Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Hilmar Þórðarson
Computer Play
Oh! yellow Wonderworld
Water Music
Interaktíf musik
Goblins from the land of ice

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 325 - 330

Hilmar ÞórðarsonHilmar Þórðarson (1960-)

Hilmar Þórðarson lærði á trompet í Tónlistarskóla Kópavogs. Í framhaldi af því innritaðist hann í blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1981 og ári síðar í Tónfræðadeild við sama skóla og lauk þaðan prófi árið 1985. Fyrstu kynni Hilmars af elektrónískri tónlist var í tónsmíðanáminu í Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir handleiðslu Snorra Sigfúsar Birgissonar sem þá kenndi nemendum tónfræðadeildar inngang að elektrónískum fræðum í stúdíóinu í Tónmenntaskólanum.

Árið 1986 hélt Hilmar til náms í Bandaríkjunum í California Institute of the Arts (CalArts), sem er einkaskóli og í nánum tengslum við Disney fyrirtækið. Meðal kennara hans og ráðgjafa í tónsmíðum var hið þekkta tónskáld og kennari Morton Subotnik sem stofnaði og stjórnaði m.a. San Fransisco Tape Music Center um 1960. (411) Við komuna til CalArts, þá opnaðist fyrir Hilmari nýr heimur tækifæra í heimi hljóðsins og ekki síður í heimi tækninnar. (412)

Fyrstu kynni Hilmars af tölvunni í CalArts voru í tengslum við að nota hana sem nótnaskriftartæki, en einn helsti kosturinn við að nota tölvuna til tónsmíða var að tónskáldið gat jafnframt hlustað á verkið í tölvunni. Hann var þá að semja strengjakvartett. En stöðugleiki tækninnar á þeim tíma var hverfull og Macintosh Plus tölva og fyrsta útgáfan af Professional Composer nótnaskriftarforritinu kenndu honum m.a. að taka öryggisafrit af skránum eftir þessa fyrstu reynslu.

Að loknu fyrsta námsárinu í CalArts árið 1987 var kominn tími til að reyna sig sem tónskáld í þessum nýja heimi tækninnar og ákvað Hilmar að semja verk fyrir píanó, víólu og tölvu.

Computer Play (píanó-, fiðlu- og tölvuverk -1986 - 7:50)

Verkið var frumflutt á tónleikum á Listahátíð í júní 1988. Í fyrsta sinn á Íslandi var tölva þátttakandi í tónleikahaldi á sviði. Verkið var unnið á tölvu sem tengt var hljóðgerfli, Yamaha DX 802. Höfundur varð, eins og önnur tónskáld oft áður, að leita ásjár popphljómsveita á Íslandi til að finna slíkt tæki til að hægt væri að flytja verkið. Á þeim árum var hljómsveitin Mezzoforte upp á sitt besta og áttu þeir þau tæki sem Hilmar hafði þörf fyrir og fékk hann þau lánuð hjá hljómsveitinni.


411 Meðal þess sem hann er þekktur fyrir er að verk hans, Silver Apples of the Moon (1966) var fyrsta elektróníska tónsmíðin sem pöntuð var og gefin út af hljómplötufyrirtæki.
412 Þessi "nýi heimur" opnaðist einnig íslenskum tónskáldum sem héldu til náms erlendis á fyrstu árum aldarinnar – en þá á sviði hljóðfæra- og hljómsveitartónlistarinnar.

326

Höfundur hafði gert ráð fyrir að tölvuhlutinn yrði dálítið rubato á þann hátt að hljóðfæraleikararnir gætu haft áhrif á hraða verksins – hugsun í þá átt að gera verkið interaktíft. En tæknin leyfði það ekki á þessum tíma. Niðurstaðan varð frekar "mótorískur" tölvuhluti í jöfnum takti þar sem aðallega eru leiknir áttundu- og sextándupartar. Efnislega séð byggist tölvuhlutinn á eins konar þrástefi sem grundvallast á "nótnakeðju" er spinnur áfram og áfram, brotin upp af nánast "spastískum" innkomum píanó-/sembal hljóma. Andstætt þessu leik ur svo víólan lýrískar hendingar – allt að því dramatískar. Verkið er áhugaverð tilraun höfundar til að tengja heima hljóðfæratónlistarinnar og tölvutækninnar.

& ;msir þekktir kennara áttu á næstu árum eftir að hafa áhrif á tónsmíðaaðferðir Hilmars, hvort sem um var að ræða nútímatónlist fyrir hljóðfæri eða tölvutónlist. Meðal kennara hans í Kaliforníu voru Luciano Berio. (413) Brian Frenehow, Steven Moskow og Fredrik Lesewsky; breiður hópur tónskálda og kennara í tónlist nútímans. Meðal hljóðfæraverka sem urðu til á þessum árum er Konsert fyrir hljómsveit frá árinu 1987. (414) Hér er inngangstema fiðlunnar í því verki (dæmi 107):

Dæmi 107
Dæmi 107

Önnur verk frá þessum tíma eru: Light Waves sem er leikhússtónlist, (415) og trompetverk (416) og verk fyrir sex slagverksleikara. (417)


