Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Félag íslenskra hljóðfæraleikara – FÍH – og og hljómsveit þeirra

Kammermúsíkklúbburinn

Ríkisútvarpið og þáttur þess í tónlistarmálum


Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 49 - 60

Félags Íslenskra Hljóðfæraleikara -FÍH- og hljómsveit þeirra

Árið 1932 varð viss stefnumörkun í réttindum og kjörum íslenskra tónlistarmanna, kannski frekar en annarra stétta í landinu, við það að það ár stofnuðu hljóðfæraleikarar með sér hagsmunasamtök undir heitinu Félag Íslenskra Hljóðfæraleikara. Bjarni Böðvarsson og Þórhallur Árnason stóðu að fyrsta fundarboðinu. Hljóðaði það þannig:

  Við undirritaðir teljum að nauðsynlegt væri, af ýmsum ástæðum, að stofnað væri til félagsskapar fyrir ísl. hljóðfæraleikara, þ.e.a.s. þá, sem hafa músík að einhverju eða öllu leyti að atvinnu. Viljum við því biðja yður, sem við vonum að hafi áhuga fyrir þessu máli, að mæta á fundi á Hotel Borg, herbergi nr. 103, sunnudaginn 14. febrúar [1932] kl. 5 síðd. til að athuga og undirbúa stofnun þessa fjelagsskapar.

  Virðingarfyllst, (67)

  [undirritað af Bjarna Böðvarssyni og Þórhalli Árnasyni].

Orðalagið "af ýmsum ástæðum" boðaði ekki gott í svona fundarboði. Það benti á mikil vandræði í málum félagsmanna. Stundum var gripið til þessa, og svipaðs orðalags þegar taka þurfti stórar ákvarðanir og segja frá þeim þar sem sannleikurinn var hulinn. (68)

Á fundinum voru kosnir 3 menn til að vinna að undirbúningi almenns stofnfundar (Páll Ísólfsson var þriðji maðurinn). Framlag Páls varð ekki teljandi og undirbúningsvinnan var unnin af Bjarna og Þórhalli. (68) Í lok fyrsta fundar, sem haldinn var 28. febrúar árið 1932, bar Bjarni Böðvarsson fram eftirfarandi tillögu:

  Vegna þess hve útlendir hljóðfæraleikarar hafa tekið mikla vinnu frá íslenzkum, bannar félagið hér með meðlimum sínum að spila á móti útlendingum nema fyrir fullt gjald samkv. gjaldskrá félagsins. (70)

Þetta orðalag "nema fyrir fullt gjald" þýðir að íslenskir hljóðfæraleikarar skuli ekki spila fyrir lægri laun en gjaldskrá félagsins kvað á um. Vinnuveitendur vildu helst að heiðurinn að spila saman með útlendingunum skyldi vera launin. Einnig tíðkaðist það að hinar svokölluðu "hótelhjómsveitir" léku á hótelunum til kl. 11.30 og var síðan farið út í danshúsin og


67 Tónamál Nr. 15. febrúar 1982 – 50 ára afmælisrit FÍH.
68 Má þar til nefna orðalag "vegna ýmissa erfiðleika" sem oft hefur verið gripið til í tengslum við að Tónlistarfélgið lagði niður starfsem Hljómsveitar Reykjavíkur, sem það sá um reksturinn á. Þessir "ýmsir erfileikar" átti m.a. við að hljóðfæraleikarar vildu fá greitt fyrir sína vinnu.
69 Páll varð aldrei virku þáttakandi í starfsemi FÍH.
70 Tónamál Nr. 15. febrúar 1982 – 50 ára afmælisrit FÍH.


50

íslensku hljóðfæraleikurunum ýtt út. Þessi tillaga átti eftir að verða baráttu- og leiðarljós félaga í F.Í.H. í mörg ár.

