni um fast gjald yfir árið fyrir tónlistarflutning ákveðinna fjölda kvölda á ári, eða um flutning óperettunnar einna. (169)

Hér má sjá einn hlut sem styður þá hugmynd mína að hljómsveitin sem sett var á laggirnar 1950 hafi verið framhald af því sem áður var. Þeir 15 fastlaunuðu starfsmenn Ríkisútvarpsins gengu undir nafninu Útvarpshljómsveitin. Hinir, sem ekki voru "atvinnumenn" (sjá kaflann um Hljómsveit Reykjavíkur - og Hljómsveit FÍH), voru meðal þeirra sem ennþá litu á sig sem meðlimi Hljómsveitar Reykjavíkur. Enda kom á daginn að það voru einnmitt þeir "gömlu" sem mynduðu kjarnann í þeirri hljómsveit sem lék í Þjóðleihúsinu. Erfitt mun hafa verið fyrir Jón Þórarinsson að sitja við það borð að reyna að stuðla að því að Þjóðleikhúsið tæki þátt í rekstrarkostnaði Symfóníuhljómsveitarinnar og á sama tíma fá það verkefni að semja við hluta hennar, þann gamla kjarna sem Tónlistarfélagið innlimaði árið 1932. Enda fór svo að hitna tók í kolunum.

Í byrjun júnímánaðar 1952 óskuðu Tónlistarfélagsmenn (það voru í raunni Tónlistarfélagsmenn sem stóðu að baki hljómsveitinni) eftir að fá leikhúsið til hljómleikahalds á föstudagskvöldi, á sama tíma og leiksýning fór fram í húsinu. Buðust leikhúsmenn til að færa sýninguna fram til kl.18 svo hljómsveitin kæmist að með tónleika kl. 21.30. Forráðamenn hljómsveitarinnar urðu hinir verstu og höfðu í hótunum um það að ef þeir fengju ekki húsið kl. 8.30 "skyldi verra af hljótast í samskiptum leikhússins og hljómsveitarmanna." (170) Fór þó svo að hljómsveitarmenn báðust afsökunar á þessum hótunum og gengið var að tilboði þjóðleikhússtjóra. Þetta dæmi sýnir hve mikil spenna milli þessara aðila.


168 Gerðabók Þjóðleikhússráðs: 12. nóvember 1951.
169 Sama, 26. nóvember 1951.
170 Sama, 9. júní 1952.


120

En fleira kom til. Í lögum nr. 115, árið 1951 kveður á um að Þjóðleikhúsið fái 42% af skemmtanaskatti til rekstursins. Að áliti ráðuneytisins bar að túlka þau svo að Þjóðleikhúsið fengi 40% en Symfóníuhljómsveitin fengi einungis 2%. Þjóðleihúsið túlkaði þetta þannig að svo hafi verið, en á sama tíma ætti þá hljómsveitin að leggja leikhúsinu vinnu fyrir þá upphæð. Það hafi þegar greitt hljómsveitinni mikla peninga (benda má t.d á að óperan Rigoletto skilaði miklum hagnaði þannig að ekki voru þeir aurar teknir frá Þjóðleikhúsinu).

Til að einfalda þessa stöðu þá var það svo að:

  1. Þjóðleikhúsið vildi ekki hafa tónlistarráðunaut í vinnu vegna þess að það vildi geta ráðfært sig við fleiri sérfróða menn (sem það og oft gerði). Jón Þórarinsson var samnefnari útvarpsins, hljómsveitarinnar og Tónlistarfélagsins. Hinn mikli þrýstingur á Þjóðleikhúsið kom einmitt frá þessum stofnunum og því var erfitt að gera sér grein fyrir við hvaða borð Jón sat í einstökum ákvarðanatökum.

  2. Þjóðleikhúsið barðist við hallarekstur og ætlunin var að nýta þennan hluta skemmtanaskatts til að greiða hallarekstur og því ekki óeðlilegt, séð frá þeirra sjónarhóli, að sá stóri útgjaldaliður, tónlistarflutningur, yrði sá liður sem reynt var að skera niður.

  3. Guðlaugur Rósinkranz þjóðleikhússtjóri hafði verið yfirkennari í Samvinnuskólanum í mörg ár áður en hann var ráðinn til Þjóðleihússins og kunni því ýmislegt fyrir sér um viðskiftamál. Hann var fyrst og fremst að reka fyrirtæki þar sem fjárhagurinn og menningin urðu að haldast í hendur. Hann leit einnig á stofnunina frá þessu sjónarhorni þegar kom að því að taka þátt í rekstri hljómsveitar. – Ég tek undir með honum þegar hann bendir á að semja bæri beint við hljómsveit sem starfaði við Þjóðleikhúsið og þá þyrfti ekki að semja við þriðja aðila um það hvenær hljómsveitin starfaði – frá rekstarlegu sjónarmiði.

