Ritdómur Jónasar Jónssonar
Vefurinn um sr. Bjarnaum Þjóðlagasafn sr. Bjarna Þorsteinssonar22. jan. 2002

Um þjóðlagasafnið I

Tímaritið Ingólfur, 14 júlí 1910

Þjóðlagasafn séra Bjarna Þorsteinssonar er mikil bók og vönduð að öllu frá hendi útgefanda, en það er Carlsbergsjóðurinn í Kaupmannahöfn. Bókin er 955 bls. í stóru 8 blaða broti. Í henni eru nál. 480 lög tekin eftir handritum og prentuðum bókum, auk Þorlákstíða, sem söngur bókarinnar byrjar á. Nálega jafnmikið er svo síðar í bókinni af lögum, sem höfundurinn hefir safnað frá ýmsum mönnum eða skrifað upp eftir því sem þau hafa verið sungin fyrir honum. Væri þetta allt íslenzk þjóðlög, mætti ætla að vér hefðum þó einhverntíma kunnað að raula, því svo mörg þjóðlög getur sjálfsagt ekkert annað land í heiminum talið sér. Þjólög kalla menn ekki nú á tímum önnur lög en þau, sem enginn veit höfund að, en sem þó hafa þekzt lengi og fengið einhvern sérkennilegan blæ í einhverju landi og ekki verða rakin til uppruna hjá annari þjóð.

Flestir þjóðlaga safnendur hafa haft mikið fyrir að safna þeim og rannsaka þau, og aldrei geta safnað að eins fyrir sína eigin þjóð. Heldur jafnframt orðið að taka þjóðlög nágranna þjóðanna líka og rannsaka svo safn sitt á eftir. Hið fyrsta reglulegt þjóðlagasafn, sem út hefir verið gefið er eftir Fredrich v.d. Hagen, það eru þýzk, flæmsk og frönsk þjóðlög prentuð 1807. Síðan fóru menn víða að safna þjóðlögum og merkust söfn þessara manna eru: Hjá Þjóðverjum eftir Hagen (safn er seinna var gefið út í 5 bindum), Silcher, Erk og Böhme. Í Austurríki og Ungarn safnaði Aug. Hartmann. Á Frakklandi J.G.Weckerlin og J. Tiersot (safn hans prentað 1903). Í Svíþjóð og Noregi Ahlström, Afzelius og L.Lindemann. Í Danmörku A.P Bergreen og í Schweiss Ignas Heim. Allir þessir menn hafa ritað greinileg þjóðlaga söfn, en náttúrlega allir haft eitthvað til að byggja á áður en þeir byrjuðu. En með séra Bjarna er öðru máli að gegna, hann hefir svo sem ekkert til að byggja á þegar hann byrjar, er ókunnugur því sem rannsakað hefir verið erlendis á síðari tímum og yfir höfuð ekki nógu lærður söngfræðingur til að búa svo þjóðlagasafn úr hendi að það sé vel viðunandi. En þökk hafi hann fyrir verkið samt, og hver okkar íslendinga mundi hafa gert það betur, og það þótt vér værum ofurlítið nær menningarstraumnum en hann.

Vér skulum nú setjast niður hjá séra Bjarna norður á Siglufirði og skoða draslið, sem hann hefir hrúgað saman í kring um sig.

Bókina hefði hann ekki átt að kalla Íslenzkt þjóðlagasafn, heldur Safn til söngsögu Íslands. Í henni er efni (materiale) ósundurliðað og órannsakað.

Fyrst (bls. 1-81) er inngangur bókarinnar og er þar greinilega oss skemmtilega sögð söngsaga Íslands, og gaman er að vita hvaða karlar tóku hæsta og dýpsta tóna í Grallaralögunum. Við þennan kafla er fátt að athuga, þó felli ég mig ekki við skýringuna á orðinu „Psaltari “ – og hygg ég fremur að það þýði nótnalaust sálmabók heldur en kóralbók. En annars er Psaltari venjulega haft um Davíðssálma, sem í katólskri tíð hafa sjálfsagt verið látnir liggja á ölturum hér í kirkjum eins og annars staðar og skrifaðir á latínu. Þeir voru allt af sungnir í katólskri tíð og höfum vér enn nótur við þá í katólskum söngbókum.

Á bls. 43 skýrir höf. Frá Guðbrandssálmabók Hólabókinni, sem kölluð hefur verið í seinni tíð, og segir, að hún hafi verið notuð hér nær því óbreytt í meira en 200 ár. Þetta er ekki rétt; sú bók var að eins prentuð tvisvar, 1589 og 1619. Hinar síðari sálmabækur 17. og 18. aldarinnar eiga ekkert skilt við hana nema nafnið, að heita sálmabækur, og að nokkrir sálmar úr Guðbrandsbók eru á víð og dreif teknir inn í þær. Sálmabókin sem hann minnist á frá 1772 (Höfuðgreinabókin) er í rauninni ekki sérstök sálmabók, heldur síðari partur sálmabókar, sem byrjaði að koma út 1771 og hefir það þess vegna tvö titilblöð. Á blaðsíðu 458 minnist höf. aftur á þessa bók, (Höfuðgreinabókina) og segir þar (og enda víðar) að hún hafi verið kölluð „Prestavilla“. Þetta er ekki heldur rétt. Sú bók sem kölluð var Prestavilla er ein af útgáfum Grallarans, sem prentuð var í 8vo á Hólum 1742, aftan við hana eru Collectur, pistlar og guðspjöll. Þessa bók nefnir höf. ekki í riti sínu og hefði hann þó átta að geta hennar eins og annara bóka sem nótur hafa.