Hljómsveitin var stofnuð 25. janúar 1944 og hélt 5 tónleika í maí 1944 undir stjórn Róberts Abraham Ottóssonar. Uppistaða hljómsveitarinnar voru menn sem stundað höfðu hljóðfæraleik í hinum ýmsu hljómsveitum, sem fram höfðu komið í Reykjavík, og voru meðlimir í FÍH. Fljótlega gerðu menn sér ljóst að góð samvinna við Tónlistarfélagið var nauðsynleg því ýmsir bestu hljóðfæraleikararnir í bænum voru kennarar við Tónlistarskólann og því menn Tónlistarfélagsins. Einnig kom upp sú staða að tveir helstu fiðluleikararnir, þeir Þórarinn Guðmundsson og Björn Ólafsson myndu ekki leika í sömu hljómsveit þar sem báðir myndu gera tilkall til konsertmeistarastöðunnar. Enda kom í ljós að Þórarinn vildi vera með "með því skilyrði að hann yrði konsertmeistari. Þótti sýnt að vandasamt myndi að fá samvinnu milli Þórarins og Björns Ólafssonar". (71)

Strax í byrjun var reynt að fá Pál Ísólfsson til að stjórna hljómsveitinni, en hann taldi sig ekki geta það vegna annarra anna, og "auk þess vildi hann gjöra frekari tilraunir til samkomulags milli Tónlistarfélagsins og Hljómsveitarinnar. Vildi hann koma á sameiginlegum fundi innan skamms og að láta bíða eftir því, áður en nokkuð frekar væri gjört í þessu". (72) Að ýmsum öðrum málum þurfti að huga, eins og nótnakaupum og afla hljómsveitinni styrktarmeðlima og finna æfingahúsnæði.

Þörfin fyrir hljómsveit var óumdeilanleg og áhuginn mikill, en beðið var eftir réttu augnabliki. Það kom svo þegar Róbert Abraham boðaði fulltrúa hljómsveitarinnar á fund á heimili sínu og spurðist fyrir um hvort hljómsveitin væri fáanleg til að "aðstoða við uppfærslu á stykki eftir Brahms fyrir kór og hljómsveit". (73)

Meðal annars kom í ljós á fundinum að Róbert treysti sér ekki til að setja verkið upp nema með liðsinni Björns Ólafssonar (fiðlu) og Heinz Edelstein (selló). Báðir voru kennarar við Tónlistarskólann og því á sama tíma "Tónlistarfélagsmenn". Helsta ágreiningsmál hljómsveitarinnar og Tónlistarfélagsins var það að hljómsveitin vildi láta nafns síns sérstaklega getið í hvert sinn sem hún kæmi fram undir eigin nafni. Hér er enn eitt gott dæmi um hin ýmsu vandamál sem við var að etja.

Hin gamla Hljómsveit Reykjavíkur var stofnuð með undirritun Samþykkta árið 1925. Samþykktir þessar fólu í sér að hljómsveitarmeðlimir voru ráðnir með skriflegum samningi og fengu ákveðna þóknun fyrir að leika með. Í ljós kom síðar að þetta ákvæði varð einskonar fjárhagsleg "gildra". Strax við stofnun hljómsveitarinnar hófst togstreita um völd í tónlistarlífi Reykjavíkur sem átti eftir að verða meira áberandi er á leið.


71 Fundargerð stjórnarfundar Hljómsveitar FÍH. 1. febrúr 1944.
72 Sama.
73 Sama. Ekki kemur fram í fundargerðinni hvaða verk var um að ræða.


51

Þegar Hljómsveit Reykjavíkur var "lögð undir" Tónlistarfélagið (1932) gengu allar fyrri samþykktir úr gildi. Kom þetta mál m.a. upp í umræðuna við stofnun Hljómsveitar F.Í.H. og voru ýmsir reiðir yfir framkvæmd þess máls þar sem þeir töldu ólöglega hafa verið að málum staðið við yfirtöku hljómsveitarinnar. Sú reiði kom m.a. til af því að ýmsum sem höfðu leikið með hljómsveitinni var ekki gefinn kostur á að vera með undir Tónlistarfélaginu né heldur gerast meðlimir í félaginu. Ekki er ólíklegt að tækifærið hafi verið notað til að grisja í þeim hópi er eitthvað kunni fyrir sér á hljóðfæri en var án nægrar færni. Það var ekki lengur nóg að vera aðeins "hæfileikaríkur".