Í tíð Jóns Þórarinssonar sem tónlistarráðunautar Þjóðleihússins urðu þeir Victor Urbancic, Jón og Þjóðleihússtjóri ásáttir um að óperan La Traviata væri heppileg til flutnings í Þjóðleikhúsinu, ekki síst vegna þess hve vel viðráðanleg hún væri fyrir íslenska söngvara og einnig þá hljómsveit sem þá starfaði þar. Hafði m.a. verið rætt við Einar Kristjánsson um að taka að sér aðalhlutverkið í þeirri sýningu.

Eins og áður hefur verið greint höfðu Jón Þórarinsson og Björn Jónsson rætt við nokkra söngvara sænsku óperunnar um að taka að sér stór hlutverk í flutningi á óperunni Tosca - sömu óperu og var hafnað í upphafi starfs Þjóðleikhússins sökum þess að hún væri of viðamikil fyrir íslenska söngvara. Árið 1952 hafði Þjóðleikhúsráð ákveðið að setja upp óperuna La Traviata í maímánuði 1953 með íslenskum listamönnum. Eftir að áðurnefndir menn höfðu rætt við hina sænsku söngvara, föluðust þeir eftir að leigja Þjóðleikhúsið í 10 daga til flutnings óperunnar – einmitt á sama tíma og flytja átti La Traviata. Þetta kom


121

náttúrlega ekki til greina af hendi Þjóðleikhússins. Reynt var að gera sér grein fyrir því hvernig hljómlistarmálum yrði best háttað í tengslum við þessa óperu og voru hugmyndir uppi um að gera samning við 16-18 hljóðfæraleikara á hálfum launum, sem síðan gætu starfað í þágu útvarpsins. Þessi hópur gæti jafnframt tekið að sér allan venjulegan tónlistarflutning sem færi fram í útvarpi. Þessi umræða var upphafið að þeirri hljómsveit sem síðar varð ráðin að Þjóðleikhúsinu.

Nú fór að hitna í kolunum að nýju. Þjóðleikhússtjóri gerði uppkast að samningi við Symfóníuhljómsveitina en hafnaði um leið allri umræðu um að taka þátt í sýningu á Tosca, þar sem fyrir löngu hefði verið ákveðið að sýna La Traviata. Byggðist þessi samningur á þeim hugmyndum að ráðin yrði föst hljómsveit við húsið. Á fundi í desember 1952 var Jón Þórarinsson staddur á fundi þjóðleikhússráðs og lýsti þar yfir að samningsuppkast ráðsins væri óaðgengilegt í mörgum atriðum. Samkomulag náðist um fyrirkomulag sem sættast mátti á, en þá kom þetta Tosca-ævintýri Tónlistarfélagsmanna. Neituðu þeir að skrifa undir samninginn, eða eins og segir í gerðarbók þjóðleikhússráðs:

    Lagði hann [Þjóðleikhússstjóri] fram samning, sem samkomulag er um, að öllu öðru leyti en því að formaður hljómsveitarinnar [Björn Jónsson] vill ekki skrifa undir, nema því að eins að leikhúsið gangi inn í samninga sem hann hefir gert um flutning á óperunni Tosca í vor. Þjóðleikhússstjóri vill fallast á samninginn, en ekki gangast undir nein aukaskilyrði – Þjóðleikhúsráð er einnig sammálaum að vilja ganga að þessum samningi, en vill ekki ganga að skilyrðum um flutning á Tosca, því sem bæði er að þetta er óskylt mál og auk þess ekkert rætt við stjórn leikhússins áður en samið var við sænsku söngmennina. (171)

Málið virtist óleysanlegt. Forráðamenn Þjóðleihúss og Symfóníuhljómsveitar gengu á fund menntamálaráðherra og gerðu honum grein fyrir stöðu mála. Reyndi menntamálaráðherra að miðla málum með því að bera þjóðleihússmönnum það boð frá Symfoníuhljómsveitinni að hún teldi "mögulegt að samningar gætu tekist, ef samið yrði um leið um flutning á óperunni Tosca vorið 1954", þ.e. ári síðar en upphaflega var áætlað.

