Nýr formaður - ný kynslóð


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Það má vera ljóst að fráfall Jóns Leifs hlaut að hafa afgerandi áhrif á starfið innan Tónskáldafélagsins. Stofnfélagar og eldri félagar voru smátt og smátt að falla frá og yngri mönnum fjölgaði að sama skapi í félaginu. Varaformaður Jóns Leifs, Dr. Hallgrímur Helgason tók nú við stjórn í félaginu en þó aðeins í skamman tíma. Hallgrímur, sem á þessum tíma gegndi prófessorsstöðu við háskólann í Saskatchewan í Kanada, var staddur hér á landi um sumarið en fór utan 30. ágúst. Hann fól varamanni sínum, Sigurður Þórðarsyni að gegna formennsku þá um veturinn og samþykkti stjórn félagsins að fresta aðalfundi, sem annars átti að vera í febrúar fram í maímánuð þegar Hallgrímur kæmi heim að nýju að loknu skólaári (Sigurður lést nokkrum mánuðum síðar og benti Hallgrímur þá á Áskel Snorrason sem sinn varamann en Áskell treysti sér ekki til þess sökum lasleika).

Ákvörðunin um frestun aðalfundar kvisaðist út um haustið og sættu yngri menn sig ekki við þessa ráðstöfun. Var óskað eftir félagsfundi að loknum aðalfundi STEFs, 5. október og samþykkti fundurinn tillögu þess efnist að skora á stjórn félagsins að halda aðalfund á lögboðnum tíma. Hallgrímur kom til Íslands um jólin og var aðalfundur haldinn 3. janúar. Formaður flutti á fundinum eftirfarandi skýrslu um starf Jóns Leifs fyrir félagið. Kemur hún fram á eftirfarandi hátt í gerðabók félagsins:

Vissrar reiði virðist gæta í þessari frásögn Hallgríms. Hann hafði jú dvalið burtu frá góðu gamni á þessum umbrotatímum hjá félaginu og óskaði hann eftir því á þessum fundi að það yrði bókað "að honum hefði aldrei verið boðið að gerast aðili að Tónverkamiðstöðinni nóg boðið að senda verk til útbreiðslu á vegum hennar" .

Það er nú að bera í bakkafullan lækinn að biðja menn að iðrast einnar eða annarar framkomu í garð Jóns Leifs því það verður að segjast eins og er að hann sjálfur túlkaði hugtakið "framkoma" í lifandi lifi ákaflega frjálslega og er ekki víst að hann hafi gert sér fyllilega grein fyrir hvað það hugtak þýddi. En hvað sem því líður þá átti Jón Leifs geysimargt gott skilið fyrir hönd Tónskáldafélags Íslands. Á þessum fundi var samþykkt tillaga Hallgríms Helgasonar þess efnis "að minningarrit um Jón Leifs verði gefið út á vegum Tónskáldafélags Íslands. Þetta rit verði út komið árið 1974 á 75 ára afmæli Jóns Leifs."

Í ársbyrjun 1971 var samþykkt að fara þess á leit við Jónas Kristjánsson rithöfund að taka að sér verkið en ekkert kom ritið út. Þessi hugmynd var m.a. endurvakin á aðalfundi félagsins árið 1975 af Hallgrími Helgasyni, sem þá var aftur flutt til Íslands. Hafði stjórn félagsins samand við ekkju Jóns Leifs, Þorbjörgu Leifs um tillögur að útgáfunni og einnig stjórn Menningarsjóðs, en frú Þorbjörg áskildi sér rétt til að samþykkja ævisöguritarann.

En það var ekki bara rit um æfi og störf Jóns Leifs sem vantaði heldur og var það einskonar "tíðarandi" að hafna verkum hans til flutnings. Lagðist þar á eitt dómur manna og hatur á hinni hörðu framgöngu Jóns sem baráttumanns fyrir réttindum tónskálda og á honum sem tónskáldi og listamanni. En augu yngri kynslóðarinnar var opin fyrir listamanninum í Jóni Leifs og kallaði ástandið fram eftirfarandi tillögu frá Leifi Þórarinssyni og Atla Heimi Sveinssyni:

Ákveðin sátt var orðin um stofnun tónverkamiðstöðvar og á aðalfundi í janúar 1969 var samþykkt tillaga Hallgríms Helgasonar um "að þrír menn, einn úr tónskáldafélagi Íslands, einn úr STEFi og einn frá tónverkamiðstöðinni verði kosnir til þess að ræða sameiginlegan grundvöll að tónverkamiðstöð sem systurfélag tónskáldafélagsins og í nánum tengslum við það í líkingu við STEF."