Ofmikið þykir mér höfundurinn gera úr aðstoð Odds biskups við útgáfu Grallarans. Þar vann Guðbrandur aðallega einn að með aðstoð norðlenzkra presta, eins og var með útgáfu Sálmabókarinnar 5 árum áður. Hann sendir Grallarahandritið Oddi biskupi til yfirlesturs og biður hann að skrifa formála, auðsjáanlega, með því markmiði að bókin fái betri viðtökur og meiri útbreiðslu í Skálholtsstifti, en þar hafði sálmabók Guðbrands ekki haft mikla útbreiðslu. Á þetta benda líka orð Odds biskups er hann ritar í formála Grallarans og hvetur presta sína til að taka upp í kirkjum Grallara þann, sem Guðbrandur hafi látið prenta og þýða sálma úr dönsku og þýzku, en láta af tvídrægni þeirri sem áður hafi verið í stiftinu. –

Ekki skil ég hvað höf. á við á bls. 45, þegar hann minnist á söngkenslu í Hólaskóla og Skálholtsskóla þar sem hann segir: „Ekki er hægt að sanna, að annar söngur hafi verið kendur þar en sálmasöngur Grallarans og hátíðasöngur sá, sem þar er nóteraður og að miklu leyti er tekinn úr Breitendichs Kóralbók“. – Hér liggur beint fyrir að ætla, a höfundurinn skoði svo sem hátíðasöngur Grallarans sé tekinn upp úr Breitendichs Kóralbók, en sú bók var prentuð 1764, svo það getur ekki átt sér stað, að það sé rétt. Líklegt er að höf. meini hér Jespersens Graduale sem út kom 1573, þó ég sé ekki fyllilega þeirrar skoðunar, að Grallarasöngurinn sé tekinn þaðan, og mundi meiga finna rætur til hans annars staðar frá ef langt væri leitað. Annars koma fleiri slíkar villur í bókinni, sem manni verður næstum óskiljanlegt hvernig slæðst hafa þangað, t.d. á bls. 577, er höf. segir að Bjarni Thorarensen hafi ort vísuna „út á djúpið hann Oddur dró“, sem flestir vita þó að er eftir séra Stefán Ólafsson í Vallanesi.

Um þjóðlagasafnið II

Framhald – Ingólfur 21. júlí 1910

Svo ég víki nú til inngangsins aftur þá er eitt atriði á bls. 51, sem mér þykir höf. vera of djarfmæltur um. Þar segir hann um séra Odd á Reynivöllum: að hann hafi snúið Davíðs sálmum eftir frumtextanum í íslenzka sálma nóteraða með óþektum lögum, eða með öðrum orðum „búið til lög við Davíðssálma“, því nokkru síðar í bókinni sannar sér Bjarni alveg óvart og óafvitandi (eins og hann segir um Mascagni, er honum finst hann hafa dottið ofan á tónana úr „Stássmey sat í sorgum“ bls. 530) einmitt hið gagnstæða. Séra Oddur virðist hvorki hafa snúið sálmunum eftir frumtextanum , né heldur búið til lögin sjálfur. Hann hefir þýtt „Franska reformeraða Psaltarann“, sem kallaður er, en líklega þó að mestu, eða öllu leyti farið eftir þýðingu Asmbros. Lobwassers og haft við þá hin upprunalegu frönsku lög, sem mörg eru eignuð Glaude Goudimel og öll raddsetti hann þau og lagði aðalröddina í tenórinn (cantus firmus).

Þetta er ekki ómerkilegur fundur í bókmentasögu vorri og óvíst hvenær hann hefði komið fram í ljósið, ef séra Bjarni hefði ekki ritað í bókina, að minsta kost mundi ég ekki hafa náð í þessa rúsínu þá.

Þýðing Lobwassers á Franska Psaltaranum er fræg um allan meginhluta Norðurálfunnar, ekki þó fyrir fagra meðferð á efninu því hann var ekki skáld og þýðingin er stirð, heldur af því að söngbók þessi varð aðal-söngbók allra Lúterska safnaða á Þýskalandi meira en 200 ár og sálmarnir þýddir á flest mál Norðurálfunnar, þar sem lúterskir eða „reformeraðir“ söfnuðir voru, því þeir tóku höndum saman með þessa bók. Þó veit ég ekki til að þeir hafi verið prentaðir sem heild í danskri þýðingu, en nokkurri þeirra eru í Kingos sálmabók. Ekki vissum vér heldur að þeir hafi verið þýddir á íslenzku fyrri en nú að séra Bjarni finnur þá í Melodia, handriti Rasks safni nr. 98 8vo. Þar eru nokkrir þessara sálma með sínum frumlögum og meira að segja ekki þeim algengustu.