Þjóðleikhússmenn höfðu komist að þeirri niðurstöðu í útreikningum sínum að hagkvæmast væri fyrir Þjóðleihúsið að hafa eigin fasta hljómsveit og bæta svo við mönnum þegar á þyrfti að halda. Enda varð niðurstaða Þjóðleikhússráðs eftirfarandi:

    Þar sem formaður sinfóníuhljómsveitarinnar hafði hafnað samningum við Þjóðleikhúsið var nauðsynlegt að taka upp beina samninga við hljómlistarmenn. Þjóðleikhússtjóri upplýsir að eins margir hljóðfæraleikarar og þörf er á hafi fallist á þá samninga og þykir því Þjóðleikhúsráði ekki ástæða til að gera aðrar ráðstafanir úr því sem orðið er. (172)


171 Gerðabók Þjóðleikhússráðs: 30. desember 1952.
172 Sama, 8. janúar 1953.


122

Í bréfi dagsettu 14. janúar til þjóðleikhússráðs tekur menntamálaráðherra fram að eins og málið liggi fyrir sé rétt að stjórn Þjóðleihússins taki sjálf ákvarðanir um ráðningu hljóðfæraleikara við leikhúsið án afskipta. Úr þessu verður vart annað lesið en að að með yfirgangi Tónlistarfélagsmanna hafi þeir sjálfir klúðrað þessum samningum við Þjóðleikhúsið. Sama var uppi á teningnum þegar flytja átti óperuna Litla Sótarann eftir Britten, en til þess þurfti 7 manna hljómsveit, strokkvartett, tvo á píanó og einn á slagverk. Ráð var gert fyrir í upphafi að Páll Ísólfsson stjórnaði þeim flutningi. Á fundi hans og Björns Ólafssonar fiðluleikara með þjóðleikhússtjóra bar Björn fram þá ósk að aðeins samvanir menn spiluðu í verkinu, þ.e. kvartett hans, en þeir voru ekki í þeim hópi er gert hafði samning við Þjóðleikhúsið, vegna samninga sinna við Symfóníuhljómsveitina. Þá þyrfti að ráða 6 menn aukalega í stað eins (Björns) og hefði það haft mikinn aukakostnað í för með sér. Þá var staðfest að Páll væri á förum til útlanda og gæti því aðeins stjórnað nokkrum uppfærslum. Var þessu því frestað að sinni. Í framhaldi af þessari umræðu var gerður starfssamningur við Victor Urbancic um að hann gerðist hljómsveitarstjóri Þjóðleikhússins.

Árið 1952 lét tónlistarráðunautur af störfum við leikhúsið, eins og nefnt hefur verið. Ráðamönnum fannst samt sem áður æskilegt að hjá leikhúsinu væri starfandi tónlistarnefnd til ráðleggingar tónlistarflutnings. Í ársbyrjun 1953 lagði menntamálaráðherra fram tillögu þess efnis að lögunum frá 1949 yrði breytt með reglugerð (gefin út 5. ágúst 1953) þannig að við leikhúsið starfaði slík tónlistarnefnd. Í nefndina voru skipaðir þeir Páll Ísólfsson og Björn Ólafsson. Þjóðleikhússtjóri setti tónlistarmönnum þarna sama varnaglann og áður, að:

    ...hann liti á verksvið tónlistarnefndarinnar einungis sem ráðgefandi eins og skýrt komi fram í orðalagi reglugerðarinnar, og því að sínu leyti hliðstæð verksviði leikritanefndar, en að hann ákveði eftir sem áður, hvaða verk Þjóðleikhúsið taki til flutnings, hvernig þau skuli flutt og hverjir flytji.

Nú var komin kergja í málið, sem átti eftir að koma upp á yfirborðið öðru hvoru í tíð Guðlaugs sem þjóðleikhússtjóra. Áhugafólk um leikhús var ekki alltaf sammála um hvernig jóðleikhússtjóri meðhöndlaði þetta vald á stjórnartímum sínum – ekki síst atriðið, "hverjir", og "hvernig".

Útvarpið styrkti smám saman stöðu sína í hljómsveitarmálum, enda var þar unnið skipulega að þróun þeirra. Formaður þjóðleikhússráðs, sem jafnframt var útvarpsstjóri, skýrði frá því að Þjóðleikhúsið yrði að marka stefnu í tónlistarmálum á sama hátt og Ríkisútvarpið. Hann benti á þrjá möguleika í þeim efnum:

    1. Að þjóðleikhúsið gerðist aðili að Sinfoníuhljómsveitinni gegn föstu og ákveðnu fjárframlagi ....

    2. Leita samninga við Ríkisútvarpið um ákveðinn tónlistarflutning með vissri hljómsveit.


152 Vísir: 2. mars 1953.


123

    3. Að koma á fót eigin hljómsveit eða semja í hverju einstöku tilviki við einhverja hljómsveit.

Á fundi í Þjóðleikhússráði 26. maí 1953 var samþykkt að koma á fót samvinnu við Útvarpið um þann tónlistarflutning sem þessar stofnanir höfðu þörf fyrir.

