Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Sinfóníuhljómsveit Íslands
Tónlistarkynningar við Háskóla Íslands
Hljóðritanir og sala á hljómplötum
Íslensk tónlistaræska

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 125 - 134

Sinfóníuhljómsveit Íslands

    1. fundur.

    Ár 1956, föstudagurinn 8. marz, kl. 5. e.h. var fundur haldinn í nefnd til þess að undirbúa formlega stofnun sinfoníuhljómsveitarinnar í skrifstofu þjóðleikhússtjóra. Nefndin er þannig skipuð: Ragnar Jónsson, tilnefndur formaður af menntamálaráðuneytinu, Þorsteinn Hannesson tilnefndur af fjármálaráðuneytinu, Guðlaugur Rósinkranz af hálfu Þjóðleikhússins, Vilhjálmur Þ. Gíslason og Páll Ísólfsson af hálfur Ríkisútvarpsins og Baldur Andrésson tilnefndur af bæjarráði Reykjavíkur. (175)

Þessi fyrsta fundargerð er í nokkrum liðum, og undir hana rita allir áðurnefndir menn. Fyrsta starfsregla af 14 hljóðar þannig:

    1. gr.

    Sinfóníuhljómsveit Íslands er sjálfstæð stofnun sem rekin er með styrkjum úr ríkissjóði og bæjarsjóði Reykjavíkur og í samvinnu við Ríkisútvarpið og Þjóðleikhúsið. (176)

Ætlunin var að hljómsveitin yrði sjálfstæð stofnun með eigin stjórn sem nyti allríflegs styrks frá ríki og bæ. Sótt hafði verið um leyfi fyrir nafninu Sinfóníuhljómsveit Íslands til forsætisráðuneytisins, en orðið sinfónía (177) tekið upp í stað orðsins symfónía, en heiti henna var gjarnan ritað Symfóníuhljómsveit Íslands. Framkvæmdastóri var ráðinn Jón Þórarinsson. Í fyrstu voru ráðnir 28 menn í fullt starf, en 40 alls í heilt og hálft starf og þar að auki lausamenn og gert ráð fyrir að allt að 55 manns gætu verið í hljómsveitinni. Æfingar hófust að fullu undir stjórn Páls Ísólfssonar og ætlunin var að leika fyrst opinberlega í Þjóðleikhúsinu við væntanlega komu dönsku konungshjónanna til Íslands 11. apríl 1956. Konungstónleikarnir geta þó tæpast talist með sem þeir fyrstu eftir endurreisnina því að á þá komu eingöngu boðsgestir og var æft sérstaklega upp prógram fyrir það tilefni, líkt og í "gamla daga". Á þessum tónleikum var fluttur Egmont-forleikur Beethovens og síðan flutt sérstaklega fyrir konung verkið Passacaglia eftir Pál Ísólfsson og nýtt verk Jóns Nordals, samið af þessu tilefni. (178)

Fyrstu opinberu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands (179) voru haldnir 24. apríl 1956. Það voru hátíðartónleikar helgaðir 200 ára afmæli W. A. Mozarts, haldnir í Þjóðleikhúsinu. Hljómsveitarstjóri var, eins og á tónleikunum árið 1950, Róbert A. Ottóson. Hljómsveitinni óx fiskur um hrygg og gegndi fljótt hlutverki sínu sem "hljómsveit allra landsmanna". Um