Þá kemur til nótnanna í bókinni og eru þar fyrst Þorlákstíðir og fleiri latínskir söngvar á bls. 82-206. Ekki heyra messur þessar né söngvar til neinu þjóðlagasafni; hefði því heldur átt að taka það sem nýtilegt var í þessum kafla í sérstaka bók, ekki þó með nútíðar rithætti á nótunum, heldur gömlum Grallaranótum (Kóralnótum). Messunótur er varla hægt að fara með, ef þær eru settar með vanalegri nútíðar gerð nema því meiri nákvæmni sé fylgt og annars efasamt hvort það er mögulegt. Í gamla stílnum eru svo margar táknanir um áherzlu og hraða, sem ekki er hægt fyrir aðra en sérfræðinga að syngja rétt, ef nótur og lyklar er fært í nútíðar búning.

Ég segi fyrir mig, að ég get ekki fengið gamla katólska messu út úr því, sem hér er á pappírnum og ætla ég því að lofa þeim sem betur kunna að fara með helgar tíðir, að gleðja sig á þessari Þorláksmessu. Líklega er textinn frumsaminn hér og máske eitthvað af tónunum líka, en rómverskt er lagið við fyrstu antifónuna og fer mann þá að gruna að svo muni vera við fleiri. Þar á móti er niðurlags söngur messunnar á bls. 115 sjálfsagt allur ortur hér og hefur séra Bjarni ekki vel borið verið „A solis ortus cardine“, saman við sálm Seduliusar, því að eins byrjunarstefin eru samhljóða (sjá Königsfeld: Hymnet und Gesänge I bls. 53), og verður þá hjá höf. hausavíxl á því sem hann telur innlent og útlent.

Fremur eru skinnhandritin, sem höfundurinn tínir dæm úr ómerkileg ísl. söng, og sum líklega nokkuð yngri en getið er til; að minsta kosti er ekki sennilegt, að handr. AM. 622 4to (bls. 131) sé frá 1550. Það getur varla verið eldra en frá 1600 ef það er skrifað hér á landi. – og hvers vegna?– Vegna þess að höf. kemur þar með sýnishorn af latínskum lofsöng: „Jesus Christus nostra salus.“ Þetta er byrjunarvers á sakramentissálmi Jóh.s Húss. Lúter þýddi þennan sálm, en breytti bæði efni hans og lagi, sem líka er eignað Jóh. Húss og er sú þýðing Lúters alkunnug frá fyrst söngbók hans Enchiridion 1524. Latínska frumsálminn sungu Bæheimsbræðurnir, og var hann síðar tekinn upp í katólskan söng. Í Leisentrits katólsku söngbók er hann fyrst 1584 og kallaður ljóð Jóhannesar Húss og þar tekið fram: að þótt Húss væri villutrúarmaður, hefði hann þó verið samdóma katólskri skoðun um altarissakramentið (sbr. Bäumker I bls. 712) Ekki hefi ég neinstaðar séð lagið komast niður á „litla a“ í niðurlagi I. hendingar nema hér í Þjóðlagasafninu, en að öðru leyti er það líkt og hjá Leisentritt, en hann segist fara nær frumlaginu en Lúter.

Í Hólabókunum og Grallaranum, er þýðing á Lúters-sálmi „Jesus Christs er vor frelsari“ en nafn latínska sálmsins vantar þar, svo það lítur næstum svo út sem Guðbr. Biskup hafa ekki þekt hann, og er hann þó vanur að rekja til latínskra sálma það sem hægt er.

Margt hefir síra Bjarni rekið augun í, en ekki rannsakað nógu nákvæmlega. Á bls. 189 kemur hann með brot úr Grallara Snorra Sturlusonar. Víða var nú Snorri heima, en ekki hefir hann verið frumlegur í kirkjusöngnum, - það sýnir söngbrotið sem tekið er. Það er gamall katólskur tíðasöngur á mánudaginn í Dymbilviku (Feria secunda Majoris hebdeomadæ) með sínu frumlagi, sem finna má í Graduale Romanum.

Um þjóðlagasafnið III

Framhald – Ingólfur 28. júlí 1910

Víða í bókinni eru óþarfa skýringar og endurtekningar, sem lengja hana að mun; en sýna jafnframt að höf. er hvorki nótu fróður né nákvæmur. Á bl.s. 158 minnist hann t.d. á Handr. A.M.102 8vo og tekur þaðan tvö byrjunarvers á sálminum: „Gæskuríkasti græðari minn“, og „Ó þú guðsbarna geymarinn“. Þessir báðir sálmar eru svo alkunnir, að þeirra þurfti ekki að geta hér. Hinn fyrri er nálega í öllum sálmabókum 17. og 18. aldarinnar og alstaðar 14 vers nema í Höfuðgreinabókinni, þar er hann 23 vers, en þess er ekki getið. Síðari sálmurinn er líka í hinum sömu bókum og auk þess í öllum sálmabókum 19. aldarinnar nema þeirri allra nýjustu, er vér höfum nú og hafði höf. átt að skýra frá því líka úr því hann fór að minnast á sálmana. Góðir þjóðsöngvafræðingar skýra annaðhvort frá öllu, sem þeir þekkja og svo nákvæmlega sem unt er, eða sleppa öllum skýringum.

