Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 15. maí 2010

Lúðrafélagið Harpa: 1910–2010

Gunnar Harðarson
<gunhar@hi.is>

Gunnar HarðarsonÁ þessu ári eru liðin 100 ár frá því að lúðrafélagið Harpa var stofnað í Reykjavík, nánar tiltekið á annan í hvítasunnu 1910 sem þá bar upp á 16. maí. Stofnfélagarnir voru nokkrir ungir menn sem höfðu verið að æfa kórsöng um veturinn, undir stjórn Hallgríms Þorsteinssonar. Þegar reytast tók úr hópunum undir vorið stakk einn þeirra upp á að þeir skyldu reyna sig við lúðrablástur frekar en að láta áhugamálið detta upp fyrir. Hljóðfæri fengu þeir lánuð til þriggja mánaða, en Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur, sem Helgi Helgason hafði stofnað 1876, hafði lagt hljóðfæri sín inn hjá bænum og voru þau geymd uppi á lofti í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg: „6 lúðrar, tromma, nótnastóll úr tré og töluvert af nótum“.[1] Og með það var byrjað að æfa. Aðferðirnar voru ekki ósvipaðar og hjá ýmsum bílskúrsböndum samtímans: Aðeins tveir úr hópnum kunnu eitthvað á hljóðfærin og kenndu hinum á þau.

Þegar lánstíminn var á enda voru menn farnir að geta spilað létt lög saman. Ekki tókst að komast að samkomulagi um hljóðfærin og var þeim skilað, en í staðinn voru keypt hljóðfæri frá hornaflokki í Hafnarfirði og gerður samningur þar um, dagsettur 9. ágúst 1910. Þetta voru sjö lúðrar, ein tromma og nótnastóll „ásamt nótum tilheyrandi hverjum lúðri“.[2] Kaupendurnir sem rituðu nafn sitt á samninginn voru: Stefán Guðnason, Sigurður Hjörleifsson, Óskar Guðmundsson, Sigurður Á. Gunnlaugsson, Einar Þórðarson, Hallgrímur Þorsteinsson, Þórhallur Árnason og Sveinn Guðmundsson. Var þá félagið nefnt Lúðrafélagið Harpa – sem má heita sérkennilegt nafn á lúðrasveit – en það mun reyndar hafa verið kennt við mánuðinn hörpu. Sama ár gaf Hallgrímur Þorsteinsson út Söngkennslubók handa byrjendum (Reykjavík, 1910), en hann átti síðar eftir að vera óþreytandi við að koma á laggirnar og stjórna hinum ýmsu lúðrasveitum víða um land.[3]

Lúðrasveitir eða hornaflokkar voru um þetta leyti afar vinsælt hljómsveitarform víða um hinn vestræna heim. Reykvíkingar höfðu upphaflega kynnst þeim hjá skipshljómsveitum sem komu í land og spiluðu við mikla eftirtekt bæjarbúa. Helgi Helgason tónskáld hafði einmitt stofnað fyrsta íslenska hornaflokkinn og samdi fyrir hann „Öxar við ána“ sem var frumflutt við Öxarárfoss á Þingvallafundinum 1885. Einkum voru hornaflokkarnir algengir hjá áhugamönnum, í Bretlandi til dæmis hjá kolanámumönnum og öðrum verkamönnum, en hér á landi voru það einkum iðnaðar- og verslunarmenn sem stóðu að þeim. Þeir þóttu sérstaklega vel fallnir til útitónleika, enda var þetta fyrir tíma rafmagnsins og lúðrasveitir einu hljómsveitirnar sem gátu látið vel í sér heyra. Má minna á að fyrstu jasshljómsveitirnar spruttu upp úr svipuðum jarðvegi vestanhafs. Hér á landi var reyndar lögð nokkur áhersla á að miðla klassískum tónbókmenntum með leik lúðrasveitanna, eins og sjá má af varðveittum dagskrám sumra tónleika sem haldnir voru í Reykjavík, en lúðraflokkarnir spiluðu einnig á kaffihúsum og léku fyrir dansi á böllum fram undir morgun. Tónlistarsagan tengist einnig danssögunni, sögu tísku og tíðaranda og menningarsögunni almennt.

