Músík.is: ForsíðaViðburðir í íslensku tónlistarlífi 1930 - 195927.03.2015
 Efnisyfirlit1056 - 1839  |  1840 - 1929  |  1930 - 1959  |  1960 - 2000Heimildir 

Allar ábendingar um göt, villur eða gallaða framsetningu eru vel þegnar <musik[at]musik.is>.
1930
— Franz Mixa tekur við stjórn Hljómsveitar Reykjavíkur og stjórnar henni næstu árin. (Bjarki, 8)
— Alþingishátíð á Þingvöllum í tilefni 1000 ára afmælis stofnunar Alþingis.
Alþingishátíðarkantata Páls Ísólfssonar frumflutt. (Bjarki, 11-17) Verkið hlaut 1. verðlaun í samkeppni í tilefni þjóðhátíðarinnar og er fyrsta meiri háttar tónverk samið af Íslendingi. Kantata Emils Thoroddsen hlaut 2. verðlaun. „Aðrir, sem sömdu kantötur við þjóðhátíðarljóð Davíðs Stefánssonar voru: síra Bjarni Þorsteinsson, Björgvin Guðmundsson (1891-1961), Sigurður Þórðarson (1895-1968) og Jón Leifs.“ (Páll Kr., 136). Páll Kr. nefnir ekki Þórarin Jónsson og Sigurð Helgason (í Kanada) en þessir menn sendu einnig kantötur í keppnina. Þá má geta þess að Jón Leifs sendi sína kantötu ekki til keppninnar. (Bjarki, 17-20)
Fyrstu hljómplötuupptökur á Íslandi. Ólafur Magnússon og Haraldur sonur hans í Fálkanum hf. stóðu hér að baki og var hugmyndin að hljóðrita skyldi listræna viðburði sem fram áttu að fara á Þingöllum. „Möguleikar á hljóðritun þar voru ekki fyrir hendi svo þess í stað tók Fálkinn samkomuhúsið Báruna á leigu, sem þá stóð þar sem nú eru bílastæði við norðvestur enda Tjarnarinnar í Reykjavík.“ (Hrafn, 135). Tveir sérfræðingar á vegum Columbia komu með nauðsynleg tæki.... Hljóðritaðar voru 50 plötur með upplestri, söng og hljóðfæraleik. (Bjarki, 131)
Hver kórinn af öðrum mætti til leiks og gífurlega mikið var hljóðritað. Síðan kom að einsöngvurunum, þeim Sigurði Skagfield, Hreini Pálssyni og fleirum og þá var um leið í fyrsta skipti hljóðritaður hljóðfæraleikur hér á landi því undirleikari með öllum einsöngvurunum var dr. Franz Mixa, hinn mætasti tónlistmaður, sem starfaði um nokkurt skeið á Íslandi. (Svavar, 135)
Fyrsti Íslendingurinn til að hljóðrita hljóðfæraleik á Íslandi hefur líklega verið Emil Thoroddsen, því þetta sumar 1930, lék hann á píanó tvö lög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson.“ (Svavar, 135).
Fyrsta hljómsveitin hér á landi til að leika inn á plötu gerði það þetta sama sögufræga sumar.“
Það var Hljómsveit Reykjavíkur. Líklega hefur dr. Mixa stjórnar henni og ekki er ólíklegt að elstu menn í stétt hljómlistarmanna geti rifjað upp hverjir léku á hin einstöku hljóðfæri. Hljómsveitin lék þjóðsönginn, og þá einnig lag eftir Max Raebel sem hafði fengið íslenska titilinn Lofsöngur til íslenskrar tungu. (Svavar, 135)
Tónlistarskólinn í Reykjavík stofnaður að frumkvæði Páls Ísólfssonar og Franz Mixa. (Bjarki, 27)
21. desember: Ríkisútvarpið tekur til starfa. Í árslok 1930 voru hlustendur um 450 en tæplega 4000 ári síðar (Bjarki, 57). Sent var út á einni rás til 1983 þegar útsendingar Rásar 2 hófust. FM stereó útsendingar hófust í desember 1980, á 50 ára afmæli Útvarpsins (Bjarni Rúnar).