175 Fyrsta Gerðabók Sinfóníuhljómsveitar Íslands
176 Sama.
177 Efast má um að þetta hafi hafi einhverja þýðingu, en hér, í fyrsta sinni fékk hljómsveitin skrásett nanf – sem hún hefur haldið síðan. Héðan í frá var hún hvorki né hét annað en Sinfóníuhljómsveit Íslands.
178 Verkið heitir upphaflega Sinfonietta seriosa en fékk íslenska heitið Bjarkamál að tillögu Sigurðar Nordal.
179 Ég freistast til að slá fram þeirri hugmynd að hljómsveitin hafi fyrst formlega verið stofnuð þetta ár í stað árins 1950 eins og ávalt er talað um. Þetta er í fyrsta sinni sem rituð er formleg fundargerð hljómsveitarinnar, enda er í bókina ritað "fyrsti fundur". Einnig er þarna fyrst sótt um leyfi fyrir nafni hljómsveitarinnar, stjórn skipuð af öllum opinberum aðilum og framkvæmdastjóri ráðinn. Þetta er að mínu mati í fyrsta sinni sem hægt er að tala um hljómsveitina sem sjálfstæða stofnun.


126

hvítasunnuhelgina 1956 flaug 34 manna hópur hljóðfæraleikara, ásamt stjórnandanum, Páli Ísólfssyni, norður til Akureyrar og hélt tvenna tónleika, aðra í Skjólbrekku í Mývatnssveit og hina í Akureyrarkirkju. Þetta framtak þótti hið lofsamlegasta og fékk hljómsveitin og stjórnandi hennar höfðinglegar móttökur. Einnig hélt Sinfóníuhljómsveitin tónleika í Vestmanneyjum í júlí sama ár.

Ekki síður voru jákvæðar viðtökurnar sem hljómsveitin fékk á ferðum sínum um landið. Forráðamenn bæjarfélaga tóku á móti henni og fluttu ávörp og hvatningarorð til hljómsveitarmanna. Í lok tónleika hennar á Akranesi í októberbyrjun 1956 flutti forseti bæjarstjórnar á Akranesi, Hálfdan Sveinsson ávarp og sagði m.a.: (180)

    Þakklát blessum við dugnað, framsýni og þrotlaust starf allra, sem unnið hafa að stofnun hljómsveitarinnar. Eftirleiðis munum við aldrei setja okkur úr færi að hlusta á hana. Það er jafnframt skýlaus krafa okkar, að ríkisstjórn og Alþingi búi svo að henni fjárhagslega, að hún nái sem allra fyrst að fylla þann þátt íslenzkrar tónmenningar, sem hinir framsýnu hugsjónamenn, er lögðu grundvöllinn, ætluðu henni að gera. Hún þarf að fara sem víðast um byggðir landsins, svo að sem flestir fái að heyra hana og sjá. Þá mun hún óðar verða óskabarn allra Íslendinga. (181)

Vorið 1956 var ráðinn þýskur hljómsveitarstjóri til að stjórna hljómsveitinni, Wilhelm Scleuning að nafni. Viðfangsefnin á tónleikunum auk einsöngs Þorsteins Hannessonar í aríum úr óperum eftir Weber og Beethoven, voru tvö verk eftir Stravinsky, Pulcenella og Eldfuglinn.

Miklar breytingar urðu á skilyrðum hljómsveitarinnar við stofnun hennar, og á blaðamannafundi skýrði Jón Þórarinsson svo frá að á tímabilinu 11. apríl-5. júlí hafi hljómsveitin haldið 10 opinbera tónleika, þar af 4 utan Reykjavíkur. Auk þessara sjálfstæðu tónleika hljómsveitarinnar kom hún 25 sinnum fram á sama tíma í útvarpinu og aðstoðaði við 28 óperettusýningar í Þjóðleikhúsinu. Áfram var unnið af kappi við verkefnaval og nýjungar á sviði tónlistarflutnings. Um miðjan nóvember 1956 flutti Sinfóníuhljómsveitin ásamt einsöngvurum í fyrsta skipti á Íslandi konsertuppfærslu af óperu. Það var óperan Il Trovatore eftir Verdi og voru einsöngvarar Þuríður Pálsdóttir, Guðmunda Elíasdóttir, Magnús Jónsson, Guðmundur Jónsson og Kristinn Hallsson. Stjórnandi var ráðinn frá Bretlandi til þessa verkefnis, Warwick Braithwaite, en um allar æfingar og undirbúing sá Ragnar Björnsson, sem einnig æfði félaga úr karlakórnum Fóstbræðrum sem tóku þátt í flutningnum. Blaðadómar voru mjög vinsamlegir og segir Vikar, er skrifaði gagnrýni í Morgunblaðið m.a.: "Alþingi verður að rýmka svo um fjárhag sveitarinnar, að hægt verði næsta sumar að fara með óperuna um allt Ísland." (182)