Á bls. 206-408 eru lög úr ýmsum yngri handritum, aðallega þó tveimur: Melodía og Hymnodía. Það eru sjálfsagt góð handrit en algerlega óransökuð og það þótt lögin séu komin með sýringum séra Bjarna í Þjóðlagasafninu. Maður getur ekki reitt sig á að það sé íslenzkt, er hann kallar íslenzkt af því maður rekur sig þar á svo mörg útlend lög og það jafnvel úr algengustu bókum, sem höf. vitnar þó til annars staðar (t.d. Tucher). Annars er merkileg setning efst á bls. 207 þar sem höfundurinn gerir grein fyrir því hvað hann kallar ísl. þjóðlög er hann lýsir „Melodía“ bók sem kölluð er: Nokkrir útlendir tónar með íslenzkum skáldskap; þar segir hann : „…. er það ætlun mín að meiri hluti laganna sé innlend lög, og þau lög sem ef til vill hafa getað talist útlend lög þegar handritið var skrifað eru orðin innlend nú“. – Eftir þessari reglu ætti allt að vera innlent, sem hingað hefir borist. Það er náttúrlega alinnlend sú merkilega melodia: „Númi hvítum hesti reið“, sem svo meistaralega er sett saman úr lögunum: „Í dag eitt blessað barnið er“ og „Mikli drottinn dýrð sé þér“ (Te deum P. Ritters). Skemtilegar verða Númarímur þegar farið er að syngja þær með nýju lögunum.

Ólíklegt er að Dr. A. Hammerich hafi ekki orðið var við eitthvað af útlendum lögum í bókinni ef hann hefir farið vandlega yfir handritið. En hann minnist ekki heldur á, að lögin séu íslenzk. Í vottorði því sem hann hefir gefið um bókina kallar hann það safn (Melodiesamling) og efni (Materiale) sem beri vott um iðni að safna (Samlerflid). Þetta eru aðal-áherzlu orð Dr. Hammerichs og þau eru rétt. Séra Bjarni er góður að safna, en miður fær um að raða niður og ekki alstaðar nógu vandvirkur nótnalesari; það sýnir lestur hans á sumum lögum, er hann tekur úr handritum og vitnar til prentaðra bóka, Hólabókarinnar, Grallarans og Höfðugreinabókarinnar og segir að lögin séu eins og í þeim bókum. Verið getur að sumstaðar séu það prentvillur, sem láðst hefir að geta, en naumast er það alstaðar, því ganga verður maður út frá því að lögin séu tekin stafrétt úr bókum eða handritum þegar ekki er annars getið. Að lækka há í lydiskri tóntegund og hækka mixolydiskt f er hér hverjum manni þó leyfilegt, ef gera þarf lagið söngrænt (diatonsk), en venjulega er þá tónflutningsmerkið sett á milli línanna yfir þeirri nótu sem hækka skal eða lækka. Venjulegt er líka í gömlum bókum að hafa b fyrir framan lagið ef tákna skal linan söng (cantus mollis) og þeirri reglu fylgja víst flestir sem rita upp gamlan kirkjusöng. Svo ég slái því ekki fram án sannana, að lög séu ekki rétt lesin skal ég að eins nefna eitt einasta dæmi, en þau eru þó fleiri. Það er lagið : „Einn guð skapari alla sá“ (bls. 446), þar sem hvorki nótur né takt rétt lesið eftir Grallaranum og er taktinn þó þrískiftur eins og á að vera, en nótnagildum ekki rétt raðað niður. Í gömlum kirkjusöng (choral) kemur varla fyrir að lag byrji á rírum takthluta og eigi því þrjár fyrstu nóturnar að vera saman í einum takti, ein gild og tvær rírar. Annars hefði verið réttast að hafa elztu lögin án taktstrika, en að eins með hendinga-skilum eins og er í gömlu bókunum.