Nokkrir meðlimir hinnar "gömlu" hljómsveitar höfðu óskað þess árið 1942, að endurreisa Hljómsveit Reykjavíkur með því nafni en Tónlistarfélagið taldi sig hins vegar eiga þetta nafn. Aftur á móti væri mönnum heimilt að stofna með sér starfsmannafélag, sem þeir og gerðu, en svo kom í ljós að það naut engra réttinda gagnvart rekstraraðilum hljómsveitarinnar. Urðu niðurstöður þær að meginþorri hljómsveitarmanna, sem hvort eð var voru meðlimir F.Í.H. ákváðu að leita á náðir félagsins um samninga og réttindi sér til handa í hljómsveitinni. F.Í.H. gekkst í það að reyna að ná samningum við Tónlistarfélagið fyrir félagsmenn sína. Það skal tekið fram að hinir gömlu meðlimir Hljómsveitar Reykjavíkur þáðu lítil eða engin laun fyrir leik sinn. Annað gilti um meðlimi Tónlistarfélagsins, sem voru kennarar við Tónlistarskólann, en þeir voru flestir í föstu starfi þar. Engir samningar tókust á þessum tíma við Tónlistarfélagið og hætti það rekstri hljómsveitarinnar. Má oft sjá í blaðaumfjöllun um þessa hljómsveit og endalok hennar að gripið er til orðalagsins "af ýmsum orsökum". Þegar það er orðað að hætt hafi verið við starfsemi hennar. Erfitt var fyrir íslenska hljóðfæraleikara að fá greitt fyrir vinnu sína, og það sem er merkilegt í því sambandi nú þegar þetta er skrifað að íslenska Ríkisútvarpið og Ríkissjónvarpið hefur orðið sekt um að reka þessa "borga ekki fyrir tónlistarflutning" – stefnu að töluverðu marki. (74)

Þrátt fyrir að þreifingar um samninga milli Tónlistarfélagsins og F.Í.H. væru í gangi, má sjá að Páli Ísólfssyni þótti "til bóta" (75) að hljómsveitin hæfi starfsemi sína. Rætt hafði verið við Urbancic um að stjórna hljómsveitinni, en ákvæði í starfssamningi hans við Tónlistarfélagið kom í veg fyrir að hann ynni fyrir aðra, enda tók hann mjög vel í það að Róbert Abraham stjórnaði fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar. (76)

Mikilvægt var að hefjast handa við æfingar því Tónlistarfélagið var að hefja æfingar á óperettunni Í álögum og eins þurfti leikfélagið á hljóðfæraleikurum að halda í leikritinu Pétur Gautur. Benti Róbert á að ef menn byrjuðu að æfa í fyrrnefndum verkum, væri enginn tilgangur í því að fara að æfa undir tónleika. Leikhúsin höfðu gert samninga við F.Í.H. og viðurkenndu þau rétt meðlima félagsins að spila á þeirra vegum. Einnig voru umræður um


74 Má benda á nýlegann fund í félaginu um þetta mál og yfirlýsingar í dagblöðum um sama efni (apríl 1996).
75 Fundargerðarbók Hljómsveitar F.Í.H.
76 Róbert hafði það á orðið í samningum við hann að hann vildi ekki ganga fram fyrir Urbancic og því yrði að leita álits hans fyrst.


52

að sleppa nafni Hljómsveitar Reykjavíkur úr leikskrám, en það reyndist örðugara en ætlað var og lýsir það ástandinu.

Tónlistarfélagið sá um uppsetningu á leikritinu Pétri Gaut og sýnt var að um mikla vinnu yrði að ræða fyrir hljóðfæraleikara. Jafnframt krafðist Tónlistarfélagið þess að nafn Hljómsveitar Reykjavíkur kæmi fram í leikskránni. Málið var á viðkvæmu stigi því í gangi var könnum þess efnist hvort Hljómsveit Reykjvaíkur hefði nokkurn tíma verið lögð niður og hvort Tónlistarfélagið hefði framkvæmt eitthvað ólöglegt við að yfirtaka hana og leitast við að ná samningum um þessi viðkvæmu mál.

