Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Magnús Blöndal Jóhannsson

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 185-188

Magnús Blöndal Jóhannsson (1925-)

Þegar leitað er róta elektrónískar tónlistar á Íslandi þá kemur í ljós að upphaf hennar má finna í starfi eins manns – Magnúsar Blöndal Jóhannssonar. Magnús hefur löngum verið móttækilegur fyrir öllum nýjungum og fljótur að tileinka sér þær á hinum ýmsu sviðum. Eðlislæg forvitini á öllu því sem nýtt er.

Að loknu námi sínu í Bandaríkjunum fluttist Magnús aftur til Íslands árið 1954. Hann varð tónlistargagnrýnandi á dagblaðinu Vísi frá 1954-57; píanóleikari og aðstoðarkórstjóri við Þjóðleikhúsið 1956-61, og starfsmaður tónlistardeildar Ríkisútvarpsins frá árinu 1955-72, að auki starfaði hann sem tónskáld.

Að sögn gamalla starfsmanna Ríkisútvarpsins fór Magnús að hefja komu sína í þá stofnun og fór smátt og smátt að taka að sér einstök verkefni á tónlistardeildinni, þar til hann síðar varð fastráðinn. Eitt af helstu verkefnum hans var að útbúa bönd og finna til plötur fyrir tónlistardagskrá Ríksútvarpsins. Dagskráin var síðan lögð fyrir útvarpsráð til samþykktar. Það má með undrum sæta hversu strangri ritskoðun dagskráin var undirlögð af Útvarpsráði um árabil og er eitt gott dæmi um það að ýmsir einstaklingar í Útvarpsráði, sem margir höfðu enga þekkingu á tónlist tóku ákvörðun um það hvaða tónlist var flutt í Ríkisútvarpinu. Það kostaði t.d. Magnús margar tilraunir til að fá að setja á dagskrá tónlist eftir tónskáld svo sem eins og Bartók og þjóðlagaútsetningar hans.

Magnús samdi aðallega sönglög framan af og einnig einstaka hljóðfæraverk, en um 1950 fer hann að gera tilraunir með 20 aldar tónsmíðatækni. Magnús hafði eitt sinn setið kaffiboð þar sem Edgar Varése (249) var staddur og gaf aðeins nærvera þessa tónskálds m.a. nýjar hugmyndir. Sem dæmi um nýja hluti í tónlist hans má nefna að Magnús mun hafa verið fyrstur Íslendinga til að semja dodekafónt (250) verk en það er 4 Abstaktsjónir frá árinu 1950. Þá var Magnús ennþá nemandi í New York í tónsmíðum og var aðaláherslan lögð á hefðbunda tónlist. Í einum fyrirlestranna varð Magnús fyrir áhrifum sem áttu eftir að setja spor á tónsmíðar hans á komandi árum.


249Kynni Magnúsar af Varése hafa stundur verið undirstrikuð sem áhrifavaldur í lífi hans. Í persónulegu viðtali sagði Magnús um þessi kynni: „Ég hafði engin kynni af honum [Varése] í sambandi við tónlist. Hann var heimilisvinur Agnesar Helgu Sigurðardóttur sem bjó í New York. Ég var heimagangur hjá henni. Við ræddum ekkert músík... ég var þá skólastrákur, grútfeiminn og hlédrægur“. Einkaviðtal 22. apríl 1994.

250 Á ég hér við serialismann eins og hann birtist í sinni einföldustu mynd í anda Schönbergs.

186

    Það var dálítið merkilegur hlutur sem kom mér af stað í sambandi við þessa nýju tónlist. Það var setning sem einn af kennurum við Juilliard sagði í einum af sínum fyrirlestrum: „Nú á maður að læra allt sem maður á að læra og svo gleyma því“. Þetta einhvern veginn sat í mér svoleiðs að ég vísvitandi gerði allt annað en það sem ég var að læra. (251)

Til að „gleyma því“ sem hann var að læra fór hann á bókasafn skólans og fékk þar lánaðar bækur um tónsmíðaaðferðir 20. aldarinnar og þar á meðal um serialisma. "Ég fann bækur í safninu í Columbia. Það voru heilmiklir bálkar um Schönberg og Webern og alla þá".(252) Þau kynni áttu eftir að hafa mikil áhrif á flest þeirra verka sem hann samdi eftir 1955. Þar skal fyrst nefna sönglagið Hendur frá árinu 1956 en þar notar hann 12-tóna tækni. Næsta verk þar á eftir er orgelverkið Ionization (Hugbrot) (253) frá árinu 1957, en þar beitir höfundur einnig þeirri tónsmíðaaðferð. Þetta orgelverk var frumflutt á Norrænum Músíkdögum í Stokkhólmi árið 1960.

Dæmi 10
Sönglagið Hendur frá árinu 1956 er eitt fyrsta sönglagið sem samið er á Íslandi þar sem raðtækni er beitt.

Eins og fram kemur á greiningunni á þessum tveimur verkum, notar hann eingöngu einfaldasta form raðtækninnar.


251Einkaviðtal við Magnús Blöndal Jóhannsson,17. febrúar 1993.
252 Sama, 2. ágúst 1995.
253Á handriti verksins sem er að finna í Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns stendur skrifað á forsðíðuna „Tileinkað dr. Páli Ísólfssyni“. Ekki er ólíklegt að titillin sé sóttur í verk eftir Varése með sama heiti.


187

Dæmi 11

Ég hef valið hinn bleika lit í þessu dæmi (dæmi 11) til að sýna "retrograd" öðru sinni.

Dæmi 12
Inoization var frumflutt í Jokobs kirkjunni í Stokhólmi 9. september árið 1960 en orgelleikari var Gotthard Arnér. Brot úr því notaði höfundur síðar sem millikafla í elektróníska verkinu Constellation árið 1961.


188

Dæmi 13

(Takið eftir að þær einstöku nótur í hornklofanum í miðlínu þriðja takts og efstu línu fjórða takts eru á sama tíma endanótur raðar og upphafsnótur næstu raðar).

Þessi þrjú verk, Fjórar Abstaktsjónir, Hendur og Ionization eru fyrstu tilraunir Magnúsar með 20. aldar tónsmíðaaðferðir. Öll þrjú verkin mjög einföld að gerð, mest fjórradda, með útlegging á röddunum eins og lýst er hér að ofan. Tónskáldið notar aðeins 12 tóna röðina í sínu grunnformi og í hinum þremur beint afleiddu formum þess en aftur á móti transpósísjónir og flóknari form af raðtranspósíjónum koma ekki fyrir. Ennig sjáum við tíða notkun lítilla tvíunda í þessu verki (dæmi 13). "Þetta koma af sjálfu sér. Þetta byrjaði með hugmyndum sem ég fékk "on the blue". Mér leiddist hitt og vildi gera eitthvað annað.(254) Fjórar Abstaktsjónir er eina verkið í þessum stíl sem Magnús samdi í Bandaríkjunum. Það var ekki fyrr en eftir að hann kom til Íslands að hann fór nánast eingöngu að semja tónlist í nýjum stíl. En hann lét hér ekki staðar numið í tilraunum sínum með nýja hluti. Þetta var rétt að hefjast. Næsta skrefið var að beita hinum frumstæðu elektrónísku tækjum sem til voru hjá Ríkisútvarpinu við samningu nýrra verka. Veturinn 1959-60 varð fyrsta elektróníska tónverkið til sem samið var á Íslandi.


254 Einkaviðtal við Magnús Blöndal Jóhannsson, 2. ágúst 1995
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998