Forsíðadiskar24. jan. 2001 
English      
Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
 Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson: Stokkseyri  
Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson: Stokkseyri

Tónlistin
Septett var saminn árið 1998 og frumfluttur í júní 1999 af CAPUT-hópnum. Í umfjöllun sinni um verkið í Morgunblaðinu 17. júní 1999 vísar Gunnsteinn Ólafsson í auðheyranleg áhrif frá sígaunatónlist, jiddískri músík og Bartók gamla. Sjálfur segir Hróðmar þessi líkindi vera hendingu eina, hann hafi ekki verið að vinna meðvitað með einhverja ákveðna tónlistarhefð eða stefnu í verkinu. „Ég bjó mér bara til mínar eigin tóntegundir sem ég hélt mér fast við í septettnum. Og þar komu þessir krómatísku tónstigar sem maður heyrir gjarnan hjá Bartók og í austur-evrópskri þjóðlagamúsík. Svona tónstigar bjóða upp á svo fjölbreytta og flotta hljóma sem ég hef svo afskaplega gaman af!“

Stokkseyri var fyrsta „tónal“ verk Hróðmars og hann segir suma áheyrendurna hafa brugðist hálf hvumsa við yfir allri þessari óskaplegu ómblíðu. „Ég hitti mann eftir frumflutninginn sem sagði, „rosalega er þetta rómantískt verk.“ Og ég sá að honum fannst þetta einum of langt gengið. Ég veit það ekki, kveikjan að Stokkseyri var sú að mig langaði til að semja eitthvað sem var fallegt og skemmtilegt. Þannig finnst mér að tónlist eigi að vera. Ég er sjálfsagt eitthvað að breytast að þessu leyti, kannski verða kærulausari. Hér áður settist maður nefnilega niður til að semja ódauðlega tónverkið, sem stóðst hundrað prósent og hægt var að sundurgreina og rýna í án þess að nokkuð athugavert fyndist. Núna er ég miklu óhræddari við að blanda saman hverju sem er, hvaða stílbrögðum sem er. Þetta er auðvitað sterkur „tendens“ í samtímanum, maður heyrir þessa stílbragðablöndu gjarnan hjá austur-evrópsku tónskáldunum, Arvo Pärt, Sofiu Gubaidulinu, Alfred Schnittke.

Tónskáldið: Rabbað við Hróðmar Inga Sigurbjörnsson
Það verður seint sagt um tónlistina á þessum diski að hún sé sérlega tormelt eða óaðgengileg - ómblíða og rómantík setja mark sitt á bæði Stokkseyri og Septett Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar (f. 1958). Sjálfur segist hann vera íhaldssamt tónskáld sem finnst „hljómurinn í flottri strengjasveit það fallegasta sem til er.“ Ekki svo að skilja að Stokkseyri og Septett séu dæmigerð verk á höfundarferli Hróðmars sem á í handraðanum ómstríða Ljóðasinfóníu (tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 1991), raðtónverk og sitthvað fleira sem þróaðist út frá „avant-gardisma“ 7. og 8. áratugarins - og fannst það í raun svolítið átak að hreinlega þora að semja „tónal“ verk á borð við Stokkseyri.

Hróðmar hóf tónlistarferil sinn í poppbransanum. Gekk til liðs við hljómsveitina Melchior fimmtán ára gamall. „Þegar Böggi gítarleikari flutti til Danmerkur.“ Þarna voru fyrir þrír ungir MR-ingar: Hilmar Oddsson, Karl Roth Karlsson og Arnþór Jónsson. Sveitin gaf út nokkrar plötur, sú fyrsta hét því virðulega nafni Björgúlfur-Benóný-Grímúlfur-Melkjör-Emanúel-Egilsson-Leir-Fæt-Bíleigandi-Bergrisi-Hermaníus-Þengill-Trefill-, músíkin nokkurs konar órafmagnað popp/rokk með klassísku ívafi. Hróðmar segir þennan tíma hafa leitað á sig þegar hann samdi verkin sem hér heyrast. Eins og hann væri á einhvern hátt kominn í hring; væri að gera svipaða hluti. Hann segist enda hafa litla trú á því að menn breytist mikið í gegnum sköpunarferilinn. „Maður er alltaf að semja sömu músíkina. Maður lærir eitthvað nýtt og gengur í gegnum fullt af hlutum. Samt er maður alltaf að leita eftir sömu tilfinningunni - á einhvern hátt. Áherslurnar eru bara mismunandi.“