Hljómsveit F.Í.H. hóf æfingar af fullum krafti og þegar þær voru komnar í gang fóru hljóðfæraleikarar að streyma inn í hópinn til að vera með. Á tónleikum hljómsveitarinnar í mars 1944 í Tjarnarbíói, sem haldnir voru í samvinnu við Söngfélagið Hörpu, voru alls 36 hljóðfæraleikarar. (77) Erfitt er að gera sér grein fyrir hollustu blaðadóma um leik hljómsveitarinnar. Í fundargerðinni er tekið fram að leikurinn hafi fengið góða dóma almennings en slæma dóma hjá þeim Baldri Andréssyni og Emil Thoroddsen. Taka skal fram að báðir þessir menn voru "Tónlistarfélagsmenn". Að loknum þeim 5 tónleikum sem haldnir voru lagðist starfsemi hljómsveitarinnar niður. Var það auk þess sem bent hefur verið á að framan, vegna mikilla anna hljóðfæraleikara við önnur störf, svo sem að leika á kaffihúsum sem gaf þó a.m.k. laun. Mikið var að gera í danshúsamenningunni, og eins var á þessum tíma frumflutt fyrsta óperettan, sem samin var á Íslandi, og einnig voru leikhúsmálin í miklum blóma.

Það leið nokkur tími eftir tónleikahaldið þar til haldinn var fundir í stjórn hljómsveitarinnar. Á aðalfundinn þann 30. júní, kom ekki nema um helmingur lögmætra félaga vegna anna við spilamennsku. Þrátt fyrir að engar ákvarðanir væru teknar í nafni aðalfundar var tækifærið notað til almennra fundarhalda og skýrði formaður, Hallgrímur Helgason, frá hversu miklir örðugleikar væri í því að fá húsnæði til æfinga og tónleikahalds í Reykjavík og minntist hann m.a. á það að Tónlistarfélagið væri að hefja umræðu á því máli. Lagði hann til á þessum fundi að sótt yrði um lóð undir byggingu tónlistarhallar sem kórarnir í Reykjavík, Tónlistarfélagið og Hljómsveit F.Í.H myndu gangast fyrir byggingu á. Þarna örlaði dálítið á fyrrnefndri spennu milli félaganna. Ljóst var að Tónlistarfélagið væri að sækja um lóð og því skyldu F.Í.H. menn ekki verða seinni til. Þrátt fyrir það að fundarmenn álitu að ekki væri ráðlegt að leggja inn umsókn um lóð áður en umræða og samningar færu fram bæði við kórana og Tónlistarfélagið, hélt Hallgrímur fast í viðhorf sitt. Endaði þetta mál með því að tillaga hans var samþykkt með orðalagsbreytingu. Ekki hefur mér tekist að svo stöddu að fylgja því máli eftir, en allir þekkja þróun þessa máls – Tónlistarhöllin er ekki risin enn.


77 Haldnir voru 5 tónleikar: 7., 10., 14., 18. og 24. mars.


53

Stjórnarfundur sem halda skyldi í byrjun nóvember 1944 var aldrei haldinn né aðalfundurinn í framhaldi af honum. Sú mynd sem hér er dregin upp er dæmigerð fyrir ástand í tónlistarmálum á þessum árum. Ekki voru haldnir tónleikar nema samkomulag yrði um það í einstaka tilfellum. Næsti fundur í hljómsveit F.Í.H. var haldinn 4. apríl 1945 og kom þá í ljós að nótur, sem pantaðar höfðu verið frá Ameríku, höfðu tapastá leið til landsins. (78) Var formanni falið að leita ásjár hjá Róbert Abraham Ottóssyni um að koma á tónleikum.

Mánudaginn 16. apríl 1945 er svo haldinn síðasti fundur í þessari stofnun. Má lesa í fundargerðinni að hollusta væri horfin í garð hljómsveitarinnar bæði vegna anna á öðrum sviðum og einnig vegna þess að menn voru orðnir þreyttir á því skipulagsleysi sem ríkt hafði svo lengi. Vil ég ljúka þessum kafla með síðustu orðum þessarar fundargerðar: – "...fleira var ekki tekið fyrir".


