Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Lárus H. Grímsson
Nám í Hollandi
Fyrstu elektrónísku verkin
Þráfylgni - Þá riðu hetjur um héruð
Sambúðar Sundurþykkja
Vetrarrómantík
Önnur verk fyrir eletrónískt hljóð og hljóðfæri
Verk samin á tölvu
Amalgam
Farvegir

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 297 - 303
Lárus H. Grímsson

Lárus H. Grímsson (1954-)

Tónlistarlegan bakgrunn Lárusar H. Grímssonar er að finna, auk náms í Tónlistarskólanum í Reykjavík, í popptónlist 8. áratugarins. Það á ekki einungis við um hann heldur flest elektrónísku tónskáldin af yngstu kynslóðinni frá Þorsteini Haukssyni talið. (386) Lárus er fyrst og fremst flautuleikari, lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1975, en hefur aldrei lært eiginlegar tónsmíðar á Íslandi. Meðal framsækinna popphljómsveita sem hann lék í var hljómsveitin Eik á árunum 1974-79 en sú hljómsveit var ein þeirra fyrstu sem flutti nánast eingöngu frumsamda tónlist.

Á fyrstu árum 8. ártugarins var helst notast við Hammondorgel sem hljómborðshljóðfæri í popphljómsveitum, en um leið og hinir svokölluðu "Mini Moog" hljóðgerflar komu á markaðinn voru þeir teknir inn í poppheiminn. Í fyrstu komu til Íslands þrjú slík tæki og eignaðist Lárus strax eitt þeirra. Íslenskir popparar voru fljótir að tileinka sér allar nýjungar í tækjaheiminum og fljótlega var að finna á Íslandi allt það nýjasta sem notast var við úti í hinum stóra heimi, t.d. gítar synthesizer, Mini Moog og Arp Odyssey. Síðar komu fullkomnari hljóðgerflar eins og Profet 5 og pólýfónískur Yamaha hljóðgerfill.

Fyrstu tilraunir Lárusar með hljóðgerfil og segulband gerði hann heima á Íslandi. Engin slík kennsla var í Tónlistarskólanum né í öðrum stofnunum og var því, eins og oft áður, einstaklingsbundin framtakssemi sem kom mönnum af stað. Fyrir utan popptónlistina, var nánast ekki um neina elektróníska músík að ræða í tónsmíðaheiminum á Íslandi um og upp úr miðjum 8. áratugnum. (387)

Nám í Hollandi

Í lok 8. áratugarins var ekki um marga staði að ræða til náms í elektrónískum tónsmíðum – eða öllu heldur, upplýsingar um slíka staði lágu ekki fyrir á Íslandi þar sem engin stofnun sýndi slíku námi neinn áhuga. Möguleikar voru þó á að fara til IRCAM, þar sem Þorsteinn Hauksson var kominn til starfa, en íslenska námslánakerfið gerði það ekki mögulegt. Því varð fyrir valinu góður skóli sem mörg íslensk elektrónísk tónskáld hafa stundað nám í, Instituut voor Sonologie í Utrecht í Hollandi. Þangað fór Lárus til náms árið 1979 og var undir handleiðslu Jaap Vink.


386 Á það við um Þorstein Hauksson, Lárus H. Grímsson, Kjartan Ólafsson og Ríkharð H. Friðriksson.
387 Á ég þar við að enginn samdi eiginlega elektróníska músík á Íslandi í takt við það sem Magnús Blöndal Jóhannsson gerði á áratugnum á undan.

298

Mikil áhersla var lögð á sjálfstæði og frumkvæði í náminu og því kom sér vel fyrir Lárus að fyrsta veturinn voru ekki ýkja margir nemendur í elektrónískri tónlist, hann hafði möguleika á allt að heilum degi fyrir sig í stúdíóinu í hverri viku. Ári síðar var aðsóknin orðin það mikil að jafnvel 2-3 nemendur urðu að skipta með sér hálfum degi í stúdíóinu.

Í fyrstunni beindist áhugi Lárusar eingöngu að svokallaðri analóg vinnu, þ.e. að vinna eingöngu með segulbönd. Þó voru kúrsar í sónólógíu og kenndu kennarar skólans meðferð eigin tölvuprógramma, sem að sögn Lárusar voru mörg hver mjög frumstæð. Í skólanum voru stórar tölvur, PDP 11, með "tape-interface" en vinnsluminni þeirra var aðeins 32 Kb. Vegna ásóknar í þessar tölvur og kennslu á þær kom lítill tími í hlut hvers nemanda. Einnig fór mikill tími í einstakar aðgerðir og gat úrvinnsla einnar skipunar tekið allt að 15 mínútur. Þetta hægfara vinnsluferli gerði Lárus fráhverfan því að nota þessa tækni.

Fyrstu elektrónísku verkin

&Ý;msar tilraunir höfundar í stúdióinu leiddu til stuttra en heildstæðra verka. Má þar t.d. nefna lítið verk sem heitir The Nap (Blundurinn) og byggt er á svokölluðu "tape delay". Lárus samdi fleiri slík verk þar sem aðferðir og möguleikar eru rannsakaðir en fyrstu verkin sem eitthvað kveður að verða til á árunum 1980 og 1981.