1932
— Febrúar, Félag íslenskra hljóðfæraleikara (FÍH) stofnað að frumkvæði Bjarna Böðvarssonar (1900-55) og Þórhalls Árnasonar (1891-1976). Félagið „var fyrst og fremst stofnað af hljóðfæraleikurum sem lögðu fyrir sig að leika danstónlist.“ (Svavar, 135)
7. júní: Tónlistarfélagið stofnað. Stofnfélagar voru 12 (stundum nefndir 'postularnir 12'): Óskar Jónsson prentari, Tómas Albertsson prentari, Þórarinn Björnsson póstfulltrúi, Ólafur Þorgrímsson lögfræðingur, Haukur B. Gröndal verslunarmaður, Hálfdán Eiríksson kaupmaður, Stefán Kristinsson bókari, Helgi Lárusson framkvæmdastjóri, Kristján Sigurðsson póstfulltrúi, Sigurður A. Markan verslunarmaður, Björn Jónsson kaupmaður og Ragnar Jónsson forstjóri. (Bjarki, 29)
1933
– 3. febrúar: Hótel Ísland, eitt stærsta timburhús í Reykjavík, brann. Einn maður fórst en meira en fjörutíu var bjargað. „Allmargir köstuðu sér út um glugga á annarri og þriðju hæð,“ sagði Morgunblaðið. „Slökkviliðið vinnur þrekvirki í björgun nærliggjandi húsa,“ sagði Vísir. Þetta var mesti eldsvoði í borginni í tæp þrjátíu ár.
Dansmúsík fyrst hljóðrituð hér á landi.
Jóhann Jósefsson, sá kunni harmonikuleikari frá Ormarslóni, lék tvö lög inn og hinn sama dag lék danshljómsveit þrjú lög, sem síðar komu út á plötu sem ber númerin DI-1084 og á plötunni stendur: 'P.O. BERNBURG og orkester. Fiðla, harmonikur og jass. a. Nú blikar við sólarlag, valstempó. A. Schultz. b. Svífur að haustið. Dahlgren. c. Marz. Deire.'
   Aðalhljóðfæraleikari á þessari plötu var ættfaðir Bernburgann hér á landi, fiðluleikarinn og hljómsveitarstjórinn Poul O. Bernburg. Harmonikuleikararnir munu hafa verið Tollefsen nokkur frá Noregi, sem hér starfaði í stuttan tíma, alls óskyldur hinum eina og sanna Tollefsen, og svo Jóhannes okkar Jóhannesson, sá landskunni harmonikuleikari og lagasmiður.
   Polli sagðir mér frá þessari hljóðritun og bað mig, af sinni alkunnu kurteisi, að hafa það alls ekki eftir sér að hann hefði nú einungis fengið að vera með vegna þess að trommuleikarinn í hljómsveit föður síns hafi lent á því!
   Polli lék nefnilega á jass, en það voru trommur nefndar fyrr á árum. (Svavar, 135-36)
— Svavar Gests álítur því að Poul Bernburg yngri hafi verið fyrsti trommuleikarinn á íslandi. (Svavar, 136)
Okkar fyrsti „'stúdíó-maður', eins og hljóðfæraleikarar þeir eru nefndir nú, sem leika með hinum og þessum hljómsveitarstjórum eða útsetjurum inn á plötur eftir því sem þörf krefur“, var að áliti Svavars Ólafur Gaukur Þórhallsson. (Svavar, 136)
1934
Óperetta (Meyjarskemman ) flutt í fyrsta sinn á Íslandi undir stjórn Franz Mixa. Tónlistarfélagið stóð að uppfærslunni, m.a. til að afla Tónlistarskólanum rekstrarfjár. (Bjarki, 30)
Nemendur taka burtfararpróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík í fyrsta skipti: „Björn Ólafsson á fiðlu, Helga Laxness á píanó, Katrín Dalhoff Bjarnadóttir á píanó og Margrét Eiríksdóttir á píanó. Prófdómari var Emil Thoroddsen. Katrín Dalhoff lauk svo tveimur árum síðar einnig burtfararprófi í fiðluleik.“ (Bjarki, 28)
1937
Fyrsta óperan, Systirin frá Prag sett á fjalirnar. Dr. Franz Mixa stjórnaði Hljómsveit Reykjavíkur. (Páll Kr., 139)
1938
— Kristján Friðriksson hefur útgáfu tímaritsins Útvarpstíðindi. Þar birtist fjöldi greina um tónlist og er þarna mikil heimild um dagskrá Ríkisútvarpsins. Útgáfan lagðist smám saman af á 6. áratugnum. (Bjarki, 61)
— Victor Urbancic (1903-58) flytur til Íslands. Hann
...stundaði nám hjá Guido Adler, Joseph Marx, Clemens Krauss og Paul Weingarten. Hann varði doktorsritgerð um sónötuform í verkum Brahms er hann var aðeins 22 ára gamall. Hann var hljómsveitarstjóri við ríkisleikhúsið í Mainz á árunum 1926-33, síðan dósent í músíksögu við háskólann í Graz og kennari við konservatóríið þar árin 1934-38, er það ár flutti hann með fjölskyldu sína til Íslands og gerðist kór- og hljómsveitarstjóri í Reykjavík og kennari við Tónlistarskólann. Hann kenndi tónfræði, tónlistarsögu og píanóleik. Eftir hann liggja hljómsveitar-, kammer- og píanóverk svo og sönglög. Dr. Victor varð hinn nýtasti maður í íslensku músíklífi sakir fjölhæfni. Hann var píanóleikari, organleikari, kór- og hljómsveitarstjóri og alhliða músíkkennari. Auk þess var hann vel heima í bókmenntum (að íslenskum meðtöldum) og öðrum listgreinum. (Páll Kr., 139)
Urbancic var einn af fjölmörgum vel menntuðum og flinkum tónlistarmönnum sem komu til landsins á fyrri hluta aldarinnar og unnu hér ómetanlegt starf á öllum sviðum tónlistarinnar. Í þessu sambandi má nefna: Carl Billich, Franz Mixa, Karl Lilliendahl, Jan Moraveck, Wilhelm Lansky-Otto, Josef Felzmann, Heinz Edelstein (1902-59), Róbert Abraham Ottósson (1912-74), Tage Ammendrup og Fritz Weisshappel.