78 Nóturnar glötuðust er MS. Goðafossi var sökkt vestur af Íslandi í síðustu heimsstyrjöld.


(Síða 54 er auð) 55
Kammermúsíkklúbburinn

Ýmsir einkaaðilar er brennandi áhuga höfðu á tónlist stofnuðu með sér samtök af ýmsum toga til að standa fyrir tónlistarflutningi. Ekki voru allir þessir menn tónlistarmenntaðir en höfðu áhugann einn að vegarnesti. Ein þessara samtaka fengu heitið Kammermúsíkklúbburinn, en ritaðar heimildir um stofnun félagsins eru nánast engar. Þó segir lítillega frá þessum félagsskap í vikublaðinu Fálkanum. Þar segir m.a.:

  Nokkrir tónlistarvinir í Reykjavík hafa bundist samtökum um stofnun kammermúsíkklúbbs hér. Tilgangur samtaka þessara er að fá íslenska og erlenda listamenn til að flytja hér tónlist, sem erfiðleikar hafa verið á að fá hér flutta, og þá einnig ýmsa tónlist aðra, sem yfirleitt ekki hefir verið flutt hér á opinberum tónleikum til þessa. ...Fyrstu tónleikarnir voru haldnir s.l. miðvikudag og söng þá mr. Roy Hickman (barítón) úr breska flughernum hér, söngva eftir Schubert og Schumann, við mjög góðar undirtekir áheyrenda, þá einnig gömul og ný ensk lög, sem einnig vöktu aðdáun. Dr. Urbantschitsch aðstoðaði af list, sem hans er von og vísa. ...Formaður félagsins verður fyrst um sinn Bjarni Guðmundsson, en Árni Kristjánsson píanóleikari verðu sennilega ráðunautur um val tónverka. (79)

Einnig segir lítillega frá tónleikum í Alþýðublaðinu og þar er minnst á stofnun félagsins. (80) Félagið var stofnað 4 árum áður og voru félagar orðnir 150 er greinin var skrifuð. Það sem helst háði starfsemi félagsins var að vegna anna þeirra hljóðfæraleikara sem störfuðu í borginni, bæði við kennslu og hljómleikahald, var erfitt um vik að fá þá til að æfa upp efnisskrá fyrir þá fáu menn er voru félagsmenn í klúbbnum. Engin starfsemi var á vegum klúbbsins á árunum 1947-48. Tónleikarnir í janúar 1949 voru tilraun til að endurlífga starfið og var gerð í samvinnu við hið nýstofnaða félag nútímatónlistar sem var deild í ISCM (International Society for Contemporary Music). Á tónleikunum voru flutt verk eftir Stravinsky, Honegger, Hindemith og Jón Nordal. Aðeins um 30-40 manns sóttu þessa tónleika og ekki mun hafa verið um frekari starfsemi þessa félags að ræða að sinni. Stofnendur þessa fyrsta Kammermúsíkklúbbs voru Bjarni Guðmundsson, Árni Kristjánsson og Sigrún Gísladóttir.

Ekki minnkuðu verkefni hljóðfæraleikara á næstunni því nú styttist bæði í opnun Þjóðleikhússins og stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar. Kammertónlist var þó flutt reglulega og sá Tónlistarfélagið um þá tónleika. Eftir stofnun Symfóníuhljómsveitarinnar varð til nokkuð sem hét kammersveit Symfóníuhljómsveitarinnar undir handleiðslu Björns Ólafssonar fiðluleikara. Hélt sveitin fjölda kammertónleika í Austurbæjabíói og víðar á komandi árum.


79 Fálkinn, 3. ágúst 1945.
80 Alþýðublaðið, 22. janúar 1949.


56

Eitt af vandamálum áhugafélaga var fjárhagurinn. Menn voru nú orðnir sáttir á að hljóðfæraleikur væri "vinna" og að hljóðfæraleikarar fengju greitt fyrir vinnu sína. Slík félög höfðu enga tekjustofna nema félagsgjöld og aðgangseyri af tónleikum og því var erfitt um vik að halda slíkri starfsemi uppi.