Jón S. Jónsson
Lúðrafélagið Harpan vorið 1913
Myndin úr Skært lúðrar hljóma, bls. 75 (Smella á mynd til að stækka)
Harpan starfaði í rúman áratug eða þangað til hún var sameinuð lúðrasveitinni Gígjunni árið 1922 og stofnuð Lúðrasveit Reykjavíkur. Hún mun hafa verið vinsæl meðal Reykvíkinga, þótt ekki hafi hún verið mjög atkvæðamikil framan af. Þó lék hún á íþróttasýningu 17. júní 1911 og  24. júní við opnun Norðurárbrúar.[4] Hallgrímur Þorsteinsson hætti sem hljómsveitarstjóri 1912 en við tók Þórhallur Árnason, sem stjórnaði hljómsveitinni til 1914, en þá tók Helgi Helgason við henni. Í desember 1916 tók Reynir Gíslason við stjórninni og spilaði hljómsveitin metnaðarfullt prógram, m.a. úr klassískum tónbókmenntum, undir stjórn hans 22. apríl 1917. Aðrir frægir tónleikar undir stjórn Reynis voru haldnir í Iðnó 14. febrúar 1918 og þótti íslensk lúðrasveit aldrei hafa leikið jafn vel.[5] Reynir flutti hins vegar til Danmerkur árið eftir. En hljómsveitin lék þó við Stjórnarráðshúsið á fullveldisdaginn 1. desember 1918 þjóðsöngva bæði Dana og Íslendinga.

Úr Reykjavíkurblöðunum frá þessum árum má öðlast nokkra innsýn í starfsemina. Leikið var fyrir dansi á útihátíðum, spilað fyrir sjúklinga á Vífilstöðum, haldnir tónleikar á Austurvelli á góðviðriskvöldum, blásið á íþróttasýningum, spilað við flugeldasýningu á Þorláksmessu og á vegum Skautafélag Reykjavíkur á Tjörninni á stjörnubjörtum frostkvöldum.

Í frétt í Morgunblaðinu er til dæmis sagt frá því að lúðrafélagið Harpa hafi leikið á Austurvelli á páskadag 1914 kl. 15 „fyrir fjölda bæjarmanna“.[6] Hljómsveitin var með í för þegar tekið var á móti Lagarfossi 1917 og á frídegi verslunarmanna, 2. ágúst 1918 fer lúðrafélagið með í skemmtisiglingu á eimskipinu Skildi.[7] Frídagurinn var þá haldinn hátíðlegur í Vatnaskógi og var lagt af stað á fimm skipum um áttaleytið um morguninn, og með í för á fimmta hundrað manns. Verslunarmenn úr verslunarfélaginu Merkúr voru flestir um borð í Skildi, á þriðja hundrað manns, segir í fréttinni, og þar var einnig lúðrasveitin sem lék á stjórnpallinum en sungið var á milli atriða. Tekið var land í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, gengið þaðan yfir í Vatnaskóg og deginum varið í útivist, leiki og dans undir lúðrablæstrinum. Haldið var heimleiðis um hálf-sjöleytið og gengið yfir í Hvalfjörðinn og þaðan haldið á skipunum til Reykjavíkur. Á heimleiðinni var söngur og hljóðfærasláttur þar til komið var til hafnar um hálf-tólfleytið um kvöldið. Og greinarhöfundur klykkir út með þessum orðum: „Skemtun þessi fór hið bezta fram, prúðmannlega að öllu og blátt áfram. Varla sá þar ölvaðan mann og síst nokkurn verzlunarmanna. En þótt nokkrir menn væri hýrir í förinni, var það með stillingu og prúðmennsku og gleðskaparbragði góðra drengja, enda svo örlítið að varla bar á.“ [8]

Fleiri fréttir af tónlistarlífinu í Reykjavík má finna í blöðunum. Árið 1917 er Gígjan fastagestur á kaffihúsinu Fjallkonunni að Laugavegi 20b.[9] Í júlíbyrjun 1919 leikur Harpan fyrir framan Bernhöftsbakarí og skipta áheyrendur hundruðum.[10] En 21. ágúst er frétt um að hún muni ekki leika aftur fyrir almenning fyrr en „eftir miðja næstu viku, vegna fjarveru margra meðlima, sem eru í sumarleyfi.[11] Tónleikarnir voru ekki bundnir við sumarmánuðina. Í Morgunblaðinu 27. febrúar 1922 kemur fram að hljómsveitin muni „skemta bæjarbúum með hljómleikum á Austurvelli kl. 3 í dag, ef veður verður hagstætt“. Og 9. janúar 1921 er haldin kvöldskemmtun og hlutavelta í Bárunni þar sem bæði lúðrasveitin Harpa og Páll Bernburg og hljómsveit hans koma fram. Harpan leikur einnig í Iðnó í nóvember 1919 á íþróttamannafundi Þróttar, þar sem Bjarni frá Vogi flytur m.a. erindi um menningu Hellena og Ólympíuleikina og lúðrafélagið Harpa spilar Táp og fjör og frískir menn og fleiri lög. Fundarritari lætur þess getið að svo kalt hafi verið í húsinu „að eigi mundi dusilmennum ætlað að sækja fund þenna“.[12]

