Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 28. ágúst. 2004

Frá tónlist til tónmenntar – Hugleiðing um stöðu tónmenntar í grunnskólum


Sigursveinn Magnússon, skólastóri Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og formaður STÍR, samtaka tónlistarskóla í Reykjavík
<smagn@ismennt.is>

Í aðalnámskrá grunnskóla segir: „Tónlist hefur á öllum tímum í öllum samfélögum verið samofin lífi og starfi manna. Í gleði og sorg, við vinnu heima og heiman, í átökum og í friði, til örvunar, sefjunar og hvíldar, alls staðar er tónlistin. Hún hefur upphafið andann, sameinað, varðveitt söguna og útskýrt það sem orð fá ekki sagt.  Ekkert svið mannlegrar tilveru er án tónlistar“. Er nokkru við þetta að bæta? Er hér ekki verið að tala um kjarnann, nauðsynlegan undirstöðuþátt í mótun hverrar manneskju í siðmenntuðu samfélagi? Í umræðu um tónlistarmenntun á Íslandi er óhjákvæmilegt að líta til stöðu tónmenntar í grunnskólum. Hvernig fer skólin að því að skapa jákvæða lífssýn, þekkingu, umburðarlyndi og skilningi á sígildum verðmætum. Hér verður rætt um stöðu tónmenntar í grunnskólum Reykjavíkur.

Nauðsynlegt er áður en lengra er haldið að skýra helstu hugtök, en viss ruglandi í tengslum við nám í tónmennt og hljóðfæranám í tónlistarskólum hefur oft valdið misskilningi í umræðu um þessi mál:

  1. Tónmennt. Undirstöðuatrið tónlistarinnar. Bekkjakennsla í grunnskóla.
  2. Tónlistarfræðsla. Samheiti yfir það starf sem unnið er í tónlistarskólum.
  3. Forskóli. Hópnám barna, undirbúningur undir hljóðfæranám í tónlistarskóla.
  4. Tónlistarnám, tónlistarkennsla. Hljóðfæra- eða söngnám í einkatímum ásamt hópgreinum (fræðigreinar, samleikur, samsöngur, hljómsveitarleikur ofl.) stundað í tónlistarskóla.

Á undanförnum árum hefur tónmennt sem kennslugrein átt undir högg að sækja og er nú svo komið að mörg börn fara á mis við kennslu í tónmennt, sem þó er tilskilin í aðalnámskrá grunnskóla ásamt öðrum list- og verkgreinum. Í skýrslu sem unnin var af starfshópi undir stjórn Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur sl. vetur fyrir Reykjavíkurborg má gera sér nokkuð skýra mynd af stöðu greinarinnar. Þar kemur fram að tónmennt er kennd í 27 af 34 skólum borgarinnar, þ.e.a.s. í 7 skólum fara nemendur algjörlega á mis við kennslu í þessari grein. Auk þess kemur fram að tónmennt er yfirleitt aðeins kennd í yngstu bekkjum skólanna, þ.e. upp að 8. bekk. Með nokkrum líkindareikningi má þannig ætla að um helmingur nemenda í grunnskólum borgarinnar verða algjörlega af kennslu í tónmennt sem þau eiga þó rétt á samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla.

Ástæða þess að tónmenntin á undir högg að sækja er skv. skýrslunni talin vera skortur á kennurum, en þeir endast ekki lengi í starfi og eru ástæðurnar m.a. raktar til lágra launa, mikils vinnuálags og óviðunandi starfsaðstöðu. Síðan eru í skýrslunni góðar ábendingar um hvað betur megi fara og er þar komið inn á launaþróun, starfsaðstöðu, skipta bekki og fleira sem yrði til þess falli að efla stöðu greinarinnar.

Í starfi mínu og sem áhugamaður um tónlistaruppeldi hef ég fundið hversu mikilvæg sú undirstöðumenntun er sem börn fá í tónmennt sem er í flestum tilfellum eina fræðslan um tónlist sem margir fá. Tón- og myndlæsi er nauðsynlegt veganesti hverjum og einum og virkar örvandi á nám í öðrum og fljótt á litið óskyldum námsgreinum. Í þeirri flóknu veröld sem við lifum í þurfum við að styðja og leiðbeina uppvaxandi kynslóð um margvísleg gildi, ekki síst í listum. Hver verður sýn þeirra á heim tónlistarinnar sem aldrei fá neina reglubundna fræðslu í þeim efnum?

Nauðsynlegt að skoðað verði með gagnrýnum huga hver orsökin er fyrir þessari erfiðu stöðu. Er tónmennt á einhvern hátt úr takti við þann anda sem ríkir í almennum skólum?  Er hægt að hugsa sér formbreytingu á kennslutilhögun innan grunnskólans til að tónmenntin falli betur að starfi skólans? Einnig hefur verið á það bent hversu góð samvinna milli almennra kennara og tónmenntakennara getur áorkað miklu við að rjúfa einangrun greinarinnar. Þá verður einnig að spyrja hvort ekki verði m.t.t. þessa að endurskoða kennaranámið. Bæði hið almenna kennaranám og hið sérhæfða nám tónmenntakennara.

Miðað við það sem hér hefur komið fram vekur undrun hversu hljótt er um málefni tónmenntarinnar. Umræðu er þörf á víðum grunni, en fer nú aðallega fram í þröngum hópum. Í ljósi þessa er eðlilegt að spyrja af hverju greinin eigi sér svo fáa málsvara. Fátt heyrist af viðbrögðum fræðsluyfirvalda. Málið er kannað, samdar skýrslur en síðan ekki meir.  Hafa ábyrðaraðilar, borg og ríki lagt árar í bát í þessu máli?

Tónmenntakennsla í grunnskóla og tónlistarnám í tónlistarskóla hafa ólík markmið en haldast þó í hendur. Annarsvegar eru þeir sem stunda hljóðfæranám og keppa að árangri og aukinni leikni. Hins vegar þeir sem eiga rétt á að fá tilsögn í grundvallaratriðum tónlistarinnar til að læra að njóta hennar, hlustendur og áhugamenn.

Skýrsla starfshópsins undir stjórn Steinunnar mun hafa verið kynnt fræðsluráði Reykjavíkur sl. vetur, en síðan lítið gerst. Hér má ekki láta staðar numið. Málið er of brýnt til að það lendi í glatkistunni. Innan stéttar tónmenntakennara eru kraftar, reynsla og þekking sem nýtast mundu vel í þróunarstarfi til að rétta hlut tónmenntarinnar.



Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. ágúst. 2004.


 ©  2004  Músa