Útgáfumál


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Á fyrstu árum 9. áratugarins beitti yngsta kynslóðin sér fyrir frekari kynningu á íslenskri tónlist, og þá á vegum Tónverkamiðstöðvarinnar. Á almennum félagsfundi 28. nóvember 1984 bar Þorkell Sigurbjörnsson upp þá tillögu að tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins veitti 300.000 króna styrk til hljómplötuútgáfu á vegum Tónverkamiðstöðvarinnar – og myndu þá fjáveitingar til nýrra tónverka lækka að sama skapi. Sitt sýndist hverjum í þessu atriði og vildu sumir meina það að það væri "princippamál" að tónskáldasjóðurinn veitti ekki fé til annars en að greiða fyrir ný verk.

Hjálmar H. Ragnarsson bar fram eftirfarandi tillögu sem var samþykkt einróma:

Í þessu tilfelli voru menn að horfa til árins 1985, sem var ár tónlistarinnar. Væntu tónskáldsins skilnings opinberra aðila af þessu tilefni og sóttu því fast þetta þjóðþrifamál íslenskrar tónsköpunar – útgáfu á hljóðritunum á íslenskum tónverkum. Fyrir hönd Tónskáldafélags Íslands fylgdu þessu máli eftir Karólína Eiríksdóttir og Hjálmar H. Ragnarsson. Gerðu þau samning við Andrés Björnsson útvarpsstjóra fyrir hönd Ríkisútvarpsins og menntamálaráðherra, Ragnhildi Helgadóttur, þess efnis að ríkisútvarpið sæi um hljóðritun á verkunum tónskáldum að kostnaðarlausu. Auk þessa stuðnings keyptu þessir aðilar 100 eintök af hverri plötu og Útvarpið dreifði þessum eintökum til erlendra útvarpsstöðva.

Þetta verkefni var skilgreint í ákveðinni vinnuáætlun um markvissa útgáfu. Áður hafði Tónverkamiðstöðin gefið út nokkrar plötur, en aldrei hafði verið gengið svo ákveðið til verks sem hér. Markmið útgáfunnar skyldi vera það að gefa út þrjár seríur af hljómplötum á þremur árum sem í skyldu vera 4 plötur í hverri.

Verkefnið hélt áætlun fyrstu tvö árin, þ.e. út komu 8 plötur. En með nýrri tækni, sem var geisladiskurinn breytti útgáfan um farveg þannig að hin upphaflega áætlun um tólf plötur gekk ekki eftir, ekki síst fyrir það að menn sáu vínilinn hverfa fyrir hinni nýju tækni - geislaplötunni. Verkinu lauk smátt og smátt með geisladiskaútgáfu. Útgáfumál Tónverkamiðstöðvarinnar á hljóðritunum á íslenskum verkum hafa farið að nokkru eftir árferði síðan.


Forsíða
Efnisyfirlit
Áfram

Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998