Ýmis mál á áttunda áratugnum.


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Fljótlega eftir að Atli Heimir Sveinsson tók við formennsku í Tónskáldafélagi Íslands fer að bera á alls kynns tillögum og baráttumálum sem hann leggur fyrir bæði stjórnar- og aðalfundi félagsins. Má þar til nefna sum eldri baráttumál félagsins, sem sumhver eru ekki enþá orðin að veruleika eða hníga og falla eins og aukinn flutningur á tónlist íslensku tónskáldanna í Ríkisútvarpinu og á vegum sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á aðalfundi 13. janúar 1973 bar Atli Heimir t.d. fram tillögu um að stofnuð verði staða tónskálds við Sinfóníuhljómsveit Íslands eins og þekkt væri í öðrum löndum og skyldi ráðið í stöðuna til eins árs í senn - þó aldrei tvö ár í röð - launakjör skyldu vera þau sömu og konsertmeistara. Ekki hefur enn fengist föst fjárveiting til þessara stöðu. Heldur hefur ekki ræst sú tillaga sem fram kom stuttu eftir lát Jóns Leifs - tillaga sem Atli ítrekaði á aðalfundinum í janúar 1973 - um að rituð skuli æfisaga Jóns Leifs.

Baráttumálin voru mörg og mikill tími fór í alls kyns undirbúning á tónleikahaldi á Íslandi, samvinnu við erlend ríki, aðallega norðurlöndin, og vinnu að hagsmunamálum félagsmanna. Til að gera langa sögu stutta væri ekki úr vegi að líta aðeins á brot úr fundargerð aðalfundar sem haldinn var 23. mars 1974 en þar eru helstu málin reifuð.

Deildi formaður [Atli Heimir Sveinsson] á Ríkisútvarpið fyrir lítinn flutning á íslenskri tónlist. Útvarpsstjóra var skrifað um þetta og jafnframt bent á leiðir til úrbóta, til að forðast mismun tónskálda. Árangur var sá, að Þorkell Sigurbjörnsson á að sjá um kynningar á íslenskri kammermúsk og hljómsveitarverkum frá og með næsta hausti í samvinnu við Pál P. Pálsson sem stjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar. Auk þeirra voru "komponistaportrett ".

Sjónvarpið hefur ekkert gert fyrir íslenska tónlist. Lagt er til að það útbúi 10 mín. dagskrárliði með verkum fyrir 1-4 flytjendur. Sinfóníuhljómsveitn hefur sömuleiðis sýnt tregðu gagnvart íslenskum tónskáldum.

Ráðuneytinu var skrifað bréf um "composer in residence ", sem ekki fékk hljómgrunn þar eða í stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þessum aðilum hefur aftur verið skrifað og málið sótt fast. Tónleikar með sérstökum kynningum á íslenskri tónlist. Nú hefur F.í.H. í hyggju að fara af stað með "tónleikaseríu " og er æskilegt að Tónskáldafélagið gerist aðili að þessu tónleikahaldi.

Elektrónískt stúdíó er ekki tímabært vegnakostnaðar, viðhald o.s.frv. Betra væri að styrkja menn til vinnu í erlendum stúdíoum.

... IMC - þátttaka er T.Í. kostnaðarsöm og til lítils gagns. Ef T.Í. fær ekki styrk frá fjárveitinganefnd Alþingis verður það að segja sig úr IMC.

Nú fór í hönd þjóðhátíðarárið 1974. Af því tilefni var pantað verk af Herbert H. Ágústssyni en einnig voru flutt önnur íslensk verk á hátíðinni. Á sama tíma voru norrænir músíkdagar haldnir í Kaupmannahöfn og voru þar flutt 6 íslensk verk. Norrænir músíkdagar árið 1976 skyldu haldnir hér á landi og voru þeir felldir inn í Listahátíð í Reykjavík það sumar.
Árið 1974 var einnig í fyrsta sinni sem ung íslensk tónskáld tóku þátt í UNM (Ung Nordisk Musik) sem haldið var í Svíþjóð og áttu nokkur tónskáld verk á hátíðinni.