Við niðurröðun í safni sínu hefði höf. átt að láta lög úr eldri prentuðum bókum sitja í fyrirrúmi fyrir lögum yngri handrita. Hólabókina 1589 hefði hann átt að leggja til grundvallar og svo aðrar prentaðar bækur eftir tímaröð og hefði þá mátt fá nokkurn vegin greinilega vissu um sálmalög vor, hvenær þau hafa borist hingað og hvaðan þau væru komin. Síðan átti hann að bæta inn í safnið þeim lögum sem hann fann í þessum yngri handritum og hann áleit að væru innlend eða þess verð að komast þangað. Auðvitað átti hann þó að grenzlast fyrir um uppruna þeirra laga, sem hann var í vafa um og leita þeirra í útlendum bókum, einkum þýzkum. Kirkjulög vor eru líklega eins og annars staðar í lúterskum söfnuðum flestöll komin frá Þjóðverjum og er því merkilegt að höf. skuli svo sjaldan vitna til þýzkra bóka og veit hann þó líklega að á þeim má fullkomlega byggja, því engir hafa jafn nákvæmlega rannsakað söngsögu sína eins og Þjóðverjar. Að vísu vitnar höf. Til Tuchers á 6 stöðum en ég efast þó um að hann hafi nokkurn tíma litið bókina, því þaðan nefnir hann ekki önnur lög en þau sem Pétur Guðjónsson hefir fundið þar og er ljóst dæmi þess í opnunni bls. 422-423. Þar eru tvö lög: „Guð þann engil sinn Gabriel“ og „Endurlausnari vor Jesú Krist“. Bæði þessi lög eru hjá Tucher, en ekki er þess getið nema við það síðara, en það kemur höf. líka með svo lærða skýringu og nákvæman samanburð að mann fer næstum að svima, því hann nefnir ekki færri en níu útgáfur af þessu lagi; eina í grallaranum, svo hjá Tucher, Breitendich, Kittel, Kluge, Spangenberg o.fl. En þegar maður gætir betur að er þessi lærða skýring hin sama og hjá Pétri Guðjónssyni í einrödduðu bókinni hans 1861 og einmitt við þetta sama lag. Hér var þó ofurlítil ástæða til að víkja dálítið frá heimildarröðinni og raða þeim eftir aldri og nefna Klug fyrstan svo Spangenberg, Breitendich, Kittel og Tucher síðastan því það er rétt aldursröð þessara höfunda.

Um þjóðlagasafnið IV

Framhald – Ingólfur 5. ágúst 1910

Ég ætla nú að minnast dálítið á prentuðu bækurnar okkar og lög þau, sem þaðan eru tekin og höfundur Þjóðlagasafnsins álítur innlend, en sem ég er því í engum vafa um að séu útlend. Þó yrði of langt mál að nefna öll þau lög sem ég hef fundið í útlendum bókum og ætla ég því aðallega að benda á þau sem höf. segist hvergi hafa fundið í útlendum bókum en sem eru í þeim bókum, sem hann vitnar til, en þær bækur eru: Jespersen Graduale; Tucher: Schats de evangel. Kirchensags og Kóralbækur þeirra Lunds og Lindemanns, sem þó er næstum hlægilegt að minnast á við þjóðlagarannsóknir nema ef sýna á hvað lögin séu algeng er þau finnist þar.

Fyrst er þá að minnast á Hólabókina 1589, sem er elzta söngbók vor og svo vönduð að öllum frágangi, að hún stendur ekki að baki mörgum útlendum einrödduðum söngbókum frá þeim tíma. En þetta virðist þó höf. Þjóðlagasafnsins ekki vilja viðurkenna, það að hann segir svo um hana (bls. 408) „að nóturnar í þessari bók séu mjög ógreinilegar og að meira og minna vanti aftan af flestum lögnum“ og nefni hann svo tvö lög, og vanti fjórar nótur (reyndar eru þær þrjár) aftan af því fyrra og 11 af því síðara, „þannig sé með flest lögin“. Þetta er harður dómur um geimstein íslenzkra söngbóka sem ég vil þó kalla hana. Í Hólabókinni 1589 eru 96 lög og vantar nokkrar nótur aftan af 11 lögum, en sem hver maður getur þó fundið rétt ef hann þekkir tóntegundina. Þetta sýnir hvað höf. Þjóðlagasafnsins er ónákvæmur, er hann kallar 11 lög flest af 96. Úr þessari bók tekur hann svo svo fjögur lög sem hann hefir ekki fundið annarstaðar en þau eru útlend. Fyrsta lagið: „Englasveit kom frá himnum há“ (Vom Himmel kam der Engel Schar) er í eldri bókum og lagið upphafl. eitt af Ambrosiönsku lofsöngslögunum. Tvö næstu lögin: „Ó herra guð í þínum frið“ og „Hallelúja syngjum“ eru bæði í Jespersens Graduale; hið fyrra bls. 117 og hið síðara á bls. 120 og kallað Hallelúja í sveitakirkjum. Fyrra lagið er ofurlítið breytt vegna rímsins og þarf þó ekki mikla rannsókn til að finna að það er í rauninni er sama lagið og „Héðan í burt með friði' ég fer“ sem er yngri þýðing á sálminum og lagið hjá Tucher nr. 214. Fjórða lagið sem tekið er úr Hólabókinni 1589: „Vakna og vel þín gætir“ er líka þýzkt að uppruna og hjá Joach. Liest 1586 bls. 222 við sálminn :„Wenn Christ der Herr wird kommen“ en setur þó sem lagboða: „Wach auf ihr Christen alle“ sem er sálmur Hólabókarinnar. Svona er með þessi fjögur lög sem höf. Tekur, þau eru öll útlend.

