Músík.isTónverkSkrifHeimildir

Jón S. Jónsson
Jón S. Jónsson

Jón S. Jónsson tónskáld

Jón S. Jónsson (1934 - 4. sept. 2005) hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar 1942 undir handleiðslu Ragnars H. Ragnars. Þar hlaut hann verðlaun fyrir píanóleik og tónfræði við skólaslit vorið 1951.[1] Sama ár hóf Jón nám við Tónlistarskólann í Reykjavík ar sem Árna Kristjánssyni og Jóni Þórarinssyni voru meðal kennara hans. Í blaðafrétt frá 1956 um árlega nemendatónleika skólans er tiltekið sem sérstök nýjung að verk eftir nemanda yrði flutt á tónleikunum. Verkið var tríó fyrir blásarahljóðfæri eftir Jón S. Jónsson.[2]

Jón virðist þegar á námsárunum hafa spreytt sig sem stjórnandi því í Vísi frá 16. júní 1958 er Jón tilgreindur sem stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins.[3]

Haustið 1958 hóf Jón tónsmíðanám við Northwestern háskólann í Chicago í Bandaríkjunum eftir að inntökupróf hafði metið færni hans til Bakkalár gráðu.[4] Mastersgráðu lauk Jón strax vorið 1959 og hóf þá doktorsnám.[5] Árlega var einum nemanda veitt námsverðlaun við tófræðadeild skólans og hlaut Jón þessi verðlaun vorið 1960 – the Faricy Award for outstanding work in compositinn.[6] Í maí sama ár er hljómsveitarverk hans Essay for Orchestra valið til flutnings á árlegu tónskáldaþingi í Mið-vesturríkum Bandaríkjanna.[7]

Jón S. Jónsson við píanóið
Ungt tónskáld við vinnu sína
Í viðtali við Jón í Morgunblaðinu frá 26. maí 1956 kemur fram að meðfram námi við Northwestern háskólann hafi hann unnið við píanókennslu, kennt tónlistarsögu sem aðstoðarkennari við háskólann og unnið hjá fyrirtæki sem gaf út nótur.[8]

Í grein í Lögbergi-Heimskringlu frá 1985 rifjar Ólöf Egilsson (Lulla) upp fyrsta þorrablót sem Íslendingar í Chicago héldu, 5. mars 1960. Meðal atriða var píanólekur ungs Íslendings: „Jón S. Jónsson, then a student of music at Northwestern University played the piano. He brought the house down with his performance.“[9] Lögbergi-Heimskringlu frá 1961 segir einnig af píanóleik Jóns á 17. júníhátíð í Chicago: „Ungur hljómlistarmaður, Jón S. Jónsson, nemandi í tónsmíði við Northwestern University lék einleik á píanó og spilaði undir söng. Var Jóni mjög vel tekið og óspart sungin ættjarðarljóðin, sem hann lék.“[10]

Jón S. Jónsson
Jón 1963
Á merkum Músíka Nova tónleikum 6. desember 1961 er frumflutt eftir Jón sónata fyrir fiðlu og píanó sem Jón Þórarinsson segir í ritdómi að hafi verið „... hressilegt verk, hlaðið spennu, bæði í laglínum, hljómsetningu og hljóðfalli, og heldur athyglinni vakandi frá byrjun til enda.[11]

Hvernig tónlist samdi svo Jón? Hann var alla vega talinn til nútímatónskálda af Jóni Nordal í blaðaviðtali frá 1963.[12]

Í janúar 1963 er Jón ráðinn stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur og tekur þar við af Sigurði Þórðarsyni sem þá hafði stjórnað kórnum í hartnær fjóra áratugi.[13] Sama ár er Jón einnig ráðinn skólastjóri við nýstofnaðan tónlistarskóla í Kópavogi[14] og gegnir því starfi til 1965 þegar hann flutti til Bandaríkjanna.[15] Á þessum árum er Jón einnig tónlistargagnrýnandi hjá Alþýðublaðinu.