Önnur tilraun var gerð til stofnunar kammermúsíkklúbbs árið 1957 og var starfsemi þess mjög virk. Í mars 1958 greinir Þjóðviljinn frá öðrum tónleikum annars starfsárs Kammermúsíkklúbbsins. Í greininni er sagt frá styrk til félagsins úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðssonar er gerði félaginu kleift að flytja stærri kammertónverk og nýtti stjórn klúbbsins styrkinn til að flytja alla Brandenborgarkonserta Bachs á komandi tónleikum. Á þessum tónleikum voru einnig flutt verk eftir Schubert og Beethoven og voru flytjendur Ingvar Jónasson og Jón Nordal. Starfsemi félagsins hélt áfram og voru haldnir margir tónleikar með kammermúsík þar sem hljóðfæraleikarar voru ýmist innlendir sem erlendir. Starfsemin var mjög mikilvæg fyrir hina ungu íslensku hljóðfæraleikara og söngvara sem fengu tækifæri að vinna að list sinni á vegum félagsins.


57

Ríkisútvarpið og þáttur þess í tónlistarmálum

Eins og nefnt hefur verið, var íslenskt ríkisútvarp formlega stofnað árið 1930. Þó svo ýmsar tilraunir hafi verið gerðar áður til útvarpssendinga, bæði af einkaaðilum og á vegum Ríkisútvarpsins, þá telst 21. desember 1930 sá dagur sem fyrsta reglubundna útsendingin fór fram, og mun frá þeim degi vera elsta prentaða dagskráin sem til er. Mikill áhugi var á þessu fyrirtæki meðal landsmanna, og sýnir það að í árslok 1930 voru um 450 hlustendur en ári síðar voru þeir tæplega 4000. Hlustendur voru fljótir að taka við sér og skrifuðu bréf til stofnunarinnar m.a. til að koma með ýmsar óskir um flutning efnis. Tónlistarmál voru þar engin undantekning. Sumir hlustendur vildu annaðhvort grammófónmúsík eða lifandi söng en aðrir vildur losna við tónlist Beethovens og Brahms.

Meðvitundin um hinn íslenska tónlistararf, þ.e. kórana, ættjarðarlögin og þjóðskáldin var mjög sterk á fyrstu árum aldarinnar. Jókst hún til muna við tilkomu ríkisútvarpsins og þá viðleytni þess að "ala þjóðina upp" í tónlistarlegum skilningi. Sáu sumir hlustendur ákveðna hættu í útsendingum útvarpsins og bentu á í bréfum og greinum að það bæri að viðhalda hinum íslenska söngarfi og verja hann "árásum" og áhrifum frá útlöndum. Það var helst ungdómurinn sem menn höfðu áhyggjur af og var einna helsti ógnvaldurinn hinn erlendi jazz og dægurlög sem að sumra mati átti uppruna sinn í "svartri lágmenningu". Með öðrum orðum: á Íslandi fundust – og finnast jafnvel enn – margir skoðanabræður þeirrar kenningar sem ríkti meðal sumra ráðamanna í Mið- Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni um æðri og óæðri kynstofna. Birtist það einna helst í brennandi þjóðernishyggju og baráttu gegn erlendum áhrifum.

Páll Ísólfsson var ráðinn sem tónlistarstjóri útvarpsins frá upphafi, en Þórarinn Guðmundsson og Emil Thoroddsen sáu einnig um tónlistarmál. Eins og áður hefur verið bent á, sáu tveir síðastnefndu um lifandi tónlistarflutning í útvarpinu og ýmsa hagnýta hluti, svo sem að leika tónlist af plötum. Páll (1893-74) hafði upphaflega ætlað sér að gerast nótnaprentari og hóf hann í því sambandi prentnám í Reykjavík, en tónlistin varð ofan á, og fór hann til náms til Leipzig þar sem hann dvaldist 7 vetur við orgel- og fræðinám. Tvö síðustu námsár sín í Leipzig var hann aðstoðarmaður og staðgengill kennara síns, Carl Straube, við Tómasarkirkjuna þar í borg. Páll kom til Íslands, eins og áður var nefnt, að loknu námi árið 1921 og varð fljótlega virkur í tónlistarmálum. Hann stjórnaði m.a. lúðrasveit í 10 ár, var með í stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík og veitti honum forstöðu í um 25 ár. Hann var organisti í Fríkirkjunni og síðar dómorganisti í mörg ár. Hann hélt fjölda orgeltónleika á Íslandi og einnig í Evrópu og Ameríku. Má segja að Páll hafi verið frumkvöðull að framþróun almennra tónlistarmála á Íslandi frá því hann kom heim frá námi og fram undir 1960.