Þá er Hólabókar útg. 1619. Úr þeirri bók tekur höf. 15 lög og getur þess að sú bók sé miklu betri og fullkomnari en sú fyrri. En munurinn er sá, að lögin eru þar heil og enda auðlesnari af því f-lykillinn fylgir þar vanalega c-lyklinum. Af þeim 15 lögum sem tekin eru úr þeirri bók eru 9 í eldri útgáfunni (1589). Fjögur af þessum lögum eru í bókum sem höf. vitnar til. Í Jespersens Graudale bls. 119 er „Jerúsalem guðsbarna borg“ og hin þrjú hjá Tucher: „Á guð trúi ég þann“. Nr. 444, „Banvænn til dauða borinn er“ nr. 441 og „Guð skóp Adam als réttlátan“ nr. 104.

Úr 1. útg. Grallarans tekur höf. 7 lög, sem öll eru áreiðanlega útlend þó sum þeirra finnist ekki hjá Tucher. Lögin eru þessi: 1 „Guð þann engil“ 2. „Endurlausnarinn vor Jesú Krist“ (Jesp. Grad. Bls. 187; Tucher nr. 163). 3. „Guðs son í grimmu dauðans bönd“ (Jesp. Grad. Bls. 205; Tucher nr 294; Lindemanns Koralbog nr. 9 og Lundh’s Koralbok nr. 103). Lag þetta er enn í dag nálega í öllum kirkjusöngsbókum, allra kristinna safnaða nema Íslendinga og þjóðlag næstum allra menningaþjóða nema Íslandinga. – 4. „Hæsti guð herran mildi“ er ekki hjá Tucher en það er í þýzkum bókum við sálminn: „O reicher Gott in Throne“, hjá Babst 1545, Spangenberg 1582, Wolder 1598 o.fl. – f. „Lofið guð í hans helgidóm“ er lag eftir Burkard Waldis og í söngbók hans 1553 á 30. blaði við sálm eftir hann sjálfan: „Wann undse Oberkeit in Noth“, en í öllum síðari Þýzkum bókum er það við sálminn: „Lobt Gott in seinen Heiligthum“, sem líka er eftir B. Waldis. – 6. „Krists er koma fyrir höndum“ er hjá Tucher nr. 316. – 7. „Ó guð vor faðir sem í himnaríki ert“ finnst ekki í þeim bókum sem höf. vitnar til en þýzkt er það líka, og ætla ég nú að leyfa mér að taka upp skýringar þeirra Pétur sál. Guðjónssonar og höf. þjóðlagasafnsins að þessu gamla grallaralagi. Í Þjóðlagasafninu er skýringin þessi:

„Þannig er lagið í 1. útg. Grallarans og í bók Guðjohnsens (1861), enda segist hann ekki hafa fundið það annarsstaðar en í Grallaranum og í Hólabókinni (1619); (í bókinni frá 1598 er það ekki). Lagið er mjög svipað í bók Ara Sæmundsens (1855) og er það þar í frýgiskum g-moll.“

Skýring Péturs Guðjónssonar er þannig: „Finnst ekki annarsstaðar en í grallaranum og Hólabókinni, og þó mun þetta lag eldra en frá siðabótinni, þar sem sálmurinn þegar er í Hólabókinni 1589, og þar eignaður Lúther. Hjá Tucher er hvorki sálminn né lagið að finna, og liggur þannig næst að vefengja Hólabókina um það að sálmurinn sé eftir Lúther, því fremur sem honum er eignaður annar sálmur sama efnis, nefnilega : „Faðir vor, sem á himnum ert.“

Þessi skýring Péturs Guðjónssonar er hárrétt. Sálmurinn er í Hólabókinni 1589 og eignaður Lúter, en eins og hann getur til er sálmurinn þó ekki eftir hann, heldur upprunalega katólskur og er höfundur hans Ambrosianus Moibanus, en óbreyttur var sálmurinn síðar tekinn upp í lúterskar bækur og er hann þar fyrst hjá Kugelmann 1540 með því lagi sem vér höfum. Áður var eldra lag við sálminn, sem fyrst er prentað í Zwickau’s söngbók 1525. Bæði lögin eru alkunnug í katólskum bókum (sbr. Bäumker II. Bls. 217-220). Í þessu lagi grallarans er annars merkileg breyting í niðurlagi 10. hendingar þar sem nótnaröðin er „d c h c“ því þessi breyting er hin sama og fyrst kemur fyrir í Elers-söngbók 1588, og eru enda fleiri lög t.d. „Mitt hjarta hví svo hryggist þú“ o.fl., sem benda á að Guðbrandur biskup hafi þekt þá bók eða haft einhver kynni af Fr. Eler sem var söngstjóri í Hamborg. Hvorugur P.G. og B.Þ. hafa annars skrifað þetta lag alveg rétt upp úr Grallaranum, og hefir P.G. auðsjáanlega gert breytinguna með vilja til að fylgja nýrri tískunni. Dr. Joh. Zahn suður í München hefir kunnað betur að fara með lagið, því þar er það nótu fyrir nótu eins og í grallaranum, og hefir hann þó farið eftir öðrum bókum.

Um þjóðlagasafnið V

Niðurlag – Ingólfur 11. ágúst 1910

Þótt ég þykist nú hafa tínt til nægilega mörg dæmi, er sýna að ekki má vel reiða sig á það sem höf. segir um uppruna sálmalaga vorra, að þau séu íslenzk, þá ætla ég þó að nefna nokkur enn, er hann tekur úr hinum yngri útg. Grallarans, þó mörg þeirra séu reyndar í Hólabókunum eldri.