180 Í Morgunblaðsgrein nefndir hér næst á eftir er Hálfdán titlaður Bjanason. Það leiðréttist hér með
181 Morgunblaðið: 21. nóvember 1956
182 Morgunblaðið: 17. nóvember 1956.


127

Smátt og smátt fór hljómsveitin að "voga sér" inn yfir aldamótin í tónlistarvali. Það verður að segjast eins og er að viðurkenning almennings á hinni "nýju" tónlist hefur komið hægt og sígandi. Þó er í dag allt önnur skilgreining á því hvað er nýtt í þeim efnum. Hljóðheimur almennings hefur aukist og víkkað og hljóma- og tónasambönd sem áður þóttu hinn mesti friðarspillir eru nú orðin að eyrnakonfekti. Það var þess vegna hárrétt af Sinfóníuhljómsveitinni að byrja smátt í þeim efnum því fyrst varð að vinna hljómsveitinni ákveðinn sess meðal almennings áður en farið yrði út á nýjar brautir. Einstöku sinnum voru verk sett inn á efnisskrá "ekki klassísk/rómantísk" og tengdist það oft gestastjórnendum erlendis frá. Þeir leituðust við í mörgum tilvikum að kynna tónlist frá heimalandi sínu, bæði eldri og nýja. Gott dæmi um það er heimsókn tékkneska hljómsveitarstjórans Václav Smetácek. Á tvennum tónleikum sem hann stjórnaði í ársbyrjun 1957 voru aðrir tónleikarnir eingöngu helgaðir tékkneskri tónlist. Ekkert verkanna hafði áður verið flutt á Íslandi en þau gáfu góða mynd að tónlist heimalands stjórnandans. Eitt nútímaverk eftir tékkneska tónskáldið Isa Krejci (f. 1904) var flutt á tónleikunum.

Í umfjöllun um tónleika í Morgunblaðinu í apríl 1957 má m.a. lesa eftirfarandi setningu um svokallaða alþýðutónleika er Sinfóníuhljómsveitin gekkst fyrir í Austubæjarbíói undir stjórn Páls P. Pálssonar, en þeir tónleikar voru vel sóttir af ungu fólki: "Mesta athygli vakti verk eftir Benjamín Britten og sýnir það að nýrri tónlist er að ná tökum á fólki hér eins og annars staðar." (183) Við að fara varlega í sakirnar á hinum óplægða akri tónlistarinnar á Íslandi vaknaði smám saman forvitni áheyrenda á að heyra nýja tónlist.

Hinn mikli framgangur hljómsveitarinnar sem slagæð tónlistarlífs í landinu jók til muna möguleika íslenskra tónskálda á að fá flutt verk sín opinberlega. Ákveðið var að efna síðar til sérstakrar innlendrar tónlistarhátíðar þar sem eingöngu skyldi flutt íslensk tónlist. Í tilefni af 10 ára afmæli Tónskáldafélagsins var haldin mikil hljómleikahátíð í Reykjavík dagana 27.-30. apríl 1957. Þar gegndi Sinfóníuhljómsveitin og félagar hennar aðalhlutverki og voru haldnir stofutónleikar, kirkjutónleikar og sinfóníutónleikar. Á sinfóníutónleikunum var m.a. flutt Sinfonietta Seriosa eftir Jón Nordal. Gestastjórnandi þessara tónleika var Norðmaðurinn Olav Kjelland. Sömu daga var einnig eingöngu flutt íslensk tónlist í Ríkisútvarpinu. Í grein um hátíðin skrifar Ragnar Jónsson eftirfarandi í Morgunblaðið:

    Þessi fyrsta íslenzka tónlistarhátið er því í senn fysta uppskeruhátíð íslenzkra tónskálda til að fagna því að jarðvegurinn hefur í fyrsta sinn verið plægður og undirbúinn til almennrar sáningar. Hún lýsir því í senn heilbrigðri bjartsýni og trú á þann jarðveg, þar sem rækta á framtíðarskóga íslenzkrar listmenningar. En eins og Róm var ekki byggð á einum degi, svo er og listþróunin átak margra alda. Skal því vissulega fagnað innilega að nú er fyrsti áfanginn, og ekki sá þýðingarminnsti, að baki og ekki lengur stefnt alveg blint í óvissuna. (184)


183 Sama, 18. apríl 1957.
184 Morgunblaðið: 16. maí 1957.


128

Þessi hátíð var einskonar uppskeruhátíð allra þeirra einstaklinga, er unnið höfðu sleitulaust allt frá stofnun Tónlistarskólans árið 1930 og helgað íslensku tónlistarlífi nánast alla sína krafta í þeirri trú á að á Íslandi væri hægt að byggja upp tónlistarstarf sambærilegt því sem gert væri meðal annarra þjóða. Starfið hafði kostað svita, tár og niðurlægingu sumra þeirra einstaklinga er tóku þátt í uppbyggingarstarfinu. En "götuna fram eftir veg" skulum við – hugsuðu þeir – til að þetta tækist, og mun starf þeirra seint fullþakkað af þeirri kynslóð er við tók.

Sinfóníuhljómsveitin var orðin að veruleika og reglulegir tónleikar hennar hluti af bæjarlífinu, og raunar lífi landsmanna allra því hljómsveitin fór reglulega út á land og hélt tónleika. Íslenskir tónlistarmenn lögðu í auknum mæli land undir fót þennan áratug bæði til náms, starfa og tónleikahalds. Íslensk tónlistarmenning var smátt og smátt að komast á heimskortið. Barna- og unglingastarfið fór einnig að skila árangri. Um árabil hafði Ingólfur Guðbrandsson söngkennari kennt tónlist við Laugarnesskólann í Reykjavík og þjálfað þar barnakór. Við sama skóla starfaði hinn frábæri fiðluleikari Rut Hermanns og æfði þar strengjasveit. Við Austubæjarskólann lék stór blásarasveit barna undir stjórn Karls O. Runólfssonar og svona mætti áfram telja. Árangur þessarar kennslu átti eftir að skila sér á mörgum sviðum tónlistarinnar á næstu áratugum.


129

Tónlistarkynningar við Háskóla Íslands

Með auknum áhuga almennings á því sem kallað hefur verið sígild tónlist jók þörfin á tónlistarkynningum til að styðja og efla flutning af þessu tagi. Á einstaka tónleikum voru verkin kynnt eða höfundar þeirra. Má þar t.d. minnast tónleika hins gamla kammermúsíkklúbbs og ISCM (185) árið 1949 þar sem formaður klúbbsins, Bjarni Guðmundsson, kynnti lítillega verkin og höfunda þeirra. Einnig má nefna kynningar Ríkisútvarpsins á tónskáldum og verkum þeirra sem nokkrir helstu tónlistarmenn landsins fluttu. Þátta Jóns Þórarinssonar tónskálds og ekki síður þátta Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds um nútímatónlist sem hófust árið 1961 – og heyrast enn – ber sérstaklega að minnast í þessu sambandi.

