Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Bells of Earth
Elektróníski hluti verksins

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 291 - 296

Bells of Earth (Hljómsveit og tölvuhljóð á segulbandi - 1994 - 13:10)

Vorið 1994 bauðst Þorsteini að vinna að tónsmíðum við Kunitachi College of Music í Tókíó í Japan. Samtímis bauðst honum tækifæri til að halda fyrirlestur um tónlist sína og við tækifæri það voru flutt mörg verka hans – "portret" tónleikar. Á þeim tónleikum var m.a. frumflutt nýtt verk eftir hann sem hann samdi sérstaklega fyrir þetta tækifæri, verkið Bells of Earth – klukkur jarðar.

Titillinn er sóttur í stóran skúlptúr sem staðsettur er fyrir utan háskólann í Tókíó sem í rauninni er stórt klukkuspil er saman stendur af 47 klukkum. Á þessar klukkur má svo leika frá tveimur hljómborðum sem samtals eru 4 áttundir. Ásamt þessu klukkuspili er verk Þorsteins fyrir tölvuunnin hljóð frá klukkunum og slagverksleikara. Klukkuhljóðin voru unnin með forritum eins og Csound og Max ásamt forritum sem höfundur hefur sjálfur útbúið. Auk klukkuhljóðanna er að finna raddir leikara úr japönsku Noh–leikhúsi og hljóð frá metnaðarfullum samræðum japanskra nemenda. Á svipuðum tíma barst Þorsteini boð um að semja verk til flutnings á ICMC–ráðstefnunni (382) sem haldin var í Árósum í Danmörku í ágúst 1994. Af því tilefni samdi hann verk fyrir hljómsveit og tölvuunnin hljóð, þau sömu og hann notaði í verkinu í Japan. Þetta verk hlaut sama heiti og hið fyrra, en það eina sem tengir þessi verk eru tölvuunnu hljóðin – klukkur jarðar.

Það sem er stórkostlegt við þetta hljómsveitarverk er náið samspil tveggja heima, þ.e. tölvuunninna hljóða og hefðbundins hljóðheims hljóðfæranna. Að mínu mati er verkið Bells of Earth hápunkturinn á glæsilegum tónsmíðaferli Þorsteins Haukssonar, hans fræðilega og tæknilega þekkingar speglast að fullu í verkinu.

Það sem við sjáum strax í upphafi verksins er hinni þétti tónvefur sem tónskáldið vinnur með í stöðugum og órólegum titringi.

Niðurstaðan verður eins konar "hljóðland" sem vefur gætilega hárfínan og þéttan tón/hljóðvef sem brotinn er upp af ásláttarhljóðfærunum. Hinn þétti tónvefur hljóðfæranna er áberandi, míkrótónbil blásturshljóðfæranna sem leika hraða skala er strekkja sig frá því að hafa tónsvið frá stórri sjöund niður til þríundar. Undir þessum skalamynstrum liggur svo þéttur þriggja tóna strengjaklustertremolo og fjögurra tóna kluster í hornunum.


382 International Computer Music Conference.

292

Dæmi 86
Dæmi 86

Þessi hljómmynd er mjög einkennandi fyrir verkið, þéttir hljómar og hröð, þéttliggjandi skalamynstur sem stöðugt breyta sér og hlaupa milli hljóðfæra (dæmi 86). Úrvinnslan er í takt við áður þekktar vinnsluaðferðir tónskáldsins, vinna með míkrótónatækni og að deila "laglínu" niður á mismunandi hljóðfæri til að skapa litríkan vef í hljómsveitinni. Einnig er að finna hægfara, einbeitta raddfærslu á milli hljóðfæranna. Þrátt fyrir það tekur hljómvefur verksins ekki miklum breytingum sem er í takt við það sem höfundur hefur stundum bent á, að þó svo hann beiti mismunandi aðferðum við samningu verka, þá breytist tónmál þeirra ekki endilega við það.

Uppbygging og úrvinnsla vefsins heldur áfram og nær hámarki í þéttum orkumiklum hápunkti sem er allt að því sinfónískur í tónmáli. Undir þessum hápunkti er kveikt á

293

tölvuhljóðunum (taktur 22) sem sameinast um leið hljómnum í hljómsveitinni – svo vel að hlustandinn verður í upphafi ekki var við innkomu þeirra. (383)

Nú hefst virkilegt samspil tveggja hljóðheima sem fleygast hvor inn í annan, mismunandi styrkur, mismunandi orka, mismunandi litir. En þó ein samstæð heild sem einungis er brotin upp og fær sterka andstöðu frá ásláttarhljóðfærunum.

Dæmi 87
Dæmi 87

Í miðju verkinu er eins og hljóðfærin "leysist upp" í tölvuhljóðunum þar sem Harpan, Crotales, og Klukkuspil líða smám saman út úr hljóðmyndinni sem endar í lítilli tvíund í fiðlunum, sem svo leysist upp í einn tón – deyr út. Við taka tölvuhljóðin sem flytja áfram þá hljóðmynd hljóðfæranna sem fyrir var á svo sannfærandi hátt að hlustandinn tekur vart eftir því að hljóðfærin eru hætt að spila (dæmi 87).

Eftir að tölvuhljóðin hafa fléttast áfram svolitla stund læðast strengjahljóðfærin inn í hljóð-myndina að nýju og hefja nýtt samspil við tölvuhljóðin. En síðan hverfa þau aftur – leysast upp eins og í dæminu hér að ofan.


383 Þessi aðferð höfundar við sameiningu hinna hljóðheima hefur blekkt suma íslenska tónlistargagnrýnendur. Þeir hafa ekki haft þekkingu á því hvað höfundur í rauninni vinnur með og hve miklum árangri hann hefur náð á þessu sviði. Hafa þeir kvartað undan því að hljóðheimarnir séu of líkir og myndi þar af leiðandi enga andstæðu – en það er einmitt það sem tónskáldið vinnur gegn.

