Forsíðadiskar24. jan. 2001 
English      
Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
 Fjórði söngur Guðrúnar  
Haukur Tómasson: 4. söngur Guðrúnar

CD-908 BIS 1998

Diskur þessi inniheldur tónlist úr óperunni Fjórði söngur Guðrúnar. Verkið var frumflutt á vegum OperaNord í skipakví í Kaupmannahöfn árið 1996, en það ár var borgin menningarborg Evrópu. Ári síðar var verkið hljóðritað í Víðistaðakirkju með söngvurum úr upphaflegu sýningunni, CAPUT hópnum og norska stjórnandanum Christian Eggen.

Verkið:
Texti er fengin úr Eddukvæðum og segir þar af Guðrúnu Gjúkadóttur og örlögum hennar. Um verkið hefur Anders Beyer, gagnrýnandi danska blaðsins Information, skrifað:

„1996 var sérstakt ár fyrir Kaupmannahöfn, þar sem höfuðborg Danmerkur hafði verið valin menningarhöfuðborg Evrópu. Fjöldi atriða var mikill- allt uppí 20 á dag telst mér til. Sum atriða menningarársins voru góð án þess að vera framúrskarandi, fáir listviðburðanna megnuðu raunar að segja sögur sem við ekki þegar þekkjum. Miðvikudaginn 24. júlí gerðist hið óvænta: Ópera Hauks Tómassonar Fjórði söngur Guðrúnar var frumsýnd í gamalli skipakví við höfnina. Kvíin er á hersvæði, sem var þar til nýlega var aðallega þekkt úr leynilegum KGB skjalasöfnum, fullum af gömlum og rykföllnum ljósmyndum sem teknar voru á örsmáar njósnamyndavélar og smyglað gegnum tollinn í diplómatafarangri.“

Íslendingurinn Haukur Tómasson hafði lengi unnið með danska leikmyndahönnuðinum Louise Beck, enska leikstjóranum Lucy Bailey, og danska rithöfundinum Peter Laugesen við að búa til nútímalegt tónlistarleikverk, sem túlkaði norrænar goðsagnir.

Yfirþyrmandi- betra orð finn ég ekki til að lýsa hinu metnaðarfulla verki Fjórða söng Guðrúnar, sem að mestu leyti er skapað og flutt af norrænum listarmönnum. Fornar íslenskar sagnir eru hér endursagðar með stolti af nýrri kynslóð listamanna.

Það var leikmyndahönnuðurinn Louise Beck sem fékk þá hugmynd að draga söguna um Guðrúnu og ætt hennar fram úr skjalasafninu. Gleymdar sögur Eddukvæðanna, skrifaðar niður á kálfskinn öðluðust nýtt líf í nýjum tíma fyrir tilstilli danska hönnuðarins. Þetta varð snilldarleg sýning, þar sem listgreinarnar mæta hver annari, þar sem gamli tíminn rekst á við þann nýja, þar sem hugmyndaheimar takast á í spennuþrunginni nánd ástríðu, girndar, endurlausnar gegnum þjáningu og sameiginlegar dauðaþrár.“

Flytjendur:
Söngvarar á plötunni eru: Berit Mæland (Guðrún), Merete Sveistrup (Kostbera), Ulla Kudsk Jensen (Glaumvör), Isabel Piganiol (Brynhildur), Rudi Sisseck (Atli), Sverrir Guðjónsson (Knéfröður), Herdís A. Jónasdóttir og Þórunn A. Kristjánsdóttir (börn Atla) og Karlakórinn Fóstbræður. Hljóðfæraleikarar Caput að þessu sinni eru: Kolbeinn Bjarnason flauta, Eydís Franzdóttir óbó, Guðni Franzson klarinett, Brjánn Ingason fagott, Eiríkur Örn Pálsson trompet, Sigurður Þorbergsson básúna, Steef van Oosterhout slagverk, Eggert Pálsson slagverk, Elísabet Waage harpa, Sigrún Eðvaldsdóttir fiðla, Sigurlaug Eðvaldsdóttir fiðla, Guðmundur Kristmundsson víóla, Bryndís Halla Gylfadóttir selló, Hrafnkell Orri Egilsson selló og Jóhannes Georgsson kontrabassi.

Tónskáldið:
Haukur Tómasson er fæddur í Reykjavík 1960. Hann lauk Mastersprófi frá Kaliforníuháskóla í San Diego 1990 og hefur síðan unnið að tónsmíðum og kennslu. Meðal helstu verka hans eru hljómsveitarverkin Strati og Storka og einleikskonsertar fyrir flautu og fiðlu. Haukur hefur hlotið ýmsar viðurkenningar svo sem tvívegis verðlaun í tónverkasamkeppni RÚV, annarsvegar fyrir hljómsveitarverkið Strati og hins vegar fyrir Sögu fyrir kammersveit. Þá hlaut hann Bjarsýnisverðlaun Bröste 1996 og Menningarverðlaun DV fyrir tónlist 1998. Haukur hefur tvívegis verið tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, árið 1996 fyrir Spíral og 2000 fyrir Fiðlukonsert. Geisladiskurinn Fjórði söngur Guðrúnar var valinn einn af 5 bestu diskum ársins 1998 af gagnrýnanda Gramophone.

© 2000 Haukur Tómasson


Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
Forsíða 


Vefstjóri© 2001 Músa