Þráfylgni (Elektrónísk tónlist á segulbandi - 1980 - 6:30)
Þá riðu hetjur um héruð (Elektrónísk tónlist á segulbandi - 1981 - 15:45)

Þessi tvö verk eru fyrstu verk höfundar sem vöktu athygli og voru flutt á tónleikum bæði í Hollandi og víðar. Verkin eru dæmigerð analóg verk. Hljóðin koma frá hljóðgeneratorum og er öll stjórnvinna og úrvinnsla á hljóðum eins konar víra- og takkavinna, ekkert hljómborð. Að baki hverju verki er afskaplega tímafrekt vinnsluferli með hvert hljóð. Að búa til eitt hljóð, af jafnvel fimm hljóðum sem svo kannski hljóma í 5 sekúndur, gat tekið marga klukkutíma.

Þráfylgni er verk með áberandi mikið glissando – stígandi og fallandi – og kraftmikil hljóð sem annars vegar "leita upp á við", eins og þau vilji stíga upp fyrir heyrnarmörkin, og hins vegar hljóð sem "leita niður á við", þ.e. grafa sig niður á dýpstu tíðni hins heyranlega sviðs. Andstætt þessum hljóðum er svo eitthvað sem gæti kallast "símaeffekt", eins konar hraðir, stjórnlausir skalar byggðir á tónum sem halda sig innan lítils tíðnisviðs – minnir á hljóðið sem heyrist þegar stafrænt símtæki er sjálft látið velja símanúmer.

Svipað gildir um Þá riðu hetjur um héruð. Í stað breiðrar hljóðslæðu sem stígur eða fellur, er hljóðslæðan látin halda sér í upphafinu, og höfundur vinnur meira með það sem kalla má "símaeffekt". Eftir því sem verkið þróast verða hljóðslæðurnar virkari, stíga bæði og falla en ekki aðeins í tíðni heldur einnig í styrk.

299

Í síðari hluta verksins kemur þó kafli sem í upphafi gæti verið eins konar elektrónískur sveitadans. Áheyrandinn fær tilfinningu fyrir þjóðdansalegri laglínu sem síðan leysist upp í eins konar hljóðkaos. Einnig kemur fyrir nýtt element sem byggir á stígandi "impúlsum", (388) þ.e. byrja hægt og stíga smám saman, ná hápunkti en falla svo niður í glissando og deyja út. Þessi tvö verk eru fyrstu eiginlegu elektrónísku tónverkin sem Lárus H. Grímsson samdi og kallast gætu hans fyrstu ópusar innan slíkrar tónlistar.

Sambúðar sundurþykkja (1981)

Dæmi 94
Dæmi 94

Þetta verk er fyrsta verk höfundar þar sem hann blandar saman hefðbundnum hljóðfærum og elektróník (dæmi 94). Verkið er samið fyrir horn, sembal og segulband og halut m.a. þá


388 Annað hvort eiginlegir impúlsar sem fá tónhæðir og eftirhljóm í gegnum þéttan filter eða stuttir minnkandi sínustónar.

300

viðurkenningu að vera valið af alþjóðlegri dómnefnd til flutnings á Gaudeamus Muscik Week hátíðinni í Amsterdam árið 1982. Sambúðar sundurþykkja er eitt af fimmtán verkum sem valin voru úr þrjú hundruð innsendum verkum.

Dæmi 95
Dæmi 95

Verkið hefst á því sem kallað var "símaeffekt" í verkinu hér á undan, eða eins konar "dropaeffekt". En nú hafa hljóðin og úrvinnsla þeirra fengið nýja vídd sem samanstendur af samspilinu við hljóðfærin, sem byggir á brotnum hljómum og rytmísku, "perkussívu" innslagi hljóma í sembalnum ásamt lýrískum einleiksköflum í horninu. Er þetta aðferð sem gjarnan heyrist í hans síðari hljóðfæraverkum (dæmi 95).

301

Vetrarrómantík (1982)

Þetta verk er síðasta verk Lárusar sem er unnið í analógstúdíóinu í Instituut voor Sonologie i Utrecht. Verkið er eins konar "prógramverk" sem skapa á stemningar sem koma fram í huga tónskáldsins vegna duttlunga náttúrunnar og þeirra áhrifa sem hún hefur á hugsun og tilfinningu unglings sem ólst upp í Vatnsdalnum – "Hrollvekja fyrir sveitastrák". (389)

Hin tónlistarlega tjáning verksins er mest áberandi sem sterk dýnamík, glissando, svífandi hljóðslæður, "síma-" eða "dropaeffekt", mikil notkun rýmis og notkun minimalistískra hugmynda og ostinato. &Ý;msar þessara tónlistar- og úrvinnslu hugmynda nýtir höfundur sér í hljóðfæraheiminn síðar meir.