1939
— Jack Quinet var hljómsveitarstjóri á Hótel Borg síðustu árin fyrir stríð. Hann var áhugamaður um jazz þó að hann spilaði hann ekki sjálfur „og því fengu Íslendingarnir í hljómsveit hans að spreyta sig - þeir voru aldrei færri en þrír og allir djassmenn.“ Þetta voru Jóhannes Eggertsson básúnuleikari og trommari, Vilhjálmur Guðjónsson altsaxófónleikari og Sveinn Ólafsson sem spilaði á tenórsaxófón. Þessir þrír, ásamt Poul Bernburg og Aage Lorange [1907-2000] píanista sem „kunni alla standarda, ævinlega reiðubúinn að taka það sem dansfólk bað um...“, voru „fyrstu alvöru djassspilarar hér á landi.... Á sumrin fóru þessir piltar einatt að spila á síldarplássum fyrir norðan og á Siglufirði héldu þeir stundum konserta og fylltu húsið þegar auglýst var alveg sérstakt númer, Poul Bernburg - trommusóló í Tiger Rag.“ (Jón Múli, 217-18)
1940
— 10. maí: Ísland hernumið af Bretum. Sennilega hefur enginn atburður á 20. öld haft eins róttæk áhrif á líf og lifnaðarhætti Íslendinga og hernámið. Nú varð allt í einu nóg vinna, rýmri fjárráð og erlend áhrif streymdu inn í landið. Eftir stríð varð t.d. eftir í landinu mikið af hljómplötum með jazzmúsík og það var þessi músík „sem setti svip á samkvæmislífið og var ungum mönnum fyrirmynd þegar djassvakning hófst fyrir alvöru hér á landi á árunum eftir stríð.“ (Jón Múli, 218)
— Þjóðkórinn stofnaður af Páli Ísólfssyni. Kórinn fékk pláss í dagskrá útvarpsins undir liðnum „Takið undir“. Hugmyndin var að vant söngfólk (kór) syngi í útvarpinu en fólk tæki undir heima við viðtækin. (Bjarki, 64)
— Páll Ísólfsson mælir í útvarpserindi fyrir byggingu tónlistarhúss í Reykjavík. Af og til síðan hefur þessu máli verið hreyft. Samkór Reykjavíkur hélt t.d. tónleika 1944 til styrktar tónlistarhúsi og Tónlistarfélagið gerði sama ár sérstakt átak til að koma málinu áfram. 1958 tilkynnti Tónlistarfélagið að fyrirhuguð væri húsbygging, „tónlistarhöll“, sem reyndist frekar húsnæði fyrir Tónlistarskólann þegar til kom. 1961 var Háskólabíó byggt sem bíóhús og tónleikasalur. Upp úr 1970 hafði Tónlistarfélagið fyrirætlanir um að byggja tónlistarhús við Sigtún. Um 1980 komst umræðan um tónlistarhús aftur á skrið og síðustu ár hefur markvisst verið unnið að því að tónlistarhús rísi. (Bjarki, 34-37) Vorið 1998 lýsti nýkjörin borgarstjórn Reykjavíkur því yfir að bygging tónlistarhúss hefjist á kjörtímabilinu.
