Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 28. júlí 2009
Margslungin list

Ari Trausti Guðmundsson
<aritg@simnet.is>

Ari Trausti GuðmundssonMerkileg er umræðan um list og ekki list. Hún er hvorki tilgangslaus né lítilvæg en leiðir ekki til niðurstöðu um hvað geti talist list og hvað ekki, hver sé listamaður og hver ekki. Ástæðurnar eru margar og meðal þeirra helstu þessar:  Hugtakið er ekki skilgreinanlegt á altækan hátt, ekki fremur en ást, fegurð eða frelsi, og skilningurinn er einstaklingsbundinn. Fer eftir hugmyndaheimi og uppsafnaðri lífsreynslu hvers og eins. Þegar brýn umræða um listir og listaverk á Íslandi er skoðuð „á ársgrundvelli“ vekur ýmislegt athygli.  Umræðan er  til dæmis sérfræðileg, þ.e. miklu fleiri skólagengnir sérfræðingar í listgreinum taka þátt í henni en listamenn og almennir njótendur listar. Ráðstefnur, málþing, umræðufundir og annað af því tagi eru dæmigerður vettvangur. Sérfræðingar, til að mynda leikhús-, bókmennta-, myndlistar- og tónsögufræðingar, svo einhverjir séu nefndir, teljast ekki margir í landinu og ekki laust við að fjölbreytnina vanti í umræðurnar. Ekki bætir úr að rökstudd andsvör eru sjaldgæf eða gjarnan þrungin þjósti (hvort tveggja er íslenskur galli á allri umræðu í landinu) og orðræðan þróast því skammt á veg. Hún virðist enn fremur, og of oft, snúast um hugtök, stefnur, tilvísanir í annarra list og túlkanir á lífsframlagi listamanna en einstök um listaverk og gæði þeirra eða innihald. Má biðja um betra jafnvægi?

Umræðan bergmálar svo í fjölmiðlum sem sjálfir einkennast af því að skera burt æ meira af rými undir menningu og listir og einnig af því að nýta rýmið fremur undir niðursoðna umsögn eða fræðilega útlistun en í að birta eða flytja verk. Nú er svo komið að meirihluti allra listviðburða í höfuðborginni fær annað hvort enga umfjöllun eða snöggsoðna og landsbyggðaratburðum er sjaldan sinnt.  Með öðrum orðum: Meira er talað og greint en skáldað, horft og hlustað – og miðlað. Með þessum orðum er ekki verið að rýra menntun eða starf listsérfræðinga eða fjölmiðlafólks sem stendur að menningarkynningu. Ég gagnrýni áherslur og umgengni við viðföngin. Með þessum orðum er heldur ekki verið að gera lítið úr fjárhagsvanda fjölmiðla. Ég tel áherslur í efnisvali einfaldlega ekki réttar; menning er látin víkja fyrir öðru.

Umræða og skrif tengt framlaginu á tvíæringnum í Feneyjum er ágætt dæmi um stöðu listumræðunnar og viðhorf fjölmargra til lista. Að þessu sinni varð engin opinber umræða um framlagið á undirbúningsstigi fram að sýningu. Skömmu fyrir opnun komu fram viðtöl og kynningar sem einkenndust af yfirdrifinni jákvæðni, skilgreiningargleði og merkingarhlaðinni orðræðu, jafnvel oflofi þess gallerís sem myndlistarmaðurinn nýtir sér. Eftir opnunina hélt sama lofræðan áfram en án þess að svo mikið sem ein erlend umsögn um verk myndlistarmannsins, tekin beint upp, birtist í íslenskum miðli (ritað 3. júlí). Einn íslenskur myndlistarmaður setur fram umdeilanlega en skilmerkilega gagnrýni. Hún er umsvifalaust afgreidd sem  „misskilningur“ og í framhaldinu er ekki einu sinni unnt að fá á hreint hvað framlagið kostar í krónum og aurum (Aths. höfundar, 26.06: Þær tölur hafa nú birst). Um framlagið sjálft í Feneyjum eða listamanninn er ekki fjallað hér og í raun skiptir hvorugt máli við mínar vangaveltur því raunin er oftast þessi; hvað þá ef íslenskur listamaður gerir eitthvað utanlands.

Þrennt vil ég benda á. Í fyrsta lagi vantar menningarstefnu stjórvalda í breiðum skilningi þess hugtaks: Meginhugmyndir um mikilvægi lista og heildarstefnu í uppbyggingu listsafna, annarra safna, stuðning við ólíkar greinar eða listamenn, efnisval Ríkissútvarpsins, menntunarmálin o.s.frv. Eins og víða í íslensku þjóðfélagi, sbr. orkuvinnsluna í áratugi þar - til fyrir skömmu, hafa menningarmál þróast eingangrað, stjórnlítið, sértækt og eftir póltískum átakalínum eða áhuga og dugnaði einstaklinga. Ekkert af þessu hverfur með öllu þótt skýr, nokkurra blaðsíðna stefna sé mótuð og endurskoðuð á nokkurra ára fresti heldur verður menningin öflugari, fjölbreyttari og blómlegri. Frumkvöðull er menntamálaráðuneytið í samvinnu við fagaðila.

Í örðu lagi væri ráð að samtök listamanna, stofnanir, fyrirtæki, áhugafólk og sérfræðingar tækju sig saman og stæðu að tvíþættu átaki í samvinnu við dagblað og sjónvarps- og útvarpsstöð um að halda úti myndarlegu hálfsmánaðarblaði og a.m.k. 1-2 klst. löngum vikuþætti í sjónvarpi (allar listgreinar, ekki bara bókmenntir). Um leið er ekki lokað á annað menningarefni. Og Gufuna /Rás 1 höfum við en hana má bæta um margt.

Í þriðja lagi verður að einblína á skólakerfið. Auðvitað felst hluti menningarstefnunnar í að koma listum fyrir í námsskrá grunn- og framhaldsskóla með miklu skýrari hætti og metnaðarfyllra fyrirkomulagi en nú er. Listkynning og lágmarksmenntun, frá 7 til 20 ára aldurs, í sjónlistum, tónlist, bókmenntum og hönnun er jafn gott veganesti og hreyfingin sem fæst við íþóttaiðkun eða leikfimi, svo ekki sé minnst á forvarnarþáttinn sem sífellt er rætt um við menntun barna og ungmenna. Hann felst ekki bara í líkamlegum átökum heldur líka í grunnþekkingu á listum, hönnun og handverki.

Höfundur er rithöfundur og áhugamaður um tónlist.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, Sunnudaginn 26. júlí 2009.


 © Músa