Þetta fyrirkomulag hélst veturinn 1953-54. Sumarið 1954 gerði Ríkisútvarpið nýjan launasamning við hljóðfæraleikara og þar með var séð fram á að Guðlaugur yrði að gera ráð fyrir hærri tölum í kreditdálkinum í sjóðsbók sinni. Hann gat nú varla kvartað miðað við Útvarpið, sem hafði borið allan hallan árið áður í sínum samningum við Þjóðleikhúsið og bar jafnframt alla ábyrgð á hljómsveitinni. Þjóðleikhússtjóri bar alltaf fyrir sig að fyrir honum lægju skipanir frá menntamálaráðuneyti þess efnis að leikhúsið bæri sig fjárhagslega. Á sama tíma komu fram óskir þess efnis frá ráðuneytinu að Symfoníuhljómsveitin starfaði áfram.

Haustið 1954 tókust svo samningar milli Ríkisútvarpsins og Þjóðleikhússins þess efnis að Þjóðleikhúsið tæki þátt í rekstri hljómsveitarinnar, enda hafði útvarpsstjóri orðið að setja þumalskrúfu á Þjóðleikhússtjóra þess efnis að ef ekki tækjust þessir samningar, væri allt í óvissu um það hvort Þjóðleikhúsið fengi yfirleitt nokkra hljóðfæraleikara til að spila á sýningum þess.

Þrátt fyrir þetta kom fram í máli útvarpsstjóra að kostnaður við hljómsveitina vær of mikill fyrir báðar þessar stofnanir miðað við það fé sem þær hefðu á fjárlögum. Hann taldi Útvarpið geta náð miklu hagstæðari samningum væri það einungis að hugsa um sig, og því þyrfti Þjóðlekhússjóri ekkert að samþykkja þá fyrir sitt leyti. En hann mælti með því að það gerði það, bæði sjálfs sín vegna og einnig vegna framtíðar Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þetta var pólítísk refskák frá hans hendi – pólítískur leikur sem bæði var nauðsynlegur og sem sýndi sig síðar að gekk upp.

Þremur mánuðum síðar má lesa eftirfarandi bókun í gerðarbók þjóðleikhússráðs:

    Enda þótt stjórn Þjóðleikhússins telji flutning söngleikja mikilvægan menningarþátt og æskilegan í starfi leikhússins, verður hún að telja, eins og fjárhagur leikhússins er, að því verði ofvaxið að taka þátt í kostnaði við stóra hljómsveit framvegis á sama hátt og gert er á yfirstandandi leikári, og mun því ekki endurnýja samning þann sem gerður var við Ríkisútvarpið á þessu ári. (173)

Ekki þarf að fjölyrða frekar um þetta mál því eins og fram hefur komið, þá var Symfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins leyst upp haustið 1955 samkvæmt ákvörðun útvarpsstjóra. Dæmið sýnir hversu miklum erfiðleikum það hefur verið bundið að koma á fót og reka sinfóníuhljómsveit. Staðreyndin var að ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum þessara


173 Gerðarbók Þjóðleikhússráðs: 7. desember 1954.


124

stofnana að reka hljómsveit. Í öðru lagi var lítill pólítískur vilji á Alþingi til þess að veita fé í slíkt fyrirtæki, og í þriðja lagi voru samskipti og samstarf margra þeirra aðila sem unnu að þessum málum ekki eins og best væri á kosið, en það var sannarlega ekki ný saga í kringum þessa stofnun, sem á upphaf sitt að rekja til ársins 1920. Við það að leysa Ríkisútvarpið undan rekstri hljómsveitarinnar og þar með leggja hana niður var eins og málin stóðu fyrir alvöru hægt að setjast að samningaborði og taka ákvörðun um framtíð hennar; enda má lesa eftirfarandi bókun í gerðabók Þjóðleihússins nokkrum mánuðum síðar:

    162. fundur

    Þjóðleikhússráðs var haldinn föstudaginn 2. mars 1956 kl. 4.30 síðdegis. Allir ráðsmenn sátu fundinn auk Þjóðleikhússtjóra og skrifstofustjóra.

    Þetta gerðist:

    1) Þjóðleikhússtjóri lagði fram bréf frá menntamálaráðuneytinu, dags. 27. febrúar 1956, þar sem þess er óskað, að þjóðleikhúsið tilnefni af sinni hálfu einn mann í nefnd til þess að undirbúa formlega stofnun sinfóníuhljómsveitarinnar, ásamt tveimur nefndarmönnum tilnefndum af Ríksútvarpinu, einum af fjármálaráðuneytinu, og einum af bæjarstjórn Reykjavíkur og einum af menntamálaráðuneytinu. Nefnd þessi yrði síðan stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar, að viðbættum einum fulltrúa frá hljóðfæraleikurum. Var samþykkt samhljóða að tilnefna Guðlaug Rósinkranz þjóðleikhússtjóra í nefndina.... (174)


174 Sama, 2. mars 1956.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998