1942
— 22. nóvember: Listamannaþing haldið í fyrsta skipti í Reykjavík. Þingið stóð í viku og þátttakendur voru allir helstu listamenn þjóðarinnar. Á vegum BÍL voru haldin þrjú listamannaþing í Reykjavík á árunum 1945-50. (Bjarki, 39)
1943
— Ísland gerist aðili að Bernarsambandinu með lögum nr. 74, 5. júní 1943. Bernarsáttmálinn var fyrst gerður í Bern í Sviss, 9. september 1886, endurskoðaður í Berlín 13. nóvember 1908 og í Róm 2. júní 1928; sáttmálinn fjallar um vernd höfundarréttar á listaverkum. (Bjarki, 89)
— 4. nóvember: Stofnfundur félagsins Samkór Tónlistarfélagsins. (Bjarki, 31-34) Til marks um þau afrek sem þessi kór vann, bæði fyrir og eftir formlega stofnun, er eftirfarandi listi:

 • 1938 -  Schubert:  Messa í G-dúr - Dr. Mixa stjórnaði
 • 1939 -  Haydn:  Sköpunin - Páll Ísólfsson
 • 1940 -  Händel:  Messías - Dr. Urbancic
 • 1942 -  Mozart:  Sálumessa - Dr. Urbancic
 • 1943 -  Bach:  Jóhannesarpassía - Dr. Urbancic
 • 1943 -  Haydn:  Árstíðirnar - Róberts Abrahams Ottóssonar
 • 1944 -  Bach:  Jólaóratórían - Dr. Urbancic
 • 1945 -  Björgvin Guðmundsson:  Friður á jörðu - Dr. Urbancic
 • 1947 -  Händel:  Júdas Makkabeus - Dr. Urbancic
 • 1949 -  Mozart:  Sálumessa - Dr. Urbancic
 • 1950 -  Bach:  Jóhannesarpassía - Dr. Urbancic
 • 1951 -  Rossini:  Stabat Mater - Dr. Urbancic.

Í flestum tilfellum mun hafa verið um frumflutning að ræða hér á landi.
1944
— 25. janúar: Hljómveit FÍH stofnuð. Sveitin hélt 5 tónleika í maí undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar en starf sveitarinnar lagðist svo niður af ýmsum ástæðum - t.d. þeirri að meðlimir voru uppteknir við að spila annarsstaðar gegn borgun. (Bjarki, 50)
— 23. febrúar: Strengjakvartett stofnaður í Reykjavík - Björn Ólafsson 1. fiðla, Þorvaldur Steingrímsson 2. fiðla, Sveinn Ólafsson víóla og Heinz Edelstein selló. Kvartettinn lék mikið á heimilum heldri borgara en fyrstu opinberu tónleikarnir voru á listamannaþingi 1945. Kvartettinn starfaði til 1946 og hélt alls 217 æfingar. (Bjarki, 47)
— Ísland fullvalda ríki. Hátíð á Þingvöllum með svipuðu sniði og 1930 en mun minni að umfangi. Kvæði bárust dómnefnd frá 104 skáldum. 2. maí var ákveðið að halda samkeppni um lög við verðlaunaljóðin; lög bárust frá 27 höfundum. Hver á sér fegra föðurland eftir Emil Thoroddsen varð í 1. sæti, Land míns föður eftir Þórarinn Guðmundsson og Syng frjálsa land eftir Árna Björnsson hlutu einnig viðurkenningu. Tónlistarflutningur á hátíðinni einkenndist af karlakórsöng (einnig kirkjukórar úr Reykjavík) og hornablæstri (Lúðrasveit Reykjavíkur). (Bjarki, 40-46)
Fyrsta íslenska óperettan frumflutt, Í álögum eftir Sigurð Þórðarson, textann samdi Dagfinnur Sveinbjörnsson. (Bjarki, 30)
— Haukur Morthens (1924-1992) kemur fyrst fram á stúdentaskemmtun í Góðtemplarahúsinu. Haukur var alla tíð einn ástsælasti dægurlagasöngvari þjóðarinnar, söng inn á fjölda hljómplatna, kom fram á skemmtunum, í sjónvarpi og útvarpi víða um heim. (Ólafur Gaukur)
1945
Jón Leifs flytur heim til Íslands eftir margra ára nám og störf í útlöndum. (Bjarki, 77)
— 25. júlí: Tónskáldafélag Íslands stofnað að frumkvæði Jóns Leifs. (Bjarki, 77)
— Páll Ísólfsson sæmdur doktorsnafnbót við háskólann í Ósló. (Páll Kr., 136)
— Embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar stofnað og söngvarinn Sigurður Birkis ráðin til starfsins og
...vann hann ötullega að uppbyggingu kirkjusöngs í landinu. Hann stofnaði fjölda kirkjukóra víðs vegar um landið og þjálfaði eða skipulagði þjálfun þeirra. Hann stofnaði Tónskóla þjóðkirkjunnar, sem tók við því hlutverki Dómkirkjuorganleikaranna að kenna verðandi organistum. Enn fremur hafði hann á hendi kennslu prestsefna í litúrgískum söng. Einnig stofnaði hann Kirkjukórasamband Íslands. Eftir lát Sigurðar Birkis tók Róbert Abraham Ottósson við starfi söngmálstjóra þjóðkirkjunnar. (Páll Kr., 140) [Haukur Guðlaugsson tók svo við af Róberti Abraham.]