Í byrjun árs 1969 fóru umræður í gang um þátttöku tónskáldafélagsins í væntanlegri listahátíð í Reykjavík og eftir að tillaga að lögum fyrir listahátíð var lögð fyrir almennanfund 16. mars 1969 var samþykkt að tónskáldafélagið gerðist aðili að væntanlegri Listahátíð. Þegar líða tók á árið voru undirbúnar hugmyndir um samkeppni um tónverk er flytja skyldi á Listahátíð og samkvæmt bréfi frá formanni Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins, Andrési Björnssyni, var Tónskáldafélagi Íslands veittur styrkur að upphæð 100.000 krónur sem verðlaunafé í samkeppninni. Tónskáldafélag Íslands hefur verið virkur þátttakandi í listahátíðum æ síðan.

Árið 1960 urður viss tímamót í íslenskri tónlistarsögu þegar félagsskapurinn Musica Nova var stofnaður.Var tónlist hinnnar ungu kynslóðar þess tíma tekin til flutnings á tónleikum þess. Áhrifa ungu kynsóðarinnar fór þó ekki að gæta að neinu ráði innan Tónskáldafélagsins fyrr en eftir 1970 en þá komust yngri báráttumenn smátt og smátt til áhrifa innan félagsins.

Viðleitni til að hafna hinu eldra í stað hins yngra kom berlega í ljós í undirbúningi norrænna músíkdaga árið 1972. Samkvæmt tillögu danska tónskáldafélagsins skyldi lögð ofuráhersla á nútímalegt tilraunagildi verkanna sem valin yrðu til flutnings á hátíðinni. Þetta gat stjórn Tónskáldafélags Íslands náttúrlega ekki fallist á, enda voru þá í stjórn þess "eldri tíma menn" hvað varðar tónsmíðastíl. Ljóst yrði með þessum tilllögum dananna að þeir sem ekki væru "nútímalegir" í sköpun sinni ættu enga möguleika á að fá verk sín flutt. Þegar litið er til baka nú er afstaða beggja aðila skiljanleg.

Jón Ásgeirsson tók við formennsku í félaginu árið 1969. Hallgrímur Helgason hafði tekið við formennsku sem varamaður við lát Jóns Leifs en var ekki kosinn formaður á aðalfundinum árið eftir. Á aðalfundi í mars 1970 var Jón Ásgeirsson einróma endurkjörinn formaður.

Um þetta leyti urður STEF menn ráðríkari með hverjum deginum og kom að því að Jóni Ásgeirssyni þótti nóg um völd þeirra. 1969 voru því stjórnir þessara félaga aðskildar og fékk STEF stjórn óháða Tónskáldafélaginu. Leiddi þetta til þess að Jón sagði embætti sínu lausu sem formaður Tónskáldafélags Íslands. Ástæðan var sú að "sem stofnun [þ.e.] T.Í [sé] orðin nær algjörlega háð STEFi og [eigi] undir högg að sækja með allar ákvaranir, enda hef ég verið á ýmsan hátt minntur á þetta af mönnum, sem telja sig sjálfskipaða eigendur fyrirtækjanna og forsvarsmenn ísl. tóndkálda." Við formennsku af Jóni Ásgeirssyni tók Atli Heimir Sveinsson sem hafði verið varaformaður.

Hugur manna til framkvæmda jókst í byrjun áttunda áratugarins. Nýjir menn voru komnir til áhrifa og verður á engan hallað þó nöfn Atla Heimis Sveinssonar og Þorkels Sigurbjörnssonar sé nefn í því sambandi. Strax á fyrsta fundi Atla sem formanns lagði hann ásamt Þorkeli fram tillögur þess efnis að Tónskáldafélag Íslands kannaði þá möguleika að næasta ISCM tónlistarhátíð yrði haldin í Reykjavík og um leið alþjóðaþing tónskálda. Þar sem þessi viðburður var nokkuð einstakur í sögu félagsins er rétt að gera nánari grein fyrir honum hér.


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998