Við Háskóla Íslands starfaði Karlakór Háskólastúdenta sem frá árinu 1951 starfaði óslitið í fjölda ára. Í nóvember 1953 tók kórinn upp þá nýbreytni að bjóða til tónlistarkynninga meðal nemenda. Hljómplötudeild Fálkans lánaði nemendum hljómplötur með verkum m.a. eftir Mozart og Wagner og kynnti Robert A. Ottósson þau. Þessi starfsemi hélt áfram og gengust kórmeðlimir á fyrri hluta ársins 1954 fyrir tveimur kynningum með aðstoð Róberts A. Ottóssonar í tengslum við tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar. Í maímánuði sama ár gekkst kórinn fyrir kynningu á verkum yngri tónskálda Bandaríkjanna, þeirra Schales T. Griffes, Samuel Barber, William Grant Still og Charles W. Calmen. Nutu kórmenn aðstoðar Robert A. Ottossónar, Guðmundar Jónssonar söngvara og Fritz Weishappel píanóleikara. Allar þessar kynningar voru opnar almenningi og var aðgangur ókeypis.

Vísir að tónlistardeild innan Háskólans var komið á fót árið 1955 fyrir tilstilli hins heimsfræga fiðluleikara Isac Stern. Íslendingar hafa alltaf verið ákaflega heppnir að fá til landsins í heimsókn marga bestu listamenn heimsins. Í janúar árið 1955 komu til landsins fiðluleikarinn Isac Stern og undirleikari hans Alexander Zakin. Þeir héldu nokkra tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni í Reykjavík fyrir meðlimi Tónlistarfélagsins sem kom í kring heimsókn þeirra félaga. Allar tekjur af tónleikunum gáfu þeir Háskóla Íslands til stofnunar tónlistarsafns við skólann. Í janúar 1955 birtist svohljóðandi gjafabréf í bæjarblöðunum:

    Herra háskólarektor:

    Við Alexander Zakin þökkum yður kærlega fyrir það, að okkur gafst kostur á að leika fyrir yður og stúdentahópinn og eiga við yður samræður. Við ferðumst víða um heim og þykir okkur hvarvetna miklu skipta að hitta ungmenni hvers lands. Okkur hafa þótt þau mjög þakklátir áheyrendur, og í okkar augum hefur unga fólkið miklu hlutverki að gegna í framþróun tónlistar og allra mennta. Af þessum sökum er mér það mikil ánægja að bjóða Háskóla Íslands allar tekjur mínar, sem orðið hafa að þessari skemmilegu heimsókn til Íslands, í því skyni að opna megi tónlistarstofu með beztu fáanlegum tækum til hljómplötuleika, svo og vísi að tónplötusafni. Er það von mín, að slíku safni megi eigi aðeins koma gjafir víða að, heldur og að það megi verða vísir að tónlistardeild innan


185 International Society for Contemporary Music.


130

    Háskólans. Okkur hefur þótt fólk hér vera með söngvísustu og áhugasömustu áheyrendum, sem við höfum fyrir hitt. Við trúum fastlega á gildi tónlistar í sköpun betra og fegurra mannlífs. Við viljum því af heilum hug hjálpa hverjum þeim, sem njóta vill hinna eilífu sanninda og fegurðar, sem eru ávextir blómaskeiða menningarinnar. Í þeirri von, að eiga enn eftir að sækja Ísland heim, kveð ég yður, kæri háskólarektor, alúðarkveðjum.

    Yðar Isac Stern (186)

Það er ekkert vafamál að gjöf þessi gegndi mikilvægu hlutverki í þá átt að auka skilning og þekkingu fjölda fólks á tónlist. Keypt voru hin vönduðustu tæki og voru þau vígð við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Háskólans um vorið. Þetta þótti mikill menningarviðburður innan skólans og meðal vígslugesta var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Ásamt tækjunum voru keyptar í upphafi 55 plötur með úrvali hinna bestu verka. Mikill áhugi háskólamanna á gjöf þessari sýndi sig m.a. í því að á heimavist stúdenda, Nýja Garði, voru einnig góð hljómflutningstæki, sem sendiráð Bandaríkjanna gaf þangað af sama tilefni og gátu nemendur fengið lánaðar plötur til að leika þar.