413 Sjá nánar í New Directions in Music, s. 358 og víðar, eða á veraldarvefnum: http://www.aloha.net/~allen3/berio.html.
414 Þetta verk var pantað af Íslensku hljómsveitinni árið 1987 en var ekki tekið til flutnings. Hilmar lauk hins vegar verkinu ári síðar og var það flutt árið 1988 og lék Laufey Sigurðardóttir einleikshlutann.
415 Halldór Laxness yngri var í námi í leikstjórn við sama skóla og samdi Hilmar þetta verk fyrir hann og samnemendur hans í tengslum við leikverk sem þeir settu upp.
416 Verkið er skrifað fyrir Eirík Pálsson trompetleikara sem einnig nam við sama skóla.
417 Slagverkið var víbrafónar, marimba og bremsuskálar, en vinsælt er meðal slagverksleikara í Bandaríkjunum að koma sér upp safni ýmissa slíkra tækja, eins og bremsuskálum, til sérkenna í slagverksleik.

327

Dæmi 108
Dæmi 108

Á þessum tíma var Hilmar farinn að velta fyrir sér ýmsum nútímalegum hugmyndum í tónsmíðum, m.a. ýmsar gerðir stærðfræði. Svokallaður kínverskur töfrateningur (dæmi 111) hafði síðar mikil áhrif á tónsmíðar hans. (418)

Sömu áhrif má finna í verkinu Sjöskeytlu frá 1989 sem hann samdi fyrir hóp íslenskra hljóðfæraleikara, er síðar fékk nafni Caput-hópurinn.

Hugmyndin er að verkið sé eins konar sjö línu ljóð þar sem allar línurnar eru lesnar samtímis. Allar línurnar tala um sama efnið, en orða það á mismunandi veru. Einnig má finna í þessu verki hugmyndir um hlutföll þagnar og hljóðs í tónlist þannig að þagnir fái sömu lengd og tónefnið. Má strax á fyrstu töktum verksins sjá að höfundur leggur inn 12 sekúndna "generalpásu" strax að loknum 4. takti verksins (dæmi 109):

Dæmi 109
Dæmi 109


418 Byggir á því að ef maður er með þrefaldan töfratening þá ganga allar tölur upp í töluna 15 hvort sem leitað er lárétt, lóðrétt eða í kross. Um er að ræða eins konar spil þar sem notaðar eru tölurnar 1 - 9; einu gildir hvaða röð er tekin. Summan verður alltaf 15. Ef þessum tölum er breytt yfir í nótur þá verður fjarlægðin frá fyrstu nótu og upp í þá seinustu alltaf sú sama þó um sitt hverja nótuna sé að ræða. Mikilvægast er að halda strúktúrnum.

328

Oh! Yellow Wonderworld (píanó - 1990 - 9:00)

Dæmi 110
Dæmi 110

Píanóverkið Ó! Gula undraveröld (Oh! Yellow Wonderworld) frá árinu 1990 er aleatorískt (dæmi 110) að því leyti að það er í 10 köflum og í forskrift að verkinu gefur höfundur píanóleikaranum frjálsar hendur um að leika einn þeirra eða alla, allt eftir hver stemningin er. (419) Sem dæmi um hugmyndir frá töfrateningnum má sjá að fyrsti kaflinn er byggður á 15 tónum. Hin "gula undraveröld" er kalífornískt umhverfi þar sem eins konar "gervináttúra" er risin í áður óbyggilegri eyðimörk, búin vökvunarkerfi sem fer sjálfkrafa í gang á kvöldin. Mikilla áhrifa gætir í þessu verki af hlutföllum fengnum frá kínverska töfrateningnum og um leið frá töfrateningi með litum sem hefur verið svo vinsælt leikfang um heim allan á síðasta áratug.

Að loknu námi við CalArts skólann í Kaliforníu flutti Hilmar sig til Yale University í eitt ár. Þar varð til árið 1990 verk fyrir flautu og selló undir heitinu 198 k. (dæmi 111). (420) Verkið er krefjandi fyrir hljóðfæraleikarana en það hefur verið flutt nokkrum sinnum.

Dæmi 111
Dæmi 111


419 Verkið hefur verið hljóðritað með Erni Magnússyni píanóleikara og gefið út á geisladiski undir heitinu "Íslensk píanótónlist" sem fæst hjá Íslenskri tónverkamiðstöð.
420 Titillinn kemur til af því að nótnaskjalið í tölvunni tók 198 kílóbæti í minni.

329

Water Music (Segulbandsverk - 1990 - 6:50)

Við Yale háskóla samdi Hilmar eitt elektrónískt verk sem fékk nafn eftir hljóðefni sínu – vatnshljóðum – Water Music. Verkið var unnið í samvinnu við nemanda í grafískri hönnun sem vann að lokaverkefni sínu við Yale háskólann. Þetta eru í raun fimm stutt verk sem í heild taka um sjö mínútur í flutningi. Í þessu verki notar höfundur í fyrsta sinni með samplertækni og notar nánast eingöngu regnhljóð. Þó má í einum hluta heyra höfund segja orðið "rain" í mismunandi elektrónískum útgáfum.