Úr síðari útg. Grallarans tekur hann 26 lög, sem ég hygg þó að sanna megi að öll séu útlend nema eitt: „Upp á fjallið Jesús vendi“. Ég ætla að eins að minnast á lög þau sem finnast í bókum þeim, sem höf. vitnar til, en verð þó að nefna fyrsta lagið líka: „Kriste vér allir þökkum þér“, þótt það sé ekki í þessum bókum. Þar sem höf. minnist á þetta lag (bls. 430), þykir mér hann fara of hörðum orðum um Pétur Guðjónsson, er hann segir: „… En það vantar mikið á að hann (P.G.) hafi nóterað það rétt upp úr grallaranum; hann hefir sem sé hér sem oftar, þegar um íslenzk þjóðlög var að ræða algerla misskilið hina lýdisku tóntegund“. En hvað hefir Pétur Guðjónsson þar gert fyrir sér? Hann tekur ekki lagið lýdiskt, heldur hefir hann viljandi flutt það í d-dúr, til þess að koma því í betri nútíðarbúning og meira samræmi við önnur lög í bókinni sinni, því hann fylgdi stefnu þeirra Bergreens og Lindemanns eins og tíðarandinn var þá (1860) í Danmörku og Noregi. Annars er það merkilegt að höf. Þjóðlagasafnsins, sem er svo vandlætingasamur við Pétur Guðjónsson skuli ekki sjálfur skrifa lagið rétt upp úr Grallaranum; hann breytir laginu líka svo maður fer að ímynda sér að það muni ekki vera heiglum hent að eiga við þetta lag. Annars er lagið ekki fremur íslenzkt þjóðlag heldur en önnur þau sem talin hafa verið. Það er í mörgum eldri og yngri þýzkum bókum og víst víðast mixolýdisk, byrjar og endar á g en hefur fís (leiðitón). Fyrst er það hjá Wolff 1569; í söngbók Elers og víðar. – „Í dag er kristur upprisinn“ er hjá Tucher nr. 26, en í öðrum bókum er það þó líkara lagi Grallarans. – „Lifandi guð þú lít þar á“ er í Jespersens Graduale bls. 304 og hjá Tucher nr. 236; annars er lag þetta eitt af elztu Lútersku lögunum, sem kölluð eru og er það í Enchiridíon 1524 nákvæmlega eins og í Grallaranum að öðru en því, að b er ekki fyrir laginu, en það á að vera því lagið er „cantus mollis“. Annað lag sem höf. nefnir í skýringu við þetta lag: „Mildi Jesú sem manndóm tókst“ er líka nálega jafngamalt og hjá Joh. Walter, 1524; það er líka í Jesp. Graduale bls. 110 og hjá Tucher nr. 234 og er því undarlegt að Pétur Guðjónsson skuli ekki hafa fundið það annars staðar en hjá Breitendich. – „Kært lof Guðs kristni altíð“ er í Jesp. Graduale bls. 309, bæði sálmur og lag. –„Svo vítt um heim sem sólin fer“ er að vísu hjá Tucher nr. 40, en talsvert ólíkt, en þar á móti er það nákvæmlega eins og í Grallaranum í Leisentritts katólsku söngbók 1567; þar er líka lagið: „Af föðurs hjarta barn er borið“ (corde natus ex parentis), en sjálfsagt eru þessi lög þó til vor komin úr lúterskum bókum, enda munu þau vera í Söngbók Klugs 1535. – „Ó herra guð oss helga nú“ er hjá Tucher nr. 74. - „Þann signaða dag“ –„Sá frjáls við lögmál fæddur er“ líka hjá Tucher nr. 32. - „Mitt í lífi erum vér“ finst nokkuð víða þótt höf. hafi ekki fundið það nema í Grallaranum og Höfuðgreinabókinni. Það er hjá Tucher nr. 431, í Lindemanns Koralbog nr. 86 og Lundhs Koralbk nr. 26 og fjölda mörgum bókum öðrum því það er enn í dag, næstum óbreytt eitt hið almennasta líksöngslag nálega um allan heim.

Á bls. 486-487 nefnir höf. 24 lög úr hinni einrödduðu söngbók Péturs Guðjónssonar, sem hann telur fulla ástæðu til að telja innlend af því P.G. hafi ekki fundið þau í útlendum bókum. Fullur helmingur þessara laga þori ég að fullyrða að eru útlend og lítið sem ekkert breytt, enda segir Pétur Guðjónsson um mörg þeirra að þau muni vera útlend. Eitt lag – en ekki nema eitt – hefir höf. Þjóðlagasafnsins þó fundið í eftirleit eftir Pétur Guðjónsson og það var í Lundhs Kóralbók. Heldur hefði höf. þó átt að vitna þar til eldri bóka því lagið (Jesús sem að oss frelsaði) er líka í Tucher nr. 345, og mörgum öðrum bókum. Ekkert lag er tekið úr þessari bók en úr þrírödduðu söngbókinni tekur hann lagið „Kom skapari heilagi andi“ og er ég samdóma höf. Um að breytingin sem þar er frá eldra laginu sé íslenzk og að vér eiginlega getum talið það íslenzkt þjóðlag, og eldra er það líka en frá tíð Péturs Guðjónssonar. Benedikt Jónsson á Auðnum gefur rétta skýringu um lagið (bls. 583), enda hlýtur hann að vera skýr maður í söng og bera ljóslega vitni um það lög þau, sem hann hefir sent til Þjóðlagasafnsins. Hann hefir auðsjáanlega gert sér far um að læra lögin rétt og nótera þau rétt. Annað mál er það hvort þau eru öll innlend.