Fyrsta opinbera tónlistarkynningin fór fram í oktober 1955 og var Páll Ísólfsson kynnir. Þá var fiðlukonsert Mendelssohns leikinn af hljómplötu, af áðrunefndum Isac Stern, með undirleik hljómsveitar undir stjórn Eugenes Ormandys. Einnig var flutt af plötum 7. Sinfonia Beethovens leikin af Fílharmonisku hljómsveitinni í New York undir stjórn Bruno Walters.

Upp frá þessu voru tónskálda- og tónlistarkynningar reglulegur viðburður innan Háskólans og ýmsir tónlistarmenn fengnir til þessara kynninga. Í nóvember 1956 var Vetrarferðin eftir Schubert flutt og voru þýðingar á ljóðaflokki Wilhelms Müllers ásamt frumtextanum afhentar á tónleikunum. Ein af okkar miklu óperustjörnum þess tíma, Guðmundur Jónsson söngvari, flutti inngangsorð til skýringar. Allur undirbúningur þessara tónleika var til fyrirmyndar og í mars 1957 var sami háttur hafður á er Guðmundur Matthíasson tónlistarkennari kynnti verk Schumanns, Frauen-Liebe und Leben, að frumtexti ásamt þýðingum Matthíasar Jochumssonar var afhentur áheyrendum í upphafi tónleika.

Hljómplötusafn Háskólans óx smám saman. Eftir að stjórn Fálkans gaf skólanum hljómplötur að verðmæti 10.000 krónur átti safnið 200 hæggengar hljómplötur í ársbyrjun 1958. Á sama ári kynnti Páll Ísólfsson allar sinfóníur Beethovens með skýringum. Nokkur erlend sendiráð gáfu einnig háskólanum plötugjafir og í september 1960 færði upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna skólanum 430 hljómplötur, ásamt spjaldskrá og skýringum á tónverkunum. Þessar hljómplötukynningar Háskólans hafa greinilega notið ákveðinnar virðingar í menningarlífi höfuðborgarinnar. Góð aðsókn að þeim sýnir ört vaxandi áhuga landsmanna á sígildri tónlist.


186 Morgunblaðið: 19. janúar 1955.


131 (Síða 132 er auð)

Hljóðritanir og sala á hljómplötum

Ein elsta og virtasta hljómplötu- og hljóðfæraverslun á Íslandi var Fálkinn hf. Þetta fyrirtæki undir stjórn eiganda þess, Haraldar Ólafssonar, hafði umboð á Íslandi fyrir nokkur stærstu hljómplötufyrirtæki heims, svo sem His Masters Voice og Columbia. Í desember 1950 opnaði Fálkinn sérstaka deild með hljómplötum og gátu menn hlustað þar á plötur, bæði í hátölurum og í sérstökum heyrnartækjum. Þarna opnaðist nýr heimur fyrir tónlistaráhugamenn en möguleikar þeirra á að nálgast plötur höfðu verið nánast engir. Frá fyrsta degi voru hillur verslunarinnar fullar af hljómplötum. Þar mátti finna plötur með sígildri tónlist og annarri tónlist sem lengi hafði verið ófáanleg og þar að auki plötur með nýrri tónlist. Ásamt Ríkisútvarpinu gekkst Fálkinn fyrir því að gefa út hljómplötur með íslenskri tónlist, bæði einsöngvara og svo með hljómlistarmönnum. Einnig gaf Fálkinn út hljómplötur er teknar höfðu verið upp erlendis af His Masters Voice og Columbia.

Fyrstu hljómplötupptökur hér á landi voru gerðar árið 1930 og var það Fálkinn sem stóð fyrir upptökunni. Til landsins komu tveir verkfræðingar frá Columbia til að sinna verkinu sem var í tilefni Alþingishátíðarinnar sama ár. Þeir tóku með sér öll nauðsynlegustu tæki af nýjustu gerð, og fóru upptökurnar fram í íþrótta- og samkomuhúsinu Bárunni. Hljóðritaður var upplestur, söngur og hljóðfæraleikur á um 50 plötur og léku þar nokkrir þekktustu tónlistarmanna okkar frá þeim tíma. Þarna er um merkan viðburð að ræða og sá Fálkinn síðan um útgáfu á þessum upptökum. Meðal þess er hljóðritað var, voru nokkrir okkar helstu söngvarar og kórar, þar á meðal Karlakór K.F.U.M. og Landskórinn.