Lögberg-Heimskringla greinir frá því í júlí 1966 að Jón muni hefja störf sem aðstoðarprófessor í tónlist við Augustana College í Rock Island, Illinois þá um haustið.[16]

Jón réðst til Eastern New Mexico háskóla í Bandaríkjunum 1974 til að stýra tónfræðadeild skólans. Jón starfaði við skólann þar til hann lét af stöfum 1997 og hafði þá gegnt þar margvíslegum trúnaðarstörfum.[17]


Tónverk

Tríó fyrir blásturshljóðfæri (1956)
Verkið var flutt á árlegum nemendatónleikum Tónlistarskólans í Reykjavík vorið 1956. Tekið er fram í blaðafrétt um tónleikana að markverð nýjung sé að verk eftir nemanda sé á dagskrá tónleikanna.
Blásarakvartett fyrir flautu, óbó, klarinett & fagott.
Þetta er eina verk Jóns sem skráð er í gagnagrunni Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar. Verkið er samið á námsárum Jóns í Bandaríkjunum.
Víddir (Dimensions) fyrir 12 hljóðfæraleikara
Verkið er samið á námsárum Jóns í Bandaríkjunum. Samkvæmt frásögn í Tímanum frá 1. júlí 1965 var Dimensjóns og fjögur önnur íslensk verk valið af nefnd Norræna tónskáldaráðsins til flutnings á Tónlistarmóti í Reykjavík 1966[18].
Traynour fyrir 7 hljóðfæraleikara
Verkið er samið á námsárum Jóns í Bandaríkjunum. Jón segir traynour vera „... franskt tónfræðiorð frá 13. öld, sem er dálítið erfitt að skýra. Það nær yfir ýmislegt, sem nú er kallað „polyrythm" – og er merking Þess nátengd þeim vinnuaðferðum, sem notaðar voru við samningu þessarar tónsmíðar.“ Verkið var frumflutt 1961 á tónlistarmóti í Bandaríkjunum undir stjórn höfundarins.
Þrymskviða. Kantata fyrir 6 einsöngvara, blandaðan kór og kammerhljómsveit.
Verkið er samið á námsárum Jóns í Bandaríkjunum. Verkið er í einum þætti og tekur um 45 mínútur í flutningi.
Essay for Orchestra
Verkið er samið á námsárum Jóns í Bandaríkjunum og hlaut hann verðlaun fyrir verkið vorið 1960. Verkið var flutt í Útvarpinu 21. sept. 1967 af Sinfóníusveit Inninoisháskóla undir stjórn höfundar.[19]
Sónata fyrir fiðlu og píanó (1961)
Verkið var frumflutt af Einari Sveinbjörnssyni og Þorkatli Sigurbjörnssyni á merkum tónleikum Musica Nova 6. desember 1961 ásamt verkum eftir Magnús Blöndal, Þorkel Sigurbjörnsson og Jón Leifs.[20] Verkið var endurflutt af sömu flytjendum á tónleikum Musica Nova 19. janúar 1964.[21] Leifur Þórarinsson skrifar um þessa tónleika fyrir Vísi og segir verkið „... nokkuð í anda Bartóks, með línutækni Hindemiths í bakhöndinni og samin í skóla fyrir nokkrum árum...“; flytjendur hafi gert því hin ánægjulegustu skil.[22] Unnur Arnórsdóttir skrifar í Tímann 23. janúar: „Sónata eftir Jón S. Jónsson er góð tónsmíð, en nokkuð í Hindemith-anda. Tveir fyrstu kaflarnir eru skemmtilegir, bæði í formi og vinnubrögðum, og sá þriðji lofar talsverðu í upphafi, en er á líður, slaknar á þræðinum og hálfgerð upp lausn bindur endi á verkið. Þeirri, er þetta ritar, fyndist ekki fráleitt, að höfundur ætti eftir að endurskoða að einhverju leyti hluta af síðasta kafla verksins.“[23] Þegar blöðum er flett frá sjöunda áratugnum virðist sónatan talsvert hafa verið flutt í Útvarpið.