1946
— Janúar: Tónlistarskóli Akureyrar stofnaður. Tilraun hafði verið gerð til að reka tónlistarskóla á Akureyri 1922 en sú tilruna heppnaðist ekki. (Ingibjörg, 5)
— Gunnar Ormslev (1928-81) kemur til Íslands 18. ára gamall „og óhætt að miða upphaf nútímadjass hér á landi við komu hans.“ (Jón Múli, 219) Gunnar „átti hvað mestan þátt í að gera jasstónlist að málsmetandi listgrein á Íslandi og var framvörður landsins í jassmálum uns hann lést....“ (Hrafn, 42)
Jón Leifs stofnar Landsútgáfuna (Islandia Edition) í þeim tilgangi að annast útgáfu og stuðla að útbreiðslu og kynningu á íslenskum bókmenntum og listum á erlendri grundu. (Bjarki, 91)
— Kammermúsíkklúbburinn stofnaður og stóð að einum tónleikum a.m.k. Stofnendur voru Bjarni Guðmundsson, Árni Kristjánsson og Sigrún Gísladóttir. Starfsemi lá niðri 1947-48. Tilraun var gerð til að endurlífga starfið 1949 með tónleikum í samvinnu við Félag íslenskra tónlistarmanna sem þá var nýstofnað. Starfsemin lagðist niður eftir þetta. (Bjarki, 35)
1947
— 7. nóvember: Jórunn Viðar heldur píanótónleika í Austurbæjarbíói og vígir þar með húsið sem einn helsta tónleikastað bæjarins í áratugi. Jórunn er fyrsta kventónskáldið sem eitthvað kvað að. Hún útskrifaðist frá frá Tónlistarskólanum 18 ára og stundaði framhaldsnám í Berlín og New York.
— Tónskáldafélagið beitir sér fyrir Tónlistarsýningu í Reykjavík en hugmyndin kom frá Jóni Leifs. Þarna mátti sjá ýmis forn hljóðfæri, myndir af hljóðfæraleikurum við hljóðfæraleik, nótur íslenskra tónverka og fjallað var um helstu þætti tónlistarsögu landsins. (Bjarki, 75-76)
— KK sextettinn tekur til starfa og starfaði til 1962. Þetta ver ein helsta hljómsveit 6. áratugarins og lék jöfnum höndum jazz, dægurlög og rokk. (Gestur, 273)
1948
— 13. janúar: Tónskáldafélag Íslands stofnar Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF). Hallgrímur Helgason (1914-1994) átti hugmyndina að nafninu. (Hallgrímur var fyrsti íslenski tónvísindamaðurinn og merkur brautryðjandi í rannsóknum á eðli íslenskra þjóðlaga. (Páll Kr., 136)). Um haustið, eftir miklar umræður, var hið íslenska STEF tekið inn sem fullgildur meðlimur í norræna Stefjasambandið og á þingi alþjóðasambandsins í Buenos Aires í Argentínu sama haust var Ísland svo tekið inn í alþjóðlega Stefjasambandið að undangengnum vissum lagabreytingum á íslenskum lögum. (Bjarki, 89-90) „Jón Leifs ferðaðist um í Evrópu allan fyrri hluta ársins 1949 til að ganga frá sérsamningum við hin einstöku Stefjasambönd í hverju landi. Jón vann markvisst að réttindamálum STEFs og risu í kjölfarið upp miklar deilur á Íslandi um aðferðir hans við innheimtu og réttargæslu á vegum félagsins næstu 10 árin.“ (Bjarki, 91) - sjá t.d. viðburði ársins 1955.20.
