Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 6. maí 2006
Tónlistin tapar

Susanne Ernst
<sernst@actavis.is>

ÉG ER nemi í Tónlistarskólanum í Reykjavík og einn þeirra sem munu hverfa frá námi vegna aldurstakmarks verði þetta ekki endurskoðað. Þar sem ég hef atvinnu af öðru setur þetta ekki endilega strik í reikning hjá mér hvað varðar starfssvið framtíðar, en mig langar að styðja þá nemendur sem þurfa að hætta í námi en langar að halda áfram auk þess að deila skoðun minni á þessu með öðrum. Þegar ég var krakki lærði ég á harmónikku. Þetta var tómstundanám á vegum grunnskólans fyrir nemendur, kennara og foreldra. Ég var þá kannski 10 ára gömul og það sem mér er eftirminnilegast er að við krakkarnir vorum miklu flinkari að læra á hljóðfæri en fullorðnu nemendurnir. Á þessum aldri var þetta mjög góð tilfinning og hvatti okkur áfram. Nú stend ég hinum megin, æfi með yngri strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík enda byrjandi á víólu þrátt fyrir aldur og upplifi nákvæmlega það sama, krakkarnir eru miklu flinkari en ég. Ég tel þetta vera mjög hollt bæði fyrir börn og fullorðna að geta lært eitthvað saman og er tónlistin góður vettvangur fyrir slíkt. Tónlistarskóli er miklu meira en hljóðfæranám sem hægt væri að útvega sér hjá kennara í einkatímum. Stór hluti af náminu er bóknám, samspil, hljómsveitir, félagslíf auk tónleikahalds og prófa. Í dag er lögð mikil áhersla á símenntun og endurmenntun, þess vegna ætti ekki að útiloka þann möguleika fyrir eldri nemendur að byrja í tónlistarnámi eða halda áfram þar sem frá var horfið. Hvaða fullorðin manneskja sem hefur stundað tónlistarnám í æsku en hætt af einhverjum ástæðum sér ekki eftir því að hafa lagt hljóðfærið á hilluna? Marga langar örugglega að taka þráðinn upp á nýtt. Einnig hafa ekki allir tækifæri til að stunda tónlistarnám í æsku af ýmsum ástæðum. Við þekkjum líka marga frábæra tónlistarmenn sem hófu feril sinn seint. Hvað væri landið án þeirra? Það þýðir heldur ekkert að búa bara til frábæra tónlistarmenn ef enginn fer á tónleika sem kann að hlusta á þá

Í dag eru nokkrir tónlistarskólar mjög sérhæfðir á einhverju sviði, eins og t.d. FÍH, Tónlistarskóli Kópavogs og Söngskólinn í Reykjavík. Það hljómar mjög furðulega að nemendur þurfi að eiga lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi til að komast að í sérhæfðu námi. Ég tel það vera nauðsynlegt í þágu tónlistarinnar að veita nemendum aðgang að námi sem þeir hafa áhuga á, óháð búsetu og aldri.

Eins og ég nefndi áður sé ég mig ekki sem tónlistarmaður í framtíðinni, en mig langar að útskýra af hverju ég ætla að halda áfram í tónlistarnámi. Ég lít á mitt tónlistarnám sem lífsstíl og lífsgæði auk tækifæris til að afla mér umframþekkingar á því sem mér þykir vænt um. Að horfa á fótbolta eða golf en þekkja ekki leikreglur er lítið spennandi, en þetta batnar strax eftir að hafa kynnt sér reglur og enn meira að stunda þessar íþróttir sjálfur. Sama gildir um tónlist. Að fara á tónleika og hafa kynnt sér „leikreglur“, þ.e. tónfræði, hljómfræði, kontrapunkt o.s.frv., er meiri háttar og að spila tónverk sjálfur með hljómsveit er alveg ómetanleg upplifun. Sem unglingur hafði ég ekki áhuga á tónlist. Ég byrjaði seint í tónlistarskóla í Þýskalandi, lærði á klarínett en hætti eftir einhver ár, kláraði verkfræðinám og flutti til Íslands. Einhvern tíma langaði mig að læra meira og ákvað að læra á nýtt hljóðfæri. Ég komst inn í skóla og hef verið þar í tæplega fjögur ár. Tónlistarnámið gerði mig að „tónlistarnotanda“ þó svo að ekki verði alvöru tónlistarmaður úr mér. Ég spila með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Lúðrasveitinni Svan, ég á hljóðfæri sem þarfnast viðhalds, viðgerða og aukahluta. Ég kaupi námsbækur, nótnabækur og geisladiska auk þess að vera áskrifandi hjá Sinfóníunni og Kammermúsíkklúbbnum, og fer á fjölda annarra tónleika. Þetta er mitt framlag til tónlistarinnar, og tel ég þetta ekki vera lítið. Í krónum talið (fyrir þá sem kunna ekki að meta þetta á annan hátt) nemur þetta örugglega um hundrað þúsundum á ári.

Að sjálfsögðu eiga ungir og framúrskarandi nemendur að hafa forgang í námi, en allir hinir ættu að hafa a.m.k. séns á að komast að ef þeir sýna tónlistarnámi áhuga. Ég skora því á ábyrgðaraðila að taka málið til endurskoðunar, það er tónlistin sem tapar á þessu!


Höfundur er efnaverkfræðingur og tónlistarnemi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 3. maí 2006.


 ©  2006  Músa