Barátta tónskálda fyrir að fá verk sín flutt var stöðug. Árið 1975 átti Tónskáldafélag Íslands viðræður við FÍT og FÍH um hugsanlegt tónleikahald þar sem ný íslensk yrðu flutt. Nú var ekkert Musica Nova eins og á áratugnum á undan þar sem tónskáld og flytjendur sameinuðust undir einum hatti hvað varðarði flutning á nýrri tónlist, innlendri jafnt sem erlendri. Þessar viðræður Tónskáldafélagsins voru frekar hugsaðar sem hvatningarviðræður án þess að félagið skuldbitti sig til þátttöku í tónleikunum.

Þrátt fyrir baráttu Tónskáldafélagsins fyrir auknum flutning íslenskra verka í útvarpinu þá verður það að segjast að ýmislegt var þegar gert til að kynna íslenska tónlist á þeim vettvangi. Ekki heyrðist öll sú viðleitni í útvarpinu heldur voru einstöku sinnum gerð áhlaup í því að kynna íslenska tónlist í erlendum útvarpsstöðvum - atriði sem leggja þarf mun meiri áherslu á í dag. Minnast má í þessu sambandi framtak útvarpsins í byrjun 7. áratugarins að senda úrval íslenskrar tónlistar til 99 útvarpsstöðva víða um heiminn.

Einn möguleiki á samstarfi Ríksútvarpsins og Tónskáldafélagsins hvað varðar kynningu á íslenskri tónlist erlendis er svokallað Rostrum of Composers, eða Tónskáldaþing sem haldið er ár hvert í París á vegum útvarpsstöðva um heim allan. Þar kynna útvarpsstöðvar ný verk landa sinna og eru greidd atkvæði um verkin. Eitt verk er valið úr og er það flutt af öllum útvarpsstöðvunum. Auk þess velur dómnefnd 10 verk sem hún mælir með að flutt verði. Fyrsta sinni sem Ríkisútvarpið tók þátt Tónskáldaþinginu í París var árið 1975 og voru þá lögð fram verkin Langnætti eftir Jón Nordal og I Call It eftir Atla Heimi Sveinsson. Árið 1976 voru verkin Læti eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Jó eftir Leif þórarinsson fulltrúar Íslands á hátíðinni. Í fram haldi af þessari þátttöku voru verkin flutt í fjölda útvarpsstöðva víða um heim. Þessi þátttaka Ríkisútvarpinsins hefur verið árviss viðburður síðan og til gamans má geta að árið 1997 hlaut Orgelkonsert eftir Hjálmar H. Ragnarsson sæti meðal 10 stigahæstu verkanna. Áður hafði verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson lenti í 10 liða úrtaki og í ár (1998) var verk eftir Guðmund Hafsteinsson valið.

Árið 1976 kom fram vaxandi áhugi dægurlagahöfunda á að komast inn í félagið og var ósk þeirra rædd á aðalfundi það ár. Um haustið kom þessi umræða að nýju upp í stjórn félagsins og var þá fellt niður það ákvæði sem gilt hafði frá stofnun að félagar mættu ekki verða fleiri en 20 hverju sinni. Var þetta gert m.a. til að "opnað [félagið] í létta átt ". Eftirfarandi lagabreyting var rædd þessu viðvíkjandi:


Á stjórnarfundi 8. febrúar 1977 lágu fyrir umsóknir Ingibjargar Þorbergs og Sigfúsar Halldórssonar og samþykkti stjórnin að leggja þær fyrir næsta aðalfund. Umsókn Sigfúsar var samþykkt á aðalfundi árið 1978, og einnig umsókn Gunnars Þórðarsonar um inntöku, en umsókn Ingibjargar var felld með yfirgnæfandi meirihluta. Inntaka Gunnars Þórðarsonar var söguleg þar sem í fyrsta sinni var tónskáld úr hinum svokallaði "léttari " geira tekið inn í Tónskáldafélag Íslands.