— Maí: Strokkvartettinn Fjarkinn stofnaður; Þorvaldur Steingrímsson 1. fiðla, Óskar I. Cortes 2. fiðla, Sveinn Ólafsson víóla og Jóhannes Eggertsson selló. Kvartettinn spilaði m.a. inn á nokkrar plötur og starfaði reglulega fram í febrúar 1950. (Bjarki, 48)
— Svavar Gests (1927-97) kemur til landsins eftir nám við Juliard tónlistarskólann í New York. Svavar „gekkst fyrir stofnun Jazzklúbbs Reykjavíkur og fór að gefa út tímarit um djass. Klúbburinn efndi til djammsessjóna hvert laugardagssíðdegi um árbil, gekkst fyrir konsertum og flutti inn erlenda snillinga....“* (Jón Múli, 219). Svavar var lengi formaður FÍH og stýrði eigin hljómsveit um árabil eða til áramóta 1965-66 þegar hann hætti til að geta einbeitt sér að hljómplötuútgáfu sinni, SG hljómplötum. (Gestur, 93)


* Hilmar Skagfield, sem búið hefur í Ameríku undanfarna áratugi, er ekki alveg sammála þeirri fullyrðingu Jóns Múla að Svavar Gests hafi staðið fyrir stofnun þessa fyrsta jazz klúbbs á Íslandi. Hilmar segir í tölvupósti: „Ég var driffjöðurin í að stofan fyrst jazz klúbb Íslands. Klúbburinn var stofnaður Breiðfirðingabúð, með Gauk, Birni R. Einarssyni, Ormslev og Svavari Gests. Þetta ver 1948. Ég var kosinn formaður. Markmiðið var, að sjálfsögðu, að styrkja og kynna jzzinn, sem art og auðvitað sem lögmæta músík. Jam-sessions voru, og ef mig minnir rétt, alltaf á hverjum laugardagseftirmiðdegi í Breiðfirðingabúð. Púristunum þótti lítið varið í svona óhljóð, [Þeir] minntu mig á ofsafengna stúkumenn, sem engu tauti var viðkomið.“
1950
— 9. mars: Sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins heldur sína fyrstu tónleika í Austurbæjarbíói undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar. „Hér er ekki um neina nýja hljómsveit að ræða, heldur nýtt nafn á Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur“. (Bjarki, 105)
— Sumardagurinn fyrsti: Þjóðleikhúsið tekur formlega til starfa. „Fyrsta hugmynd að þjóðleikhúsi á Íslandi var sett fram árið 1873 af Indriða Einarssyni leikritaskáldi. Það var þó ekki fyrr en 1925 að Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins hóf að vinna að teikningum að húsinu og árið 1929 var grafið fyrir grunninum. Í fyrstu gekk vel með byggingu hússins og árið 1931 var það orðið fokhelt. Þannig stóð það í 10 ár, að hluta vegna þess að ríkissjóður tók til sín svokallaðan skemmtanaskatt sem hafði runnið í byggingasjóðinn, og auk þess dróst bygging hússins vegna stríðsins. Breski herinn lagði það undir sig á árunum 1941-45. Að stríðinu loknu var byggingu þess haldið áfram....“ (Bjarki, 113)
— 12. júní: Listamenn frá Konunglega leikhúsinu í Stokkhólmi frumflytja á Íslandi Brúðkaup Fígarós í Þjóðleikhúsinu. (Bjarki, 113)
— Desember: Fálkinn opnar sérstaka hljómplötudeild. (Bjarki, 131)
1951
— 27. apríl: Sigurður Reynir Pétursson vinnur í undirrétti mál gegn Leikfélagi Reykjavíkur þar sem félagið er skyldað til að greiða 6% af miðasölu til STEFs, auk málskostnaðar, vegna höfundarréttar á leikriti. (Bjarki, 94)
— 3. júní: Óperan Rigoletto frumflutt á Íslandi í Þjóðleikhúsinu. (Bjarki, 113) „Í aðalhlutverkum voru Stefán Islandi (1907-1994), Guðmundur Jónsson (1920) og sænska söngkonan Stina-Britta Melander. Öll önnur hlutverk en hennar voru í höndum íslenskra söngvara.“ (Páll Kr., 139)
1952
— Haust: Barnamúsíkskólinn (síðar Tónmenntaskóli Reykjavíkur) stofnaður í Reykjavík af Dr. Heinz Edelstein. Heinz (1902-1959) hafði starfrækt barnadeildir eða undirbúningsdeildir fyrir börn við Tónlistarskólann í Reykjavík frá stríðslokum og var þar um að ræða brautryðjendastarf á Íslandi.
