Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 7. feb. 2007
Verkefnaval og verksvið Íslensku óperunnar
viðbrögð við grein Árna Tómasar Ragnarssonar „Óperur fyrir æ færri

Bjarni Daníelsson

Bjarni DaníelssonÁrni Tómas Ragnarsson læknir setur ekki ljós sitt undir mæliker þegar kemur að málefnum Íslensku óperunnar. Fyrir hálfum mánuði birtist í Lesbók Morgunblaðsins grein þar sem hann gagnrýnir starfshætti og verkefnaval Íslensku óperunnar harðlega. Hann leggur til að fallið verði frá áformum um byggingu óperuhúss í Kópavogi og starfsemi Íslensku óperunnar í framtíðinni miðuð við sýningar á allra vinsælustu óperum sögunnar í nýja tónlistarhúsinu í Reykjavík. Það eitt sé skynsamlegt miðað við óperuáhuga landsmanna og fjárhagsstöðu Óperunnar. Á sínum tíma skrifaði Árni Tómas grein um hvað það væri miklu hagkvæmara út frá kostnaðar- og aðsóknartölum að sýna frekar í stóra sal fyrirhugaðs tónlistarhúss en að útbúa sérstakan  minni leikhússal í húsinu eins og forsvarsmenn Óperunnar, Samtök um tónlistarhús og tónlistarhreyfingin höfðu óskað eftir.

Hagrænt gildi óperulistar

Um þessi hagvísindi má segja að ef þeim væri beitt á menningarlíf Íslendinga almennt er hætt við að helstu menningarstofnanir þjóðarinnar yrðu reiknaðar út af kortinu. Það kæmi væntanlega í ljós að það borgar sig ekki samkvæmt þessari reiknireglu að reka sinfóníuhljómsveit eða þjóðarleikhús, hvað þá aðrar menningarstofnanir sem þjóna fámennari hópum þjóðfélagsins. Og það myndi áreiðanlega ekki borga sig að byggja svona glæsilegt tónlistarhús eins og stefnt er að. Sem betur fer er nú vaxandi skilningur á hagrænu gildi lista- og menningarlífs fyrir þjóðarbúið og þeim gríðarlega hagvexti sem umsvif menningarlífsins leiða af sér. Gildi þess starfs sem Íslenska óperan vinnur íslensku menningarlífi verður ekki gert upp með talningu á sætafjölda og aðgangseyri eingöngu, heldur verður að taka margt annað inn í reikninginn. Það verður heldur ekki snúið til fortíðar eins og Árni Tómas krefst í þeirri trú að þá hafi allt verið miklu betra og vitlegra eins og sjá megi af gömlum aðsóknartölum.

Breytt starfsumhverfi

Heimurinn hefur breyst og þær aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi að hægt sé að sýna sömu óperuna oft í viku, mánuð eftir mánuð, í Gamla bíói fyrir fullu húsi. Vegna tímabærrar og eðlilegrar launaþróunar hjá óperulistafólki er ekki lengur raunhæft að ætla sér að greiða sýningarkostnað af miðasölutekjum, enda er fjöldi þátttakenda í hverri uppfærslu oft 150 eða jafnvel fleiri. Einsöngvararnir eru margir að vinna annars staðar í heiminum og ekki tiltækir nema í stuttan tíma, framboð á menningarviðburðum er gríðarlega mikið og samkeppni í menningarlífinu um athygli neytenda að sama skapi feiknalega hörð. Aðstæður eru gjörbreyttar. Það er hins vegar misskilningur hjá Árna Tómasi að reginmunur sé á stefnu og verkefnavali Íslensku óperunnar fyrr og nú þótt áherslur kunni að hafa þróast eitthvað í samræmi við breytta tíma. Þannig hafa þekktar óperur eftir höfuðskáld sígildu óperanna alltaf verið þungamiðjan í verkefnavali Íslensku óperunnar. Á síðustu árum höfum við af eðlilegum ástæðum staðið oftar frammi fyrir þeirri spurningu hvort sviðssetja eigi aftur þekkta óperu, eða velja frekar annað öndvegisverk sem ekki hefur verið sýnt hér áður. Í mínum huga er síðari kosturinn oft áhugaverðari, enda er af nógu að taka og ekki ástæða fyrir Íslensku óperuna að vera stöðugt  að toppa sjálfa sig í sömu verkunum við hljómburð og tæknilegar aðstæður sem hljóta sífellt harðari gagnrýni lærðra sem leikra.