58

Annar maður sem tengdist mjög tónlistarmálum Ríkisútvarpsins til fjölda ára, var Jón Þórarinsson (1917-). Hann fluttist að loknu stúdentsprófi frá Akureyri til Reykjavíkur árið 1936 og hóf nám í tónfræði í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Páli Ísólfssyni og Frans Mixa. Ástandið í þjóðmálum kom í veg fyrir að hann færi þá til frekara náms í Evrópu, eins og hann hafði ætlað sér, og réðst hann sumarið 1938 til starfa á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Fljótlega fór hann þó að gera sér grein fyrir hvernig bæta mætti kynningu á tónlist hjá útvarpinu og einnig nýta sér Útvarpstíðindin til þessa. Í Útvarpstíðindum í febrúar 1939 ritar hann m.a.:

  Þess er ekki að dyljast, að mestur hluti hinnar svonefndu æðri tónlistar, sem útvarpið flytur, fer gersamlega fyrir ofan garð og neðan hjá öllum þorra hlustenda. Þetta er mjög eðlilegt, þegar þess er gætt, hve tónlistin – í þrengri merkingu þess orða – er ung með þjóð vorri, og að vér til skamms tíma höfum ekki átt þess kost að þjálfa eyru vor til skilnings stærri tónverka. Úr þessu hefur útvarpið bætt að nokkru, en reyndin er þó sú, að fjöldi þeirra manna, sem í sannleika hafa haft vilja á því að afla sér skilnings og þekkingar á æðri tónlist, hafa lítil eða engin not þess, sem útvarpið býður af því tagi, og annað hvort láta það eins og vind um eyru þjóta eða þá hreinlega loka viðtæki sínu, þegar slíkt dynur yfir. Það liggur í augum uppi, að eitthvað er meira en lítið »bogið« við þetta, og að hér verður eitthvað til bragðs að taka, ef vel á að vera. (81)

Þeir Jón og Páll sáu um á komandi árum ýmsa kynningarþætti á tónlist í Útvarpinu og skrifuðu einnig greinar um tónlistarmál og kynntu tónverk og tónskáld í Útvarpstíðindum. Jón hefur greinilega komið sér vel hjá útvarpinu og varð hann t.d. mjög vinsæll sem þulur. En hugurinn stefndi á frekara námi. Á 750. fundi Útvarpsráðs sem haldinn var í október 1943 lagði Páll Ísólfsson fram tillögu þess efnis að "efla Jón til tónlistarnáms vestanhafs, og taki hann síðan við starfi á tónlistardeild". (82) Útvarpsstjóri lét þá skoðun í ljósi að nauðsynlegt myndi að styrkja starfsmenn til náms "þar sem stofnunin þyrfti á allan hátt að aukast og vaxa". (83) Á fundi Útvarpsráðs 19. október 1943 var gerð eftirfarandi samþykkt:

  Útvarpsráð mælir eindregið með því, að Jón Þórarinsson verði ríflega styktur til tónlistarnáms vestan hafs, með það fyrir augum að hann að námi loknu starfi að tónlistarmálum í þjónustu ríkisútvarpsins. (84)

Jón Þórarinsson fór til náms til Bandaríkjanna upp úr áramótum 1944 og lauk meistaraprófi í tónsmíðum frá Yale University sumarið 1947. Hann hóf svo störf að nýju sem fulltrúi hjá Tónlistardeild Ríkisútvarpsins haustið 1947 eins og kvað á um í styrkveitingu Útvarpsráðs til hans, ásamt því að kenna tónfræði við Tónlistarskólann í Reykjavík. Meðan Jón var við nám hélt Páll Ísólfsson starfi sínu áfram og vann að ýmsum umbótum í tónlistarmálum útvarpsins og þar með í þágu tónlistarinnar í landinu. Umbæturnar snerust ekki eingöngu um


81 Útvarpstíðindi: febrúar 1939.
82 Fundargerðabók Útvarpsráðs 1943, bls. 46-47.
84 Sama.
57 Sama, bls. 50.