Á mynd af hljómsveitinni frá árinu 1913 eru hljómsveitarmeðlimir þeir Axel Andrésson, knattspyrnuþjálfari, Ágúst Markússon, veggfóðrarameistari, Eggert Jóhannesson, járnsmíðameistari, Einar Þórðarson, skósmíðameistari,  Elías Eiríksson, Guðmundur Kr. Guðmundsson, skrifstofustjóri, Jónas Magnússon, bókbindari, Kristján S. Sigurðsson, trésmíðameistari, Sigurður E. Hjörleifsson, múrarameistari, Stefán Guðnason, verkstjóri, Þorsteinn Thorlacius, prentsmiðjustjóri, Þórhallur Árnason, sellóleikari, og Vilhelm Stefánsson, prentari. Hljópfæraskipanin virðist þá vera 4 trompett, 4 baritónar, 1 básúna, 2 klarinett eða flautur og 2 trommur. Á mynd frá Vífilsstöðum 1917 má sjá Stefán Guðnason, Eggert Jóhannesson (trompet), Guðmund Kr. Guðmundsson (básúna), Pétur Helgason, Sigurð E. Hjörleifsson (túba), Óskar Jónsson og Vilhelm Stefánsson (trommur) en önnur hjóðfæri eru ógreinileg.[13]

Eins og fyrr segir voru hljómsveitirnar Gígjan og Harpan sameinaðar í Lúðrasveit Reykjavíkur 7. júlí 1922. Þær höfuð farið að æfa saman undir stjórn Otto Böttcher, þýsks stjórnanda frá Leipzig, sem Jón Leifs hafði haft milligöngu um að fá til Gígjunnar, og spiluðu þær í fyrsta sinn saman opinberlega undir stjórn Böttchers á 17. júní 1922. Líklega skipti þar einna mestu skortur á hentugu æfingahúsnæði. Starfsemi beggja hljómsveita var orðin nokkuð umfagsmikil og kallaði á betri aðstöðu. Æfingar fóru fram tvisvar í viku að jafnaði, en oftar ef mikið lá við. Forsvarsmenn hljómsveitarinnar höfðu þess vegna hafið undirbúning að því að byggja nýtt æfingahúsnæði, látið gera teikningar að því og fjáröflun var hafin, allt í samstarfi við bæjarstjórann í Reykjavík, Knud Ziemsen. Sigurður Hjörleifsson, múrari, félagi í Hörpu, hafði tekið að sér bygginguna sem hlaut nafnið Hljómskálinn.[14]

Í dag er Hljómskálinn enn æfingahúsnæði Lúðrasveitar Reykjavíkur og að auki kaffihús á sumrin. Tónlistarlífið er blómlegt og listahátíð í fullum gangi. Samt er ástæðulaust að gleyma sögunni og gæti verið bæði fróðlegt og skemmtilegt að gera þessum þætti tónlistarlífsins í Reykjavík fyllri skil við hentug tækifæri.


  1. Einar Þórðarson, „Lúðrafélagið Harpa. Hálfrar aldar minning“, Lesbók Morgunblaðsins, 12. júní 1960.
  2. Skært lúðrar hljóma. Saga Íslenskra lúðrasveita, Atli Magnússon sá um útgáfuna (Reykjavík: Samband Íslenskra Lúðrasveita, 1984), bls. 110.
  3. Um Hallgrím Þorsteinsson sjá Skært lúðrar hljóma, bls. 383-387.
  4. Skært lúðrar hljóma, bls. 76.
  5. Skært lúðrar hljóma, bls. 78-79.
  6. Mbl., 13. apríl 1914.
  7. Mbl., 31. júlí 1918.
  8. Fréttir, 3. ágúst 1918.
  9. Skært lúðrar hljóma, bls. 99.
  10. Vísir, 7. júlí 1919.
  11. Vísir, 21. ágúst 1919.
  12. Þróttur 1919 – Íþróttamannafundur, sótt af: http://www.melavollur.is/itrottamannafundur
  13. Skært lúðrar hljóma, bls. 75 og 77.
  14. SLH, 110, 115-116.


 © Músa