1953
— Páll Ísólfsson fer til London og hljóðritar á plötur verk eftir Bach að eigin vali. (Bjarki, 131)13. ágúst: Samþykkt á fundi hjá STEFi að krefja útvarp hersins í Keflavík um 2500 dollara greiðslu höfundarlauna á mánuði fyrir tónlistarflutning. (Bjarki, 96)
1954
Norræn tónlistarhátíð fyrst haldin á Íslandi; engin íslensk tónlist flutt. (Bjarki, 85)
— Magnús Blöndal Jóhannsson (1925) flytur heim til Íslands eftir nám í Bandaríkjunum. (Bjarki, 185)
— Íslenskir tónar gefa lögin Æskuminning, Vökudraumur, Litla stúlkan og Manstu gamla daga með Alfreð Clausen. Þetta var fyrstu 45 snúninga platan sem gefin var út á Íslandi – og sennilega líka sú fyrsta í Skandinavíu. (Bárður Örn)
1955
— 3. september: Jón Leifs sparkar útvarp Keflavíkurrútunnar í klessu vegna þess að bílstjórinn neitaði að skrúfa fyrir útvarpið en þar hljómaði tónlist án þess að samið hefði verið um STEF greiðslur. (Bjarki, 95-96)
1956
— Dómur fellur í bæjarþingi Reykjavíkur þess efnis að Varnarliðinu beri að greiða gjöld til STEFs. Rúm tvö ár liðu til viðbótar þar til málið komst í höfn. „STEF vann sig mikið í álit fyrir málið og vakti það víða athygli erlendis enda hafði félagið sýnt alþjóðlega forystu í málinu og varð niðurstaðan m.a. sú að erlendu sambandsfélögin samþykktu að greiða allan málarekstur STEFs í málinu.“ (Bjarki, 98)
— 24. apríl: Fyrstu opinberu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta voru hátíðartónleikar undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar, helgaðir 200 ára afmæli Mozarts. (Bjarki, 125)
— 26. maí: Sigurður Björnsson lýkur burtfararprófi í söng frá Tónlistarskólanum í Reykjavík fyrstur nemenda. (Morgunblaðið. 26. maí 1956, bls. 15)
— 21. nóvember: Listamannaklúbbur BÍL stofnaður. „Tilgangur með stofnun klúbbsins var sá að listamenn gætu hist 'í menningarlegu umhverfi, átt kost veitinga, ræðst við, lesið menningarrit erlend og innlend, séð góða myndlist, hlustað á valda tónlist og kynnst ýmsu nýstárlegu úr heimi listanna'.“ (Bjarki, 99)
— Miður nóvember: Il Trovatore flutt í konsertuppfærslu af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einsöngvarar voru Þuríður Pálsdóttir, Guðmunda Elíasdóttir, Magnús Jónsson, Guðmundur Jónsson og Kristinn Hallsson. Stjórnandi var Warwick Braithwaite frá Bretlandi en um allar æfingar og undirbúning sá Ragnar Björnsson. Þetta var fyrsta konsertuppfærsla af óperu á Íslandi. (Bjarki, 126)
— Fyrsti útvarpsþátturinn fyrir ungt fólk þar sem spiluð var dægurmúsík fór í loftið:
Fjölmiðlar á Íslandi litu þá á heiminn út frá sjónarhorni ráðsettra miðaldra manna. Ríkisútvarpið taldi það hlutverk sitt að veita þjóðinni menningarlegt og þjóðlegt uppeldi og sendi út menntandi fyrirlestra, vandaðar bókmenntir og sígilda tónlist inn á heimili landsmanna, en skemmtiefnið var fólgið í harmónikutónlist, þjóðlegri tónlist og gamanvísum. Sú dægurlagatónlist sem var til orðin fyrir daga rokkæðisins átti inni í óskalagaþáttum sjúklinga, en eftir töluverðan þrýsting tók útvarpið að senda út sérstaka þætti fyrir ungt fólk. Ólafur Stepensen tók að sér að stjórna sérstökum Sunnudagsþætti útvarpsins árið 1956 og spilaði þar einkum vinsæl bandarísk dægurlög, þar á meðal nokkur rétt rokklög. Skömmu síðar kom Lög unga fólksins í staðin fyrir þátt Ólafs. Í þáttinn var hægt að senda kveðjur og panta lög og varð hann langlífur á gufunni. (Gestur, 38)
1957