59

sjálfa tónlistina, heldur einnig ýmis réttindamál, svo sem höfundarlaun. Útvarpið hafði allt frá stofnun þess farið nokkuð "frjálslega" með höfundarrétt þeirra hugsmíðar sem það flutti, og átti það ekki aðeins við um tónlist, heldur einnig bókmenntaverk svo og flytjendur þessara verka, enda voru engin höfundarlög fyrir hendi. Það var t.d. ekki fyrr en árið 1943 að útvarpsráð samþykkti á fundi sínum, að ósk stjórnar hins Íslenska leikarafélags, að greiða leikurum fyrir störf sín hjá Útvarpinu.

Þegar íslendingar gerðust aðilar að Bernarsamkomulaginu (sjá nánar um það í kaflanum um STEF) opnaðist leið fyrir íslenska höfunda að krefjast greiðslu fyrir opinberan flutning á verkum sínum. Útvarpsmenn leituðust við að aðlaga sig nýjum aðstæðum og voru lagðar fram tvær tillögur á fundi útvarpsráðs í mars 1945 um höfundaþóknun. Fyrri tillagan var frá Páli Ísólfssyni og útvarpsstjóra og hljóðaði þannig: (85)

  Útvarpsráð ályktar að greiða nokkrum tónskáldum fjárhæð í þóknunarskyni fyrir afnot þau, er útvarpið hefur frá byrjun haft af verkum þeirra í dagsrá. Upphæð þessi ákveðst 5 þúsund krónur til hvers og skiftist niður á nokkur ár. Fari fyrsta greiðsla fram 1945. Tónlistarstjóri gerir tillögur um, hverjir skuli njóta þessara viðurkennigar og leggur þær tillögur undir samþykki útvarpsráðs.

Sú síðar var frá Helga Hjörvar skrifstofustjóra útvarpsins, svohljóðandi:

  Útvarpsráð ályktar að fela þriggja manna nefnd að gera tillögur um samninga við Bandalag Íslenskra listamanna um höfundarþóknun og reglugerð samkvæmt hinum nýju ákvæðum höfundarlaganna frá 1943, og stuðla síðan að því að slík reglugerð verði sett. (86)

Ljóst er að útvarpið var að fá nýtt og mikilvægt hlutverk sem hagsmunastofnun höfunda hugverka þó svo einhver tími ætti eftir að líða þar til réttindamálin kæmust í rétt horf. Á fundinum 1945 var samþykkt að greiða þremur íslenskum tónskáldum, þeim Árna Thorsteinson, Sigvalda Kaldalóns og Sigurði Þórðarsyni, þóknun "fyrir afnot þau, sem útvarpið hefur haft að verkum þeirra frá upphafi, enda geri tónlistarstjóri tillögur um samskonar greiðslur til annarra tónskálda á næsta ári". Í febrúar 1947 var svo samþykkt að veita enn þremur tónskáldum "þóknun fyrir afnot útvarpsins af tónsmíðum þeirra, 5000 kr. hverjum", Jóni Leifs, Þórarni Guðmundssyni og Karli O. Runólfssyni. Þetta hafði ráðist utan fundar því Jón Leifs var á leið til útlanda.

Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og gildi þess sem einu útvarpsrásarinnar (fyrir utan Keflavíkurútvarpið frá árinu 1951) allt fram til um 1980 er ómælanlegt. Það má segja að völd þeirra manna sem réðu þar hafi nánast verið einræði því til fjölda ára var rekin ákaflega stíf menningarpólítík í útvarpinu. Það var útvarpið sem réði hvaða efni var flutt þjóðinni á öldum ljósvakans. Á sama tíma setti það vörumerki á hvað væri gott og hvað væri slæmt í þeim málum og einnig hvað þjóðinni væri hollt að heyra. En ef dagskrá útvarpsins er skoðuð


85 Fundagerðabók Útvarpsráðs 1943: bls. 169 (820. fundur).
86 Sama.


60

frá fyrstu áratugunum þá verður samt að segjast að "mikill og hollur" bragur hafi ríkt yfir dagskrá þess samkvæmt markmiðum þess að "ala upp" þjóðina í hinni vesturevrópsku, klassísku tónlistarhámenningu.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998