Interaktíf tónlist

Að lokinni dvölinni við Yale háskólann, árið 1991, flutti Hilmar að nýju til Stanford og ætlaði sér að stunda þar nám í elektrónískum tónsmíðum. En honum geðjaðist ekki aðferðin við að búa til hljóð – forritun; eitthvað sem að hans mati á þeim tíma var erfitt að tengja tónlistinni. Að loknu sumarnámskeiði við Stanford komst hann að sem gestur við Berkeley háskólann í Kaliforníu.

Fram að þessu hafði hann notast við útgefin forrit, þ.e. forrit sem aðrir höfðu gert. Fyrir listamann sem vildi halda sjálfstæði sínu var ekki um annað að ræða en læra forritun og öðlast þjálfun í að búa til forrit. Í framhaldi af því kviknar hugmynd að svokallaðir interaktífri tónlist eða því sem kallað hefur verið á íslensku "gagnvirk" tónlist, þ.e. víxlspil hljóðfæraleikarans og tölvunnar. (421) Hugmyndir Hilmars beindust á hinn bóginn að því að virkja samspil manneskjunnar og tölvunnar.

Tilviljun réði því að hann hitti japönsk hjón, dansara, sem buðu honum að koma á sýningu hjá sér. Það sem þau unnu með var svokallaður Butoh dans. (422) Eftir sýninguna kviknaði hjá Hilmar sú hugmynd að semja tónlist við þennan dans og um leið tengja hann hugmyndum sínum um samspil mannsins og tölvunnar.

Berkley háskólinn hafði yfir að ráða tæki sem hengja mátti á sig eða halda á sem sendi frá sér infrarauða geisla til að komast í samband við tölvu og hafa áhrif á hana, allt eftir því á hvern hátt maður hreyfði sig. Kallast fyrirbærið "Lightning"og er búið til af Don Buchla, sem er m.a. þekktur fyrir framleiðslu sína á Buchla hljóðgerflum. (423) Eftir að hafa kynnt dönsurunum þennan möguleika kviknaði hugmynd hjá Hilmari að forriti sem gaf möguleika á samspili tónlistar, dans og myndar – allt lifandi á sviði í gagnvirku samspili.


421 Deildar meiningar eru um hvort þetta fyrirbæri er til. Gagnrýna umræðu um það má lesa í bók Martin Knakkergaard, IO, bls. 146-.
422 Sjá nánar um Butoh dans: http://www.geocities.com/Tokyo/3642/index.html.
423 Sjá nánar um "Lightning II": http://www.buchla.com/index.html.

330

Goblins from the land of ice (Interaktíft verk - 1994)

Eftir að Hilmar hafði sagt dönsurunum frá íslensku jólasveinunum, þ.e. persónugerð hvers og eins þeirra og hlutverki þeirra í ævintýraheimi íslenskra barna, boðið þeim upp á veislu með íslenskum flatkökum, hangikjöti og brennivíni, þá sameinuðust þrír heimar, ævaforn íslenskur ævintýraheimur, japanskur menningarheimur frá því um miðja 20. öldina og tölvutækni nútímans í stóru ballettverki: (424)

Dæmi 112
Dæmi 112

Hugmyndin var ekki sú að kynna jólasvein sem æti skyr, skellti hurðum, sníkti kerti eða þess háttar, heldur var boðskapurinn að baki hvers þeirra lagður sem grunnur að persónulýsingu í ballettinum. Kalla má þessar íslensku jólasveinasögur hin þrettán boðorð íslenskra barna um góða hegðun og framkomu.

Tæknilega séð gengur verkið út á að hljóðefni tölvunnar, þ.e. sjálf músíkin, er byggð á hljóðum úr íslenskri náttúru: fuglahljóðum, hverahljóðum, hljóðum frá eldgosum, hraunstraumum og þess háttar. Hljóðin eru síðan tölvuunnin og sett upp í ákveðna sekvensa "að hætti höfundar". Einnig hafði höfundur sett inn í tölvuna ákveðin hlutföll tónbila og skala. Við að r júfa leysigeilsa á sviðinu, eftir ákveðnu mynstri, gátu dansararnir "sett í gang" fyrirfram ákveðna sekvensa í tölvunni, og þannig "leikið" dansverkið að vissu leyti, en á sama tíma stjórnaði höfundur öðrum innleiknum sekvensum frá tölvunni.

Sumarið 1994 var verkið sett upp í Tolone í Frakklandi og voru þá notuð ljós og fótósellur á þann hátt að skugginn hafði áhrif á ljósið. Hröð hreyfing – hröð viðbrögð hljóðsins, hæg hreyfing – hæg viðbrögð hljóðsins. Verkið hefur verið flutt nokkrum sinnum bæði í Frakklandi og Bandaríkjunum, og er á sama tíma "work in progress".


424 Goblins þýðir púki eða svartálfur.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998