Önnur verk fyrir eletrónískt hljóð og hljóðfæri

Á næstu árum samdi höfundur nokkur verk fyrir hljóðfæri og segulband sem flutt hafa verið við ýmis tækifæri. Má þar nefna Back to the beginning again (1984), Eitt sinn poppari ávallt poppari fyrir rafmagnsgítar, píanó, sembal, klassískan gítar og segulband (1984), I Sing the body electric (1985) fyrir kór og segulband (var samið fyrir Háskólakórinn), og einnig er til verk frá fyrsta helmingi áratugarins sem heitir Im Muktinat sem ekki hefur enn verið hljóðritað.

Þessi verk eru þau helstu þar sem höfundur notar analóg tækni við vinnslu hinna elektrónísku hljóða. Í upphafi náms síns í Hollandi árið 1979 hafði hann lítillega fengist við tölvuhljóð, en vegna ásóknar í tölvuna var hverjum nemanda naumt skammtaður tími, u.þ.b. 2 tímar á viku og því lagði hann alla slíkar vangaveltur á hilluna. Með tilkomu einmenningstölvunnar sneri Lárus sér aftur að tölvunni og hefur eingöngu samið verk sína á hana síðan.

Verk samin á tölvu

Amalgam (tölvutónlist - ballett - 1986 - 13:48)

Verkið Amalgam (1986) er samið við ballett Hlífar Svavarsdóttur sem var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu í nóvember 1986. Þetta verk er fyrsta verkið sem Lárus semur á einmenningstölvu – og við þær aðstæður sem íslensk tölvutónskáld hafa búið við, þ.e. heima í stofu á eigin tæki. Þá átti Lárus DX7 hljóðgerfil og Apple IIE tölvu með ófullkomnu sekvenserforriti. Einnig átti hann "editor" fyrir hljóðgerfilinn sem auðveldaði vinnuna.

Í verkinu Amalgam er línan lögð í þeim stíl sem einkennir mestalla tónlist hans hér eftir, þ.e. tónlist sem byggir á stuttum rytmískum hendingum, endurteknum rytmiskum mynstrum í


389 Tónskáldsins eigin orð í bæklingi með geisladiski sem verkið er á.

302

ostinatformi, eða hendingar sem endurtaka sig í rísandi og fallandi sekvensum. Aðferðirnar má í rauninni finna í fyrstu elektrónísku verkunum þar sem hann vann mikið með kyrrstæðar hljóðslæður sem andstöðu við stígandi og fallandi glissando. Slík úrvinnsla tónala hendinga er mjög algeng í öllum hljóðfæraverkum Lárusar.

Farvegir (Píanóverk - 1991 - 13:48)

Þó svo talað sé um í tilfelli Lárusar að tónlistin sé "samin á tölvu", þá skal ekki blanda því við hugtakið "samið af tölvu" eins og mörg önnur tónskáld gera. Lárus notar tölvuna fyrst og fremst til að skipuleggja sína tónlist, sem hjálpartæki við að raða sama hugmyndum í heildstætt verk. Gott dæmi um það er verkið Farvegir frá árinu 1991 (dæmi 96).

Dæmi 96
Dæmi 96

Í þessu verki gætir greinilegra áhrifa frá fortíð tónskáldsins í popp- og jassheiminum. Má þar nefna áhrif frá hljómsveitum eins og Weather Report og jafnvel Frank Zappa. Tónlistin er oftar en ekki hröð, virtuósísk fyrir hljóðfæraleikarana, einkum þó slagverksleikarana, stígandi og fallandi hendingar sem byggðar eru á skölum og skalabrotum, eins konar stígandi og fallandi hendingasekvensar sem gjarnan eru brotnir upp með jassskotnum hljómum. Tónlistin er oft á tíðum full af lífskrafti, hlustandinn hrífst auðveldlega með í sveiflunni.

Gott dæmi um hinn flókna og skiptandi rytma og virtuósítet eru þessir taktar hér að ofan úr verkinu Farvegir sem m.a. gefa tónlist Lárusar það sérstaka rytmíska yfirbragð sem hún hefur og gætir í síðari verkum eins og orgelverkinu Gegnum efann (1992), Tales from a Forlorn Forstress (1993), Boom Boom í Berkeley (1994) og fleiri verkum.

303 (Síða 304 er auð)

Dæmi 97
Dæmi 97

Það sem einkum er þó áhugavert við sum verka Lárusar sem hafa segulbandshluta, er að höfundur vinnur tónlist sem fellur undir rytmíska heiminn saman við hljóð unnin á segulband. Með þessu hefur Lárus skapað nýjan og sjálfstaðan stíl sem er nýmæli í elektrónískri tónlist á Íslandi.

Öll síðari verk Lárusar hafa sama yfirbragð og er hann eina tónskáldið á Íslandi sem blandar áhrifum úr popp- og jassheiminum inn í "klassískt" umhverfi. Þar að auki hefur Lárus samið tónlist fyrir íslenskt leikhús og kvikmyndir.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998