Dagna 18.-24. júní 1976 voru Norrænir Músíkdagar haldnir hér á landi og var„stef " hátíðarinnar "Tónlist fyrir og með áhugamönnum ". Undirbúningur og umsjón með hátíðinn tók nánast allan tíma stjórnarinnar framan af árinu. Haldnir voru 11 tónleikar og komu til landsins um 100 erlendir gestir. 58 verk voru flutt og í þeim flutningi tóku þátt um 450 flytjendur. Fimm ný verk voru sérstaklega samin fyrir þessa hátíð en Ísland lagði alls fram 12 verk á hátíðina. Því miður er engar hljóðritanir eða sjónvarpsmyndir til frá hátíðinni þar sem tæknimenn Ríkisútvarpsins bjuggu við yfirvinnubann. Varð hátíðin fyrir talsverðu fjárhagslegu tjóni af þessum sökum.
Enn var rætt um tónlistarflutning í útvarpinu um miðjan áratuginn. Flutningur popptónlistar hafði aukist til muna á kostnað tónlistar meðlima tónskáldafélagsins. En það sem í dag vekur athygli er að á þessum tíma pantaði sjónvarpið tónverk eftir Karólínu Eiríksdóttur (í tengslum við ár tónlistarinnar 1985). Í framhaldi af því ræddu menn þá hugmynd að gerður yrði sjónvarpsþáttur um íslensk tónskáld. Fáir slíkir munu vera til í safni sjónvarpsins.

Á aðalfundi sem hadinn var 14. mars 1987 kom fram að Norrænir Músíkdagar sem haldnir voru árið 1986 hafi verið aðal viðfangsefni ársins. Þorkell Sigurbjörnsson kom fram með þá spurningu á fundi fyrir hverja Norrænir Músíkdagar væru eiginlega haldnir? Var ástæða þessarar spurningar sú að út voru sendir 600 boðsmiðar á hátíðan en eingungis 400 seldir. Fram kom einnig að norræna menningarmálanefndin hefði verið hér að störfum á sama tíma en einungis einn fulltrúi hennar hefið komið á tónleikana. Ein af skýringunum fyrir dræmri aðsókn á NMD 1986 var m.a. sú að fjáröflun gekk illa og á sama ári var haldin Listahátíð í tengslum við afmæli Reykjavíkurborgar og N.ART hátíð.

Ákveðnar breytingar voru fyri dyrum á skipulagi NMD. Fram hafði komið að árið 1988, en þá yrðu NMD haldnir í Stokkhólmi, yrði dómnefndin lögð niður en í stað hennar skipuð þriggja manna alþjóðleg nefnd til að leita að hinum "eina sanna norræna tóni".

Hin eilífa barátta við að fá tónlist meðlima Tónskáldafélagsins flutta var viðvarandi. Mikil vonbrigði voru með I.S.C.M. hátíðina, en á henni voru afarsjaldan flutt íslensk verk. Voru á þessum tíma uppi raddir þess efnis að segja sig úr samtökunum.

Rétt er að staldra hér aðeins við skýrslu formanns, Atla Heimis Sveinssonar fyrir árið 1978 en í henni segir:

Heilmikill áhugi var á því í lok 8. áratugarins að auka samstarf við þáverandi austantjaldslönd. A-þýskaland hafði verið gestur Norrænna músíkdaga í Stokkhólmi árið 1978, en á þeirri hátíð voru flutt fimm íslensk tónverk. Ekki voru þeir austan tjalds alveg ókunnir íslenskri tónlist, en íslensk tónskáld höfðu sótt hátíðina Haust í Varsjá frá byrjun 7. áratugarins. Í framahaldi af Norrænum Músíkdögum buðu Austur-Þjóðverjar upp á tónleika með íslenskum verkum. Hugmyndir voru um ákveðið samstarf og samning þar að lútandi. Pólverjar höfðu einnig áhuga á slíkum samningi við Tónskáldafélag Íslands og buðust til að halda íslenska tónleika hjá sér. Einhver samstarfsbylgja mun hafa verið í gangi á þessum tíma því Hollendingar sýndu áhuga á samstarfi við norrænar þjóðir um tónleikahald.

Upp komu efaraddir innan tónskáldafélagið um þetta samstarf við austantjaldsþjóðirnar og töldu sumir slíkt samstarf pólítískt bindandi. Tóku menn m.a. afstöðu eftir sínum pólítísku skoðunum. Jón Ásgeirsson lagði í framhaldi af þessu fram eftirfarandi tillögu: "aðalfundur T.Í. haldinn 10. febrúar 1979 leggur til, að stjórn T.Í. undirriti ekki neina bindandi samninga við einstök ríki eða samtök í líkingu við framkomna hugmynd um menningarsamskipti við A-þýskaland, sem liggur fyrir fundinum. Jón Þórarinsson hjó á þennan hnút með því að benda á að "fundurinn telur það sjálfgefið að félagsstjórn hafi ekki umboð til að undirrita milliríkjasamninga og vísar því frá tillögu Jóns Ásgeirssonar ". Var þetta samþykkt.


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998