Líf fyrir karlakór (1963?)
Lagið var frumflutt á tónleikum Karlakórs Reykjavíkur í maí 1963. Gagnrýnandanum Jóni Þórarinssyni þykir nafna sínum ekki hafa tekist sérlega vel upp: „... lag Jóns, var slétt og fellt en heldur rislítið.“[24]
Tvö lög við kínversk ljóð (1966)
Tíminn greinir frá því 3. apríl 1966 að þessi lög, við enska þýðingu á texta eftir Lao Tze (Bókin um veginn), verði frumflutt á tónleikum Pólífónkórsins í Gamlabíói 4. apríl. Tónskáldið hafi lokið við lögin fyrir aðeins tveimur mánuðum, þá fyrir kammerhljómsveit og kór. Á tónleikum Pólífónkórsins verði lögin flutt án undirleiks, einsöngvari verði Halldór Vilhelmsson.[25] Þorkell Sigurbjörnsson skrifar tónleikagagnrýni um tónleikana í Vísi 13. apríl 1966 og segir þar m.a.: „Kórinn flutti brot kínveskrar speki (úr Vegi Laó Tze) á ensku, og samkvæmt því heyrðust einraddaður ávæningur af „pentatonik“, og síðan ódulbúin „rakarastofu harmónía“ upp á ameríska vísu. Þannig fór Jón S. Jónsson með 2500 ára kínverska vizku.“ Unnur Arnórsdóttir er jákvæðari í Tímanum 14. apríl 1966: „Sem fulltrúi nýrrar ísl. tónlistar, átti dr. Jón S. Jónsson þarna tvo þætti úr verki við texta eftir Lao Tze. — Jón treður engar nýjar slóðir, en heldur gömlum og nýjum þráðum til haga í mjög svo aðgengilegu og áheyrilegu formi, sem í einfaldri byggingu ætti ekki að verða neinum heyranda ofraun. Túlkun kórsins á verki Jóns var ágæt og einsöngur Halldórs Vilhelmssonar prýðilegur. — Þessu nýja verki var mjög vel tekið og endurtók kórinn hluta úr því.“[26]
Kópavogssöngur (1965)
Lagið var samið í tilefni að 10 ára kaupstaðarafmæli Kópavogs 11. maí 1965 við texta eftir Þorstein Valdimarsson og flutt þá af karlakór undir stjórn höfundar [Kóðavogskaupstaður 10 ára].[27] Fimm árum síðar virðist hafa unnið sér sess því á 15 ára afmæli kaupstaðarins þá segir m.a. í Vísi: „Í því tilefni sendir stjórn kaupstaðarins öllum nemendum í skólum hans kveðju á sérstöku korti, sem hún hefur látið gera með merki Kópavogs og Kópavogssöngnum. Ljóðið er eftir Þorstein Valdimarsson og lagið eftir Jón S. Jónsson.“[28] Í Vísi 7. mars 1970 er frétt um að Lúðrasveit Kópavogs muni í Stundinni okkar þann dag m.a. leika Kópavog eftir Jón S. Jónsson.[29] Lagið ætti þá að vera til í lúðrasveitarútsetningu og mögulega í upptöku ef Sjónvarpið hefur ekki fargar upptöku af þessum þætti.