— Í upphafi árs: Þrjár rokkmyndir sýndar í bíó í Reykjavík: Shake, Rattle and Roll (25.1. í Trípólíbíó) með Fats Domino (f. 1928) og Joe Turner (1911-1985), Rock, Rock, Rock (25.2. í Austurbæjarbíó) með Chuck Berry (f. 1926) og mörgum öðrum stjörnum, og Rock around the clock (5.3) með Bill Haley (1925-1981). Að auki voru sýndar a.m.k. tvær aðrar unglingamyndir, The Wild One (Vilt æska) með Marlon Brando og Glæpir á götunni með Sal Mineo og John Cassavetes, sem var auglýst þannig: „The whole story of a rock'n'roll generation“. (Gestur, 25-26) „Tugþúsundir unglinga flykktust á sýningarnar og dönsuðu sumir í hálfgerðri leiðslu meðfram sætaröðunum.“ (Gestur, 16)
— Apríl: „Vinsælasti dægurlagasöngvari landsins, Erla Þorsteins, sendir frá sér lagið Vagg og velta, rokkaða útgáfu á When the Saints (Go Marching in). Þegar platan var fyrst spiluð í útvarpi olli það miklu fjaðrafoki, einkum vegna texta Lofts Guðmundssonar [fyrsta íslenska rokktextanum (Gestur, 49)] þar sem snúið var út út ýmsum ástsælum íslenskum ljóðum.... Vagg og velta var bannað í útvarpinu og átti það kannski einhvern þátt í því að lagið náði aldrei verulegum vinsældum.“ (Gestur, 46-47)
— 27. - 30. apríl: Tónlistarhátíð í Reykjavík í tilefni 10 ára afmælis Tónskáldafélagsins; eingöngu flutt íslensk tónlist. (Bjarki, 87-88)
— Byrjun maí: SÍBS stendur fyrir 13 tónleikum í Austurbæjarbíói með Bretanum Tony Crombie og hljómsveit hans The Rockets. Uppselt var á nær alla tónleikana. Crombie var reyndur jazzisti en varð ein fyrsta rokkstjarnan í Bretlandi. Hljómsveit sem Gunnar Ormslev stýrði hitaði upp og með henni söng Helena Eyjólfsdóttir, þá aðeins 15 ára. (Gestur, 27-28)
— Vor: „Fyrsta íslenska rokkupptakan í sal Ríkisútvarpsins í Landssímahúsinu. Magnús Ingimarsson útsetti... Ef að mamma vissi það og Syngjum dátt og dönsum... þessi fyrstu rokklög sem tekin voru upp á Íslandi.“ (Gestur, 30)
— 20. desember: Fyrsta rokkhátíðin með íslenskum skemmtikröftum haldin í Austurbæjarbíói. Fram kom hljómsveit José Riba og söngvararnir Óli Ágústsson Presley, Margrét Ólafsdóttir, Sigurður Þórðarson, Johnny Boy og Edda Bernharðs (Gestur, 29) „sem flestir höfðu fengið eldskírn sína í gagnfræðaskólunum... Á rúmu ári hafði rokkæðið gagntekið íslenska æsku.“ (Gestur, 16)
— Önnur tilraun gerð til stofnunar kammermúsíkklúbbs (sjá 1946) og var starfsemin mjög virk á tímabili - m.a. voru fluttir allir Brandenburgarkonsertar Bachs. (Bjarki, 56)
1958
— 11. desember: Tónleikar í Melaskóla. „...Á Gambafiðluna lék ungur Þjóðverji, Klaus Peder Doberitz, sem nýlega réðst hingað til Sinfóníuhljómsveitarinnar, og mun Það vera í fyrsta sinn, að gambafiðluleikur [viola da gamba] heyrist hér því ekki kvaðst Páll [Ísólfsson] vita til þess að þetta hljóðfæri hefði áður komið hingað til lands.“ (Þjóðviljinn 11. des. 1958).
1959
— Febrúar: Varnarliðið felst á að greiða STEFgjöld eftir átta ára baráttu. (Bjarki, 97-98)
— Tónlistarskólanum í Reykjavík falið að sjá um menntun tónlistar- og tónmenntakennara; átti námið að vera tvö ár. (Jóhann, 73)
— Í árslok: Musica Nova stofnað - Magnús Blöndal lagði til nafnið. Stofnfélagar voru Einar G. Sveinbjörnsson fiðluleikari, Gunnar Egilsson klarinettuleikari, Ingvar Jónasson víóluleikari, Sigurður Markússon fagottleikari, Jón Nordal (1926) tónskáld og píanóleikari, Magnús Blöndal Jóhannsson tónskáld og Fjölnir Stefánsson (1930) tónskáld. (Bjarki, 147-48)
— Róbert Abraham Ottósson ver doktorsritgerð sína um Þorlákstíðir. (Páll Kr., 140-41)
— Andrés Ingólfsson sigrar „í keppni ungra djassleikara á vegum djasstímaritsins virta Down Beat. Verðlaunin voru frí skólavist í Berklee School of Music í Boston. Andrés var sá fyrsti sem hlaut þessa viðurkenningu, sem ekki var Bandaríkjamaður.“ (Morgunblaðið. 10. júlí 2009)

 Efnisyfirlit1056 - 1839| 1840 - 1929 | 1930 - 1959 | 1960 - 2000 musik@musik.is
Heimildir
© Músa