294

Dæmi 88
Dæmi 88

Að lokum innleiðir marimban nýjan kafla (taktur 130) og er fylgt eftir af ásláttarhljóðfærum, strengjum og kraftmiklum brasshljóðfærum og píanói (dæmi 88). Kraftmikil spenna af samspili hljómsveitar og tölvuunna hljóða, en byggist rólega upp, hverfur svo smátt og smátt og leysist upp í tóninum D í strengjum sem hverfur inn í tölvuunnin klukkuhljóðin sem verkinu lýkur á.

Dæmi 89
Dæmi 89


295

Þetta verk er að mínu mati gott dæmi um hvernig Þorsteinn sameinar hljóðheimana tvo, hinn hefðbundna/hljóðfæri og hinn "syntetíska"/konkréta, en það hefur verið markmið höfundar á öllu elektróníska/tölvu tónsmíðaferli hans.

Elektróníski hluti verksins

Hinn elektróníski hljóðhluti verksins byggir aðallega á hljóðunum frá stóra klukkuspilinu – Bells of Earth. Einnig getur að heyra hljóð frá Noh-leikhúsi, frá nokkrum nemendum (stúlkum) í spennandi umræðum og hljóði frá Carillon. Hljóðin frá leikhúsinu og frá nemendunum er svo mikið unnin að ekki er unnt að þekkja þau ekki sem slík.

Tölvuhljóðin eru kjarni verksins. Í þessari útgáfu verksins, þ.e. tölvuunnin hljóð ásamt hljómsveit, er hlutur tölvuhljóðanna sem hugmyndagrunnur í samspili við efnivið hljómsveitarinnar. Í tölvuhljóðunum eru tvö aðalstef (dæmi 90-94), heiltónaskali sem að hluta til er tríóluseraður og lýkur á ferundarstökki upp á við:

Dæmi 90
Dæmi 90

Og díatónískan skala sem lýkur á lítilli tvíund niður á við:

Dæmi 91
Dæmi 91

Auk þessara stefja eru í verkinu einstök gegnumgangandi mótíf, 1-3 tónar eins og þessir:

Dæmi 92

Dæmi 92

Dæmi 92

Dæmi 92a

Dæmi 93

Dæmi 93

Tónninn Es er gegnumgangandi grunntónn í tölvuhljóðunum en tónarnir/mótífin hér að ofan "smita" stundum hljómsveitarhlutann. Ekki er um að ræða bein áhrif heldur eins konar frum eða kjarni sem hvíslar hugmyndum að hljómsveitarhlutanum sem síðan vinnur áfram með þau. Skalarnir birtast í mörgum formum, bæði í transpóneruðum tónhæðaformum og hraðaformum.

Þorsteinn Hauksson hefur löngum notað lengingar/styttingar tækni (t.d. í vinnu sinni með yfirtónana í Etýðunum) á tölvuhljóðin í verkum sínum. Það sem gerir þessa tækni sérstaka í þessu verki er að tónalengingarnar eru gerðar með glissandotækni. Með þeirri tækni breytist

296

tónhæðin ekki og tónhæðaglissando koma án þess að auka tónalengdina. Um er að ræða eins konar "stretch fidusa" þar sem keyra má hljóð áfram og aftur á bak með hraðakúrfu – eins konar glissando – í tíma, án þess að tónhæðin breytist.

Til marks um hvernig tónskáldið vinnur við tölvuna með tónsmíðaefnið vil ég benda á dæmi sem ég fékk frá honum og fylgja þessari ritgerð sem viðauki. (384) Hér er aðeins um að ræða eitt dæmi, eina skrá af nokkrum hundruðum í verkinu Bells of Earth.

Eins og sjá má á viðaukanum er um ræða flókið vinnsluferli, en á sama tíma er árangurinn gott dæmi um hvernig tónskáld sem hefur virkilegt vald á tækninni getur náð góðum árangri í verkum sínum – notað tæknina sem vinnutæki.

Nú um stundir vinnur höfundur að því að taka enn einu sinni enn nýja vídd inn í listsköpun sína, þ.e. hinn grafíska/margmiðlunar heim. Í undirbúningi er nýtt stórverkefni þar sem Bells of Earth gegnir aðalhlutverki. Er það unnið í samvinnu við menningarnefnd í Toronto í Kanada. Ætlunin er að "yfirtaka" hið nýja ráðhús í Toronto, sem saman stendur af þremur skýjakljúfum, ásamt ThompsonÕs Symphony Hall og torginu þar á milli. Verður verkið aukið með margmiðlun, leysigeislum, heilmyndum (holography, (385)) ljósum og öðrum nýjustu tæknimöguleikum. Einnig stendur til að útbúa "short range broadcast" á þann hátt að verkinu verði útvarpað innan lítils radíus umhverfis torgið þannig að heyra megi verkið í bílútvörpum og á sama tíma upplifa hinn sjónræna þátt þess. Þetta er metnaðarfullt verkefni unnið í samvinnu við kanadíska listamenn á hátíð sem heitir Northern Encounters. Í þessari hátíð taka þátt lönd sem snerta heimskautsbauginn og þar með verða fleiri Norðurlönd með á hátíðinni. Upphaflega var áætlunin sú að verkið væri á hátíðinni sem hófst 3. júní 1997, en vegna umfangs var ákveðið að fresta flutningi til sumarsins 1999. Stefnt er að því að þetta verkefni verði aðalverkefni hátíðarinnar.


384 Þetta dæmi sendi tónskáldið mér.
385 Aðferð við gerð þrívíddarmynda með leysigeisla.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998