Stofnun Íslenskrar tónverkamiðstöðvar


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Á næstu þremur vikum átti sér stað ákveðið uppgjör kynslóðanna í Tónskáldafélagi Íslands. Það óskoraða vald sem Jón Leifs hafði haft sem forystumaður og frumkvöðull í hagsmunamálum íslenskra tónskálda í nánast 20 ár samfleytt færðist í hendur annarra manna. Hver sem var hin eiginlega ástæða, verður að álykta að allur sá seinagangur, allir þeir fyrirvarar auk yfirráðasemi Jóns Leifs hafi orðið til þess að hin nýja kynslóð tónskálda, og einstakir hinna eldri, hafi verið búnir að fá nóg.

Eins og rakið var hér að framan var haldinn "stofnfundur Íslenskrar tónverkamiðstöðvar" að Hótel Sögu þann 17. janúar 1968. Hvers vegna sá stofnfundur er skráður í gerðabók Tónskáldafélags Íslands geta aðeins orðið um getgátur, og þá væntanlega í stíl við þá skoðun sem ég hef sett fram hér að ofan um stjórnsemi Jóns Leifs. Þessi fundur var ekki á vegum Tónskáldafélagsins. Um var að ræða almennan fund tónskálda sem sóttur var af tónskáldum innan sem utan Tónskáldafélagsins.

Þann 21. febrúar boðaði undirbúningsnefnd að stofnun Tónverkamiðstöðvar til fundar að Hótel Sögu kl. 20.30. Fundarstjóri var kjörinn Sigurður Þórðarson og fundarritari Þorkell Sigurbjörnsson. Á fundinn mættu eftirtalin tónskáld:

Frá stjórnarfundi í Tónskáldafélaginu þann 22. febrúar má finna eftirfarandi bókun:

Á framhaldsaðalfundi Tónskáldafélagsins 24. febrúar bar formaður, Jón Leifs, fram eftirfarandi tillögu:

Þessi tillaga Jóns Leifs var felld með tólf atkvæðum gegn þremur. Aftur á móti var samþykkt tillaga þar sem lýst var ánægju yfir því að stofnuð skuli hafa verið Íslensk tónverkamiðstöð.

Ég benti á það hér að framan að ég teldi óvíst að Jón Leifs hefði umboð tónskáldanna til allra þeirra fyrirvara sem hann setti, bæði fyrr og síðar við stofnskrár og lög um Íslenska tónverkamiðstöð þar sem lítið sem ekkert sé fjallað um það í gerðabókum Tónskáldafélagsins. Hvort sem það var með vilja eður ei, þá stefndi málið í það, m.a. af þessum sökum, að stofnuð yrði tónverkamiðstöð utan beinna afskipta Tónskáldafélagsins, en þó í samvinnu við það; sem sjálfstætt félag með þátttöku tónskálda bæði í og utan Tónskáldafélagsins. En þar sem Jón Leifs var með annan fótinn inni í nánast öllum málum tónskálda er stundum erfitt að gera sér grein fyrir á hvaða vettvangi hann starfar hverju sinni. Oft virðist þó sem framganga Jóns miði að persónulegum yfirráðum hans sjálfs.

Til samantektar um síðasta áhlaup stofnunar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar birti ég hér tillögu sem vélrituð er og heftuð inn í 2. gerðabók Tónskáldsfélagsins, dagsett 20. apríl 1968 og undirrituð af Jóni Nordal, Karli O. Runólfssyni og Sigurði Þórðarsyni. Gerir hún grein fyrir endalokum þessa máls:

Stundum hefur komið fram opinberlega og í umræðu manna á milli að um samsæri einhverra einstakra manna hafi verið að ræða við stofnun Íslenskrar tónverkamiðstöðvar. Jón Leifs hélt því fram að hann hefði aldrei verið boðaður á stofnfundinn. Að mínu mati verður ekki séð að um neitt samsæri hafi verið að ræða og bendir hin almenna þátttaka tónskáldanna í stofnun miðstöðvarinnar til þess. En þarna urðu hinsvegar ákveðin þáttaskipti í sögu íslenskrar tónlistar – kynslóðaskipti – og um leið breyttar áherslur og áhrif.


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998