Ég hefi nú nokkuð farið yfir fyrri hluta bókarinnar, en aðallega þó sálmalög þau, sem tekin eru úr hinum eldri prentuðum bókum vorum og sem mér þykja vera rakin of skamt til uppruna síns. Fjöldamörg önnur lög má og rekja til útlendra bóka. Síðari hluta bókarinnar hefi ég lítið kynt mér og óvíst að ég geri það nokkurn tíma, því ég hef litla trú á því, sem skrifað er upp eftir ýmsum; þar er oft hætt við að hver syngi með sínu nefi og að sama lagið sé í rauninni ekki eins hjá öllum, og enda þótt það sé rakið í þriðja eða fjórða lið til Guðrúnar dyllihnúðu eða einhvers annars söngvara; tónaröðin getur breyzt í meðferðinni hjá þeim sem borið hafa hljóðið og víst er það, að mörg lög hafa þannig afbakast í meðferðinni, sum máske lagast og önnur líka orðið mesta afskræmi; til þess eru mörg dæmi hjá öðrum þjóðum og ekki ólíklegt að eins sé hjá oss. Höf. Þjóðlagasafnsins hefði átt að sleppa ýmsum heimildum sínum og fara meira eftir sínu eigin höfði og nótera lögin eins og hann kunni sjálfur eða fanst þau verða þjóðlegust. Slík heimildar nöfn eins og Árni gersemi, Gísli matur, Guðmundir póli, Guðrún dyllihnúða, Jónas grjótgarður og Sigurður skeggi þykja mér ekki prýða bókina. Margir hafa þó sent lög, sem prýðilega hafa kunnað að fara með þau t.d. Benedikt Jónsson á Auðnum, Rannveig Sigurðardóttir á Prestsbakka, séra Sigtryggur Guðlaugsson o.fl.

Lagboðar, sem oft eru lausavísur og vers eru víða vel valin í bókinni, en sama er það og með lögin, heimildir eru ekki alsstaðar réttar og sum erindi afbökuð. Þannig er á bls. 909 hin alkunna vísa úr Þorlákskveri: „Vertu hér í vöku og blund“ kölluð lausavísa og látin byrja svo: „Ætíð veri vöku og blund“. Vísan er úr hinu fagra heilræða-ljóðabréfi séra Þorláks Þórarinssonar til unglingsstúlku, Guðrúnar Jónsdóttur og byrjar þannig: „Furðu lítið fræðakver fyrstu bókarmenta“ o.s.frv. Annars er eins og höf. hafi forðast að leita upplýsinga hjá sér fróðari mönnum og er því næstum undantekning, er hann vitnar til Dr. Jóns Þorkelssonar, sem víst er einn okkar allra fróðustu manna í því sem lítur að sögu vorri, en í mörgu er hann þó fróðari en sálmalögum vorum og sálmakveðskap (Hymnologi), en þar var séra Stefán sál. Thorarensen allra manna fróðastur og furðar mig því á að hans skuli varla verið getið í bókinni. Höf., sem byrjar að safna 1880 hefði þó hæglega átt að geta notið ráða hans og gera sér far um að kynnast honum, því þá var þó alkunnugt að hann var manna fróðastur hér um uppruna gamla kirkjusöngsins, þótt hann hallaðist fremur að hinni nýrri stefnu Dana og Norðmanna.

Ég býzt við að mörgum þyki ég hafa orðið of fjölorður um Þjóðlagasafnið og líklega ekki skrifað af nægilegri nærgætni um það og að mér þyki bókin lítilsvirði. En það er öðru nær, ég segi fyrir mig, mér þykir vænt um bókin, þó ég hefði óskað að hún hefðir verið betur úr garði gerð. Hún er spor í áttina til að ransaka hvað vér eigum og vekja oss til að gefa söng vorum og sögu hans meiri gaum en verið hefir, því hvergi stöndum vér meira að baki öðrum þjóðum en í söngþekkingu allri og er það þó undarlegt með oss, sem alt viljum nema, að vér skulum svo lítið hafa skeytt þeim vísindum sem fremst eru allra vísinda og list sem fremst er allra lista.

Ef bókin getur orðið til að vekja oss, þá á höfundurinn heiður og þökk fyrir hana.

Jónas Jónsson

VefstjóriVefurinn um sr. Bjarna22. jan. 2002© Músa