Elektrónísk tónlist á hátíðinni


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Það setti svip sinn á hátíðina hvað elektróníska tónlist varðar, að í fyrsta sinni mátti heyra slíka tónlist í „alvöru“ tækjum á Íslandi. Fyrir utan hljóðfæraleikara sendu Svíar fullkomin tæki til að flytja elektróníska tónlist; fjögurra rása hljóðflutningskerfi ásamt tólf hátölurum.

Þegar ISCM – hátíðin var hérna árið 1973 vorum við svo illa staddir hérna að við höfðum ekki möguleika á að spila raftónverkin nema með því að fá lánaðar græjur. Það var stofnun í Stokkhólmi sem bauðst til að lána okkur tæki með manni, þannig að við gátum haft þessa elektrónísku tónleika skammlaust á Kjarvalsstöðum. Sten Hanson, formaður sænska tónskáldafélagsins vann að þessu vakandi og sofandi.

Það voru því ekki aðeins vandamálið að semja elektróníska tónlist á Íslandi – tækin til tónlistarflutnings voru hreinlega ekki til í landinu.

En andinn var til staðar. Á aðalfundi Tónskáldafélagsins í febrúar 1971 var samþykkt eftirfarandi tillaga frá Atla Heimi Sveinssyni og Leifi Þórarinssyni:

Ekki voru þessi möguleika kannaðir að neinu gagni hjá stjórn félagsins. Tveimur árum síðar, í janúar 1973, bar Atli enn á ný fram eftirfarandi tillögu sem einnig var samþykkt í Tónskáldafélaginu:

Ágreiningur var meðal félagsmanna um framkvæmd þessarar tillögu. Þorkell hafði þá skoðun að rétt væri að bíða aðeins og sjá til í hinni öru tækniþróun sem þá var – og er enn. Atli vildi „stökkva á bak klárnum“ og hefjast handa og þoka málinu áleiðis. Þessi skoðanaágreiningur varð þess valdandi að ekkert gerðist í málinu. Því er að finna síðustu bókun um elektróníska tónlist í fundargerðabókum Tónskáldafélags Íslands 1974 sem hljóðar þannig:

Með þessari fundargerð lýkur að mínu mati baráttu fyrstu kynslóðar elektrónískra tónskálda á Íslandi fyrir opinberri viðurkenningu á þessum stíl tónlistar. Sú vítamínsprauta sem Atli og Þorkell höfðu fengið við að semja sín verk, Atli í Kanada (Búr) og Þorkell í Stokkhólmi (Fípur), ásamt því að gefa áheyrendum kost á að heyra slíka tónlist í góðum tækjum á Kjarvalsstöðum árið 1973, dugði ekki til að frekari árangur næðist á heimavelli. Þó svo Þorkell hafi komist í stúdíó nokkru síðar í Bandaríkjunum, á páskum 1975 (Þar sem hann samdi verkin La Jolla Good Friday I og II, og Race Track), þá voru þau verk síðustu verk hans á sviði elektrónískrar tónlistar fram að þessu.

Aðstæður í Evrópu voru á þann veg að hugmyndir að IRCAM (sjá nánar síðar) voru að fæðast og þar var að opnast stór möguleiki. En ef ná átti langt á þessu sviði varð að fara í langt nám í elektrónískum tónlistarfræðum og hafa aðstæður til að fylgja því eftir. Þorkell valdi þann kostinn að láta öðrum eftir þennan heim, enda voru tónskáldin Hjálmar H. Ragnarsson, Þorsteinn Hauksson og Lárus H. Grímsson komnir með annan fótinn í heim tækninnar. Það eru því þeir sem urðu sporgöngumenn fyrstu kynslóðar elektrónískra tónskálda á Íslandi.


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998