7. áratugurinn


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Þó svo eitt aðalamálið á vettvangi Tónskáldafélagsins á þessum áratug hafi verið stofnun tónverkamiðstöðvar, báru ýmis önnum mál á góma. Óbeisluð framganga formannsins upp úr 1960 olli nokkrum blaðaskrifum og fram komu ýmsar dylgjur frá hans hendi sem leiðréttingar þurfti við. Urðu niðurstöður þær að formanni, Jóni Leifs, var bannað af stjórninni að birta nokkur skrif á opinberum vettvangi í nafni félagsins án samþykkis stjórnar.

Í upphafi áratugarins var m.a. unnið að því að gefa út upplýsingarit um íslenska tónlist og leitað var samvinnu við Menningarsjóð um fjármögnun á slíku riti. Einnig komu fram tillögur um ráðningu erlends nótnaskrifara til að hreinrita nótur íslenskra tónskálda með útgáfu í huga. Skráning verka íslenskra tónskálda var í ólestri og svo að segja engar upplýsingar lágu fyrir um íslenska tónlist til kynningar. Til að bæta úr þessu var prentað sérstakt eyðublað og það sent félagsmönnum svo þeir gætu skráð verk sín og senda félaginu. Hugmyndin var að verk íslenskra tónskálda yrðu gefin út, í samvinnu við Menningarsjóð. Einnig var barist fyrir því að Landsbókasafn Íslands eignaðist ljósmyndir af öllum handritum íslenskra tónskálda. Komu og fram tillögur árið 1963 þess efnis að við Landsbókasafnið yrði stofnuð tónlistardeild "sem kaupi handrit íslenskra tónskálda til varðveislu". Ekki náðu þessi mál fram að ganga og það er ekki fyrr en nú í lok aldarinnar að einhver vakning virðist vera í þá átt að tónskáld og ættingjar þeirra afhendi Landsbókasafni handrit íslenskra tónverka til varðveislu.


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998