Verkefnaval síðustu ára

Samningar við ríkið undanfarin ár hafa í stórum dráttum hljóðað upp á tvær meðalstórar óperuuppfærslur á ári plús jafn mörg minni verkefni. Á síðustu sjö árum hafa verið uppfærðar 13 óperur í flokki meðalstórra ópera og af þeim eru 9 í hópi þekktustu og vinsælustu óperuverka sögunnar: La Bohéme (Puccini), Töfraflautan (Mozart), Hollendingurinn fljúgandi (Wagner), Rakarinn í Sevilla (Rossini), Macbeth (Verdi), Brúðkaup Fígarós (Mozart), Tosca (Puccini), Öskubuska (Rossini) og Brottnámið úr kvennabúrinu (Mozart). Af þeim fjórum sem þá eru ótaldar eru tvær eftir Benjamin Britten, Lúkretía svívirt og Tökin hert, en Britten er oft talinn sá síðasti af klassísku óperuskáldunum. Einn óperutryllir hefur verið sýndur, Sweeney Todd eftir Stephen Sondheim, en hann hefur notið vinsælda víða, ekki síst í Bretlandi og Bandaríkjunum. Nú er verið að setja upp óperuna Flagari í framsókn (The Rake’s Progress) eftir Stravinsky, en hún er talin ein vinsælasta ópera sem skrifuð hefur verið eftir daga Puccinis. Ég skil ekki hvernig hægt er að halda því fram að þetta verkefnaval sýni ofuráherslu á fágætar óperur eins og Árni Tómas gerir.

Fortíð, nútíð og framtíð

En sitt sýnist hverjum og það er öllum frjálst að hafa áhuga á afmörkuðum hluta óperubókmenntanna og láta sér fátt um önnur verk finnast. Það er staðreynd að margir hafa orðið óperuvinir af að kynnast þekktustu og mest fluttu óperunum eins og Aidu, La Bohéme og Carmen og ég er sannarlega ekki að gera lítið úr ágæti þeirra. Ég held hins vegar að einhliða áhersla á fáar vinsælar óperur sé vísasta leiðin til glötunar fyrir óperuhús sem hefur metnað fyrir listformið og ber virðingu fyrir óperulistamönnum og óperuáhugafólki. Eins sjálfsagt og það er að sýna hinar sígildu óperur fyrir nýjar kynslóðir, þá er jafn sjálfsagt að flytja einnig verk sem standa okkur nær í tíma og tilheyra því tímabili sem við köllum samtímann. Og ekki nóg með það, heldur verður líka að gera ráð fyrir því að óperan sé lifandi listform og metnaðarfullu óperuhúsi beri að leggja nokkuð að mörkum til að þróa það inn í framtíðina. Þess vegna þarf líka að stuðla að því eftir föngum að samdar séu og fluttar nýjar óperur, bæði sem tilraunaverkefni og fullburða óperuverk. Allt þetta reynir Íslenska óperan að gera með samfelldu og fjölþættu starfi og samstarfi við ýmsa aðila sem vinna að óperuflutningi og nýsköpun á sviði tónlistarleikhúss.

Ég er sannfærður um að hófstillt tilbreytingarstefna eins og rekin er í Íslensku óperunni skilar sér ekki síður í óperuáhuga hjá þjóðinni en einhliða endurtekningar fáeinna vinsælla verka. Þetta met ég m.a. af viðbrögðum fjölmargra óperugesta sem lýst hafa undrun og ánægju yfir sýningum Óperunnar á verkum sem þeir þekktu ekki fyrir. Það er heldur ekki bara óperuverk sem við erum að koma á framfæri. Við erum fyrst og fremst að bjóða upp á stórkostlega upplifun og skemmtun sem framkölluð er af mikilli faglegri ögun og listrænni fullkomnun. Við getum verið stolt af þeim verkum sem Íslenska óperan hefur flutt á tuttugu og fimm ára starfsferli, ekki af því að flest þeirra séu á einhverjum ímynduðum alheimsvinsældalista, heldur af því hversu vel þau hafa verið flutt af okkar ágætustu óperulistamönnum. Það er það sem metnaður Íslensku óperunnar hefur alltaf snúist um, það er það sem sannur óperuáhugi snýst um og það sem okkur varðar mest um þegar við metum gildi óperulistar fyrir íslenskt menningarlíf. Það er fullt af stórkostlegum verkum í óperubókmenntunum sem ekki hafa verið flutt á Íslandi, samtíminn fæðir af sér spennandi verk og framtíðin bíður okkar með ósamin snilldarverk. Það er ótrúlegt að því skuli vera haldið fram í alvöru að starfsemi þjóðaróperu Íslendinga eigi að einskorðast við sýningar í tónleikasal á örfáum verkum sem voru samin um miðja nítjándu öld.

