Eftirmáli


Forsíða
Efnisyfirlit

Hér að framan hafa verið rakin helstu atriði í sögu Tónskáldafélags Íslands frá stofnun þess. Þegar litið er yfir farinn veg kemur í ljós að á sumum sviðum hafa menn náð talsverðum árangri í baráttumálum sínum. En um leið verður að segjast að í öðrum málum hefur ekkert gengið. Má þar sem dæmi nefnda stofnun stöðu "composer in residence" við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ekki er því að kenna að hér séu menn með neinar óraunhæfar kröfur því slík staða þykir sjálfsögð í mörgum vestrænum menningarsamfélögum. Annað mál er flutningur og dreifing ríkisútvarpsins á hljóðritunum íslenskra verka bæði í Ríkisútvarpinu á Íslandi svo og í útvarpsstöðvum víða um heim. Þar koma til afleit ákvæði í samningum við hljóðfæraleikara sem koma í veg fyrir að endurflytja megi hljóðritanir nema til komi sérstök greiðsla. Erlendar útvarpsstöðvar eru löngu hættar að greiða slíkt gjald og erlendir hljóðfæraleikara eru löngu búnir að átta sig á auglýsingargildi slíks flutnings fyrir sig persónulega. Hér er engin óvild í gangi heldur ákvæði sem menn sáu ekki fyrir endan á.

Engin sér heldur fyrir endann á réttindamálum tónskálda gagnvart alnetinu né heldur núverandi og komandi fjölföldunar- og útgáfutækni. En á mörgum sviðum væri hægt að gera átak til útgáfu og kynningar á íslenskum tónskáldum og verkum þeirra. Útgáfutækni í dag gerir útgáfu ódýra, dreifa þarf kynningarefni um tónskáldin á ýmsum málum, bæði í uppsláttarrit og á netinu. Gera þarf stórátak í nótnaútgáfu en staðreyndin er að enn eru til fjöldi verka bæði yngri og eldri tónskálda sem aldrei hafa heyrst. Íslensk tónlist hefur vakið áhuga erlendra manna fyrir ágæti sitt og sérkenni. Smátt og smátt er að verða til eitthvað sem kallast gæti íslenskur skóli – íslenskur stíll. Íslensk tónskáld eru smátt og smátt að komast á heimskortið og virðist leiðin ætla að verða rudd af þeim manni sem kom réttinda- og félagsmálum þeirra á rétta braut – Jóni Leifs.


Forsíða
Efnisyfirlit

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998