Skrif:


Heimildir:

  1. Frá skólaslitum í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Morgunblaðið. 13. júní 1951, bls. 7. Sagt frá því að Jón S. Jónsson hafi hlotið verðlaun fyrir píanóleik og tónfræði.
  2. Nemendatónleikar Tónlistarskólans verða í dag og 2. júní: Á efnisskrá fyrri tónleikana er m.a. verk eftir einn nemandann. Morgunblaðið. 26. maí 1956, bls. 15.
  3. Dagskrá hátíðahaldanna 17. júní 1958. Vísir. 16. júní 1958, bls. 7. Jón S. Jónsson stjórnaði þarna Lúðrasveit verkaýðsins.
  4. Samdi kantötu við Þrymskviðu: Örstutt spjall við ungan tónsmið. Morgunblaðið. 26. maí 1956, bls. 15.
  5. Efnilegur tónlistarmaður. Morgunblaðið. 9. júní 1960, bls. 2.
  6. Icelander to Join Augustana. Lögberg-Heimskringla. 28. júlí 1966, bls 1. Sagt frá því að „Dr. Jón S. Jónsson, director of the Conservatory of Music, Kópavogur, Iceland“ hafi, frá og með komandi hausti, verið ráðinn aðstoðarprófessor í píanóleik og tónsmíðum við Augustana College (sennilega í Illinois).
  7. Samdi kantötu við Þrymskviðu: Örstutt spjall við ungan tónsmið. Morgunblaðið. 26. maí 1956, bls. 15.
  8. The Icelandic Association of Chicago. Lögberg-Heimskringla. 14. júní 1985, bls. 7. Sagt frá fyrsta Þorrablóti Íslendingafélagsins í Chicago 5. mars 1960 þar sem Jón S. lék á píanó og „... brought the house down with his performance.“
  9. 17. júní í Chicago. Lögberg-Heimskringla. 29. júní 1961, bls 5. Sagt frá 17. júni hátíðahöldum í Chicago þar sem Jón. S. Jónsson lék einleik á píanó og undir fjöldasöng.
  10. Musica Nova. Morgunblaðið. 7. des. 1961, bls. 23.
  11. Skólastjóri, tónskáld og píanóleikari. Vísir. 21. nóv. 1963, bls. 7. Viðtal við Jón Nordal sem telur Jón S. Jónsson meðal framsæknu ungu tónskáldanna.
  12. Sigurður Þórðarson lætur af sögstjórn. Vísir. 12. des. 1962, bls. 9.
  13. Tónlistarskóli stofnaður í Kópvogi. Vísir. 12. okt. 1963, bls. 9.
  14. Ágrið af sögu skólans. Vefur Tónlistarskóla Kópavogs.
  15. Icelander to Join Augustana. Lögberg-Heimskringla. 28. júlí 1966, bls 1.
  16. 2008 Distinguished Faculty Emeritus Honorees. Þessi yfirskrift er neðarlega á þessari síðu og segir frá ferli Jóns við Eastern New Mexico háskólann í Bandaríkjunum.
  17. Útvarpið. Þjóðviljinn. 21. sept. 1967, bls. 8. Kl. 20:05 Íslensk tónlist. M.a. Essay for Orchestra eftir Jón S. Jónsson í flutning Sinfóníusveitar Háskólans í Illinois undir stjórn höfundar.
  18. Íslenzk nútímaverk flutt á Hótel Borg. Morgunblaðið. 6. des. 1961, bls. 15.
  19. Musica Nova heldur tónleika. Morgunblaðið. 19. jan. 1964, bls. 27.
  20. Musica Nova. Leifur Þórarinsson. Tónleikaumfjöllun. Vísir. 20. jan. 1964, bls. 5.
  21. Musica Nova. Unnur Arnórsdóttir. Tónleikaumfjöllun. Tíminn. 23. jan. 1964, bls.13.
  22. Tónleikar. Jón Þórarinsson. Tónleikaumfjöllun. Morgunblaðið. 10. maí 1963, bls. 8.
  23. Íslenzk lög við kínversk ljóð. Tónleikar Pólyfónkórsins auglýstir. Tvö lög eftir Jóns S. Jónsson. Tíminn. 3. apríl 1966, bls. 24.
  24. Pólyfónkórinn. Unnur Arnórsdóttir. Tónleikaumfjöllun. Tíminn. 14. apríl 1966, bls. 8.
  25. Kópavogskaupstaður 10 ára: Bæjarstjórn efnir til mikillar afmælishátíðar. Þjóðviljinn. 7. maí 1965, bls. 12. Frumflutt lag Jóns við kvæði tileinkað Kópavogi eftir Þorsteins Valdimarssonar.
  26. Kópavogskaupstaður 15 ára. Vísir. 11. maí 1970, bls. 13.
  27. Lúðrahljómur úr Kópavogi. Vísir. 7. marz 1970.

Um vefinn:

Sigrid Dyrset Jonsson
Sigrid Dyrset Jónsson
Síðsumars 2009 hringdi maður í Tónlistarsafn Íslands og spurðist fyrir um Jón S. Jónsson tónskáld. Minningarathöfn hafði verið auglýst í Morgunblaðinu um Jón og konu hans Sigrid Dyrset Jónsson (f. 14. apríl 1940, d. 31. júlí 2008).

Ekki höfðum við svar á reiðum höndum og einföld eftirgrennslan skilaði ekki miklu. Við komumst þó að því að Jón hafði verið fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Kópavogs og samið Kópavogssönginn í tilefni að 10 ára afmæli bæjarins 1965. Þetta þótti okkur forvitnilegt svo við héldum grúskinu áfram. Það sem við höfum fundið er birt hér ofar.

Við lítum á þessa vefsíðu sem verk í þróun og hugsum okkur að bæta hér inn upplýsingum um Jón eftir því sem þær koma í leitirnar. Þeir lesendur sem kunna að hafa frekari upplýsingar um Jón, æfi hans og verk, mega gjarnan hafa sambandi við okkur í gegn um vef Tónlistarsafns Íslands. Ábendingar um villur eða það sem betur má fara eru líka vel þegnar.