Óperuflutningur í tónlistarhúsinu

Hátíða- og uppákomuvæðing menningarlífsins er hröð og einbeitt og Íslendingar fara ekki varhluta af þeirri þróun. Við eigum þess nú kost að sjá og heyra alþjóðlegar óperustjörnur troða upp í íþróttahúsum og bíósölum í stórum stíl, jafnvel oft á ári, og yfirleitt flytja þær atriði úr þekktum og vinsælum óperum. Þetta mun væntanlega enn aukast með tilkomu tónlistarhússins. Þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir óperuaðstöðu við hönnun hússins, þá hefur það komið fram hjá bæði forsvarsmönnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Portus að þarna verði fluttar óperur. Líklegt er að fyrst og fremst verði um leiklesnar óperur að ræða (konsertuppfærslur), en einnig er reiknað með að hægt verði að flytja óperur í svokallaðri hálfuppfærslu, eins konar súperleiklesnar óperur. Þótt þetta sé ekki sá flutningsmáti sem unnendur alvöru óperuleikhúss gera kröfur um, þá getur vel verið að þetta reynist áhorfendavænt og vinsælt, ekki síst ef hljómburður í húsinu verður jafn góður og vonir standa til. Það má leiða að því líkum að vinsælar óperur verði fyrir valinu og þetta gæti orðið vettvangurinn þar sem óskir fólks um að heyra sívinsælar óperur verða uppfylltar og þar sem ungt fólk fær sín fyrstu kynni af þessari tónlist.

Bygging óperuhúss forsenda framþróunnar

Það er hins vegar algjörlega óhugsandi að hætta við byggingu óperuhúss í Kópavogi til að hægt sé að einbeita sér að því að leiklesa sívinsælar óperur í nýja tónlistarhúsinu í Reykjavík. Þótt ríkið og Reykjavíkurborg hafi ákveðið að hafa ekki óperuaðstöðu í tónlistarhúsinu, þá jafngildir það ekki ákvörðun um að útiloka framþróun óperulistar á Íslandi. Það eru sem betur fer allir ánægðir með þá miklu grósku sem verið hefur í sönglist á Íslandi síðustu áratugina og stoltir af þeim frábæra árangri sem íslenskir óperusöngvarar hafa náð. Þótt afrekin hafi fyrst og fremst verið unnin á erlendri grund þá hefur þeim sem betur fer líka fjölgað á heimavelli. Íslenskir óperusöngvarar hafa fyrir löngu sýnt og sannað að það eru faglegar og listrænar forsendur til þess að reka óperuhús á Íslandi. Það verður hins vegar að gera það þannig að þar skapist vettvangur samfelldrar atvinnustarfsemi og miðstöð reynslu og þróunar sem kemur óperulistamönnum að gagni og tryggir einnig fjölbreytta og vandaða dagskrá fyrir vaxandi en sundurleitan hóp óperuunnenda. Bygging óperuhúss í Kópavogi er glæst áform og felur í sér fyrirheit um vöxt og viðgang óperulistarinnar á Íslandi, en kallar um leið á nýja og skýra hugsun varðandi þróun tónlistarlífsins. Með byggingu óperuhúss í tengslum við Salinn sem fyrir er verður mynduð önnur þungamiðja í íslensku tónlistarlífi í samkeppni við tónlistarhúsið í Reykjavík. En það verður jafnframt að gera ráð fyrir eðlilegri verkaskiptingu og nánu samstarfi þessara tveggja stórvelda, því þörfin fyrir skynsamlega nýtingu verðmæta og mannauðs er aðkallandi þegar svona mikill vöxtur er framundan í tónlistarlífinu. Ég vænti þess að full samstaða verði milli allra hagsmunaaðila í því mikilvæga uppbyggingarstarfi sem í vændum er.


Höfundur er óperustjóri.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 3. febrúar 2007.


 ©  2007  Músa