Ein af merkari hljómplötuútgáfum um miðja öldina er eflaust orgelleikur Páls Ísólfssonar þar sem hann leikur verk eftir Bach. Í tilefni sextugsafmælis hans árið 1953 fóru nokkrir vinir hans fram á við hann að hann færi til London og léki nokkur verka Bachs, inn á hljómplötur að eigin vali. Voru plöturnar, 6 að tölu, gefnar út í sérstöku bindi, í allt 400 eintök, númeruð og árituð af Páli sjálfum. Stutt greinargerð fylgdi hverri plötu og undirrituðu hana margir þjóðkunnir menn og þ.á,m. forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson. Þetta voru 78 snúninga plötur, en þær voru síðan endurútgefnar á LP plötu árið 1957. Þetta mikilvæga starf á vegum Fálkans hélt áfram og geymir það sögu "lifandi" tónlistarflutnings í landinu. – verður Haraldi Ólafssyni forstjóra seint þakkað framlag sitt til tónlistarmála á Íslandi.


150 Alþýðublaðið: 26. febrúar 1953.
151 Sama.


133 (Síða 134 er auð)

Íslensk Tónlistaræska

Upp úr 1950 fór brautryðjendastarfið í Tónlistarskólanum í Reykjavík að skila sér á fleiri vegu en að mennta hljóðfæraleikara. Haustið 1953 stofnuðu nokkrir áhugasamir nemendur við Tónlistarskólann með sér félag er þeir nefndu Íslensk tónlistaræska. (187) Markmið félagsins var "að reyna að gefa sem allra flestum tækifæri til að kynnast fyrir lítið verð (árgjald er kr. 65.00 á ári) ýmsu af því merkasta og fegursta, sem til er í nýrri og eldri tónlist". Félagið var einkum ætlað æskufólki á aldrinum 12-30 ára og ætlun þess að glæða áhuga æskufólks á fagurri tónlist. Í fyrstu stjórn félagsins sátu Leifur Þórarinsson, Kristinn Gestsson og Sigurður Örn Steingrímsson. Fyrstu tónleikar félagsins voru haldnir haustið 1953 og léku á þeim tónleikum Ingvar Jónasson fiðluleikari og Jón Nordal tónskáld. Félagið var geysivirkt og mikill áhugi meðal félagsmanna að fá tækifæri til að heyra tónlist, nýja sem gamla og einnig var flutt íslensk tónlist eftir föngum. Í ársbyrjun 1954 fór félagið fram á það við Ríkisútvarpið að fá tvo æskulýðshljómleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni sem var nýjung í starfi hljómsveitarinnar. Einnig var leikin kammertónlist á vegum félagsins og lék m.a. Björn Guðjónsson Sónötu fyrir trompet og píanó op. 23 eftir Karl O. Runólfsson við undirleik Victors Urbancic. Egill Jónsson lék sónatínu fyrir klarinett og píanó eftir Honegger og svo lék strengjakvartett undir stjórn Björns Ólafssonar kvartett eftir Schostakovic. Öll verkin á tónleikunum voru kynnt. Ári eftir stofnun félagsins voru félagsmenn orðnir um 200 talsins. Upp var að rísa ung og ný kynslóð tónlistarmanna sem átti eftir að marka spor sín í tónlistarlífinu á komandi árum, bæði sem skapandi og túlkandi listamenn.
Íslandi.


187 Þessi klúbbur var á engan hátt tengdur Federation Internationale des Jeunesses musicales í Belgíu.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998