Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 18. ágúst. 2004

Tónlistarnám: Nauðsyn á heildarsýn
1. grein


Sigursveinn Magnússon, skólastóri Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og formaður STÍR, samtaka tónlistarskóla í Reykjavík
<smagn@ismennt.is>

Síðustu vikur og mánuði hafa birst nokkarar greinar á síðum Morgunblaðsins þar sem tónlistarfólk hefur skipst á skoðunum um málefni tónlistarmenntunar. Blaðið hefur einnig vikið að málaflokknum í leiðurum sínum. Þetta er fagnaðarefni og telst til tíðinda - því þessi mál eru sjaldan í sviðsljósi opinberrar umræðu.

Undirrituðum hefur samt fundist að oftar en ekki hafi nálgun höfunda verið dálítið tilviljanakennd og um of einskorðast við vandamál tiltekinna skóla eða námsbrauta án þess að setja þau í nógu skýrt samhengi við núverndi skipulag tónlistarmenntunar í landinu.  Það skyldi ekki vera að sumpart hafi misskilningur, vegna ónógrar upplýsingar, kallað fram skarpari viðbrögð en efni standa til hjá ýmsum þeim sem stungið hafa niður penna til andsvara? Hér á ég sérstaklega við viðbrögð Hjálmar H. Ragnarssonar, rektors LHÍ við ágætri grein Kjartans Óskarssonar sl. haust um kennaramenntun og við greinum Ásrúnar Davíðsdóttur um nám á háskólastigi.  Einnig mætti nefna viðbrögð Stefáns Jóns Hafstein formanns fræðsluráðs Reykjavíkur við grein blaðamanns Mbl. sl. haust um samskipti Reykjavíkurborgar og tónlistarskólanna í borginni.  Eins og oft vill verða tekur umræðan fjörkipp en leggst svo niður á milli. En það sem verra er: Nemendur í tónlistarnámi, aðstandendur þeirra og áhugafólk um tónlist eru mestanpart utangarðs í umræðunni. Í besta falli spyrja menn hver annan: Hvert er eiginlega vandamálið? Kannski gætum við með annarri nálgun náð betri árangri, haldið betur þræðinum með það að markmiði að upplýsa almenning um þessi málefni og þannig auðveldað stefnumörkun til framtíðar með þátttöku sem flestra.

Landið ekki lengur eitt skólasvæði í tónlist

Málefni tónlistarskólanna og staða þeirra gagnvart fræðsluyfirvöldum þ.e. sveitarfélögunum hefur verið nokkuð óljós að undanförnu. Skemmst er að minnast þeirra breytinga sem urðu er Reykjavíkurborg ákvað að hætta að greiða kennslukostnað utanbæjarnemenda vorið 2003. Sú gjörð hafði í för með sér að landið varð ekki lengur eitt skólasvæði eins og verið hafði í 40 ár.  Fram til þessa höfðu nemendur haft frjálst val um það hvar þeir stunduðu nám sitt.  Þetta varð til þess að margir tónlistarnemar lentu í vandræðum og jafnvel voru þess dæmi að þeir þurftu að hverfa frá námi þar sem þeir fengu ekki samþykki sveitarfélags síns fyrir greiðslu kennslukostnaðar. Það voru vonbrigði að sveitarfélögin skyldu ekki taka höndum saman um að leysa greiðslumálin innbyrðist, en fyrir slíku eru fordæmi, t.d. á grunnskólastiginu.  Frjálst val nemenda er, eins og allir vita, undirstaða góðs árangurs og öflugs skólastarfs á hvaða sviði sem er.

Stjórnsýsla og hagræðing

Það sem rumskar við okkur þessa síðustu mánuði og - knýr okkur sem fáumst við tónlistarkennslu til að taka penna í hönd er sú staðreynd að mörg teikn eru á lofti sem benda til að í stjórnsýslunni séu uppi hugmyndir um breytingar í tónlistarfræðslunni, hugmyndir sem margar hverjar orka tvímælis og gætu þýtt skref aftur á bak miðað við þá skipan sem hér hefur ríkt. Hugmyndirnar eru sumar hverjar lítt skiljanlegar en flestar settar fram undir merkjum hagræðingar (útleggst: sparnaðar). Í grein í Mbl. laugardaginn 10. júlí víkur Stefán Jón Hafstein formaður fræðsluráðs Reykjavíkur að tónlistarskólunum og lýkur með þessum orðum:

Tónlistarskólarnir hafa náð að þroskast undir verndarvæng hins opinbera, en um leið og kemur að samkeppnis-, jafnræðis- og markaðssjónarmiðum hrökkvað þeir í kút og óttst um faglega stöðu sína.

Um efnisatriðin í greininni verður ekki rætt að sinni. Hitt er víst að enginn í hópi starfssystkina minna mun setja sig upp á móti hagræðingu sem felst í bættum og markvissari rekstri tónlistarskólanna og betri nýtingu kennslukrafta og fjármuna. En þýði „hagræðingin“ samdrátt í opinberum fjárveitingum til skólanna og tónlistarmenntunar á landsvísu miðað við þau lög sem nú eru í gildi þá eru slíkar hugmyndir í hrópandi andstöðu við þá þróun sem við viljum sjá á 21. öld. Fjárhagslegur stuðningur samfélagsins við tónlistarmenntun er vissulega eitt þeirra gilda sem við þurfum að standa saman um.

Umræða

Í þeim tilgangi að varpa ljósi á málefni tónlistarmenntunar og glöggva sýn á þann vanda sem við er að etja mun ég reyna í nokkrum greinum, hér í blaðinu, að gera tilraun til að greina vandann og verður umfjöllunarefnum skipt sem hér segir. Næst verður fjallað um Löggjöf um tónlistarmenntun (Lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985) og hlutverk hennar. Þá verður vikið að hinni faglegu leiðsögn menntamálaráðuneytis og framhaldsnámi í tónlist og loks verða Tónlistarskólarnir í Reykjavík og sérstaða þeirra skoðuð og samstarf þeirra og borgarinnar. Hér verður ekki um neina tæmandi umfjöllun að ræða heldur tilraun til að örva málefnalega umræðu tónlistarmenntun, en það hlýtur að vera áhugamál allra sem unna listuppeldi og menningu.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst. 2004.


 ©  2004  Músa