Forsíðadiskar22. jan. 2001 
English      
Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
 Dansar dýrðarinnar: Íslensk kammertónlist með gítar  
Dansar dýrðarinnar

Smk-19 Smekkleysa 2000

Verkin
Dansar dýrðarinnar (1983) fyrir gítar, flautu, klarinett, selló og píanó. Atli Heimir Sveinsson (1938)
Verkið er einkonar samhverf svíta - runa svipmynda, hugsýnir innblásnar af kyrrð og fegurð hafsins og eyjanna á Breiðafirði, en oft dvel ég við tónsmíðar í Flatey. Þetta er ellefu þátta kammerverk þar sem gítarinn leikur í öllum þáttunum við undirleik mismunandi hljóðfæra. Og allir þættirnir eru stílfærðir dansar, eins og í hinum sexþættu svítum barokktímans. (Atli Heimir Sveinsson; úr texta með geisladiski).

Hverafuglar (1984) fyrir flautu, gítar og selló. Þorkell Sigurbjörnsson (1938)
Nútildags eru hugmyndir um hverafugla undantekningalaust afgreiddar sem ímyndun eða vitleysa: Síðasti náttúrufræðingurinn sem helgaði sig rannsóknum á þeim að einhverju marki lést fyrir meira en tvö hundruð árum síðan. En fram að þeim tíma höfðu þeir verið til. Það glitti í þá, syndandi í brennisteinsgufunni á sjóðheitum hverapollum. Þeir sáust þó aldrei fljúga. Sumt í atferli þeirra þótti minna á endur. Margur lúinn ferðalangur fylgdist með þegar þeir snyrtu á sér fjaðrirnar, leiðbeindu afkvæmum sínum og köfuðu eftir æti. Ef til vill var þetta einungis uppspuni – ef til vill – en svo var einnig með þetta verk...(Þorkell Sigurbjörnsson; úr texta með geisladiski).

Tristía (1984) fyrir gítar og selló. Hafliði Hallgrímsson (1941)
Verkið var samið fyrir Pétur Jónasson og sjálfan mig í tilefni af tónleikum okkar á Listahátíð í Reykjavík árið 1984. Í verkinu, sem er svíta í sjö stuttum þáttum, leitast ég við að rannsaka ítarlega hljómmöguleika beggja hljóðfæranna. Í mörgum þáttanna má því heyra ýmis fínleg blæbrigði í hljómi og lit. Innblásturinn að þessari nánast súrrealísku skissubók í tónum eru minningar frá föðurlandi mínu, Íslandi. Þó að yfirbragð þáttanna sjö sé einfalt þá eru þeir tæknilega erfiðir í flutningi; hljóðfærin tvö eru mjög ólík en þau skipta næstum jafnt á milli sín tónmálinu og þannig þarf að yfirstíga umtalsverðar hindranir til þess að jafnvægi megi nást. (Hafliði Hallgrímsson; úr texta með geisladiski).

Pétur Jónasson hóf nám í gítarleik níu ára að aldri hjá Eyþóri Þorlákssyni í Tónlistarskóla Garðabæjar og var síðar við framhaldsnám hjá Manuel López Ramos við Estudio de Arte Guitarrístico-skólann í Mexíkóborg. Að loknu burtfararprófi þar árið 1980, hélt hann til Spánar og var hann einkanemandi gítarleikarans José Luis González um tveggja ára skeið. Auk þess tók hann þátt í námskeiðum hjá Abel Carlevaro og David Russell og hlaut árið 1986 styrk frá spænska ríkinu til þess að stunda nám í Santiago de Compostela undir handleiðslu José Luis Rodrigo. Á því sama ári var hann einn af tólf gítarleikurum víðs vegar að úr heiminum sem valdir voru til að leika fyrir Andrés Segovia á námskeiði sem haldið var í Los Angeles.

Pétur hefur haldið fjölda einleikstónleika á Norðurlöndunum, Bretlandi, meginlandi Evrópu, í Norður-Ameríku, Eyjaálfu og Austurlöndum fjær. Hann hefur komið fram í útvarpi og sjónvarpi og leikið inn á hljómplötur og geisladiska, m.a. verk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hann.

Pétur Jónasson hlaut styrk úr Sonning-sjóðnum í Kaupmannahöfn árið 1984 og árið 1990 var hann tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, fyrstur íslenskra einleikara.

Úr texta með geisladiski

Úr umfjöllun:
„...einkar fallegt og myndrænt... setur ímyndunarafl áheyrandans af stað... sveipað dularljóma og stemmningin kynngimögnuð... verkin og sú stórgóða meðferð sem þau fá eiga það skilið að lagt sé við hlustir með fullri athygli... skapar þægilegt hugarástand, ekki síst frábærum flutningi að þakka.“ (Arndís Björg Ásgeirsdóttir, DV 10. janúar 2001).

„...ákaflega áhugaverður diskur þótt ekki væri fyrir annað en frábæran hljóðfæraleik Péturs Jónassonar og CAPUT-manna ...hár músíkalskur standard ...full ástæða til þess að taka ofan...“ (Valdemar Pálsson, Morgunblaðið 20. janúar 2001).


Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
Forsíða 


Vefstjóri© 2001 Músa