Eftir tveggja ára spilamennsku í Melchior hóf Hróðmar formlegt tónlistarnám, byrjaði að læra á klassískan gítar í Tónskóla Sigursveins. Ákvað átján ára að hann þyrfti að kunna meira fyrir sér í tónsmíðum - fannst hann vera kominn „hálfgert út í horn með að semja tónlist“ eins og hann orðar það sjálfur. Fór í framhaldi af því í nýstofnaða tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík og lærði hjá Þorkatli Sigurbjörnssyni og Atla Heimi Sveinssyni. Þarna var samankominn myndarlegur hópur ungra tónsmíðanema; Haukur Tómasson, Guðni Franzson, Kjartan Ólafsson, Hákon Leifsson, Hilmar Þórðarson, Atli Ingólfsson, Ríkharður H. Friðriksson, Finnur Torfi Stefánsson. Í Tónlistarskólanum samdi Hróðmar fyrsta ópusinn sinn, tólftónastykki fyrir gítardúett. Var annars aðallega í því á námsárunum að fylla í eyðurnar á gloppóttri tónlistarþekkingu sinni - hlusta á klassík, rómantík, 20. aldar tónlist og allt hitt. „Ég átti þetta allt saman eftir. Því þegar maður lærir á gítar er maður ekki beinlínis að spila verk stóru meistaranna; nema auðvitað Bach. Svo ég var í því að hlusta og hlusta. Tónsmíðar frá fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar verkuðu sterkt á mann, verk Stravinskys, Schönbergs, Mahlers og Bartóks.“

Hróðmar útskrifaðist úr tónfræðadeildinni 1984 og hélt þá út í heim í framhaldsnám. Nam við Tónlistarháskólann í Utrecht í Hollandi undir handleiðslu hollenska tónskáldsins Joep Straesser og útskrifaðist þaðan árið 1988. Þetta var stífur skóli sem Hróðmar tók „afskaplega alvarlega“ að eigin sögn. Fyrrnefnd Ljóðasinfónía fyrir einsöngvara, blandaðan kór og hljómsveit var samin undir lok námsferilsins í Hollandi sem og nokkrir ópusar fyrir kammerhópa og einleikshljóðfæri, þar á meðal útskriftarverkefnið; tíu mínútna Tilbrigði fyrir píanó sem valin voru til flutnings á alþjóðlegu samtímatónlistarhátíðinni ISCM (International Society for Contemporary Music) árið 1990.

Ég fór í gegnum avant-garde nám í Hollandi og var mikið í því að hlusta á framúrstefnutónlist frá skeiðinu 1960-1980, músík sem þróaðist út frá byltingarmúsík Stockhausens og Boulez. Þarna lærði ég það sem ég kann - byggði þann grunn sem ég í raun reisi allt á núna. Það var svo ótrúlega lærdómsríkt að pæla í gegnum músíkina frá þessu umrædda tímabili. Og þarna kynntist ég sumum af mínum uppáhaldstónskáldum, György Ligeti til dæmis. Svo er auðvitað líka tónlist frá þessu skeiði sem er alveg drepleiðinleg - og stenst ekki tímans tönn. Og ýmislegt sem ég gerði þarna sem mér finnst ekki lifa - og hef spáð í að taka út af verkalistanum mínum. Sem er sjálfsagt óhjákvæmilegt þegar maður er að læra, þreifa fyrir sér og finna sinn eigin tón.“

Sverrir Guðjónsson hóf söngferil sinn barn að aldri. Hann hefur alla tíð tengst leikhúsinu sterkum böndum og fengist við margs konar tónlistartegundir. Sem kontratenór nam hann og starfaði í Lundúnum á árunum 1988-91. Auk þess að flytja tónlist fyrri tíma hefur Sverrir frumflutt fjölda nýrra verka sem sérstaklega voru samin með raddsvið hans í huga. „Stokkseyri“ er eitt slíkra verka. Af þeim geisladiskum sem út hafa komið með söng Sverris má nefna „Epitaph“ eða „Grafskrift“, þar sem slutt eru íslensk þjóðlög út frá stemmningu miðalda. Hið virta franska útgáfufyrirtæki Opus 111 gaf diskinn út 1999 og dreifði um víða veröld. Gagnrýnendur hins þekkta tónlistartímarits „Gramophone“ útnefndu „Epitaph“ einn af athyglisverðustu hljómdiskum ársins 1999. Sverrir starfar einnig með „a capella“ sönghópnum Voces Thules, en hópurinn er um þessar mundir að hlóðrita hinar viðamiklu „Þorlákstíðir“ sem finna má í handriti frá u.þ.b. 1400 og munu koma til með að fylla fjóra geisladiska.

Úr bæklingi með geisladiski. © 2000 Elísabet Indra Ragnarsdóttir


Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
Forsíða 


Vefstjóri© 2001 Músa