Tal og tónver


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Um 1980 var stofnuð svokölluð tónfræðadeild við Tónlistarskólann í Reykjavík. Frá henni gátu nemendur útskrifast með grunnmenntun sem tónskáld eða jafnvel fræðimenn. Lokaverkefni frá deildinni gátu í senn verið tónverk eða rannsóknarritgerð. Hugmyndin með stofnun deildarinnar var m.a. sú að vekja áhuga nemenda á rannsóknum og að þjálfa nemendur við skriftir. Það verður því miður að segjast að árangur eins og er hefur að mestu orðið ein kynslóð tónskálda, aðeins örfáir hafa valið að skrifa fræðiritgerð til lokaprófs. Nemendur hafa lokið svokölluðu B.A. prófi frá tónfræðadeildinni, sem hefur verið metið til fulls sem slík af flestum erlendum háskólum.

Meðal þess sem nemendur kynntust í deildinni var raftónlist. Eins og sagði hér að framan var í upphafi notast við þá aðstöðu sem Tónmenntaskólinn í Reykjavík bauð upp á. Í fyrstu var aðeins kennd elektrónísk tónlist, þ.e. analóg tækni undir handleiðslu Hjálmars H. Ragnarssonar og síðar Snorra Sigfúsar Birgissonar. Eftir að Þorsteinn Hauksson tók við kennslu í deildinni bætti hann tölvutónlist við sem námsefni. Þar af leiðandi varð aðstaða sú sem Tónmenntaskólinn bauð upp á fljótlega ófullnægjandi.

Um miðjan 8. áratuginn skoðuðu Þorkell Sigurbjörnsson og nokkrir nemendur Tónlistarskólans verkfræðideild Háskóla Íslands. Markmiðið var að sýna nemendum hina "geysistóru" tölvu háskólans, en Þorkell hafði alla tíð verið óspar á áróður um þessa tækni. Heimsóknin endaði þó í hálfgerðu rifrildi við umsjónarmann tölvunnar – um það að tölvur og tónlist ættu einhvern tíman eftir að eiga saman – að mati umsjónarmannsins var það tóm vitleysa.

Þorsteinn Hauksson fékk ólík viðbrögð í Háskóla Íslands árið 1990 er hann hélt þar fyrirlestur um tölvutónlist. Kveikti fyrirlesturinn áhuga Sigfúsar Björnssonar prófessors, forstöðumanns Upplýsinga- og merkjafræðistofu Háskólans, á að koma á samstarfi og sameiginlegri aðstöðu vísindamanna, tónskálda og annarra aðila úr ýmsum fögum sem notuðu sér tölvur við tónlist og aðrar hljóðrannsóknir.

Eftir að Þorsteinn hafði kynnt þessa hugmynd fyrir formanni Tónskáldafélagsins, Hjálmari H. Ragnarssyni, og skólastjóra Tónlistarskólans, Jóni Nordal, var ákveðið að Þorsteinn ynni að þessari hugmynd og veitti slíku samstarfi forstöðu. Keypt voru tæki og sett upp aðstaða í Háskóla Íslands undir heitinu Tal og tónver. Þrátt fyrir að tækin hafi vakið áhuga óvandaðra einstaklinga (stundum kallaðir þjófar) þá hefur stúdíóið verið endurnýjað jafnharðan og hafa þar verið kenndar tónsmíðar og stundaðar rannsóknir, kennsla og hljóðvinnsla. Einnig hefur verið komið á samstarfi við erlendar stofnanir, IRCAM í París og Nordic Electro - Acoustics Music Organization á Norðurlöndum. Þá má nefna að í þessu stúdíói hafa til þessa farið fram ýmsar rannsóknir á vegum nemenda og kennara Háskóla Íslands og Tónlistarskólans í Reykjavík.

Auk þessa samstarfs Háskólans og Tónlistarskólans hefur Þorsteinn Hauksson unnið frekar að hugmyndum um slíkt tölvuver og samstarfsaðila um það. Hann hefur m.a. sett fram tillögur um samstarf við Tölvugrafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Tillögurnar kveða á um að þessar stofnanir sameinist um aðstöðu og tækjakaup til stofnunar margmiðlunar vers þar sem unnið yrði með mynd og hljóð, komið upp aðstöðu til mynd- og tónsköpunar og rannsókna á þessum vettvangi. Hugmyndin er að þær deildir sem fyrir eru verði áfram sjálfstæðar einingar, en nettengist margmiðlunar stúdíóinu þannig að vinna megi í þeim frá hvorum stað. Jafnframt kveða tillögurnar á um að komið verði upp sérstökum margmiðlunar sýningarsal sem verði tengdur verunum og búinn bestu fáanlegu mynd- og hljóðtækjum.

Verður nú spennandi að sjá hvort hægt verði að koma upp "alvöru" aðstöðu í nútíma tónsmíðatækni á Íslandi þar sem listgreinar, sameinaðar og hver fyrir sig, fá að þróast í takt við nútímann – tæplega 40 árum eftir að fyrstu óskir um það komu fram. Íslendingar eiga vel menntað fólk á þessum sviðum, og þó svo einhvers staðar sé veikur hlekkur hafa Íslendingar aldrei hikað við að sækja sér aðstoð erlendis á þeim sviðum þar sem menn eru veikastir fyrir. Dæmin sanna að innan ýmissa greina íslensks samfélags stöndum við jafnfætis og í einstaka tilfellum framar en aðrar þjóðir heims. Því ekki að láta reyna á það í tæknilegum listgreinum?


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998