Pistillinn

21. maí 2003
Ríkisútvarpið tilnefnir tónverk fyrir Tónskáldaþingið í Vínarborg

Ríkisútvarpið sendir tónverkin Orchestra B eftir Atla Ingólfsson og Einstein ist tot, part 1&2 eftir Ólaf Björn Ólafsson á Tónskáldaþingið í Vínarborg.

Atli IngólfssonAtli Ingólfsson er fæddur 1962. Hann hefur búið lengi í Bologna á Ítalíu, hefur tónsmíðar að aðalstarfi og er meðal annars þekktur fyrir samstarf sitt við kammersveitina Caput. Orchestra B er fyrsta stóra hljómsveitarverk Atla, frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðar Wilkinson á Myrkum músíkdögum í febrúar sl.

Ólafur Björn ÓlafssonÓlafur Björn Ólafsson er 25 ára og verður verk hans Einstein ist tot, part 1&2 lagt fram á Rostrum í flokki ungtónskálda. Óli Björn er mörgum kunnur sem trommuleikari í hinum ýmsu hljómsveitum, vann Músíktilraunir 1993 með sveitinni Yucatan, er menntaður í sonologiu („hljóðfræði“) í Hollandi og stundar nú nám við tónsmíða- og nýmiðlunardeild Listaháskóla Íslands.

Tónskáldaþingið, eða Rostrum, fer að jafnaði fram í París en verður að þessu sinni í Vínarborg, í tilefni af fimmtíu ára afmæli þingsins. Rostrum er skipulagt af Alþjóðlegu tónlistarnefndinni International Music Council með stuðningi UNESCO, vísinda-, menntunar- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Á tónskáldaþinginu hittast fulltrúar fjölmargra útvarpsstöðva frá öllum heimshornum, kynna tónverk frá sínu heimalandi og skiptast á upptökum af nýjum tónverkum. Þingið er ein öflugasta samkoma til kynningar á íslenskri tónlist á alþjóðavettvangi. Að þessu sinni hafa Ríkisútvarpið og Íslensk Tónverkamiðstöð með sér formlegt samstarf um þáttökuna á Rostrum og verða öllum þáttakendum á þinginu færðir íslenskir geisladiskar að gjöf.

Tónskáldaþingið var fyrst haldið árið 1954. Þá tóku fjórar útvarpsstöðvar þátt í þinginu en í ár eru þátttökulöndin hátt í fjörutíu. Tónskáldaþingið er vettvangur til kynningar á nýjum verkum, en auk þess nokkurs konar keppni, þar sem þátttakendur velja með sérstakri stigagjöf það verk sem áhugaverðast þykir í tveimur flokkum; flokki tónskálda undir þrítugu og flokki hinna eldri. Gengi íslenskra tónskálda hefur verið gott á þessu þingi undanfarin ár og þannig var verk Guðmundar Hafsteinssonar, Borgarkveðja, eitt af tíu stigahæstu verkunum árið 1998 og flautukonsert Hauks Tómassonar árið 2000. Í kjölfarið voru bæði verkin flutt af ríflega 20 útvarpsstöðvum um allan heim.

Lana Kolbrún Eddudóttir, einn af umsjónarmönnum tónlistarþáttarins Hlaupanótunnar, fylgir íslensku verkunum til Vínarborgar og færir hlustendum Rásar eitt fréttir af framgangi mála á þinginu, sem stendur í 5 daga, 2. – 6. júní.

Allar nánari upplýsingar fást hjá Bjarka Sveinbjörnssyni og Bergljótu Haraldsdóttur á tónlistardeild Ríkisútvarpsins: síma 515 3000 eða Sigfríði Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar: síma 568 3122 eða gsm: 898 9415


 ©  2003  Músa